• Lykilorð:
  • Hlutdeild
  • Höfundarréttur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2008 í máli nr. S-1743/2007:

 

                                               Ákæruvaldið

                                               (Hrafnhildur M Gunnarsdóttir fulltrúi)

                                               gegn

                                               Bjarka Magnússyni

                                               (Brynjar Níelsson hrl.)

                                               Birni Sveinbjörnssyni

                                               (Brynjar Níelsson hrl.)

                                               Jóhannesi Páli Sigurðssyni

                                               (Brynjar Níelsson hrl.)

                                               Kára Bertilssyni

                                               (Tómas Jónsson hrl.)

                                               Hilmari Kára Hallbjörnssyni

                                               (Guðmundur Ágústsson hdl.)

                                               Rúnari Brynjari Einarssyni

                                               (Brynjar Níelsson hrl.)

                                               Kristjáni Gunnari Guðmundssyni

                                               (Brynjar Níelsson hrl.)

                                               Elmari Frey Elíassyni og

                                               (Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

                                               Kveldúlfi Fennri N. Árnasyni

                                               (Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 11. febrúar sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkislögreglustjóra 31. október 2007 á hendur Bjarka Magnússyni, kennitala […], Rauðarárstíg 32, Reykjavík, Birni Sveinbjörnssyni, kennitala […], Kópa­vogs­braut 99, Kópavogi, Jóhannesi Páli Sigurðssyni, kennitala […], Tungu­seli 1, Reykjavík, Kára Bertilssyni, kennitala […], Holtsgötu 5, Reykjavík, Hilmari Kára Hallbjörnssyni, kennitala […], Hábergi 40, Reykjavík, Rúnari Brynjari Einarssyni, kennitala […], Vesturbergi 74, Reykjavík, Kristjáni Gunnari Guðmundssyni, kennitala […], Hólsvegi 10, Reykjavík, Elmari Frey Elíassyni, kennitala […], Hallveigarstíg 10a, Reykjavík, Páli Helga Kristins­syni, kennitala […], Laufásvegi 3, Stykkishólmi, og Kveldúlfi Fennri N. Árnasyni, kennitala […], Hraunsvegi 25, Reykjanesbæ (Njarðvík).

            Í þinghaldi 11. febrúar sl. var þáttur meðákærðs Páls Helga Kristinssonar klofinn frá máli þessu og gefið númerið S-297/2008.

 

                                                                     I.

 

1.   Á hendur ákærða Bjarka fyrir brot á höfundalögum, með því að hafa, á árunum 2003 og 2004, að heimili sínu Rauðarárstíg 32, 105 Reykjavík, gert ólögmæt eintök af höfundaréttarvernduðu efni sem hann vistaði í nettengdum tölvum sínum, og birt hópi fólks á veraldarvefnum, án heimildar frá rétthöfum. Efnið birti ákærði meðlimum Direct Connect jafningjanets, með tengingu við miðlægan nettengipunkt (e. hub) sem gekk m.a. undir nafninu „Ásgarður“. Ákærði var meðlimur í jafningjanetinu með notendanafnið „LOKIq“. Efnið birti ákærði með því að nýta eiginleika DC++ skráarskiptaforrits, til að skilgreina svæði á hörðum diskum tölva sinna, sem innihéldu skrár með höfundaréttarvörðu efni, og veita þannig öðrum meðlimum jafningjanetsins, sem voru allt að 132, aðgang að efninu og gerði þeim kleift að sækja sér efni að vild.

 

Í tölvum ákærða, sem lögregla lagði hald á þann 29. september 2004, voru 7.803 höfundaréttarvarin verk vistuð á svæðum sem skilgreind voru til birtingar innan    DC++ skráarskiptiforrita (oDC v5.21 og DC++ v0.263) sem tengd voru „Ásgarði“ og sundurliðast þau eftir tegund og fjölda sem hér greinir:

 

              Tegund                                                     Fjöldi/stk.

              Forrit, erlend                                                    5

              Forrit, íslensk                                                   4

              Kvikmyndir, erlendar                                      24

              Sjónvarpsþættir, erlendir                              154

              Sjónvarpsþættir, íslenskir                               28

              Tónlist, erlend                                           6.175

              Tónlist, íslensk                                          1.350

              Tónlistarmyndbönd                                           3

              Samtals                                                     7.803

 

2.         Á hendur ákærða Birni fyrir brot á höfundalögum, með því að hafa, á árunum 2003 og 2004, að starfsstöð sinni Skipa- og vélaeftirlitinu ehf., Smiðshöfða 13, 110 Reykjavík, gert ólögmæt eintök af höfundaréttarvernduðu efni sem hann vistaði í nettengdri tölvu sinni, og birt hópi fólks á veraldarvefnum, án heimildar frá rétthöfum. Efnið birti ákærði meðlimum Direct Connect jafningjanets, með tengingu við miðlægan nettengipunkt (e. hub) sem gekk m.a. undir nafninu „Ásgarður“. Ákærði var meðlimur í jafningjanetinu með notendanöfnin „Zisko“, „Border” og „BO55”. Efnið birti ákærði með því að nýta eiginleika DC++ skráarskiptaforrits, til að skil­greina svæði á hörðum diskum tölvu sinnar, sem innihéldu skrár með höfunda­réttar­vörðu efni, og veita þannig öðrum meðlimum jafningjanetsins, sem voru allt að 132, aðgang að efninu og gerði þeim kleift að sækja sér efni að vild.

 

Í tölvu ákærða, sem lögregla lagði hald á þann 28. september 2004, voru 576 höfundaréttarvarin verk vistuð í möppukerfi sambærilegu því sem var til birtingar hjá ákærða á „Ásgarði“ við skoðun lögreglu á jafningjanetinu þann  24. ágúst 2004 en fyrir húsleit lögreglu hafði ákærði eytt út notendaviðmóti DC++ skráarskiptaforritanna. Verkin sundurliðast eftir tegund og fjölda sem hér greinir:

 

              Tegund                                                     Fjöldi/stk.

              Forrit, erlend                                                  38

              Forrit, íslensk                                                   6

              Kvikmyndir, erlendar                                    113

              Kvikmyndir, íslenskar                                       2

              Sjónvarpsþættir, erlendir                              294

              Sjónvarpsþættir, íslenskir                               27

              Teiknimyndir                                                  96     

              Samtals                                                        576

 

3.         Á hendur ákærða Jóhannesi Páli fyrir brot á höfundalögum, með því að hafa, á árunum 2003 og 2004, að heimili sínu Brattholti 17, 270 Mosfellsbæ, gert ólögmæt eintök af höfundaréttarvernduðu efni sem hann vistaði í nettengdri tölvu sinni, og birt hópi fólks á veraldarvefnum, án heimildar frá rétthöfum. Efnið birti ákærði meðlimum Direct Connect jafningjanets, með tengingu við miðlægan nettengi­punkt (e. hub) sem gekk m.a. undir nafninu „Ásgarður“. Ákærði var meðlimur í jafn­ingjanetinu með notendanafnið „X-Rated“. Efnið birti ákærði með því að nýta eigin­leika DC++ skráarskiptaforrits, til að skilgreina svæði á hörðum diskum tölvu sinnar, sem innihéldu skrár með höfundaréttarvörðu efni, og veitti þannig öðrum meðlimum jafningjanetsins, sem voru allt að 132, aðgang að efninu og gerði þeim kleift að sækja sér efni að vild.

 

Í tölvu ákærða, sem lögregla lagði hald á þann 28. september 2004, voru 20.703 höfundaréttarvarin verk vistuð á svæðum sem skilgreind voru til birtingar innan DC ++ skráarskiptaforrits (oDC 5.31) sem tengt var „Ásgarði“ og sundurliðast þau eftir tegund og fjölda sem hér greinir:

 

              Tegund                                                     Fjöldi/stk.

              Sjónvarpsþættir, erlendir                                38

              Sjónvarpsþættir, íslenskir                                 1

              Tónlist, erlend                                         17.131

              Tónlist, íslensk                                          3.533     

              Samtals                                                   20.703

 

4.                        Á hendur ákærða Kára fyrir brot á höfundalögum, með því að hafa, á árunum 2003 og 2004, að heimili sínu Holtsgötu 5, 101 Reykjavík, gert ólögmæt ein­tök af höfundaréttarvernduðu efni sem hann vistaði í nettengdum tölvum sínum, og birt hópi fólks á veraldarvefnum, án heimildar frá rétthöfum. Efnið birti ákærði meðlimum Direct Connect jafningjanets, með tengingu við miðlægan nettengipunkt (e. hub) sem gekk m.a. undir nafninu „Ásgarður“. Ákærði var meðlimur í jafningja­netinu með notendanafnið „kb“. Efnið birti ákærði með því að nýta eiginleika DC++ skráarskiptaforrits, til að skilgreina svæði á hörðum diskum tölva sinna, sem innihéldu skrár með höfundaréttarvörðu efni, og veitti þannig öðrum meðlimum jafningja­netsins, sem voru allt að 132, aðgang að efninu og gerði þeim kleift að sækja sér efni að vild.

 

Í tölvum ákærða, sem lögregla lagði hald á þann 28. september 2004, voru 11.207 höfundaréttarvarin verk vistuð á svæðum sem skilgreind voru til birtingar innan DC ++ skráarskiptaforrits (DCGUI-QT 0.3.2) sem tengt var „Ásgarði“ og sundurliðast þau eftir tegund og fjölda sem hér greinir:

 

              Tegund                                                     Fjöldi/stk.

              Forrit, erlend                                                    5

              Kvikmyndir, erlendar                                 1.188

              Kvikmyndir, íslenskar                                       3

              Sjónvarpsþættir, erlendir                           1.535

              Sjónvarpsþættir, íslenskir                               14

              Teiknimyndir                                                  84

              Teiknimyndir (anime)                                   494

              Tónlistarmyndbönd                                       363

              Tónlist, erlend                                           7.216

              Tónlist, íslensk                                             305

              Samtals                                                   11.207

 

5.         Á hendur ákærða Hilmari Kára fyrir brot á höfundalögum, með því að hafa, á árunum 2003 og 2004, að heimili sínu Reynimel 84, 107 Reykjavík, gert ólögmæt eintök af höfundaréttarvernduðu efni sem hann vistaði í nettengdum tölvum sínum, og birt hópi fólks á veraldarvefnum, án heimildar frá rétthöfum. Efnið birti ákærði meðlimum Direct Connect jafningjanets, með tengingu við miðlægan nettengipunkt (e. hub) sem gekk m.a. undir nafninu „Ásgarður“.  Ákærði var meðlimur í jafningja­netinu með notendanafnið „Zormi“. Efnið birti ákærði með því að nýta eiginleika DC++ skráarskiptaforrits, til að skilgreina svæði á hörðum diskum tölva sinna, sem innihéldu skrár með höfundaréttarvörðu efni, og veitti þannig öðrum meðlimum jafningjanetsins, sem voru allt að 132, aðgang að efninu og gerði þeim kleift að sækja sér efni að vild.

 

Í tölvum ákærða, sem lögregla lagði hald á þann 28. september 2004, voru 10.523 höfundaréttarvarin verk vistuð á svæðum sem skilgreind voru til birtingar innan DC++ skráarskiptaforrits (DC++ v0.306) sem tengt var „Ásgarði“ og sundurliðast þau eftir tegund og fjölda sem hér greinir:

 

              Tegund                                                     Fjöldi/stk.

              Forrit, erlend                                                  26

              Forrit, íslensk                                                   3

              Kvikmyndir, erlendar                                 1.092

              Kvikmyndir, íslenskar                                       7

              Sjónvarpsþættir, erlendir                           3.087

              Sjónvarpsþættir, íslenskir                               37

              Tónlist, erlend                                           4.100

              Tónlist, íslensk                                          2.171

              Samtals                                                   10.523

 

6.         Á hendur ákærða Rúnari Brynjari fyrir brot á höfundalögum, með því að hafa, á árunum 2003 og 2004, að heimili sínu Vesturbergi 74, 111 Reykjavík, gert ólögmæt eintök af höfundaréttarvernduðu efni sem hann vistaði í nettengdum tölvum sínum, og birt hópi fólks á veraldarvefnum, án heimildar frá rétthöfum.  Efnið birti ákærði meðlimum Direct Connect jafningjanets, með tengingu við miðlægan nettengi­punkt (e. hub) sem gekk m.a. undir nafninu „Ásgarður“. Ákærði var meðlimur í jafn­ingja­netinu með notendanafnið „Appz“. Efnið birti ákærði með því að nýta eiginleika DC++ skráarskiptaforrits, til að skilgreina svæði á hörðum diskum tölva sinna, sem inni­héldu skrár með höfundaréttarvörðu efni, og veitti þannig öðrum meðlimum jafningjanetsins, sem voru allt að 132, aðgang að efninu og gerði þeim kleift að sækja sér efni að vild.

 

Í tölvum ákærða, sem lögregla lagði hald á þann 28. september 2004, voru 28.480 höfundaréttarvarin verk vistuð á svæðum sem skilgreind voru til birtingar innan DC++ skráarskiptaforrits (oDC v5.31) sem tengt var „Ásgarði“ og sundurliðast þau eftir tegund og fjölda sem hér greinir:

 

              Tegund                                                     Fjöldi/stk.

              Forrit, erlend                                                  60

              Kvikmyndir, erlendar                                    982

              Kvikmyndir, íslenskar                                     11

              Sjónvarpsþættir, erlendir                           1.012

              Sjónvarpsþættir, íslenskir                               15

              Teiknimyndir                                                  61

              Tónlistarmyndbönd                                           5

              Tónlist, erlend                                         20.879

              Tónlist, íslensk                                          5.455

              Samtals                                                   28.480

 

 

7.         Á hendur ákærða Kristjáni Gunnari fyrir brot á höfundalögum, með því að hafa, á árunum 2003 og 2004, að heimili sínu Hólsvegi 10, 104 Reykjavík, gert ólögmæt eintök af höfundaréttarvernduðu efni sem hann vistaði í nettengdri tölvu sinni, og birt hópi fólks á veraldarvefnum, án heimildar frá rétthöfum. Efnið birti ákærði meðlimum Direct Connect jafningjanets, með tengingu við miðlægan nettengi­punkt (e. hub) sem gekk m.a. undir nafninu „Ásgarður“. Ákærði var meðlimur í jafningjanetinu með notendanafnið „Patriot X“. Efnið birti ákærði með því að nýta eiginleika DC++ skráarskiptaforrits, til að skilgreina svæði á hörðum diskum tölvu sinnar, sem innihéldu skrár með höfundaréttarvörðu efni, og veitti þannig öðrum með­limum jafningjanetsins, sem voru allt að 132, aðgang að efninu og gerði þeim kleift að sækja sér efni að vild.

 

Í tölvu ákærða, sem lögregla lagði hald á þann 28. september 2004, voru 9.626 höfunda­réttarvarin verk vistuð á svæðum sem skilgreind voru til birtingar innan DC++ skráarskiptisforrits (oDCv5.31) sem tengt var „Ásgarði“ og sundurliðast þau eftir tegund og fjölda sem hér greinir:

 

              Tegund                                                     Fjöldi/stk.

              Forrit                                                                8

              Kvikmyndir, erlendar                                 1.547

              Kvikmyndir, íslenskar                                     10

              Sjónvarpsþættir, erlendir                           1.532

              Sjónvarpsþættir, íslenskir                                 4

              Teiknimyndir                                                262

              Teiknimyndir (anime)                                       9

              Tónlistarmyndbönd                                           2

              Tónlist, erlend                                           5.823

              Tónlist, íslensk                                             429

              Samtals                                                     9.626

 

 

8.         Á hendur ákærða Elmari Frey fyrir brot á höfundalögum, með því að hafa, á árinu 2003 og 2004, að heimili sínu Hallveigarstíg 10a, 101 Reykjavík, gert ólögmæt eintök af höfundaréttarvernduðu efni sem hann vistaði í nettengdum tölvum sínum, og birt hópi fólks á veraldarvefnum, án heimildar frá rétthöfum. Efnið birti ákærði meðlimum Direct Connect jafningjanets, með tengingu við miðlægan nettengipunkt (e. hub) sem gekk m.a. undir nafninu „Ásgarður“. Ákærði var meðlimur í jafn­ingjanetinu með notendanafnið „Pimps“. Efnið birti ákærði með því að nýta eiginleika DC++ skráarskiptaforrits, til að skilgreina svæði á hörðum diskum tölva sinna, sem innihéldu skrár með höfundaréttarvörðu efni, og veitti þannig öðrum meðlimum jafningjanetsins, sem voru allt að 132, aðgang að efninu og gerði þeim kleift að sækja sér efni að vild.

 

Í tölvum ákærða, sem lögregla lagði hald á þann 28. september 2004, voru 13.922 höfundaréttarvarin verk vistuð á svæðum sem skilgreind voru til birtingar innan DC++ skráarskiptisforrits (oDC v5.31) sem tengt var „Ásgarði“ og sundurliðast þau eftir tegund og fjölda sem hér greinir:

 

              Tegund                                                     Fjöldi/stk.

              Forrit                                                              35

              Kvikmyndir, erlendar                                    390

              Kvikmyndir, íslenskar                                       2

              Sjónvarpsþættir, erlendir                              995

              Sjónvarpsþættir, íslenskir                                 8

              Teiknimyndir                                                  20

              Tónlistarmyndbönd                                           6

              Tónlist, erlend                                         11.813

              Tónlist, íslensk                                             653

              Samtals                                                   13.922

 

 

 [...]

 

 

10.       Á hendur ákærða Kveldúlfi Fennri fyrir brot á höfundalögum, með því að hafa, á árunum 2003 og 2004, að heimili sínu Sólvallagötu 40, 230 Reykjanesbæ, gert ólögmæt eintök af höfundaréttarvernduðu efni sem hann vistaði í nettengdum tölvum sínum og tölvu meðleigjanda síns Sverris Rúts Sverrissonar, og birt hópi fólks á veraldarvefnum, án heimildar frá rétthöfum. Efnið birti ákærði meðlimum Direct Connect jafningjanets, með tengingu við miðlægan nettengipunkt (e. hub) sem gekk m.a. undir nafninu „Ásgarður“. Ákærði var meðlimur í jafningjanetinu með notenda­nafnið „Kvasir“. Efnið birti ákærði með því að nýta eiginleika DC++ skráarskipta­forrits, til að skilgreina svæði á hörðum diskum tölva sinna og á tölvu meðleigjanda síns, sem innihéldu skrár með höfundaréttarvörðu efni, og veitti þannig öðrum meðlimum jafningjanetsins, sem voru allt að 132, aðgang að efninu og gerði þeim kleift að sækja sér efni að vild.

 

Í tölvum ákærða og meðleigjanda hans, sem lögregla lagði hald á þann 28. september 2004, voru 27.590 höfundaréttarvarin verk vistuð á svæðum sem skilgreind voru til birtingar innan DC++ skráarskiptaforrita (DC++ v.0.306 og oDC v5.31) sem tengd voru „Ásgarði“ og sundurliðast þau eftir tegund og fjölda sem hér greinir:

 

              Tegund                                                     Fjöldi/stk.

              Forrit, erlend                                                    5

              Kvikmyndir, erlendar                                      82

              Sjónvarpsþættir, erlendir                              535

              Sjónvarpsþættir, íslenskir                               18

              Teiknimyndir                                                    1

              Tónlistarmyndbönd                                       395

              Tónlist, erlend                                         25.139

              Tónlist, íslensk                                          1.415

              Samtals                                                   27.590

 

Heimfærsla til refsiákvæða.

 

a. Brot ákærðu gegn rétti höfundar:

Eru talin varða við 3. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 2. gr. laga nr. 57/1992, sbr. 1. tl. 2. mgr. 54. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 5. gr. laga nr. 78/1984 og 162. gr. laga nr. 82/1998, sbr. og 61. gr. a. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 18. gr. laga nr. 57/1992, sbr.lög nr. 74/1947 og auglýsingu nr. 110/1947 um inngöngu Íslands í Bernar­sam­bandið, sbr. og lög nr. 80/1972 um heimild ríkisstjórninni til handa til að staðfesta Bernar­sáttmálann til verndar bókmenntum og listverkum í þeirri gerð hans, sem samþykkt var á ráðstefnu Bernarsambandsríkja í París 24. júlí 1971, og auglýsingu nr. 763/1999 um afhendingu aðildarskjals Íslands vegna 1. til 21. gr. Bernarsáttmálans til verndar bókmenntum og listum og um aðildarríki að sáttmálanum.

 

b. Brot ákærðu gegn rétti listflytjenda:

Eru talin varða við 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr., 7. gr. laga nr. 145/1996, sbr. 4. tl. 2. mgr. 54. gr. höfundalaga nr. 73/1972,  sbr. 5. gr. laga nr. 78/1984, sbr. 162. gr. laga nr. 82/1998 og 11. gr. laga nr. 60/2000, sbr. og 61. gr. a höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 18. gr. laga nr. 57/1992, sbr. auglýsingu nr. 2/1994 um alþjóðasamning um vernd listflytjenda, framleiðenda hljóðrita og útvarpsstofnana.

 

c. Brot ákærðu gegn rétti myndrita- og hljómplötuframleiðenda.

Eru talin varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 46. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 5. tl. 2. mgr. 54. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 5. gr. laga nr. 78/1984 og 162. gr. laga nr. 82/1998, sbr. 11. gr. laga nr. 60/2000, sbr. 14. gr. laga nr. 9/2006, sbr. og 61. gr. a höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 18. gr. laga nr. 57/1992, sbr. auglýsingu nr. 2/1994 um alþjóðasamning um vernd listflytjenda, framleiðenda hljóðrita og útvarpsstofnana.

 

 

                                                                     II.

1.         Á hendur ákærða Bjarka  fyrir hlutdeild í brotum meðákærðu á höfunda­lögum skv. 2.-10. tl. I. hluta ákæru, með því að hafa á árunum 2003 og 2004, að heimili sínu Rauðarárstíg 32, 105 Reykjavík, í nettengdri Targa turntölvu, viðhaldið Direct Connect jafningjaneti með því að setja upp og hýsa miðlægan nettengipunkt (e. hub) af gerðinni PtokaX-0.326, TestDrive4, sem gekk m.a. undir nafninu „Ásgarður” og hafði veffangið (e. hub address) mama.bounceme.net, og hafa með þessu liðsinnt í verki og hvatt til þess að meðákærðu birtu á veraldarvefnum ólögmæt eintök af höfundaréttarvörðu efni, án heimildar frá rétthöfum. Nettengipunktinum var haldið uppi í þeim tilgangi að skiptast á höfundarréttarvörðu efni og án hans var meðákærðu ekki unnt að birta höfundaréttavarða efnið með þeim hætti sem þeir gerðu og lýst er í I. hluta ákæru.

 

Heimfærsla til refsiákvæða.

a. Brot ákærða gegn rétti höfundar:

Eru talin varða við 3. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 2. gr. laga nr. 57/1992, sbr. 1. tl. 2. mgr. 54. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 5. gr. laga nr. 78/1984 og 162. gr. laga nr. 82/1998, sbr. og 61. gr. a. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 18. gr. laga nr. 57/1992, sbr. lög nr. 74/1947 og auglýsingu nr. 110/1947 um inngöngu Íslands í Bernar­sam­bandið, sbr. og lög nr. 80/1972 um heimild ríkisstjórninni til handa til að staðfesta Bernar­sáttmálann til verndar bókmenntum og listverkum í þeirri gerð hans, sem sam­þykkt var á ráðstefnu Bernarsambandsríkja í París 24. júlí 1971, og auglýsingu nr. 763/1999 um afhendingu aðildarskjals Íslands vegna 1. til 21. gr. Bernarsáttmálans til verndar bókmenntum og listum og um aðildarríki að sáttmálanum,

allt sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

b. Brot ákærða gegn rétti listflytjenda:

Eru talin varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr., 7. gr. laga nr. 145/1996, sbr. 4. tl. 2. mgr. 54. gr. höfundalaga nr. 73/1972,  sbr. 5. gr. laga nr. 78/1984, sbr. 162. gr. laga nr. 82/1998 og 11. gr. laga nr. 60/2000, sbr. og 61. gr. a höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 18. gr. laga nr. 57/1992, sbr. auglýsingu nr. 2/1994 um alþjóðasamning um vernd listflytjenda, framleiðenda hljóðrita og útvarpsstofnana,

allt sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

c. Brot ákærða gegn rétti myndrita- og hljómplötuframleiðenda.

Eru talin varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 46. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 5. tl. 2. mgr. 54. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 5. gr. laga nr. 78/1984 og 162. gr. laga nr. 82/1998, sbr. 11. gr. laga nr. 60/2000, sbr. 14. gr. laga nr. 9/2006, sbr. og 61. gr. a höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 18. gr. laga nr. 57/1992, sbr. auglýsingu nr. 2/1994 um alþjóðasamning um vernd listflytjenda, framleiðenda hljóðrita og útvarpsstofnana,

allt sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Dómkröfur:

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.

Þess er krafist að eftirtalinn tölvubúnaður í eigu ákærðu, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerður upptækur samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 55. gr. höfundalaga nr. 73/1972.

                                              

i)      Bjarki Magnússon sæti upptöku eftirtalins tölvubúnaðar, sbr. hald­lagningar­skýrslur frá 28. og 29. september 2004, sbr. skjöl í rannsóknargögnum lögreglu nr.  III/2.2.3 og III/ 2.2.6, auk tengisnúra og kapla.

C-354 Tölvumús, Logitech

C-355 Lyklaborð, BTC

C-359 Tölvuskjár, Philips

C-402 Tölvumús, Microsoft

C-403 Lyklaborð, Microsoft

C-404 Tölvuskjár, Sampo

CA- 1 Targa turntölva sn. 11005105852

CA- 2 Aopen háturntölva sn. 93721620JK

 

ii)    Björn Sveinbjörnsson sæti upptöku eftirtalins tölvubúnaðar, sbr. haldlagn­ingar­skýrslu 28. september 2004, sbr. skjal í rannsóknargögnum lögreglu nr. III/2.3.3, auk tengisnúra og kapla.

A-1 Fartölvuharðdiskur í USB hýsingu

A-2 Maxtor 80 GB harður diskur

A-3 3 harðir diskar í harðdiskagrind úr tölvu

A-4 Western Digital 250 GB harður diskur

A-5 Fujitsu harður diskur

A-8 Turntölva grá, Thermaltake m. 2 harðdiskum

A-9 Dell M-992 Skjár, svartur að lit

A-10 Mitsumi lyklaborð, hvítt

A11 Microsoft Intellimouse, mús

 

iii)  Jóhannes Páll Sigurðsson sæti upptöku eftirtalins tölvubúnaðar, sbr. haldlagn­ingarskýrslu 28. september 2004, sbr. skjal í rannsóknargögnum lögreglu nr. III/2.7.3, auk tengisnúra og kapla.

B-1 Tölva,Venus

B-2 Tölvuskjár 19” - Samsung

B-3 Lyklaborð – HP

B-4 Tölvumús – Logiteck

B-5 Modem Grotec speed

 

iv)   Kári Bertilsson sæti upptöku eftirtalins tölvubúnaðar, sbr. haldlagningarskýrslu 28. september 2004, sbr. skjal í rannsóknargögnum lögreglu nr. III/2.9.3, auk tengisnúra og kapla.

F-1 Turntölva, silfurlituð ekkert tegundarheiti

F-2 Lyklaborð, Keytronic, hvítt að lit

F-3 Flatur skjár, svartur að lit, View Sonic

F-4 Tölvumús, svört Logitech

F-6 Tengibox fyrir loftlínu frá Línu Net, Breezecom

F-7 Switch (deilir) ásamt straumbreyti, Planet 10/100 Mbps

F-8 SDSL mótald ásamt straumbreyti, ZySEL Prestige 700

F-9 Turn netþjónn úr áli, ekkert tegundarheiti

 

v)     Hilmar Kári Hallbjörnsson sæti upptöku eftirtalins tölvubúnaðar, sbr. hald­lagningarskýrslu 28. september 2004, sbr. skjal í rannsóknargögnum lögreglu nr. III/2.6.4, auk tengisnúra og kapla.

G-1 Netþjónn, PC tölva, hvítur háturn.

G-2 Netþjónn, Fujitsu

G-3 Skjár, óþekkt tegund

G-4 USB 3,5 harðdisks hýsill HD 6391116850

G5 USB 3,5 harðdisks hýsill HD 6371108917

G-6 USB 2,0 harðdisks hýsill

G-7 Bytecc USB harðdisks hýsill D33169

G-15 Netgear dual speed hub

G-16 Thomson Speed touch 545

G-17 Lyklaborð við netþjón G2, Fujitsu

G-18 Mús við netþjón G2, Compaq

G-19 Mús við netþjón G1 , Logitech

 

vi)   Rúnar Brynjar Einarsson sæti upptöku eftirtalins tölvubúnaðar, sbr. haldlagn­ingarskýrslu 28. september 2004, sbr. skjal í rannsóknargögnum lögreglu nr. III/2.12.3, auk tengisnúra og kapla.

H-1 Chieftec turntölva, svört

H-1/1 Sony Multiscan E400 skjár

H-1/2 Ergoforce lyklaborð

H-1/3 Logitec mús

H-1/4 Færanlegur harður diskur (merktur feita tussan)

H-1/5 Planet ADSL Firewire router

H-1/6 Fjöltengi fyrir skjá, lyklaborð og mús

H-2 Nafnlaus turntölva, hvít

H-3 A-Open turntölva, hvít

H-5 Planet GSD-501 100/1000 ethernet switch + rafsnúra

H-6 Planet SW-801 10/100 ethernet switch

H-9 Kapall fyrir nettengingu (cat 5)

H-10 100 Gb Winchester Caviar HD í USB tengi

H-14 Seagate HD 4,3 Gb (5BF1A3ZW)

H-15 WD HD 80 Gb (WMA8E6392890)

H-16 IBM HD scsi 4,5 Gb (QDJR1508)

H-17 Fujitsu HD 4,3 Gb (07037650)

 

vii) Kristján Gunnar Guðmundsson sæti upptöku eftirtalins tölvubúnaðar, sbr. hald­lagningarskýrslu 28. september 2004, sbr. skjal í rannsóknargögnum lögreglu nr. III/2.10.3, auk tengisnúra og kapla.

I-40 Tölva, turnkassi, Neon light/Global Win/Thermaltake

I-40c Mús, ásamt snúru

I-40d USB snúra

I-40e Millistykki fyrir skjá

I-40h Lyklaborð, IBM

I-41 DVD skrifari

I-101 Skjár, Sampo AlphaScan 800

 

viii)    Elmar Freyr Elíasson sæti upptöku eftirtalins tölvubúnaðar, sbr. haldlagn­ingarskýrslu 28. september 2004, sbr skjal í rannsóknargögnum lögreglu nr. III/2.5.3, auk tengisnúra og kapla.

J-1 Tölvuturn, Thermaltake

J-2 USB box

J-4 Tölvuturn, Venus

J-6 Lyklaborð, Logitec

J-7 Mús, Logitec

J-8 Tölvuskjár, Sony Multiscan E400

J-9 Modem, Planet

J-10 Transmitter box

J-14 ADSL splitter

 

ix)   Páll Helgi Kristinsson sæti upptöku eftirtalins tölvubúnaðar, sbr. haldlagn­ingar­skýrslu 29. september 2004, sbr skjal í rannsóknargögnum lögreglu nr. III/ 2.2.6, auk tengisnúra og kapla.

CA-4 Turntölva án nafns eða sn.

 

x)     Kveldúlfur Fennrir N. Árnason sæti upptöku eftirtalins tölvubúnaðar, sbr. haldlagningaskýrslu 28. september 2004, sbr skjal í rannsóknargögnum lögreglu nr. III/2.11.3, auk tengisnúra og kapla

M-1 Turntölva, Thermaltake X

M-2 Lyklaborð, Logitech

M-3 USB tölvumús, Microsoft

M-4 Samsung 19 tommu skjár

M-6 Skjátengi- VGA við M-4

M-32 Turntölva A-Open

M-33 Mitsumi lyklaborð

M-34 USB Logitech tölvumús

M-38 Straumsnúra í tölvu M-32

M-39 Hewlett Packard tölvuskjár

M-44 Cat 5 svartur tengill sem tengist Switch-M45 og M-41

M-45 Planet GSD-801 Switch-8 korta

M-49 Straumbreytir tengdur M-45

 

Verjendur ákærðu krefjast þess allir að ákærðu verði sýknaðir af kröfum ákæruvalds og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði felldur á ríkissjóð.

 

            I. kafli ákæru

            Með bréfi 2. febrúar 2004 lögðu Samtök myndefnisútgefenda á Íslandi, Framleiðendafélagið-SÍK, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar og Samband hljómplötuframleiðenda fram kæru á hendur ákærðu vegna stórfelldra brota á höfundalögum, nr. 73/1972. Fram kemur að Samtök myndefnisútgefenda, nefnd SMÁÍS, séu samtök myndefnisútgefenda og hafi félagsmenn þess einkarétt til dreifingar á yfirgnæfandi hluta þess efnis á þeim kvikmynda-, sjónvarps- og tölvuleikjum sem séu á íslenskum markaði. Jafnframt sé SMÁÍS samstarfsaðili að Motion Picture Association sem séu alheimssamtök rétthafa kvikmynda en aðild að þeim eigi stærstu kvikmyndafyrirtækin í heiminum. Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, nefnd STEF, séu samtök tónskálda, textahöfunda og eigenda flutningsréttar sem annist innheimtu vegna opinbers tónflutnings. STEF sé einnig aðili að Nordisk Copyright Bureau sem séu samtök tónskálda, textahöfunda og eigenda flutningsréttar á Norðurlöndum og innheimti gjöld vegna eintakagerðar og dreifingar á tónverkum. Nordisk Copyright Bureau og STEF hafi gert gagnkvæma samninga við erlend systursamtök sín þar sem samtökin gæti hagsmuna vegna nær allra tónverka sem verndar njóti samkvæmt höfundalögum. Samtök hljómplötuframleiðenda, nefnd SHF, séu heildarsamtök íslenskra hljómplötuframleiðenda og eigi aðild að aðþjóðasamtökum hljómplötuframleiðenda International Federation of the Phonographic Industri. Félagsmenn samtakanna dreifi nánast öllu því tónlistarefni sem út komi á Íslandi. Framleiðendafélagið-SÍK séu heildarsamtök meginþorra framleiðenda íslensks sjónvarps- og kvikmyndaefnis. Staðfesti kærendur að verk þau sem umbjóðendur kærenda eigi höfundarétt að séu birt og fjölfölduð í algjöru heimildarleysi af hálfu kærðu. 

            Í kærunni er rakið að í septembermánuði 2003 hafi tiltekinn einstaklingur haft samband við rétthafasamtök tónlistarmanna. Hafi einstaklingurinn upplýst um að hann hefði vissu fyrir því að mjög mikið magn af tónlist og kvikmyndum væri að finna á tilteknu íslensku skráarskiptikerfi, Direct Connect á Íslandi, sem hafi heimasíðuna www.dci.is. Með skráarskiptikerfi sé átt við að net af tölvum Internetnotenda sem allir hafi hlaðið niður sérstöku forriti, í þessu tilfelli DC++, eða direct connect; open direct connect o.fl., á tölvur sínar sem geri þeim kleift að skiptast á skrám sem séu til dæmis kvikmyndir og/eða tónlist. Notendur sæki skrár með því að senda leitarbeiðnir til svonefnds ,,höbbs“, sem á ensku sé hub en á íslensku tengipunktur. Með því að senda leitarstreng á tengipunktinn sé átt við að venjulegar notendatölvur sem hafi mikla gagnaflutningsgetu og vinnsluminni og tengdar þessu tiltekna kerfi og verði einskonar skráarþjónar í kerfinu. Virkni tengipunkta megi nánar lýsa þannig að með því að tengjast þeim, með sérstökum DC++ samhæfðum forritum, geti Internetnotandi séð hvaða skrár aðrir Internetnotendur tengdir DC kerfi geymi í sínum tölvum. Forritið geri Internetnotendum kleift að sækja skrárnar beint til þeirra Internetnotenda sem hafi þær í sínum tölvum. Aðgangur að tengipunkti innan dci.is sé veittur að því skilyrði uppfylltu að viðkomandi geti skipst á eða útdeild sjálfur til annarra aðila ákveðnu magni af kvikmyndum, tónlist, sjónvarpsefni, tölvuleikjum eða hugbúnaði. Með öðrum orðum þurfi sá sem vilji fá aðgang að tengipunkti að hafa tiltekið magn þessa efnis í sinni tölvu.

            Samtök rétthafa hafi fengið einstakling sem hafi haft samband við þá til að afla frekari upplýsinga um það skráarskiptikerfi sem tengt hafi verið við Direct Connect á Íslandi, eða dci.is. Jafnframt hafi samtök rétthafa byrjað samstarf um könnun málsins. Tekið sé fram að sá einstaklingur er um ræði hafi haft heimild kærenda til að taka þátt í starfsemi hinna kærðu til að gerast virkur notandi innan Direct Connect á Íslandi í þeim tilgangi eingöngu að afla gagna um meinta brotastarfsemi hinna kærðu. Þessi einstaklingur sem unnið hafi að málinu hafi einkum fundið þrjá tengipunkta sem staðsettir hafi verið á Íslandi. Hafi tengipunktarnir gengið undir nöfnunum ,,Ásgarður”, ,,Valhöll” og ,,hubbinn sem ekki er til”. Sá síðastnefndi hafi einnig gengið undir nafninu Ásgarður eða Garðurinn. Engin leið sé að sjá hvað aðrir deili af efni nema að tengjast þessum tengipunktum. Við könnun málsins hafi komið í ljós að skilyrði þess að fá aðgang að þessum tengipunktum hafi verið þessi: Til að komast inn á ,,Ásgarð” hafi viðkomandi Internetnotandi þurft að geta deilt 0,5 til 2 GB af efni. Til að komast inn á ,,Valhöll” hafi Internetnotandi þurft að geta deilt 50 GB af efni. Loks hafi þeir Internetnotendur sem hafi viljað komast inn á ,,hubbinn sem ekki er til” orðið að fá boð um að komast þangað inn. Þeir hafi þurft að geta deilt mjög miklu efni, eða að lágmarki 50 GB. Þeir hafi þurft að vera ,,traustir” notendur. Könnunin hafi leitt í ljós að flestir notendur væru tengdir ,,Valhöll” eða um það bil 1500 til 2000 manns og deilt um 120 til 200 TB af efni. Hvert TB jafngilti 1000 GB. Til samanburðar sé að venjulegur geisladiskur sem seldur sé út úr búð taki 0,7 GB. Um 18 til 100 manns væru tengdir ,,hubbnum sem ekki er til” og deildu þeir með sér um 25 til 30 TB af efni.

            Sá einstaklingur sem staðið hafi að könnuninni fyrir hönd rétthafa hafi í gegnum tengsl sín við hina kærðu einstaklinga og aðra notendur innan dci.is aflað mikils magns upplýsinga um brotastarfsemi hinna kærðu aðila. Væri meðfylgjandi kærunni greinargerð þar sem fram kæmu upplýsingar um helstu notendur, almennar upplýsingar um virkni kerfisins og yfirlit yfir skipulag brotastarfseminnar. Hinir kærðu einstaklingar ættu allir það sameiginlegt að vera stórnotendur innan Direct Connect á Íslandi og/eða aðalstjórnendur þessara tengipunkta. Hlutverk stjórnanda tengipunkts væri tvíþætt. Annars vegar væri svokallaður ,,Admin“ sem væri í raun yfirstjórnandi á tengipunktinum og hins vegar svonefndur ,,Operator“ sem væri stjórnandi á tengipunktinum. Hlutverk þeirra væru hin sömu, en þeir sæju um að framfylgja þeim reglum sem þeir og aðrir stjórnendur dci.is hafi sett. Einnig hafi þeir séð um aðstoð við notendur þessara tengipunkta. Þeir ,,keyrðu” á tölvum sínum sumir hverjir svokallaða File Transfer Protocol skráarþjóna.

            Oft væri þeim sem hefðu mikið gagnamagn inni á ,,Valhöll” boðið að koma inn á þriðja tengipunktinn, ,,hubbinn sem er ekki til”. Um miðjan janúar 2004 hafi verið um 92 notendur að ræða þar inni, sem deilt hafi með sér 25,5 TB af efni. Nokkrir þessara notenda sæju um að fá nýtt efni af erlendum ftp skráarþjónum og dreifa jafnóðum þangað. Hafi sá einstaklingur sem kærendur hafi haft í þjónustu sinni náð að komast inn í þennan innsta hring og þannig komist að umfangi starfseminnar. Hafi einstaklingurinn sett upp ftp skráarþjóna sem hafi sýnt svo ekki yrði um villst að viðkomandi aðilar væru að dreifa höfundaréttarvernduðu efni beint inn á skráarþjón með þeim hætti og ásetningi að þriðji aðili hefði aðgang að þeim.

            Sú háttsemi að vista í heimildarleysi verk háð höfundarétti í þeim tilgangi að gera þau aðgengileg öðrum, sem ekki tilheyri sama heimilishaldi og sá sem það gerði, teldist vera ólögmæt eintakagerð eða fjölföldun og því brot gegn einkarétti höfundar til eintakagerðar, sbr. 3. gr. laga nr. 73/1972, svo og einkarétti myndrita- og hljómplötuframleiðenda, sbr. 2. mgr., 46. gr. laganna. Hinir kærðu einstaklingar hafi allir vistað eintök af höfundaverkum inn á tölvur í þeim tilgangi að gera þau aðgengileg þeim sem hlaðið hafi niður á tölvur sínar DC++ samhæfðum hugbúnaði og haft aðgang að tengipunktum Direct Connect á Íslandi. Það hafi þeir allir gert í stórfelldum mæli. Sú háttsemi að gera öðrum aðgengileg í tölvu sinni verk háð höfundarétti, án heimildar höfunda eða annarra rétthafa, teldist vera brot á einkarétti höfundar og myndrita- og hljómplötuframleiðenda og til birtingar verkanna, sbr. 3. gr. og 2. mgr. 46. gr. laga nr. 73/1972. Nánar tiltekið teldist þess konar háttsemi opinber flutningur verkanna. Sama ætti við um þá háttsemi að gera Internetnotendum kleift með þeim hætti sem hinir kærðu hafi gert að nálgast skrár sem innihéldu höfundaréttarverndað efni. Til rökstuðnings kærunni lögðu kærendur fram dóma frá Svíþjóð, Danmörku og Noregi um samkynja háttsemi. Var bent á að ákvæði höfundalaga hinna norrænu þjóða væru í meginatriðum eins gagnvart þeim höfundaréttarbrotum sem um ræddi og dómarnir því góð fordæmi. Um kæruheimild var vísað til 1. og 2. mgr. 66. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Var jafnframt gerð krafa um að allur haldlagður vélbúnaður yrði tekinn af hinum kærðu einstaklingum og öðrum til afhendingar til kærenda, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 55. gr. i.f. laga nr. 73/1972.

            Með bréfi 3. mars 2004 lögðu Alþjóðleg samtök hugbúnaðarframleiðenda, Business Software Alliance, Washington, Bandaríkjunum, fram kæru á hendur kærðu vegna brota á lögum nr. 73/1972. Fram kemur að meðlimir hinna alþjóðlegu samtaka séu Adobe Systems Intercorporated, USA, Apple Computer, Inc., USA, Autodesk, Inc., USA, Bentley Systems Intercorporated, USA, Borland Software Corporation, USA, Entrust, Inc., Macromedia, Inc., USA, Microsoft Corporation, USA, Symantec Corporation, USA, IBM Corporation, USA, Intuit Inc., USA, Networks Associates Technologies, Inc., USA og Novell, Inc., USA. Kæra laut að aðstandendum vefsíðunnar dci.is, fyrir skipulega brotastarfsemi sem fælist í því að vefsíðan gerði mönnum kleift að afrita og dreifa án endurgjalds og án heimildar hugbúnaði sem meðlimir BSA væru löglegir rétthafar að og nyti verndar samkvæmt lögum nr. 73/1972 svo og þá einstaklinga sem stunduðu að dreifa hugbúnaði umbjóðenda kæranda í gegnum miðlun dci.is.

            Um kæruefnið var tekið fram að hinir kærðu starfræktu heimasíðu á Internetinu á vefslóðinni dci.is. Heimasíðan DCI gerði notendum kleift að skiptast á hugbúnaði og öðru höfundavernduðu efni s.s. kvikmyndum, tónlist o.þ.h. DCI byði notendum að sækja forrit, DCI++ o.fl. spjall og skráaskiptikerfi, á heimasíðu sinni til þess að geta tengst efni í því skyni að skiptast á efni. Á síðu dci.is væri boðið upp á a.m.k. fimm tengingar en þær hétu Inngarður, Mirkur, Hermarius, Iceland og Himnaríki. Til að tengjast Inngarði þyrfti notandi að bjóða öðrum notendum aðgang að efni á eigin tölvu að lágmarki 50+ GB. Í Mirkri 20+ GB, Iceland 10+ GB, Heraríus 5+ GB og Himnaríki 1+ GB. Eftir að nýr notandi hefði játast undir skilmála ætti hann möguleika á, fyrir milligöngu DCI, að veita örðum notendum aðgang að sinni tölvu og sækja efni til annarra. DCI virkaði því eins og miðlari eða ,,server” á tölvuneti. Yrði ekki annað séð en að megintilgangur með vefsíðunni væri að gera fólki kleift að skiptast með ólögmætum hætti á höfundavernduðu efni, s.s. tölvuforritum, kvikmyndum, leikjum, tónlist o.fl. Augljóst væri að á vefsíðunni dci.is færi fram skipuleg brotastarfsemi á hagsmunum umbjóðenda kærenda. Vefsíðan veitti þúsundum einstaklinga möguleika á að fjölfalda og dreifa ólöglega hugbúnaði og öðru höfundaréttarvernduðu efni.

            Í þágu rannsóknar málsins kvað Héraðsdómur Reykjavíkur föstudaginn 24. september 2004 upp úrskurð, að kröfu Ríkislögreglustjóra, um að símaþjónustufyrirtækjum væri skylt að veita lögreglu upplýsingar um notendur tiltekinna IP-talna. Þriðjudaginn 27. september 2004 heimilaði Héraðsdómur Reykjavíkur, að kröfu Ríkislögreglustjóra, að húsleit yrði gerð á heimilum ákærðu. Fór húsleit fram síðar sama dag. Lagði lögregla þar hald á tölvubúnað er talin var tengjast ætluðum brotum ákærðu.

            Ákærði Bjarki Magnússon var færður til skýrslutöku hjá lögreglu 28. september 2004. Kvaðst ákærði þá ekki hafa nein tengsl við DCI á Íslandi. Þá kvaðst hann ekki kannast við tiltekin notendanöfn, eða ,,nick”, sem borin voru undir hann við þetta tilefni. Kvaðst hann að öðru leyti ekki reiðubúinn að tjá sig um sakarefnið. Ákærði var vistaður í fangageymslu og yfirheyrður aftur næsta dag. Við það tilefni greindi hann svo frá að hann þekkti nettengipunkt, eða svokallaðan ,,höbb“, sem gengi undir nafninu Ásgarður. Kvaðst ákærði hafa notað tengipunktinn öðru hverju til að ná í efni eins og kvikmyndir og tónlist. Hafi ákærði átt ákveðinn þátt í uppsetningu punktsins. Tengipunkturinn væri í raun forrit sem gerði notendum kleyft að deila efni með öðrum. Forritið væri ,,vistað” á Internetinu og því þannig fyrir komið að ekki væri unnt að nálgast það nema úr tölvu ákærða. Hafi ákærði sett punktinn upp ásamt einhverjum öðrum. Nokkra þeirra hafi ákærði þekkt en aðrir hafi verið ákærða ókunnir og hann ekki þekkt þá nema undir kenninöfnum eða ,,nick-nöfnum”. Hjá ,,okkur” væru valdir einstaklingar með aðgang, eða réttara væri að segja að vinir og vandamenn væru með aðgang sem væru að skiptast á gögnum. Kvaðst ákærði hafa haft umsjón með nettengipunktinum ,,höbbinum” undanfarna einn til tvo mánuði frá búnaði ákærða á heimili hans að Rauðarárstíg 32 í Reykjavík. Ákærði kvaðst ekki vita hvaðan það efni væri komið sem hafi farið um nettengipunktinn. Netið virkaði þannig að allir væru í raun jafnir að því leyti að allir hafi lagt inn efni á netið og haft aðgang að öllu efni hjá hinum. Nettengipunkturinn hafi síðan haft það hlutverk að tengja notendur kerfisins saman þannig að hver og einn gæti sótt það efni sem hann hafi viljað hjá öðrum notendum. Það efni sem notendur netsins hafi skipst á að nota hafi aðallega verið kvikmyndir og tónlist. Hugmyndin hafi upphaflega verið að dreifa margvíslegu efni um netið, ekki eingöngu kvikmyndum og tónlist. Ástæða þess að netið hafi verið notað hafi verið sú að Internetþjónustur á Íslandi hafi ekki leyft stærri skrár en 10 MB í einu um póstkerfin. Með því að stofna Ásgarð hafi opnast möguleiki á að miðla miklu stærri skrám en unnt væri í Internetumhverfinu á Íslandi. Hverjum og einum hafi verið heimilt að vera á netinu á sína eigin ábyrgð. Hver og einn notandi hafi getað sett nýjan notenda inn. Það hafi gerst á þann hátt að skrifuð hafi verið skipun sem skilgreini nýjan notanda hjá nettengipunktinum. Sú skipun hafi ekki þurft að fara í gegnum miðlægan aðila. Það net sem um hafi verið að ræða hafi verið um 2ja ára gamalt og ákærði sjálfur átt frumkvæðið að stofnun þess. Síðan hafi fleiri komið inn á netið og það fólk haft efni til þess að leggja þar inn.

            Ákærði var yfirheyrður á ný næsta dag. Ákærði staðfesti að lögregla hefði í höndum tölvu og tölvuforrit sem notað hafi verið til að hafa umsjón með netdeilikerfinu Ásgarði, en Ásgarður hafi verið lokaður tengipunktur með um það bil 100 einstaklinga. Á tengipunktinum hafi einstaklingar verið flokkaðir niður í hópa sem hafi verið venjulegir notendur, stjórnendur og kerfisstjórar. Hóparnir hafi allir verið skilgreindir með sömu réttindi, þ.e. allir hafi getað skráð nýja notendur og kastað öðrum út. Aldrei hafi komið til þess að einhverjum notanda hafi verið kastað út, þó svo sá möguleiki hafi verið fyrir hendi. Þó hafi nokkrum óvirkum notendum verið kastað út. Breytilegt hafi verið frá degi til dags það magn efnis er ákærði hafi verið með í deilingu. Ekki hafi komið honum á óvart að efnið hafi verið samtals 215,89 GB þegar lögregla hafi ræst notendakerfið fyrir DC++. Ákærði kvaðst aðallega hafa verið að deila kvikmyndum og tónlist á netinu, auk sjónvarpsþátta. Þá hafi hann deilt einhverju af hugbúnaði, en það hafi verið lítið. Efnið hafi ákærði fengið hjá aðilum á Ásgarði. Ekki hafi hann sótt efni frá neinum einum aðila fremur en öðrum. Sumt af því efni er ákærði hafi verið með hafi verið tónlist sem hann hafi sjálfur afritað af frumeintaki eða diskum sem hann hafi sjálfur átt. Hafi hann breytt lögunum í MP3 skrár.

            Ákærði var aftur yfirheyrður af lögreglu 2. mars 2007. Er undir ákærða voru borin einstök atriði varðandi lögreglurannsókn málsins og framburði meðákærðu kvaðst ákærði ýmist ekkert hafa um einstök atriði að segja eða ekki vilja tjá sig um málið.

            Við þingfestingu málsins fyrir dómi var bókað eftir ákærða í þingbók að ákærði viðurkenndi að hafa hlaðið niður efni það sem vistað var á hörðum disk í tölvu hans og listað er upp í ákæru og að hafa veitt meðlimum Direct Connect jafningjanets aðgang að þessu sama efni með þeim hætti sem lýst er í ákæru. Ákærði neitaði því hins vegar að hafa með þessu gert ólögmæt eintök af höfundaréttarvörðu efni eða að hafa með öðrum hætti brotið gegn ákvæðum höfundalaga. Með hliðsjón af þessu neitaði ákærði sök. Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi kvaðst ákærði neita að tjá sig um sakarefnið en kvaðst staðfesta þær skýrslur er hann hefði gefið hjá lögreglu. Þá kvaðst hann neita sök samkvæmt II. kafla ákæru.

            Ákærði Björn Sveinbjörnsson var yfirheyrður af lögreglu 28. september 2004 í framhaldi af handtöku og húsleit lögreglu. Ákærði kvaðst viðurkenna að hafa átt samskipti við tiltekinn hóp manna í gegnum nettengipunkt, svokallaðan ,,höbb“ og þaðan sótt gögn í tölvutæku formi, þá aðallega kvikmyndir og sjónvarpsefni. Nettengipunkturinn hafi gengið undir nafninu Ásgarður. Forritið Direct Connect, eða DCI, hafi gert honum kleift að sækja efnið inn á Ásgarð. Í staðinn hafi þessi tiltekni hópur haft aðgang að sams konar gögnum frá honum sjálfum, nánast eingöngu kvikmyndum og sjónvarpsefni. Hver og einn hafi síðan haft val um það hvaða efni hann tæki frá honum. Allt það efni sem hann hafi sjálfur deilt inn á nettengipunktinn Ásgarð hafi hann áður verið búinn að sækja þaðan. Hann hafi því bæði sótt og deilt efni. Ekki kvaðst ákærði hafa gert sér grein fyrir að hann hafi verið að fremja refsivert brot þar sem fyrir ákærða væri höfundarréttur nokkuð teygjanlegur og almennt séð ekki mjög skýr, alltént ekki fyrir hinn venjulega notanda Internetsins. Ákærði kvaðst hafa notað notendanafnið ,,Zisko” inni á nettengipunktinum Ásgarði. Þessa iðju hafi ákærði stundað í um það bil eitt ár, hugsanlega lengur. Sá hópur sem myndað hafi Ásgarð hafi sennilega verið um 60 til 70 manns. Ekki hafi ákærði tengst Ásgarði í um það bil einn mánuð, en ástæða þess hafi verið sú að hann hafi verið tekinn af notendalistanum af einum stjórnenda, sennilega vegna lítillar viðveru inni á netinu. Í því sambandi hafi ákærði verið í sambandi við einn af stjórnendum Ásgarðs, mann að nafni Bjarki, sem gefið hafi í skyn nokkrum sinnum áður að ákærði yrði tekinn af notendalista vegna þessa. Bjarki hafi gert ákærða grein fyrir þessu með samskiptum í gegnum tölvu inni á Ásgarði. Ákærði kvaðst vera málkunnugur umræddum Bjarka. Ekki viti ákærði föðurnafn hans en kvaðst vita að umræddur Bjarki væri búsettur nálægt miðbæ Reykjavíkur. Aldrei hafi ákærði komið á heimili nefnds Bjarka en þó hitt hann tvisvar til þrisvar sinnum. Í tvö af þeim skiptum hafi hann hitt Bjarka á förnum vegi en einu sinni farið með honum út að borða. Ákærði kvaðst telja að umræddur Bjarki hafi verið með notendanafnið ,,Loki” inni á Ásgarði. Ákærði kvaðst ekki þekkja neinn fyrir utan Bjarka af þeim 60 til 70 manna hópi sem verið hafi inni á Ásgarði. Ákærði hafi enga aðkomu haft af stofnun Ásgarðs, en einungis verið þar notandi. Kvaðst ákærði telja að miðað við gagnamagn hafi hann verið rétt ofan við miðju af þeim er sótt hafi efni inn á Ásgarð. Ákærði kvaðst hafa reynt að vera sem mest tengdur inn á Ásgarð. Ekki hefði ákærði neina hugmynd um í hve miklu magni það hafi verið. Er notkun hans hafi verið hve mest hafi hann sótt um það bil tvær til þrjár kvikmyndir á viku. Hafi ákærði verið með fremur hægvirka tengingu, 2 MB ADSL-tengingu. Ákærði kvaðst vilja taka fram að Ásgarður í þeirri mynd sem hann hafi verið í er aðgerðir lögreglu hafi byrjað eigi sér þá forsögu að hann væri leifar af deilikerfi sem hafi verið mjög virkt þar til veturinn 2003 til 2004 þar til um einum til tveim mánuðum eftir jól. Þá hafi félagsskapurinn Deilir orðið til. Deilir hafi orðið til vegna óánægju með stjórn Ásgarðs, en þar hafi fimm manna ,,klíka” stjórnað. Hafi ákærði verið einn þeirra fimm, en fyrir utan ákærða hafi verið um að ræða nefndan Bjarka og aðra einstaklinga með notendanöfnin ,,ManOfIce”, ,,Skarta” og ,,Nebon”. Hafi ákærði sjálfur yfirgefið ,,klíkuna” og stofnað Deili.

            Ákærði var yfirheyrður á ný 28. febrúar 2007. Kvaðst ákærði ekki neita því að hafa vistað efni á sérstaklega skilgreindu svæði í tölvu sinni og flokkað efni niður eftir innihaldi. Það efni hafi verið aðgengilegt utanaðkomandi aðilum án þess að hann hafi sérstaklega otað því að neinum. Hafi ákærði ekki velt því sérstaklega fyrir sér hvort efnið væri höfundaréttarvarið. Ákærði kvaðst staðfesta fyrri skýrslu sína hjá lögreglu en vilja taka fram þar sem í fyrri skýrslunni hafi verið rætt um að ákærði hafi deilt efni til utanaðkomandi aðila þá væri það ekki rétta orðalagið heldur hafi hann gert utanaðkomandi aðilum kleift að nálgast efnið hjá ákærða. Hafi hann ekki verið að dreifa því sérstaklega. Er ákærða var kynnt hvaða efni hafi verið á þeim tölvubúnaði er haldlagður hafi verið hjá ákærða og lögregluskýrsla verið rituð um kvað ákærði þann fjölda er tilgreindur hafi verið í skýrslu geta staðist. Kvaðst ákærði ekki telja að hann hafi þurft heimild rétthafa yfir efninu til að gera það aðgengilegt hjá sér. Efnið hafi ákærði fengið af Internetinu beint af heimasíðum eða í gegnum ,,huba“. Ákærði kvaðst kannast við að reglur hafi ,,poppað upp” þegar viðkomandi hafi tengst tengipunktinum Ásgarði. Kvaðst ákærði staðfesta að um væri að ræða reglur er væru í rannsóknargögnum málsins á skjölum merkt II/C-2-5, bls. 50/50 og 51/51.        

            Við þingfestingu málsins fyrir dómi var bókað eftir ákærða í þingbók að ákærði viðurkenndi að hafa hlaðið niður efni það sem vistað var á hörðum disk í tölvu hans og listað er upp í ákæru og að hafa veitt meðlimum Direct Connect jafningjanets aðgang að þessu sama efni með þeim hætti sem lýst er í ákæru. Ákærði neitaði því hins vegar að hafa með þessu gert ólögmæt eintök af höfundaréttarvörðu efni eða að hafa með öðrum hætti brotið gegn ákvæðum höfundarlaga. Með hliðsjón af þessu neitaði ákærði sök. Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi kvaðst ákærði neita að tjá sig, en kvaðst staðfesta þær skýrslur er hann hefði gefið hjá lögreglu sem réttar.

            Ákærði Jóhannes Páll Sigurðsson var yfirheyrður hjá lögreglu 28. september 2004. Ákærði kvaðst fara reglulega inn á DCI-Ásgarð. Hafi hann farið þangað inn til að ,,hala niður” alls konar efni, svo sem kvikmyndum, tölvuleikjum og tónlist. Í raun hafi ákærði ekki þurft að láta neitt efni í staðinn. Hafi ákærði þó boðið upp á efni sem hafi verið um 50 til 500 GB. Hafi hann annað slagið í um tvö ár náð í og deilt efni á netinu. Kvaðst ákærði hafa verið með kenniorðið ,,X-Rated” í samskiptum á netinu inni á Ásgarði. Kvaðst ákærði hafa kynnst nokkrum strákum á árinu 2002 og hafi þeir stofnað klúbb upp frá því. Hópurinn hafi talið á bilinu 6 til 8 manns. Ákærði kvaðst hafa fengið það efni er hann hafi deilt á netinu inni á DCI-Ásgarði og Valhöll, sem væri hluti af Deili. Ákærði kvaðst hafa dregið sig út úr DCI fyrir um tveim árum og ekki komið að stjórn eða umsýslu DCI síðustu tvö árin.

            Ákærði var aftur yfirheyrður 25. janúar 2007. Kvaðst ákærði viðurkenna að hafa sótt efni inn á Internetið með hugbúnaðinum DC++ en ekki hafa deilt efni markvisst. Kvaðst ákærði staðfesta fyrri framburð sinn hjá lögreglu. Ákærði kvaðst ekki gera sér grein fyrir hve mikið efni hann hafi sótt í gegnum nettengipunktinn Ásgarð. Þá kvaðst ákærði ekki vita hve mikið efni hafi verið sótt til hans fyrir tilstuðlan nettengipunktsins Ásgarðs. Ákærði kvaðst telja að niðurstöður vegna skoðunar á PC tölvu ákærða sem haldlögð hafi verið 28. september 2004 segðu rétt til um möppuuppbyggingu. Ekki kvaðst ákærði geta sagt til um hvort rétt væri að ákærði hafi deilt 577,78 GB af efni á nettengipunktinum. Þá kvaðst ákærði ekki hafa neitt að segja um skýrslu lögreglu um tengingar notendanafnsins ,,X-rated” og aftengingar á tímabilinu frá 29. maí til 28. september 2004. Þá kvaðst ákærði ekki getað tjáð sig um flokkun á því efni sem fundist hafði til deilingar inni á tölvu ákærða. Ekki kvaðst ákærði vita hvaða efni hafi verið höfundaréttarvarið og hvað ekki. Ekki hafi hann fengið leyfi frá neinum til að dreifa efni. Megnið af efninu hafi hann fengið í gegnum nettengipunktana Ásgarð og Valhöll. Ákærði kvað sig ráma í reglur er hafi komið upp er farið hafi verið inn á nettengipunktinn Ásgarð. Ekki hafi hann þó velt þessu sérstaklega fyrir sér en kvað sér þó vera minnistætt að barnaklám hafi verið bannað í reglunum. Ákærði kvaðst ekki minnast þess að hafa séð skjal þar sem óskað hafi verið eftir framlögum vegna kaupa á búnaði í tengslum við tengipunkt þann sem bannað hafi verið að nefna á nafn. Hafi ákærði þó heyrt að einhverjar safnanir hafi verið í gangi. Hafi ákærði aldrei greitt neitt fyrir aðgang að Ásgarði. 

            Við þingfestingu málsins fyrir dómi var bókað eftir ákærða í þingbók að ákærði viðurkenndi að hafa hlaðið niður efni það sem vistað var á hörðum disk í tölvu hans og listað er upp í ákæru og að hafa veitt meðlimum Direct Connect jafningjanets aðgang að þessu sama efni með þeim hætti sem lýst er í ákæru. Ákærði neitaði því hins vegar að hafa með þessu gert ólögmæt eintök af höfundarréttarvörðu efni eða að hafa með öðrum hætti brotið gegn ákvæðum höfundarlaga. Með hliðsjón af þessu neitaði ákærði sök. Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi kvaðst ákærði neita að tjá sig um sakarefnið en kvaðst staðfesta þær skýrslur er hann hefði gefið hjá lögreglu.

            Ákærði Kári Bertilsson var yfirheyrður hjá lögreglu 28. september 2004. Kvaðst hann viðurkenna að hafa verið með mikið af gögnum í tölvubúnaði sínum. Vissi ákærði ekki um neinn einstakling er væri með eins mikið af gögnum og ákærði. Þrátt fyrir að hann væri með mikið af gögnum í tölvubúnaði sínum hafi ákærði ekki verið að dreifa neinu efni. Ákærði kvaðst telja að í búnaði sínum væri um 1 TB af kvikmyndum, 1 TB af Anime, sem væru teiknimyndaþættir sem dreift væri í japönsku sjónvarpi, 200 til 300 GB af sjónvarpsþáttum, t.d. Simpsons og South Park og svo væri hann með eitthvað af tónlist, líklega um 40 til 50 GB. Ákærði kvaðst kannast við forritið DC++. Ákærði kvaðst hafa notað DC kerfið í um eitt og hálft ár, en hann hafi líklega byrjað að nota það sumarið 2003 en þá hafi hann keypt sér ,,server“ sem hægt hafi verið að vista í marga harða diska, eða samtals 19 talsins. Lögregla hafi lagt hald á ,,server“ hjá ákærða með 14 eða 15 hörðum diskum en á þeim hafi verið það efni er ákærði hafi nefnt. Ákærði kvaðst sjálfur hafa dreift eða tekið þátt í að dreifa efni, þá sérstaklega efni vernduðu af höfundarrétti á DC kerfinu. Það hafi ekki verið gert í þeim tilgangi að dreifa efninu heldur í þeim tilgangi að láta það í skiptum fyrir annað samskonar efni, s.s. kvikmyndir. Ákærði kvaðst telja að hann hafi í allt dreift um 2,1 TB af efni, en um hafi verið að ræða kvikmyndir, sjónvarpsþætti og Anime teiknimyndir. Ákærði kvaðst hafa notað kenninafnið ,,kb“ í samskiptum á netinu. Ákærði kvaðst engu hafa stjórnað hjá DCI á Íslandi. Hafi ákærði einhverju sinni verið inn á svæði sem heiti Valhöll sem sé tengipunktur öllum opinn í gegnum deilir.is. Þar hafi ákærði komist í samband við aðila undir kenninafninu ,,Skrati“. Sá hafi boðið ákærða aðgang að tengipunktinum Ásgarði, sem verið hafi lokaður. ,,Skrati“ hafi látið ákærða í té notendanafn og lykilorð. Ákærði hafi eftir það notað þann tengipunkt til að nálgast efni. Ákærði kvaðst telja að ástæða þess að nefndur ,,Skrati“ hafi boðið ákærða aðgang að Ásgarði hafi verið að viðkomandi aðili hafi tekið eftir því að ákærði hafi verið með mikið af efni sem hann hafi getað veitt aðgang að. Ákærði kvaðst hafa fengið það efni sem hann sjálfur hafi veitt aðgang að á öðrum ,,lönum”.

            Ákærði var á ný yfirheyrður af lögreglu 25. janúar 2007. Ákærði kvaðst þá ekki muna hve mikið af efni hann hafi nálgast í gegnum nettengipunktinn Ásgarð. Hann hafi verið með ADSL tengingu sem ekki hafi ráðið yfir miklum hraða, en það hafi getað tekið allt upp í 12 klukkustundir að sækja eina DVD kvikmynd inn á nettengipunktinn. Ákærða var kynnt sú niðurstaða rannsóknar lögreglu að við haldlagningu búnaðarins hafi komið í ljós að DC++ forrit ákærða hafi deilt 2,49 TB á skilgreindu vistunarsvæði gagna. Kvaðst ákærði ekkert hafa við þá niðurstöðu að athuga. Þá var ákærða kynnt að á tímabilinu 30. maí til 28. september 2004 hafi verið um 188 tengingar og aftengingar að ræða sem staðið hafi í misjafnlega langan tíma. Ekki kvaðst ákærði hafa athugasemdir við það. Þá kvað ákærði geta staðist niðurstaða rannsóknar lögreglu um efni sem fundist hafi í tölvu ákærða sem boðið hafi verið til deilingar. Kvaðst ákærði ekki hafa haft sérstaka heimild frá rétthöfum til deilingar á efninu. Ákærði kvaðst kannast við reglur um Ásgarð sem fram hafi komið á skjali í rannsóknargögnum málsins merkt. II/C-2.5, bls 50/50 og 51/51. Þær reglur hafi birst ákærða þegar hann hafi tengst Ásgarði. Þá kvaðst ákærði kannast við að hafa séð skjal þar sem farið hafi verið fram á samskot vegna kaupa á vélbúnaði tengdum Ásgarði. Hafi ákærði sennilega lagt 2.000 krónur inn á reikning af þeim sökum.  

            Við þingfestingu málsins fyrir dómi var bókað eftir ákærða í þingbók að ákærði viðurkenndi að hafa hlaðið niður efni það sem vistað var á hörðum disk í tölvu hans og listað er upp í ákæru og að hafa veitt meðlimum Direct Connect jafningjanets aðgang að þessu sama efni með þeim hætti sem lýst er í ákæru. Ákærði neitaði því hins vegar að hafa með þessu gert ólögmæt eintök af höfundarréttarvörðu efni eða að hafa með öðrum hætti brotið gegn ákvæðum höfundarlaga. Með hliðsjón af þessu neitaði ákærði sök. Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi kvaðst ákærði vilja gera athugasemd við framburð sinni hjá lögreglu 28. september 2004. Hafi ákærði aldrei verið að dreifa efni, heldur hafi hann gefið öðrum færi á að nálgast það hjá ákærða, ef þeim sýndist svo. Að öðru leyti staðfesti ákærið skýrslu sína hjá lögreglu. Ákærði kvað það hafa verið netkunningja sína sem hafi nálgast efnið hjá ákærða. 

            Ákærði Hilmar Kári Hallbjörnsson var yfirheyrður hjá lögreglu 28. september 2004. Ákærði kvaðst hafa haft í tölvubúnaði hjá sér rúmlega 1000 titla af kvikmyndum. Hafi þær tekið um 1 TB á hörðum diski. Í einhverjum tilvikum hafi ákærði verið búinn að afrita kvikmyndir af harða diskinum yfir á DVD diska. Kvaðst ákærði vera með um 600 GB af sjónvarpsefni, þar á meðal Friends þættina, Simpsons og CSI. Í búnaðinum hafi verið um 140 til 160 GB af tölvuleikjum, tónlist, tölvuforritum og rafrænum bókum. Ákærði kvað DCI standa fyrir Direct Connect Iceland. Um væri að ræða hóp einstaklinga sem skipst hafi á efni, s.s. kvikmyndum, tölvuleikjum og tónlist á Internetinu. Í hópnum hafi verið um 100 notendur. Ekki gæti ákærði skýrt nákvæmlega hversu margir hafi tilheyrt DCI þar sem verið gæti að DCI væri hluti af enn stærra kerfi. Í tengingu ákærða hafi eins og áður sagði verið um 100 notendur. Fólk væri skráð eftir notendanöfnum, en notendanafn ákærða hafi verið ,,Zomri“. Til að fá aðgang að hópnum hafi viðkomandi þurft að fá boð. Í upphafi væri settur upp netþjónn með þjónustuhugbúnaði og væri netþjónninn kallaður ,,Hub”. Notendur hefðu notendahugbúnað sem héti DC++ sem gæti síðan tengt sig inn á fyrrnefndan netþjón og óskað eftir efni, s.s. kvikmyndum eða tónlist. Ef einhver í hópnum hafi átt efnið og verið tilbúinn að láta það hafi myndast bein tengsl þeirra einstaklinga en þaðan væri nafnið direct connect komið. Ákærði kvaðst ekki vita hver hafi sett upp netþjón þann sem kallaður hafi verið ,,Hub“. Ákærði kvaðst hafa verið meðlimur DCI síðan í janúar 2003. Þá kvaðst ákærði hafa verið með 16 harða diska í búnaði sínum sem geymt hafi um 2 TB af gögnum. Ákærði kvaðst ekki telja að hann hafi dreift höfundarvörðu efni á Internetinu. Hafi ákærði látið efnið liggja á svæði en þaðan hafi hugbúnaðurinn DC++ sótt efnið til þeirra sem þess hafi óskað. Ákærði kvaðst telja að um 1,5 TB af efni hafi verið inn á svæði í tölvu ákærða. Ákærði bar að hann hafi verið inni á öðrum tengipunkti sem hafi heitið Valhöll. Þaðan hafi honum verið boðið inn á þann tengipunkt sem ekki hafi mátt tala um. Ekki myndi ákærði hver það hafi verið sem boðið hafi ákærða inn en það hafi gerst með þeim hætti að hann hafi fengið persónuleg skilaboð um leið og hann hafi fengið leyniorð. Undir ákærða voru borin ýmis kenniorð af DCI. Kvaðst ákærði almennt ekki þekkja þá einstaklinga er stæðu á bak við kenniorðin. 

            Ákærði var á ný yfirheyrður af lögreglu 27. febrúar 2007. Kvaðst ákærði mótmæla því að hann hafi brotið gegn lögum nr. 73/1972 með því að hafa vistað höfundarréttarvarið efni á sérstaklega skilgreindu svæði á tölvu sinni, flokkað það og gert aðgengilegt fyrir fjölda manna með notkun hugbúnaðarins DC++. Ákærði hafi ekki gert efnið aðgengilegt á skipulegan hátt. Hafi hann halað efni niður og síðan skilið það eftir á ,,glámbekk”. Efninu hafi ekki verið dreift á skipulegan hátt. Ákærði kvaðst ekki muna hve mikið efni hann hafi sótt í gegnum Ásgarð. Hann gæti staðfest að hafa borið um í fyrri lögregluskýrslu hve mikið efni hafi verið sótt til ákærða. Undir ákærða var borin rannsókn lögreglu á tölvu ákærða. Kvaðst ákærði telja að rannsóknin leiddi í ljós réttar niðurstöður varðandi uppsetningu á tölvunum og möppur á þeim. Ákærði kvaðst ekki geta tekið afstöðu til magns þess efnis og flokkun er lögregla hafi komist að niðurstöðu um. Ákærði kvaðst hafa fengið megnið af því efni sem hann hafi haft yfir að ráða í gegnum nettengipunktinn Valhöll, sem og nettengipunktinn Ásgarð, sem og á netinu. Ákærði kvaðst telja að hann hafi safnað efni frá í janúar 2003 til þess dags sem hann hafi verið handtekinn. Ákærði kvaðst örugglega hafa séð reglur um nettengipunktinn Ásgarð, er fram komu í rannsóknargögnum málsins. Ákærði kvaðst hins vegar ekki kannast við skjal þar sem óskað hafi verið eftir samskotum vegna kaupa á vélbúnaði fyrir Ásgarð.    

            Við þingfestingu málsins fyrir dómi var bókað eftir ákærða í þingbók að ákærði viðurkenndi að hafa hlaðið niður efni það sem vistað var á hörðum disk í tölvu hans og listað er upp í ákæru og að hafa veitt meðlimum Direct Connect jafningjanets aðgang að þessu sama efni með þeim hætti sem lýst er í ákæru. Ákærði neitaði því hins vegar að hafa með þessu gert ólögmæt eintök af höfundarréttarvörðu efni eða að hafa með öðrum hætti brotið gegn ákvæðum höfundarlaga. Með hliðsjón af þessu neitaði ákærði sök. Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi kvaðst ákærði ekki lengur neitt muna varðandi sakarefnið þar sem það langt væri um liðið síðan atburðir hafi átt sér stað. Ákærði kvaðst þó telja sig mun að einn notandi, svokölluð tálbeita, hafi verið að dreifa efni og hafi ákærði sennilega tekið allt sitt efni frá þessum einstaklingi. Sá einstaklingur hafi verið með mjög stóra tengingu á meðan tenging ákærða hafi verið mjög léleg. Hafi honum því gengið mjög illa að sækja efni nema frá þessum einstaklingi. Ákærði kvaðst telja að hann hafi verið um 16 klukkustundir að hlaða niður einni kvikmynd á DVD miðað við bestu afköst tengingarinnar. Ef einhverju öðru hafi verið hlaðið niður um leið hafi hægst á öllu. Kvaðst ákærði telja að svonefnd tálbeita hafi hins vegar getað horft á myndina í rauntíma um leið og hann hafi hlaðið henni niður. Ákærði kvaðst telja að netkunningjar sínir hafi verið um 50 til 60 talsins. Ákærði kvaðst kannast við að söfnun hafi verið í gangi varðandi tölvubúnað fyrir Ásgarð. Kvaðst ákærði ekki muna hver hafi staðið fyrir söfnuninni, en sennilega hafi ákærði greitt 1.000 krónur í söfnunina. 

            Ákærði Rúnar Brynjar Einarsson var yfirheyrður hjá lögreglu 28. september 2004. Kvaðst ákærði í upphafi vilja taka fram að allir væru að sækja efni alls staðar á Internetinu. Á dreifingarstaðnum Valhöll væri mjög gott efni, en notandi gæti farið inn á slóðina deilir.is. Þar væri að finna leiðbeiningar hvernig allt virkaði. Hafi ákærði verið mikið inni á Valhöll. Þá hafi verið haft samband við ákærða og honum boðið að koma í lokaðan hóp á forritinu DCI en það væru um 100 einstaklingar í hópnum á Íslandi. Þyrfti ákærði að ræsa upp forritið ODC en þá kæmi upp tiltekinn ,,hub” en þá tengdist ákærði með ákveðinni slóð. Þá væri hann kominn inn á lokað svæði. Í hópnum væru um 100 einstaklingar með 35 TB en 1 TB væri 100 GB. Hann þyrfti að slá inn leyninafn og leyniorð. Hafi ákærða fyrir um 2 árum síðan verið boðið að koma á þetta sérstaka svæði. Hafi ákærði á Valhöll aðallega verið að dreifa kvikmyndum, forritum, tónlist og tölvubókum. Hafi ákærði þó mest dreift kvikmyndum. Eftir að honum hafi verið boðið í lokaða hópinn hafi hann aðallega skipst á efni við einstaklinga í þeim hópi. Hafi ákærði getað sent frá sér 30 GB en þeir er hefðu hraðasta tenginguna hefðu haft 1000 GB tengingu. Sá sem hafi verið með þá tengingu hafi ekki gert þetta úr heimahúsi þar sem tengingin væri það stór. Það væri þessi eina vél sem ,,syngi“ allan sólarhringinn. Af þeim lokaða 100 manna hópi sem ákærði hafi verið í tengslum við væri eflaust um helmingur í heimahúsi, en afgangurinn ekki hýstur þar. Ákærði kvaðst hafa verið einn af notendum á DCI á Íslandi. Ekki hafi ákærði komið nálægt stjórnun í þeim hópi. Hafi ákærði einungis farið inn á svæðið og sótt sér efni. Það hafi verið frá 1,5 TB af efni sem hann hafi verið að deila í gegnum nettengipunktinn DCI. Ákærði kvað notanda með kenninafnið ,,LokiQ“ hafa stjórnað og hýst lokaða vefinn. Kvaðst ákærði lítið vita um suma notendur að baki kenninöfnunum og ekkert þekkja persónurnar að baki.

            Ákærði var aftur yfirheyrður af lögreglu 5. mars 2007. Ákærði kvað nettengipunktinn DCI vera lokaðan hóp sem 100 til 150 manns hafi haft aðgang að. Efni á tölvu ákærða hafi verið aðgengilegt fyrir þennan hóp einstaklinga. Yfirleitt hafi um 90 einstaklingar verið inni á lokaða svæðinu á hverjum tíma. Ákærði kvaðst telja að hann hafi fengið um helming af því efni er hafi verið á tölvu ákærða við haldlagningu hennar af hálfu lögreglu í gegnum nettengipunktinn Ásgarð. Hinn helminginn hafi ákærði fengið frá kunningjum sínum í gegnum diska. Gæti ákærði ekki gert sér nánari grein fyrir hve mikið af efni hafi verið sótt inn í tölvu ákærða. Ákærða voru kynntar niðurstöður rannsóknar lögreglu á tölvu ákærða. Kvaðst hann kannast við að niðurstöður væru í samræmi við tölvu ákærða. Það gæti verið að ákærði hafi verið með það magn af efni á þrem tölvum við haldlagningu lögreglu sem niðurstaðan sýndi. Ákærði kvaðst ekki hafa sótt mikið af tónlist inn á Ásgarð en mikið af þeirri tónlist er ákærði hafi verið með hafi hann hlaðið inn af geiladiskum er hann hafi keypt. Kvaðst ákærði ekki gera athugasemdir við flokkun á efni og fjölda er niðurstöður lögreglu gæfu til kynna. Kvaðst ákærði örugglega ekki hafa haft heimild frá rétthöfum til að deila umræddu efni. Ákærði kvaðst ekki gera sér grein fyrir hve lengi hann hafi verið að safna því efni er vistað hafi verið á tölvum hans. Ákærði kvaðst kannast við reglur er gilt hafi fyrir Ásgarð en þær hafi komið upp í hvert sinn sem notandi hafi tengst Ásgarði. Það hafi oft komið fyrir að notendum hafi verið hent út af Ásgarði. Hafi Bjarki Magnússon stjórnað því. Ástæður fyrir því gátu verið að viðkomandi væri að ,,rífa kjaft“ eða væri með gróft klámefni. Ákærði kvaðst muna eftir að hafa fengið skjal þar sem farið hafi verið fram á fjárstuðning vegna kaupa á vélbúnaði fyrir Ásgarð. Kvaðst ákærði telja að hann hafi greitt 2.000 eða 3.000 krónur inn á reikning Bjarka Magnússonar í eitt sinnið. Hafi ákærði hugsað þetta sem þátttöku í viðhaldskostnaði við þennan tengipunkt.       

            Við þingfestingu málsins fyrir dómi var bókað eftir ákærða í þingbók að ákærði viðurkenndi að hafa hlaðið niður efni það sem vistað var á hörðum disk í tölvu hans og listað er upp í ákæru og að hafa veitt meðlimum Direct Connect jafningjanets aðgang að þessu sama efni með þeim hætti sem lýst er í ákæru. Ákærði neitaði því hins vegar að hafa með þessu gert ólögmæt eintök af höfundarréttarvörðu efni eða að hafa með öðrum hætti brotið gegn ákvæðum höfundarlaga. Með hliðsjón af þessu neitaði ákærði sök. Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi kvaðst ákærði neita að tjá sig um sakarefnið en kvaðst staðfesta þær skýrslur er hann hefði gefið hjá lögreglu.

            Ákærði Kristján Gunnar Guðmundsson var yfirheyrður af lögreglu 28. september 2004. Kvaðst ákærði viðurkenna að hafa staðið að dreifingu á efni á tölvutæku formi í gegnum DCI. Kvaðst ákærði hafa tengst tengipunktinum og hafa uppfyllt skilyrði um aðgang. Hafi ákærði uppfyllt lágmarksskilyrði um efni sem hægt hafi verið að sækja til ákærða. Ákærði kvaðst ekki hafa þekkt til neins sem hafi stjórnað. Þeir sem það hafi gert hafi haft svonefndan ,,Op status“ en þeir gætu sparkað viðkomandi út. Hafi ákærði ekki þekkt neinn persónulega sem hafi verið inni á Valhöll. Þá hafi ákærði einnig verið inni á minni tengipunkti sem hafi heitið Ásgarður. Það hafi verið um 100 einstaklingar inni á þeim punkti. Þeir sem þar hafi stjórnað hafi verið saman í ,,klani“ og ekki viljað einstaklinga úr öðrum ,,klönum“. Hafi ákærði verið hlutlaus og því ekki verið sparkað út. Þekkti ákærði engan þeirra einstaklinga persónulega er væru í DCI. Tölva ákærða væri með rými upp á um 1,7 TB af gögnum. Það hafi verið misjafnt hve miklu magni gagna ákærði hafi veitt aðgang að. Er undir ákærða voru borin ýmis kenninöfn kvaðst ákærði ekki þekkja einstaklinga að baki þeim nöfnum. Ákærði kvaðst hafa fengið mest af því efni er verið hafi á tölvu sinni við haldlagningu í gegnum DCI, mest frá Valhöll og síðan Ásgarði.

            Ákærði var aftur yfirheyrður af lögreglu 1. mars 2007. Ákærði kvaðst hafa verið með efni aðgengilegt á tölvu sinni fyrir utanaðkomandi aðila innan nettengipunktsins Ásgarðs. Til að hafa getað verið innan þess tengipunkts og notað forritið DC++ hafi hann þurft að vera með efni aðgengilegt fyrir þá aðila sem hafi verið í Ásgarði. Lögð hafi verið áhersla á að einstaklingar væru með ákveðið mikið af efni til dreifingar og að þeir væru tengdir sem lengst til að hægt væri að ná í efnið. Ákærði kvaðst ekki vita hversu mikið efni hann hafi sótt í gegnum nettengipunktinn Ásgarð eða hve mikið af efni hafi verið sótt til hans. Undir ákærða var borin niðurstaða lögreglurannsóknar á haldlagðri tölvu ákærða. Kvaðst hann engar athugasemdir gera við þá rannsókn. Þá kvaðst hann ekkert geta sagt til um þá niðurstöðu að á tímabilinu 29. maí til 28. september 2004 hafi verið um að ræða 243 tengingar og aftengingar hjá ákærða. Hafi hann örugglega tengst og aftengst mjög oft á tímabilinu. Þá kvaðst ákærði ekki rengja niðurstöður rannsóknar lögreglu á efnisflokkun í niðurstöðum rannsóknarinnar. Ákærði kvaðst ekki hafa haft leyfi rétthafa af efninu til deilingar á því. Margir tugir þúsundir manna hafi stundað svipaða iðju og athæfið því ekki hafa geta verið ólöglegt gagnvart lögum nr. 73/1972. Efni það er ákærði hafi verið með á tölvu sinni hafi hann fengið í gegnum nettengipunktinn Valhöll, Ásgarð og á fleiri stöðum. Efnið hafi hann tekið inn á einu til tveim árum. Ákærði kvaðst kannast við reglur um Ásgarð, en þær væru almennar ,,hub“ reglur. Ákærði kvaðst ekki muna eftir bréfi þar sem óskað hafi verið eftir fjárframlögum vegna kaupa á vélbúnaði fyrir Ásgarð, eða hvort hann hafi lagt til fjármagn vegna kaupa á vélbúnaðinum. 

            Við þingfestingu málsins fyrir dómi var bókað eftir ákærða í þingbók að ákærði viðurkenndi að hafa hlaðið niður efni það sem vistað var á hörðum disk í tölvu hans og listað er upp í ákæru og að hafa veitt meðlimum Direct Connect jafningjanets aðgang að þessu sama efni með þeim hætti sem lýst er í ákæru. Ákærði neitaði því hins vegar að hafa með þessu gert ólögmæt eintök af höfundaréttarvörðu efni eða að hafa með öðrum hætti brotið gegn ákvæðum höfundarlaga. Með hliðsjón af þessu neitaði ákærði sök. Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi kvaðst ákærði neita að tjá sig um sakarefnið en kvaðst staðfesta þær skýrslur er hann hefði gefið hjá lögreglu.

            Ákærði Elmar Freyr Elíasson var yfirheyrður af lögreglu 28. september 2004. Ákærði kvaðst hafa tengt tölvu sína í gegnum Internetið við ákveðinn nettengipunkt sem hafi kallast Ásgarður. Þar hafi hann getað skoðað gögn og hlaðið þeim niður. DCI væri í raun forrit sem notað væri til að komast inn á nettengipunkt. Á Ásgarði hafi ákærði getað hlaðið niður gögnum að vild en hann hafi ekki getað stjórnað því hver tæki hvað eða hve mikið. Ákærði kvaðst ekki vera viss um hver stjórnaði nettengipunktinum Ásgarði. Ákærða hafi verið boðið að vera með í þessu eftir að hafa verið inni á Valhöll sem væri opnara kerfi. Þangað inn hafi í raun hver sem er getað farið. Til að komast inn í Ásgarð hafi þurft sérstaka IP tölu og leyniorð. Ákærði kvaðst hafa notað kenniorðið ,,Pimps“ í samskiptum á Internetinu inni á Ásgarði. Ákærði kvaðst engan fyrir utan bróður sinn hafa þekkt í þeim hópi sem verið hafi inni á Ásgarði. Ekki hafi ákærði komið nálægt stofnun Ásgarðs. Ekki kvaðst ákærði vita hve miklu magni af efni hann hafi verið að deila í gegnum Ásgarð. Aðspurður kvaðst ákærði kannast við sum þeirra kenninafna er borin voru undir hann en ekki þekkja einstaklingana á bak við. Ákærði kvaðst hafa náð í um 90% af því efni sem hann hafi deilt inni á Ásgarði í gegnum notendur sem hafi tengst Ásgarði eða Valhöll. Hann hafi hlaðið niður efni af Valhöll þar til honum hafi verið boðið að vera með í Ásgarði.

            Ákærði var á ný yfirheyrður af lögreglu 30. janúar 2007. Ákærði kvaðst aldrei hafa kynnt sér ákvæði laga nr. 73/1972 og því ekki geta tekið afstöðu til þess hvort hann hafi með notkun hugbúnaðarins DC++ gerst brotlegur við þau lög. Ákærði kvaðst ekki viss um hve mikið efni hann hafi nálgast eða verið sótt til hans í gegnum nettengipunktinn Ásgarð. Kvaðst ákærði reikna með að það hafi verið mjög lítið þar sem hann hafi verið með mjög lítinn ,,upload“ hraða. Tveir til fjórir aðilar hafi verið með mest áberandi ,,upload“ hraða og því mest efni sótt til þeirra. Ákærði kvað niðurstöður rannsókna lögreglu á búnaði ákærða sýna þær möppur er ákærði hafi verið með og það magn sem hann hafi skilgreint til dreifingar í tölvum sínum. Þá kvaðst ákærði ekkert hafa að segja um þá niðurstöðu rannsóknar lögreglu að á tímabilinu 29. maí til 28. september 2004 hafi komið í ljós 253 tengingar og aftengingar sem staðið hafi í misjafnlega langan tíma. Þá kvaðst ákærði ekki draga í efa niðurstöður rannsókna um flokkun efnis og fjölda titla. Ekki kvaðst ákærði hafa haft heimild rétthafa til að deila umræddu efni. Ákærði kvaðst kannast við reglur um Ásgarð, sem komið hafi upp fyrst þegar forritið DC++ hafi verið opnað. Þá kvað ákærða sig ráma í skjal þar sem óskað hafi verið eftir framlögum vegna kaupa á vélbúnaði fyrir Ásgarð. Kvaðst ákærði telja að hann hafi lagt til litla upphæð vegna þessa. 

            Við þingfestingu málsins fyrir dómi var bókað eftir ákærða í þingbók að ákærði viðurkenndi að hafa hlaðið niður efni það sem vistað var á hörðum disk í tölvu hans og listað er upp í ákæru og að hafa veitt meðlimum Direct Connect jafningjanets aðgang að þessu sama efni með þeim hætti sem lýst er í ákæru. Ákærði neitaði því hins vegar að hafa með þessu gert ólögmæt eintök af höfundaréttarvörðu efni eða að hafa með öðrum hætti brotið gegn ákvæðum höfundarlaga. Með hliðsjón af þessu neitaði ákærði sök. Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi kvaðst ákærði líta svo á að jafningjanet væri hópur vina sem væru saman komnir til að ,,spjalla“ eða gera eitthvað annað. Kvaðst ákærði hafa verið í hópi tengdum Ásgarði á árinu 2004. Hafi ákærða verið boðið að koma þangað inn. Ekki kvaðst ákærði hafa þekkt neinn, þó svo hann hafi spjallað við marga inni á Ásgarði. Ekki kvaðst ákærði vita hve margir hefðu verið inni á Ásgarði. Ekki hafi hann hitt umrædda einstaklinga í eigin persónu. Kvaðst ákærði hafa orðið hálfgerður fíkill í efni, en hann hafi alltaf verið að athuga hvort nýtt efni væri komið inn á svæðið. Það efni sem ákærði hafi veitt aðgang að hafi hann sjálfur fengið inni á netinu. Flestir hafi verið með tengingu sem gert hafi að verkum að hratt hafi gengið að nálgast efni, en seint að láta frá sér efni. Af þeim sökum hafi ákærði náð í flest sitt efni hjá tilteknum einstaklingi sem hafi verið með mjög hraða tengingu. Ekki kvaðst ákærði vita hvort hann hafi þurft heimild rétthafa til að láta frá sér efni með þeim hætti er hann hafi gert. Ákærði kvaðst telja að reglur um Ásgarð hafi komið upp er forritið DC++ hafi verið opnað.

            Ákærði Kveldúlfur Fennri N. Árnason gaf skýrslu hjá lögreglu 28. september 2004. Ákærði kvað upphaf málsins vera að hann hafi séð á Internetinu ritað um heimasíðuna dci.is. Í framhaldi hafi hann kíkt á síðuna. Þar hafi hann séð umsókn um aðgang að ákveðnum tengipunkti þar sem unnt hafi verið að sækja og dreifa efni á Internetinu. Hafi hann sótt um aðgang að þessum tengipunkti. Í framhaldi hafi hann fengið sent í tölvupósti staðfestingu á að hann fengi aðgang, en reglur hafi verið á þann veg að hann yrði að vera með tiltekið magn af gögnum vistað í eigin tölvu og væru þá aðgengileg öðrum í hópnum. Um 100 einstaklingar hafi verið notendur á þessum tengipunkti. Ákærði kvaðst ekki hafa þekkt aðra í hópnum. Í upphafi hafi verið gerð krafa um 20 GB opin öðrum til niðurhals, þ.e. hann yrði að vera með 20 GB aðgengileg öðrum notendum. Síðar hafi þessi nettengipunktur lokast utanaðkomandi aðilum. Þannig hafi nettengipunkturinn einungis verið aðgengilegur lokuðum hópi. Forritið DC++ hafi verið notað til að komast inn á nettengipunktinn. Nettengipunkturinn hafi oft skipt um nöfn frá því ákærði hafi byrjað, en hann myndi eftir nöfnunum Útarður, Valhöll, Ásgarður og sennilega Mars og Venus. Ákærði hafi verið með kenninafnið ,,Kvasir“. Allt það efni sem ákærði hafi deilt á DC++ hafi hann sótt af bæði þessum lokaða tengipunkti og af öðrum opnum íslenskum tengipunktum. Ákærði kvaðst telja að hann hafi haft um 400 GB af efni á nokkrum tölvum heima hjá sér með deiliaðgangi að. Tölvurnar á heimili ákærða hafi verið nettengdar saman. Mest af efninu hafi verið á svokölluðum ,,server“, en í þeirri tölvu hafi verið fjórir harðir diskar. Hafi ákærði stillt aðgengi að því efni sem hann hafi deilt með öðrum í forritinu sjálfu. Fyrst hafi hann sett upp möppur á hörðum diskum með deiliaðgangi að og síðan stillt DC++ þannig að notendur á tengipunktinum hafi haft aðgang að þessum möppum og gætu sótt sér þar skrár. Ákærði hafi haft til deilingar aðallega sjónvarpsþætti, kvikmyndir og tónlist. Þá hafi eitthvað af leikjum verið þar einnig. Kvikmyndir hafi verið af öllum gerðum bæði gamlar og nýjar. Ákærði kvaðst ekki geta útskýrt tengsl sín við aðra meðlimi í hópnum. Spjallrás hafi verið inni á þessu svæði og hann stundum stundað hana. Ákærði kvaðst engu hafa stjórnað á svæðinu, heldur mest sótt þangað efni. Ákærði kvaðst ekki vita hvernig nýir meðlimir í hópinn væru valdir. Þeir hafi sennilega verið valdir af stjórnendum tengipunktsins. Er borin voru undir ákærða kenninöfn af DCI kvaðst ákærði kannast við flest þeirra, en ekki vita hvaða einstaklingar stæðu að baki þeim.

            Ákærði var á ný yfirheyrður af lögreglu 30. janúar 2007. Kvaðst ákærði þá viðurkenna að hafa vistað höfundarréttarvarið efni á sérstaklega skilgreindu svæði í tölvu sinni og gert það aðgengilegt fyrir utanaðkomandi aðila. Ákærði kvaðst ekki gera sér grein fyrir hversu mikið efni hann hafi sótt í gegnum nettengipunktinn Ásgarð, en kvað tölvu hans þó endurspegla það. Þá voru ákærða kynntar niðurstöður rannsóknar lögreglu um tölvubúnað ákærða. Kvaðst hann ekki hafa athugasemdir við niðurstöður rannsóknarinnar um að á tímabilinu 29. maí til 28. september 2004 hafi komið í ljós 128 tengingar ákærða við nettengipunktinn. Þá kvaðst ákærði ekki draga í efa niðurstöður rannsóknarinnar um flokkun á efni og fjölda titla. Ákærði kvaðst kannast við reglur um Ásgarð. Þær hafi birst þegar viðkomandi hafi ,,loggað“ sig inn á nettengipunktinn. Kvaðst ákærði telja að viðkomandi hafi verið hent út ef þeir hafi ekki virt þessar reglur. Þá kvaðst ákærði kannast við að hafa séð skjal þar sem farið hafi verið fram á framlög vegna kaupa á vélbúnaði fyrir Ásgarð. Ekki hafi ákærði lagt fé til þeirra kaupa. Kvaðst ákærði í lokin vilja taka fram að það sem hann hafi gert hafi verið rangt. Hafi hann séð eftir þessu og á þeim tíma sem hann hafi framkvæmt þessa hluti ekki gert sér grein fyrir að hann væri hugsanlega að gera eitthvað ólöglegt.

            Við þingfestingu málsins fyrir dómi var bókað eftir ákærða í þingbók að ákærði viðurkenndi að hafa hlaðið niður efni það sem vistað var á hörðum disk í tölvu hans og listað er upp í ákæru og að hafa veitt meðlimum Direct Connect jafningjanets aðgang að þessu sama efni með þeim hætti sem lýst er í ákæru. Ákærði neitaði því hins vegar að hafa með þessu gert ólögmæt eintök af höfundaréttarvörðu efni eða að hafa með öðrum hætti brotið gegn ákvæðum höfundarlaga. Með hliðsjón af þessu neitaði ákærði sök. Ákærði kom ekki fyrir dóm við aðalmeðferð málsins. Gerði verjandi ákærða grein fyrir því að hann hafi sagt ákærða að ákærði þyrfti ekki að mæta við aðalmeðferðina frekar en hann sjálfur kysi og að hann hefði rétt til þess í ljósi þess að hann þyrfti ekki að tjá sig neitt fyrir dómi.

            Guðrún Hólmsteinsdóttir staðfesti kæru í málinu fyrir hönd Business Softwere Alliance frá 17. mars 2003 og Gunnar Guðmundsson og Snæbjörn Steingrímsson staðfestu kærur frá 2. febrúar 2004 fyrir hönd Samtaka myndefnisútgefenda á Íslandi, Framleiðendafélagið-SÍK, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar og Samband hljómplötuframleiðenda. Gerðu þau grein fyrir einstökum atriðum varðandi kæruefnið. Í framburði Guðrúnar kom fram að samtökin Business Softwere Alliance hefðu m.a. að starfi að gæta að því að ekki væri verið að nota tölvuforrit ólöglega með því að tilskilin leyfi væru ekki til staðar. Í rannsóknargögnum málsins lægi frammi staðfesting á bls. 32 að þau tölvuforrit er ákært væri vegna í málinu væru forrit er tilheyrðu kærendum og að ekki hafi verið heimilt að dreifa þeim forritum á Internetinu án endurgjalds. Gunnar Guðmundsson kvað allar  þær kvikmyndir sem dreift væri á Internetinu vera í dreifingu án leyfis höfundar. Sama ætti við um alla tónlist sem dreift væri á Internetinu. Upphaf málsins hafi mátt rekja til þess að Ásgeir Ásgeirsson hafi sett sig í samband við kærendur og gert þeim grein fyrir því að verið væri að dreifa efni ólöglega á Internetinu. Kærendur hafi þurft ítarlegar upplýsingar um brotastarfsemina áður en hægt hafi verið að leggja kæru fram. Hafi því verið farin sama leið og farin hafi verið í öðrum löndum að fá tiltekinn einstakling til að gerast hluti af þeim hópi sem væri í ólöglegri dreifingu í þeim tilgangi að safna upplýsingum um brotastarfsemina. Þegar nokkuð ítarlegar upplýsingar lægju síðan fyrir væri málið látið í hendur lögreglu. Þessi brotastarfsemi væri slíks eðlis að þessi aðferð væri sú eina sem einhverjum árangri hafi skilað í nágrannalöndum. Í þeim tilgangi að afla upplýsinga um starfsemina hafi Ásgeiri verið veitt heimild frá rétthöfum til að hafa höfundarréttararið efni inni á tölvubúnaði sínum. Heimildin hafi verið bundin við Ásgeir persónulega og því áframhaldandi dreifing ekki heimiluð. Að mati kærenda hafi Ásgeir ekki verið tálbeita. Hann hafi einfaldlega verið fenginn til að kanna hvaða efni hafi verið í dreifingu á Internetinu. Það efni sem hann hafi sjálfur verið með hafi verið mjög lítið í samanburði við það sem aðrir hafi verið að dreifa. Kærendur hafi aðstoðað Ásgeir við að koma tölvubúnaði upp vegna rannsóknarinnar. Ekki væri rétt sem haldið væri fram að Ásgeir hafi verið með öflugari tölvubúnað til dreifingar en aðrir á Internetinu. Snæbjörn Steingrímsson gerði grein fyrir því að aldrei væri framleiddu kvikmyndaefni dreift án endurgjalds á Internetinu. Á þeim tíma sem jafningjahópurinn hafi verið að dreifa efni á milli sín hafi engir framleiðendur í Bandaríkjunum verið að gera það. Ásgeir Ásgeirsson hafi haft heimild rétthafa til að hafa réttarvarið efni á tölvu sinni, en um það hafi verið gerður samningur. Heimildin hafi hins vegar verið takmörkuð við Ásgeir einann. Engir áframhaldandi samningar hafi verið í gangi sem veitt hafi öðrum heimild til að dreifa því efni áfram. Kvaðst Snæbjörn staðfesta er fram kæmi í kæru að það efni sem dreift hafi verið á nettengipunktinum Ásgarði hafi verið dreift án heimildar rétthafa. Ef rétthafar í Bandaríkjunum hefðu veitt slíkt leyfi til dreifingar hefðu umboðsmenn hér á landi í öllum tilvikum verið látnir vita af því. 

            Þorgeir Ólafsson kvað ákærða Bjarka Magnússon hafa hýst nettengipunktinn fyrir Ásgarð. Þorgeir hafi sjálfur í stuttan tíma, eða í 2 mánuði, hýst þennan tengipunkt fyrir ákærða Bjarka, á meðan tölvubúnaður Bjarka hafi verið bilaður. Kvaðst Þorgeir ekki hafa komið neitt að stofnun þessa tengipunkts á sínum tíma en snemma byrjað í þeim hópi sem hafi verið í kringum tengipunktinn. Hafi Þorgeir meira fylgst með hópnum. Hafi Þorgeir þó getað hent fólki út úr hópnum ef viðkomandi einstaklingar voru að ,,rífa kjaft“. Kvaðst Þorgeir reikna með að ákærði Bjarki hafi stjórnað aðgangi að þeim hópi sem hafi verið á Ásgarði. Þorgeir kvaðst örugglega hafa séð þær reglur er giltu um Ásgarð. Ekki hafi Þorgeir verið með efni hjá sér inni á Ásgarði sem aðrir hafi getað sótt. Hafi Þorgeir átt þess kost að hala niður efni frá öðrum en hann hafi ekki nýtt sér það. 

            Ásgeir Ásgeirsson kvað upphaf málsins vera það að hann hafi farið inn á nettengipunkt og séð að mikið af efni hafi verið dreift á milli einstaklinga í gegnum jafningjanet. Hafi Ásgeir séð að um ólöglega dreifingu efnis væri að ræða. Hafi hann í framhaldi sett sig í samband við samtök rétthafa af efni og gert þeim grein fyrir stöðunni. Þessi samtök hafi gert samning við Ásgeir um að Ásgeir myndi afla upplýsinga fyrir samtökin með því að vera hluti af þeim hópi sem þarna væri inni. Hafi verið undirritað samkomulag af þessu tilefni. Hafi samkomulagið m.a. gengið út á að Ásgeir hefði heimild rétthafa til að hafa efni inni á nettengipunktinum. Á þessum grundvelli hafi Ásgeiri verið boðið að koma inn á nettengipunktinn Ásgarð og hafi hann gerst meðlimur í hópi einstaklinga sem verið hafi þar inni. Um nettengipunktinn hafi gilt ákveðnar reglur sem komið hafi upp þegar farið hafi verið inn á tengipunktinn. Ákveðin leynd hafi hvílt yfir þessum punkti til að þeir sem hafi verið inni á stóra nettengipunktinum væru ekki að reyna að fara þarna inn. Reglur um Ásgarð hafi gert kröfu um að þeir sem væri á punktinum þyrftu að hafa 50 GB af efni til að deila með öðrum. Hafi Ásgeir mest farið í 100 GB af efni. Hafi að mestu verið um eldra efni að ræða. Töluvert af efni hafi verið sótt til Ásgeirs í gegnum tengipunktinn. Þá hafi Ásgeir orðið að sækja efni sjálfur til að þeir sem væru inni á punktinum sæju að hann væri raunverulegur meðlimur í hópnum. Mikið af efni hafi verið í dreifingu og hafi m.a. komist í dreifingu hjá öðrum efni sem ekki hafi verið búið að gefa út. Almennt hafi þeir einstaklingar verið vinsælastir sem hafi verið með nýjasta efnið. Ásgeir hafi ekki verið með mikið af því. Ekki hafi Ásgeir gert neitt til að lokka aðra að efni hjá sér. Hafi hann búið til síu til að sjá hvaða efni færi út. Á þessum tíma hafi Ásgeir verið með 2 MB tengingu. Það hafi verið ein af kraftminnstu tengingunum. Hann hafi hins vegar látið líta svo út að hann væri með 10 til 20 MB tengingu og hafi hann gert það með því að takmarka aðgang. Inni á nettengipunktinum hafi verið allt að 100 MB tengingar sem hafi augljóslega verið fyrirtækjatengingar. Jafningjahópurinn hafi verið nánast sítengdur eða nærri 98%. Hópurinn hafi verið stöðugt inni. Ásgeir hafi verið með heimild frá rétthöfum varðandi tónlist og kvikmyndir til að hafa efni inni. Rétthafar varðandi tölvuforrit hafi ekki viljað taka þátt í þessari upplýsingaleit. Samkomulagið við rétthafana hafi gengið út á að hann hafi getað veitt öðrum aðgang að efni. 

            Lögreglumennirnir Sveinn Bjarki Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður og Jón Lárusson lögreglufulltrúi staðfestu þátt sinn í rannsókn málsins og skýrðu einstök atriði varðandi rannsóknina. Sveinn Bjarki kvaðst á þeim tíma er rannsókn málsins hafi verið í gangi hafa starfað í tölvurannsókna- og rafeindadeild lögreglunnar í Reykjavík. Hafi hann haft reynslu af tölvurannsóknum og menntað sig sérstaklega á þeim vettvangi. Staðfesti Sveinn skýrslu um talningu og flokkun stafrænna gagna á skjali merkt II/2 í rannsóknargögnum lögreglu á bls. 57. Þegar búið hafi verið að taka afrit af öllum gögnum á haldlögðum tölvum hafi lögregla haft í höndum 14 TB af gögnum. Í framhaldi hafi þau gögn verið flokkuð sem hafi verið höfundarréttarvarin. Öllum vafaatriðum hafi verið sleppt í flokkun lögreglu og talsvert af efni hent út á þeim forsendum. Öllum hljóðbókum hafi verið sleppt. Ef til staðar gat verið heimild höfundar fyrir dreifingu efnis hafi því tilviki verið sleppt. Talsvert hafi verið um að í upphafi mynda hafi verið viðvaranir vegna brota á höfundarrétti. Í öðrum tilvikum hafi hugbúnaður með forrit verið til staðar til að brjóta læsingu af efni. Í þeim tilvikum hafi verið öruggt að um höfundarréttarvarið efni væri að ræða. Til aðstoðar hafi lögregla notað forrit sem auðveldað hafi verkið. Viðkomandi forrit hafi tekið mynd af diski hverrar og einnar tölvu en ekki snert innihaldið sjálft. Síðan hafi forritið raðað gögnum upp. Engu að síður hafi þurft að vinna allt meira og minna handvirkt með því að opna allar skrár og skoða þær. Teknar hafi verið stikkprufur af tónlist. Allar kvikmyndir og sjónvarpsþættir hafi verið skoðað. Þannig hafi verið horft á brot af öllu efni. Við flokkun hafi hver mynd einungis einu sinni verið talin þó svo hún hafi verið á fleiri stöðum en einum í sömu tölvunni undir sitthvorri skránni. Öll þessi flokkun hafi verið gríðarlega umfangsmikið verk og tímafrekt. Á þessum tíma hafi 14 TB af efni þótt mjög mikið efni. Fjórir lögreglumenn hafi unnið að þessari flokkun og setið við í marga mánuði. Jón Lárusson kvaðst hafa verið lögreglufulltrúi í efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra er unnið hafi verið að rannsókn málsins. Hafi Jón verið með sérþekkingu á rannsókn tölvubúnaðar og sótt námskeið bæði hjá lögreglu í Noregi sem og hjá Interpool í þeim tilgangi. Eftir að lögregla hafi verið búin að haldleggja tölvubúnað hjá sakborningum hafi Jón haft með höndum að ræsa tölvurnar upp. Allt efni í tölvunum hafi verið vistað í möppum. Forritið DC++ hafi síðan skilgreint hvaða möppur ættu að vera aðgengilegar í hverri og einni tölvu. Haldlagt efni sem hafi tengst DC++ hafi verið afritað yfir á harða diska. Ekkert annað efni hafi verið afritað. Hafi verið rituð skýrsla um innihald hverrar og einnar tölvu. Við upphaf rannsóknarinnar hafi einn miðlægur nettengipunktur verið notaður í samskiptum einstaklinga á milli. Ákveðin IP tala hafi verið slegin inn. Þessar IP tölur hafi verið raktar í ákveðin hús. Þannig hafi rannsókn verið unnin. Öll rannsókn málsins hafi verið mjög tímafrek. Húsleit hafi farið fram 28. september 2004. Eftir að gögn hafi verið komin í hús hafi lögreglumenn velt fyrir sér hvernig best væri að haga framhaldinu miðað við skoðun gagnanna. Gögnin hafi síðan verið sett yfir á 14 harða diska. Alls konar vandamál hafi komið upp við afritun hverrar tölvu. Sumar tölvurnar hafi verið með mjög hæga tengingu og stundum þurft að endurtaka afritun á einstaka tölvu. Margt hafi komið upp á. Tekið hafi 8 mánuði að koma þessum gögnum yfir á harða diska. Á tímabili hafi Jón verið einn við þessi verk. Þann 14. mars 2006 hafi gögnin verið send til lögreglunnar í Reykjavík til flokkunar. Jón hafi þó verið búinn að skila skýrslu sinni 19. maí 2005 varðandi rannsóknina. Ekki viti Jón hvað valdi þessum drætti á að gögnin færu til lögreglunnar í Reykjavík.

 

            Niðurstaða:

            Ákæra í máli þessu fullnægir áskilnaði laga nr. 19/1991. Með vísan til 1. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1972 er í ákærunni nægjanlega tilgreint þau höfundaréttarvörðu verk sem ákærðu er gefið að sök að hafa birt opinberlega á veraldarvefnum án leyfis rétthafa. Verður um nefnda 8. gr. laga nr. 73/1972 fjallað frekar hér á eftir.

            Í ljósi rannsóknargagna málsins, framburða ákærðu hjá lögreglu og fyrir dómi og yfirlýsingar þeirra við þingfestingu málsins telur dómurinn unnt að leggja til grundvallar niðurstöðu þessi atvik málsins. Ákærði Bjarki Magnússon hafði á sínum tíma veg og vanda að því að setja á laggirnar nettengipunktinn Ásgarð á vefsvæðinu dci.is. Hýsti ákærði vefinn með þeim hætti að einungis var unnt að gera breytingar á nettengipunktinn úr tölvu ákærða frá heimili hans að Rauðarárstíg 32 í Reykjavík. Nettengipunktur þessi var einungis aðgengilegur meðlimum Direct Connect jafningjanets sem í voru kringum 100 einstaklingar. Ákærðu höfðu flestir verið inni á nettengipunktinum Valhöll er þeim var boðið að koma inn á nettengipunktinn Ásgarð í ljósi þess magns efnis er ákærðu höfðu í tölvum sínum. Í gegnum DC++ forritið veittu ákærðu öðrum meðlimum þessa jafningjahóps aðgang að tölvum sínum þannig að aðrir gátu óhindrað nálgast efni úr tölvum ákærðu. Höfðu ákærðu gengið þannig frá efni á tölvum sínum að forritið DC++ veiti einungis aðgang að því efni er ákærðu höfðu tekið ákvörðun um að þeir væru reiðubúnir að veita öðrum aðgang að. Það efni er um ræðir voru kvikmyndir, sjónvarpsþættir, tónlist, tónlistarmyndbönd og tölvuforrit.   

            Samkvæmt ákæruskjali eru brot ákærðu að því er varðar brot gegn rétti höfundar talin varða við 3. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, sbr. 2. mgr. 54. gr. og 61. gr. a. laganna, með síðari breytingum öðrum en lögum frá árinu 2006 og auglýsingu um inngöngu Íslands í Bernarsambandið. Að því er varði brot ákærðu gegn rétti listflytjenda eru þau talin varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. laga nr. 73/1972, sbr. 4. tl. 2. mgr. 54. gr. og 61. gr. a. laganna, með síðari breytingum öðrum en lögum frá árinu 2006. Að því er varðar brot ákærðu gagnvart rétti myndrita- og hljómplötuframleiðenda eru brotin talin varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 46. gr. laga nr. 73/1972, sbr. 5. tl. 2. mgr. 54. gr. og 61. gr. a. laganna, með síðari breytingum öðrum en lögum frá árinu 2006. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 73/1972 hefur höfundur einkarétt til að gera eintök af verki sínu og til að birta það í upphaflegri mynd eða breyta, í þýðingu eða öðrum aðlögunum. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laganna hefur listflytjandi einkarétt til eintakagerðar af listflutningi sínum og hvers konar dreifingu til almennings, sbr. þó ákvæði 47. gr. Samkvæmt því eru óheimilar án hans samþykkis m.a. þær aðgerðir sem taldar eru upp í liðum 1. til 4. í ákvæðinu. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins um upptöku, eftirgerð og dreifingu listflutnings, sem um getur í 1. mgr. ákvæðisins, fer eftir sem áður um tilgreind ákvæði höfundalaga. Loks er óheimil samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 73/1972 eftirgerð og hvers kyns dreifing til almennings á myndritum og hljóðritum, þar á meðal hljómplötum, án samþykkis framleiðenda uns liðin eru 50 ár frá næstu áramótum eftir að frumupptaka var framkvæmd. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal eftir sem áður beita ákvæðum tilgreindra ákvæða laga nr. 73/1972.

            Samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum laga nr. 73/1972 er það skilyrði samkvæmt lögunum að þau verk sem um ræðir njóti réttarverndar, hvort sem er höfunda, listflytjenda eða myndrita- og hljómplötuframleiðenda. Þau verk sem hér er ákært fyrir eru innlendar og erlendar kvikmyndir, innlendir og erlendir sjónvarpsþættir, tónlistarmyndbönd, innlend og erlend tónlist, teiknimyndir og innlend og erlend forrit. Er fyrst til úrlausnar hvort þau verk sem ákært er hér fyrir njóti réttarverndar samkvæmt lögum nr. 73/1972.

            Samkvæmt 1. gr. laga nr. 73/1972 á höfundur að bókmenntaverki eða listaverki eignarrétt með þeim takmörkunum sem í lögunum greinir. Til bókmennta og lista telst samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins m.a. tónsmíðar, myndlist og kvikmyndir. Þá skulu samkvæmt 3. mgr. njóta verndar með sama hætti og bókmenntaverk m.a. teikningar. Samkvæmt 4. mgr. ákvæðisins skulu tölvuforrit einnig falla undir þetta gildissvið.

            Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1972 telst höfundur verks sá uns annað reynist sem nafngreindur er á eintökum þess með venjulegum hætti eða er lýstur höfundur þegar verk er birt. Er með þessu kveðið á um löglíkur fyrir því hver sé höfundur verks þegar nafngreining hefur farið fram á eintökum þess eða við birtingu. Var ákvæðið sett höfundi í hag þar sem tekið er af honum ómak að sanna höfundarétt sinn hverju sinni. Þá er kveðið á um í niðurlagi 1. mgr. 8. gr. laganna að þá skyldi einnig í þeim tilvikum þegar verulegur og samfelldur flutningur verka eða umfangsmikil fjölföldun eða útleiga hefði átt sér stað talið að flutt hafi verið, leigð út eða fjölfölduð verk sem vernduð eru af höfundalögum nema annað verði leitt í ljós. Í athugasemdum við frumvarpi til laga nr. 57/1992, um breyting á 8. gr. laga nr. 73/1972, sagði að til að auðvelda enn frekar og greiða fyrir framkvæmd höfundaréttar væri nú lagt til að þeim aðilum, sem flytja eða dreifa verkum í verulegu magni, beri að sýna fram á að ekki hafi verið miðlað verkum sem vernduð væru af höfundalögum. Reynslan sýni að oft og tíðum geti það verið mjög fyrirhafnarmikið og þá ekki síður kostnaðarsamt fyrir höfunda eða samtök þeirra að sannreyna hvort vernduð verk hafi verið flutt og þá í hve ríkum mæli. Sé eðlilegt að þeir aðilar, sem stundi og hafi atvinnu af slíkri miðlun, þurfi að sanna heimildir sínar í þessu efni, enda séu raunlíkur fyrir því að einvörðungu óvernduðu efni sé miðlað þegar um umfangsmikla dreifingu er að ræða næstum hverfandi. Á þessar breytingar sé megináhersla lögð hjá þeim höfundaréttarsamtökum sem fari með réttargæslu í slíkum tilvikum í umboði höfunda. Í máli þessu liggur fyrir kæra höfundaréttarsamtaka sem taka til innlendra og erlendra kvikmynda, innlendra og erlendra sjónvarpsþátta, tónlistarmyndbanda, innlendra og erlendra tónlistar og teiknimynda. Þá liggur jafnframt fyrir kæra höfundaréttarsamtaka innlendra og erlendra forrita. Hafa fulltrúar þessara samtaka auk þess staðfest fyrir dómi að í engum tilvikum hafi höfundar eða aðrir rétthafar heimilað að framangreindu efni væri dreift án endurgjalds á Internetinu í gegnum nettengipunktinn Ásgarð. Þá er til þess að líta að með bréfi Business Software Alliance liggur fyrir staðfesting þess efnis að öll forrit sem ákært er vegna séu háð höfundarétti og að höfundar hafi ekki veitt ákærðu leyfi til að dreifa þessum tölvuforritum án endurgjalds á Internetinu. Ákærðu hafa lýst yfir að þeir hafi ekki aflað sér leyfis höfunda þegar þeir hafi gert efni aðgengilegt fyrir jafningjahópinn Direct Connect á tölvum sínum. Þegar þessi atriði eru virt er það niðurstaða dómsins að allt það efni sem ákært er vegna njóti verndar samkvæmt lögum nr. 73/1972.

            Svo sem áður er rakið hefur höfundur samkvæmt 3. gr. laga nr. 73/1972 einkarétt til að gera eintök af verki og til að birta það. Með sama hætti hefur listflytjandi einkarétt til eintakagerðar af listflutningi sínum samkvæmt 45. gr. og samkvæmt 46. gr. er óheimil eftirgerð og hvers kyns dreifing til almennings á myndritum og hljóðritum. Verður næst fyrir að leysa úr hvort það framferði ákærðu að veita öðrum einstaklingum í Direct Connect á Íslandi aðgang að efni á afmörkuðu svæði í tölvum sínum teljist vera ólögmæt eintakagerð í skilningi laga nr. 73/1972. Skilgreining á því hvað telst vera eintakagerð er að finna í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 73/1972. Í ákvæðinu kemur fram að það sé eintakagerð þegar hugverk, bókmenntaverk eða listaverk, sé tengt hlutum, einum eða fleiri. Í II. kafla laga nr. 73/1972 er kveðið á um tilteknar takmarkanir á höfundarétti. Eins og ákvæði 1. mgr. 11. gr. laganna hljóðaði á þeim tíma er ákærðu veittu öðrum aðgang að efni á tölvum sínum kvað það á um að heimilt væri að gera eintök af birtu verki til einkanota eingöngu. Enginn mætti þó gera eða láta gera fleiri en þrjú slík eintök til notkunar í atvinnu sinni. Svo sem ákvæði þetta var skýrt var talið að eintakagerðin næði til eintakagerðar í eigin þágu og fyrir aðra einstaklinga sem eftirgerðarmaðurinn væri í persónulegu sambandi við, þ.e. fyrir fjölskyldu, vini, kunningja og jafnvel nána starfsfélaga. Varnir ákærðu lúta m.a. að því að einstaklingar í Direct Connect jafningjahópnum hafi verið svokallaðir netkunningjar og að þeim hafi verið heimilt að veita hvor öðrum aðgang að efni hjá sér í skjóli þeirrar takmörkunar er fram komi í 11. gr. laga nr. 73/1972. Við mat á þessu atriði er óhjákvæmilegt annað en að líta til þess umhverfis er ákærðu höfðu skapað sér. Svo sem rakið var í upphafi liggur fyrir að aðdragandi þess að stofnaður var jafningjahópur í kringum nettengipunktinn Ásgarð var að áður höfðu flestir þessara einstaklinga verið inni á öðrum tengipunkti sem bar nafnið Valhöll. Þegar í ljós kom að einstaklingar hefðu talsvert magn af efni til að deila með öðrum var þeim boðið í þann hóp sem tengdur var við nettengipunktinn Ásgarð. Sá hópur er þar var inni var talsvert fámennari og taldi ríflega 100 einstaklinga að jafnaði, en þeir gátu verið fleiri á tímabilum og færri á öðrum. Þessir einstaklingar þekktu ekki hvorn annan í þeim skilningi að þeir þekktu ekki þær persónur er voru að baki kenninöfnum er hver og einn bar. Sumir höfðu enga hitt í eigin persónu en aðrir í sára fáum tilvikum og þá jafnvel fyrir tilviljun. Þessir einstaklingar áttu það eitt sameiginlegt að þeir höfðu áhuga á tónlist, kvikmyndum, forritum o.þ.h. og vörðu miklum tíma á Internetinu, sem varð nánast þeirra samastaður. Aðild að þessum nettengipunkti fylgdi sú kvöð að notendur urðu að vera virkir á tengipunktinum í sem mestum mæli til að aðrir í hópnum gætu sótt til þeirra gögn. Þá urðu þeir eins og áður sagði að hafa umtalsvert magn af efni í boði fyrir aðra að sækja í. Það magn af gögnum er lögregla lagði hald á í tölvum ákærðu nam í heildina 14 TB sem var gríðarlegt magn gagna. Þegar fjöldi þeirra mynda, tónlistar og annars er ákærðu höfðu í boði er skoðað og tillit er tekið til þeirra fábreyttu tengsla er voru á milli ákærðu er það niðurstaða dómsins að ákærðu hafi farið út fyrir þá heimild er 11. gr. laga nr. 73/1972 veitti einstaklingum til eintakagerðar til einkanota. 

            Hugtakið birting í lögum nr. 73/1972 er skilgreint í 3. mgr. 2. gr. laganna. Telst verk birt þegar það er flutt opinberlega, sýnt opinberlega eða gefið út og dreift, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Það er birting í skilningi laga nr. 73/1972 að setja höfundaréttarverndað efni á Internetið þannig að aðrir geti nálgast það. Við mat á því hvort ákærðu hafi birt efni það er þeir höfðu vistað á tölvum sínum opinberlega er lagt til grundvallar að ákærðu veittu öðrum aðgang að skrám sínum í gegnum Internetið. Þrátt fyrir að aðgangur að jafningjahópnum Direct Connect á Íslandi, sem hafði aðgang að nettengipunktinum Ásgarði, hafi verið háður þeirri takmörkun að viðkomandi hafi þurft að hafa aðgangsorð og leyniorð til að komast inn á punktinn verður að telja að aðgangur að hópnum hafi samt sem áður verið greiður. Þrátt fyrir að ákærðu staðhæfi að þeir hafi einungis verið að bjóða öðrum að sækja efni til sín verður ekki fram hjá því litið að þeir höfðu gert efnið aðgengilegt og afmarkað það þannig að einstaklingar hefðu ekki frjálsan aðgang að öllum skrám í tölvum ákærðu. Er fólgið í eðli þessa jafningjanets að aðilar eru þar í reynd að deilda með sér ákveðnu efni, en þessu framferði hefur á ensku verið gefið orðið ,,to share“, sem lýsir háttseminni einkar vel. Er þessi háttsemi miðlun á efni sem jafngildir opinberri birtingu í skilningi laga nr. 73/1972.

            Varnir ákærðu lúta einnig að því að tiltekinn einstaklingur á Internetinu hafi verið nokkurs konar tálbeita, en hann hafi miðlað gríðarlega miklu af efni fyrir aðra til að hlaða niður. Fram er komið að kærendur gerðu samkomulag við Ásgeir Ásgeirsson um að Ásgeir myndi komast í samband við einstaklinga á jafningjanetinu Direct Connect á Íslandi til að afla upplýsinga um brotastarfsemi þeirra einstaklinga. Ásgeir hafði leyfi rétthafa til að hafa efni á tölvu sinni sem var höfundaréttarvarið. Stuðlaði Ásgeir ekki sérstaklega að því að ákærðu fremdu brot gegn höfundalögum þar sem þeim var heimilt að sækja efni til Ásgeirs, en ekki að gefa öðrum færi á að sækja sér það efni til þeirra.

            Með vísan til alls framanritaðs er það niðurstaða dómsins að ákærðu hafi gerst sekir um þá háttsemi er í I. kafla ákæru greinir og er háttsemi þeirra þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

 

            II. kafli ákæru

            Ákærða Bjarka er í II. kafla ákæru gefið að sök hlutdeild í brotum meðákærðu með því að hafa á árunum 2003 og 2004 á heimili sínu að Rauðarárstíg 32 í Reykjavík viðhaldið Direct Connect jafningjaneti með því að setja upp og hýsa miðlægan nettengipunkt sem gekk undir nafninu Ásgarður og að hafa með því liðsinnt í verki og hvatt til þess að meðákærðu birtu á veraldarvefnum ólögmæt eintök af höfundaréttarvörðu efni, án heimildar frá rétthöfum. Nettengipunktinum hafi verið haldið uppi í þeim tilgangi að skiptast á höfundaréttarvörðu efni en án hans hafi meðákærðu ekki reynst unnt að birta höfundaréttarvarið efnið með þeim hætti er þeir gerðu samkvæmt I. kafla ákæru.     

            Ákærðu hafa hér að framan verið sakfelldir fyrir brot á höfundalögum með því að hafa á árunum 2003 og 2004 gert ólögmæt eintök af höfundaréttarvernduðu efni sem þeir hafi vistað á nettengdum tölvum sínum og birt fyrir hópi fólks á veraldarvefnum í gegnum miðlægan nettengipunkt, án heimildar frá rétthöfum. Ákærði hefur viðurkennt að hafa stofnað nettengipunktinn Ásgarð og að hafa vistað punktinn í gegnum tölvu á heimili sínu að Rauðarárstíg 32 í Reykjavík. Ákærði hefur sjálfur verið sakfelldur samkvæmt I. kafla ákæru. Er ljóst að brot annarra ákærðu hefðu ekki verið fullframin í þeirri mynd er þau voru framin án þess að hlutskipti ákærða kæmi til. Brot ákærðu hvers um sig eru sjálfstæð brot. Af því leiðir að ákærði er hlutdeildarmaður í broti annarra ákærðu samkvæmt I. kafla ákæru en sjálfs sín. Verður hann því sakfelldur samkvæmt II. kafla ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða. 

            Brot ákærðu voru framin á árunum 2003 og 2004 allt þar til brotahrinunni lauk með húsleit lögreglu 28. september 2004. Rannsókn málsins lauk og ákæra var gefin út 31. október 2007. Samkvæmt 2. mgr. 54. gr. laga nr. 73/1972 varðar brot gegn ákvæðum laganna sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Brot gegn lögunum fyrnast á 5 árum samkvæmt 2. tl. 81. gr. laga nr. 19/1940. Voru brot ákærðu ekki fyrnd er ákæra var gefin út.

            Ákærði Bjarki Magnússon er fæddur í mars 1971. Björn Sveinbjörnsson er fæddur í júlí 1975. Jóhannes Páll er fæddur í febrúar 1972. Rúnar Brynjar er fæddur í febrúar 1971. Kristján Gunnar er fæddur í desember 1976. Elmar Freyr er fæddur í janúar 1977. Hefur enginn þessara ákærðu áður gerst sekur um refsivert brot svo kunnugt sé.

            Ákærði Kári Bertilsson er fæddur í mars 1985. Á hann að baki tvö umferðarlagabrot á árinu 2005. Eru þau vegna hraðaksturs og aksturs sviptur ökurétti. Verður höfð hliðsjón af ákvæðum 78. gr. laga nr. 19/1940 við ákvörðun refsingar ákærða, sbr. 77. gr. laganna Ákærði Hilmar Kári er fæddur í janúar 1973. Hann á að baki eitt refsivert brot, sem ekki skiptir máli um ákvörðun refsingar í þessu máli. Loks er ákærði Kveldúlfur Fennri fæddur í september 1979. Á hann einnig að baki eitt refsivert brot, sem ekki skiptir máli um ákvörðun refsingar í þessu máli. 

            Við ákvörðun refsingar ákærðu er litið til þess að brotastarfsemi þeirra stóð yfir í talsvert langan tíma og var umfangsmikil. Ákærðu eru hins vegar ungir að árum og eiga þrír þeirra lítinn en aðrir engan sakaferil að baki. Nokkuð er um liðið síðan rannsókn þessa máls hófst með húsleit lögreglu 28. september 2004. Rannsóknin var þó viðamikil en lögregla þurfti að flokka og rannsaka gríðarlegt magn gagna. Virðist þó sem hlé hafi orðið á rannsókn málsins sem dró hana á langinn. Með hliðsjón af öllu þessu þykir rétt að fresta skilorðsbundið ákvörðun refsingar annarra ákærðu en Bjarka Magnússonar með þeim hætti er í dómsorði er kveðið á um. Ákærði Bjarki Magnússon hefur verið sakfelldur sem aðalmaður í broti og fyrir hlutdeild í brotum meðákærðu. Er litið til þess við ákvörðun refsingar, sem og þess að hann stofnaði nettengipunktinn Ásgarð. Er refsing hans ákveðin fangelsi í 30 daga, sem bundið verður skilorði með þeim hætti er í dómsorði greinir.

            Þess hefur verið krafist að tölvubúnaður í eigu ákærðu sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins verði gerður upptækur með heimild í 1. tl. 1. mgr. 69. gr. laga nr. 19/1940 og 1. mgr. 55. gr. laga nr. 73/1972. Samkvæmt 2. mgr. 69. gr. laga nr. 19/1940 skal hið upptæka vera eign ríkissjóðs, nema annað sé sérstaklega ákveðið í lögum. Er mælt fyrir um í 1. mgr. 55. gr. laga nr. 73/1972 að hafi eintök af verkum verið gerð eða birt almenningi þannig að í bága fari við ákvæði laganna og megi þá ákveða í dómi að eintökin séu þá án endurgjalds upptæk til handa þeim sem misgert sé við. Sama gildi um prentmót, prentsteypu, myndamót og þess háttar muni sem varði undirbúning eða framkvæmd brots eða séu til slíks fallnir. Í máli þessu liggur fyrir gríðarlegt magn eintaka af efni sem gert var þannig að bága fór við ákvæði laga nr. 73/1972. Einnig liggur fyrir talvert mikið magn af tölvubúnaði sem var í eigu ákærðu. Ákvæði laga nr. 73/1972 miða einkum við þá stöðu að það séu einungis hin ólögmætu eintök sem rétt sé að afhenda þeim sem misgert er við. Í þessu tilviki er hið haldlagða nokkuð meira en það. Getur niðurlag 1. mgr. 55. gr. laga nr. 73/1972 átt við um tölvubúnað þennan ef ákvæðið er skýrt með hliðsjón af þeirri framþróun sem orðið hefur frá því lögin tóku gildi. Verður hið haldlagða því allt upptækt gert til kærenda sem misgert var við. Er nánar kveðið á um upptöku þessa í dómsorði.

            Um málsvarnarlaun fer svo sem í dómsorði greinir, en þau eru að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Hefur þá verið tekið tillit til framlagðra tímaskýrslna verjenda og vinnu á rannsóknarstigi málsins.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hrafnhildur M. Gunnarsdóttir fulltrúi ríkislögreglustjóra.

                                                             D ó m s o r ð:

            Ákærði, Bjarki Magnússon, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955

            Frestað er ákvörðun refsingar ákærðu, Björns Sveinbjörnssonar, Jóhannesar Páls Sigurðssonar, Kára Bertilssonar, Hilmars Kára Hallbjörnssonar, Rúnars Brynjars Einarssonar, Kristjáns Gunnars Guðmundssonar, Elmars Freys Elíassonar og Kveldúlfs Fennri N. Árnasonar, og skal hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærðu hver um sig almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940.

            Upptækur er gerður til Samtaka myndefnisútgefenda á Íslandi, Fram­leiðendafélagsins-SÍK, Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar, Sambands hljómplötuframleiðenda og Business Software Alliance tölvubúnaður ákærðu í máli þessu samkvæmt haldlagningarskýrslum lögreglu frá 28. og 29. september 2004.  

            Ákærðu Bjarki Magnússon, Björn Sveinbjörnsson, Jóhannes Páll, Rúnar Brynjar og Kristján Gunnar greiði sameiginlega málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 851.580 krónur.

            Ákærði Kári Bertilsson greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Tómasar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 453.180 krónur.

            Ákærði Hilmar Kári greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Ágústssonar héraðsdómslögmanns, 582.660 krónur.

            Ákærðu Elmar Freyr og Kveldúlfur Fennri greiði sameiginlega málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 709.650 krónur.

 

                                                            Símon Sigvaldason.