• Lykilorð:
  • Galli
  • Verksamningur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember 2012, í máli nr. E-1804/2011:

Húshamrar ehf. og

Múr- og flísaþjónustan ehf.

(Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir hdl.)

gegn

Kjartansgötu 5, húsfélagi

(Halldór Þ. Birgisson hrl.)

 

 

            Mál þetta er höfðað 27. apríl 2011 og dómtekið 5. nóvember sl.

            Stefnendur eru Húshamrar ehf., Naustabryggju 4, Reykjavík og Múr- og flísaþjónustan ehf., Sóltúni 7, Reykjavík.

            Stefndi er húsfélagið Kjartansgötu 5, Reykjavík.

            Stefnendur krefjast þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda, Húshömrum ehf., 1.973.035 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af 702.800 krónum frá 9. ágúst 2010 til 19. ágúst 2010 og af 1.973.035 frá 19. ágúst 2010 til greiðsludags. Stefnendur krefjast þess ennfremur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda, Múr- og flísaþjónustunni ehf., 284.709 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 frá 19. ágúst 2010 til greiðsludags. Þá krefjast stefnendur greiðslu málskostnaðar.

            Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara sýknu að svo stöddu. Þá krefst stefndi greiðslu málskostnaðar.

            Dómendur og málflytjendur gengu á vettvang 5. nóvember 2012.

 

                                                                        I

            Með verksamningi 16. mars 2010, milli Húsfélagsins Kjartansgötu 5 Reykjavík sem verkkaupa og verktakafyrirtækjanna Húshamra ehf. og Múr- og flísaþjónustunnar ehf. tóku stefnendur að sér utanhússviðhald á veðurkápu, þaki, gluggum og hurðum á húsinu að Kjartansgötu 5 í Reykjavík. Skyldi verkið unnið í samræmi við útboðsgögn vegna utanhússviðgerða að Kjartansgötu 5 frá 1. febrúar 2010, útlitsteikningum, tilboði verktaka frá 1. febrúar 2010 ásamt útfylltri tilboðsskrá, íslenskum staðli ÍSR 30 og framlagðri verkáætlun. Þá skyldi verkið unnið með viðurkenndum viðgerðarefnum frá BM-Vallá. Steiningarefni skyldi vera frá Fínpússningu ehf. Samkvæmt 4. gr. verksamningsins skyldu verkkaupi og verktaki koma sér saman um hlutlausan eftirlitsaðila á meðan á verkinu stæði og skyldi hann samkvæmt verksamningnum vera Davíð Karl Andrésson. Skyldu öll samskipti á milli verkkaupa og verktaka fara í gegnum eftirlitsmann á milli verkfunda. Samkvæmt 5. gr. verksamnings var fast tilboð gert í steypuviðgerðir og viðbætur 4.000.000 krónur. Þá skyldi inni í tölunni vera viðbætur, svalir, vinnupallar og aðstaða. Fram kemur að steining á köntum skyldi vera dekkri. Steining á þakkanti væri innifalin. Í samningnum er tekið fram að steining hússins skyldi vera ,,álíka og húsið að Bollagötu 10. Kvarts og 7% hrafntinnulíki. 50% á köntum.“ Um breytingar og viðbætur skyldi fara eftir útboðsgögnum. Samkvæmt 6. gr. verksamningsins skyldi stefndi greiða 8.685.201 krónur fyrir verkið með þeim breytingum sem samningurinn geri ráð fyrir og er sundurliðað hvernig greiðslur skuli fara fram. Sundurliðast upphæðin 8.685.201 krónur á eftirfarandi hátt:

Nr. 2.4.100 Steypuviðgerðir og viðbætur, fast verð frá Múr og flísaþjónustunni ehf.                    4.000.000 krónur.

Nr. 2.4.101  Þak og þakkantur 829.489 krónur.

Nr. 2.4.103  Gluggaviðgerðir og gler 2.633.812 krónur.

Nr. 2.4.104  Hurðir 1.221.900 krónur.

            Samkvæmt 8. gr. samningsins skyldu báðir samningsaðilar leggja fram framkvæmdatryggingu sem skyldi nema 15% af samningsupphæð. Samkvæmt 11. gr. skyldu verkfundir haldnir þegar verk myndi hefjast, þegar múrbroti væri lokið, þegar ísetning glugga væri hafin, þegar ísetning hurða væri hafin og þegar þakvinna væri hálfnuð. Þá skyldi haldinn verkfundur þegar verklok væru að nálgast um endanlegan frágang vinnusvæðisins. Skyldi sérstök úttekt gerð á múrbroti, þegar gluggar væru komnir í og áður en múrað væri að þeim, þegar þak hafi verið blessað og skyldi úttekt gerð á þakkanti þegar vinnupallar væru komnir upp. Eins skyldi úttekt gerð þegar reikningar væru gerðir. Loka úttekt skyldi vera samkvæmt útboðsgögnum. Samkvæmt 12. gr. verksamningsins skyldi verkinu lokið 30. júní 2010 og drægist verklok meira en 4 vikur fram yfir tilsettan tíma skyldi verktaki greiða fésekt sem næmi 25.000 krónum fyrir hvern almanaksdag sem verkið drægist umfram umsamin verklok.

            Samkvæmt tölvupósti frá 3. júní 2010 frá eftirlitsaðila fékk stefndi stefnendur til að vinna fyrir sig aukaverk en meðal annars var um að ræða vinnu samkvæmt tilboði við gafl bílskúrs að fjárhæð 98.000 krónur, þak bílskúrs að fjárhæð 164.000 krónur og vinnu við að glerja glugga í kjallara að fjárhæð 160.000 krónur.

            Eftirlitsmaður samkvæmt verksamningi sendi stefnanda, Múr- og flísaþjónustunni ehf. skeyti 21. júlí 2007 vegna vinnu við Kjartansgötu 5. Í skeytinu kemur fram að skeytið sé sent vegna kvartana sem borist hafi munnlega og með tölvupóstum við bréfum sem eftirlitsmaður hafi sent verksölum 15. og 19. júní  um vanefndir verksala vegna verksamnings frá 16. mars 2010. Sé það skoðun eftirlitsmanns að verkið hafi ekki verið unnið í samræmi við verksamning. Þá sé átt við steiningu hússins. Um það sé vísað til bréfa frá 15. og 19. júlí. Gefinn sé lokafrestur til að hefja lagfæringar eða semja um þær, til 24. júlí 2010. Eftirlitsmaður byggi ákvörðun sína á gr. 20.5 í ÍST 30. 2003. Skuli stöðva allar greiðslur til verksala samkvæmt gr. 20.6 í staðlinum. Á meðal gagna málsins er skjal sem eftirlitsmaður ritar og dagsetur 15. júlí 2010 og er skjalið undirritað af hálfu verksala. Í skjalinu er tekið fram af hálfu eftirlitsmanns að við skoðun 14. júlí 2010 af Orra Þór Bogasyni og eftirlitsmanni á steiningu hússins telji þeir að ekki sé sama steiningarefni notað alsstaðar á húsinu og er vísað til hrafntinnulíkis í því efni. Sé um að ræða hluta austurhliðar, bílskúr, svalahandrið og skyggni við inngang. Sjáist þetta ekki úr fjarlægð en þegar komið sé að húsinu sé þetta áberandi. Sé óskað eftir skriflegri útskýringu verksala á hvort um sé að ræða mismunandi efni, hvers vegna þetta sé svo, hvað sé til ráða og hvort þessi munur verði meira áberandi eftir um 5 ár með tilliti til mengunar. Þá hefur eftirlitsmaður með verksamningi ritað skjal 19. júlí 2010 vegna verksamningsins og hefur skjalið verið móttekið af verksala. Í skjalinu kemur fram að stefndi geri þá kröfu að steining hússins sé samkvæmt verksamningi. Það sem annað efni hafi verið notað skuli endursteina. Skuli steinað miðað við lýsingu í verksamningi. Þeir fletir sem þurfi að laga séu veggur austur við svalir, svalahandrið innan sem utan, undir svölum, veggir þar sem svalahurðir séu, bílskúr, skyggni framan við tröppur að norðan. Steining hússins skuli vera álíka og húsið að Bollagötu 10. Kvars og 7% hrafntinnulíki. 50% á köntum. 

            Þann 11. ágúst 2010 annaðist Nýsköpunarmiðstöð Ísland, að beiðni eftirlitsmanns samkvæmt verksamningi, töku sýna úr steiningu hússins að Kjartansgötu 5. Samkvæmt skýrslu Nýsköpunarmiðstöðvar, sem er ódagsett, kom jarðfræðingur frá stofnuninni að Kjartansgötu 5 þann 11. ágúst 2010 til að skoða steiningu hússins og greina hvort sjáanlegur munur væri á útveggjum hússins. Hafi sýni verið tekin af efni, sem hrunið hafi til jarðar við steininguna, á nokkrum stöðum við bygginguna. Þá kemur fram í skýrslunni að hrafntinna sé glerjað súrt afbrigði líparíts, súrs bergs, sem brotni líkt og flöskubotn í glerflösku. Hrafntinnan sé svört en geti verið með brúnan, gráan og jafnvel grænan lit við þynnstu hluta hans. Í þeim sýnum sem safnað hafi verið saman hafi verið greinilegur munur á dökku steintegundunum tveim. Eitt hafi verið gler en hitt basalt, matt, þétt og fínkristallað. Í sýni úr austurhlið hússins komi fram að jafn mikið af hrafntinnulíki og basalti sé í sýninu. Við skoðun á austurveggjum hússins hafi ekki verið sjáanleg nein hrafntinnulíkiskorn. Hafi einungis verið um mött basaltkorn að ræða. Sjáist það illa á myndum sem teknar hafi verið en við vettvangsskoðun sé þetta greinilegt. Við skoðun á suðurhlið hússins hafi einungis verið um glerkennd eða glansandi korn að ræða. Við vettvangsskoðun hafi það verið greinilegt. Úr sýni úr skjólvegg við aðalinngang hafi verið niðurstaða að um jafnt hlutfall hrafntinnulíkiskorna og basaltkorna hafi verið að ræða. Við skoðun á veggnum hafi verið greinilegt að um blöndun tveggja áferða hafi verið að ræða.   

            Með matsbeiðni 28. september 2011 fór stefndi fram á, með vísan til 61. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að dómkvaddir yrðu tveir og óvilhallir matsmenn til að skoða og meta tilgreind atriði varðandi verksamning aðila. Á dómþingi þann dag voru dómkvaddir til starfans Snorri Páll Snorrason jarðfræðingur og Ragnar Ómarsson byggingafræðingur. Er matsgerð þeirra, sem þeir staðfestu fyrir dómi, frá 8. maí 2012. Voru matsmenn í fyrsta lagi beðnir um að svara þeirri spurningu hvort munur væri á þeim dökku steiningarefnum sem notuð hafi verið við steiningu á Kjartansgötu 5. Í niðurstöðu matsmanna kemur fram að munur sé á þeim dökku steiningarefnum sem notuð hafi verið á útveggjum hússins. Í annan stað voru matsmenn beðnir um að svara því í hverju munurinn væri fólginn. Í niðurstöðu matsmanna kemur fram að munurinn sé fyrst og fremst útlitslegur. Annað efnið sé dekkra og gljáandi með hvössum brúnum en hitt mattara með ávölum brúnum. Hrafntinnulíkið sé stökkt og molni í meðförum. Möttu kornin séu seigari og með meira brotþol. Í þriðja lagi voru matsmenn beðnir um að svara því hvað hvort steiningarefnanna ætti sameiginlegt með hrafntinnu í útliti og áferð. Í niðurstöðu matsmanna kemur fram að hrafntinnulíkið sé álíka dökkt og gljáandi eins og náttúruleg hrafntinna á meðan möttu kornin í steiningunni séu bæði ljósari og mött, enda úr kristölluðu basalti. Í fjórða lagi voru matsmenn beðnir að svara því hvernig hin tvö mismunandi steiningarefni hafi dreifst á húsið og í hvaða hlutföllum. Matsmenn létu frá sér töflu um þetta atriði þar sem fram kemur að tekin hafi verið 10 sýni og tilgreint flatarmál og hlutfall gljáandi sýna og flatarmál og hlutfall mattra sýna. Þá voru matsmenn í fimmta lagi beðnir um að svara því hvort steiningarefnanna líktist meir dökka steiningarefninu að Bollagötu 10 og hversu mikið samanborið við hitt efnið. Í svari matsmanna við spurningunni kemur fram að séu efnin skoðuð í víðsjá sjáist að hrafntinnulíkið á Kjartansgötu 5 sé eins og dökka steiningarefnið að Bollagötu 10 þannig að efnið á Bollagötu 10 geti kallast hrafntinnulíki. Í sjötta lagi voru matsmenn beðnir um að svara því hvað þyrfti að gera til að samskonar áferð næðist á húsinu og væri að Bollagötu 10 með steiningarefni sem líktist hrafntinnu, þannig að sama áferð næðist á öllu húsinu og hvað slíkt myndi kosta. Í svari matsmanna kemur fram að nánast ógerlegt sé að líkja eftir eldri steiningu þannig að ekki verði einhver sjáanlegur munur. Til að ná samskonar áferð og á Bollagötu 10 með einu dökku steiningarefni sem líktist hrafntinnu þyrfti að endursteina alla veggflesti hússins á ný. Heildarkostnaður við framkvæmdina væri metinn á 3.887.000 krónur. Í sjöunda lagi voru matsmenn beðnir um að svara því hvort rennur væru uppsettar í samræmi við byggingarreglugerð og góðan og vandaðan frágang miðað við faglegar kröfur. Niðurstaða matsmanna var að uppsetning þakrennunnar væri ekki í samræmi við vandaðan frágang. Gert hafi verið ráð fyrir að skipta um rennubönd eftir þörfum. Þar sem rífa skyldi tréverk af þakkanti í  útboðsgögnum hefði verið eðlilegra að taka fram í gögnunum að nota skyldi fjarlægðarklossa á þau rennubönd sem þyrfti að skipta um, eða a.m.k. að taka slíkt fram eftir að ákveðið hafi verið að skipta ætti um böndin.

 

                                                                        II

            Stefnendur lýsa því yfir að þeir byggi stefnukröfur sínar á ógreiddum reikningum vegna framkvæmda við húsið að Kjartansgötu 5 í Reykjavík sem og verktryggingu stefnanda, Húshamra ehf., sem stefndi hafi fengið greidda og sé krafist endurgreiðslu á henni. Stefnandi, Húshamrar ehf., byggi kröfu sína á átta reikningum, samtals að fjárhæð 1.270.235 krónur sem sundurliðist þannig:

 

Nr. 272            dags. 5.07.2010           kr.   28.000

Nr. 274            dags. 8.07.2010           kr. 330.647

Nr. 275            dags. 9.07.2010           kr. 199.044

Nr. 276            dags. 9.07.2010           kr. 332.640

Nr. 277            dags. 13.07.2010         kr. 159.180

Nr. 279            dags. 19.07.2010         kr. 150.632

Nr. 283            dags. 19.07.2010         kr.   49.232

Nr. 284            dags. 19.07.2010         kr.   20.860

 

            Til viðbótar vangoldnum reikningum krefjist stefnandi, Húshamrar ehf., að stefndi endurgreiði verktrygginguna sem stefndi hafi gengið í og fengið greidda út af reikningi stefnanda hjá Íslandsbanka að fjárhæð 702.800 krónur. Sé á því byggt að stefnda hafi verið óheimilt að ganga í verktrygginguna og fá hana greidda.

            Stefnandi, Múr og flísaþjónustan ehf., byggi kröfu sína á einum reikningi, sem sé nr. 456 og sé frá 19. júlí 2010 að fjárhæð 284.709 krónur.       

            Stefnendur byggi á því að ofangreindir reikningar séu gefnir út á grundvelli samnings aðila um utanhússviðgerðir við húsið Kjartansgötu 5. Bæði vegna aðal- og aukaverka. Samkvæmt samningnum hafi heildarþóknun til stefnanda átt að verða 8.685.201 krónur með þeim breytingum sem samningurinn gerði ráð fyrir og skyldi samningsupphæðin greidd með ákveðnum hætti og aukaverk við framvísun reiknings. Heildarkostnaður verksins hafi orðið 11.002.400 krónur sem stafað hafi af magntölubreytingum, breytingum og aukaverkum. Sé á því byggt að stefnda beri að greiða ógreidda reikninga. 

            Þegar verkinu hafi lokið hafi athugasemdir verið gerðar af hálfu stefnda um að steiningarefnið, hrafntinnulíkið, væri gallað. Af hálfu stefnenda sé á því byggt að svo sé ekki. Þá hafi einnig verið á það bent að lagfæra þyrfti rennur. Þá komi fram á blaði merkt verkstaða að frágangi lóðar væri ábótavant en salli af steiningunni væri á lóðinni og næði hann inn á næstu lóð. Þá væri eftir að lagfæra hellur undir glugga. Af hálfu stefnenda sé á því byggt að ekki hafi verið hægt að koma rennunum fyrir á annan hátt þar sem rétt uppbygging fyrir rennuböndin sem stefndi hafi lagt til hafi ekki verið til staðar og hafi verkið verið unnið eins og best var á kosið miðað við efni og aðstæður. Þá sé á því byggt að frágangur og þrif hafi verið fullnægjandi enda hafi stefndi samþykkt það. Það skuli tekið fram að stefnendur hafi einnig verið að steina húsið við hliðina á. Þá mun eðli málsins samkvæmt salli hrynja af húsinu í einhvern tíma eftir að steiningu sé lokið. Þá hafi ekki verið hægt að koma hellum fyrir eftir að búið hafi verið að steina húsið og stefnendur aldrei verið beðnir um að vinna það verk eða það innifalið í verkinu. Þá hafi stefndi bent á að steiningarefni vanti á vatnsbretti svefnherbergis á 1. hæð vesturs og undir bílskúrshurð. Hafi stefnendur boðist til að lagfæra það en engin viðbrögð við því orðið, hvorki við bréfi frá 31. október 2010 né tölvupósti frá 24. febrúar 2011. Þá hafi stefnendur hafnað því að of mikið steiningarlím væri á köntum og að það hafi verið innifalið í verksamningi að mála gluggaföls.

                Af hálfu stefnenda sé á því byggt að þó svo gerður hafi verið einn verksamningur um verkið beri hvor fyrir sig ábyrgð á þeim verkþáttum sem hvor hafi unnið en ekki ábyrgð in solidum enda skýr afmörkun á verkþáttum hvors fyrir sig og útgáfu reikninga. Þá komi skýrt fram í verksamningnum að stefnandi, Múr og flísaþjónustan ehf., geri fast tilboð í steiningu hússins. Af hálfu stefnenda sé á því byggt að verkinu hafi lokið um miðjan júlí 2010 og beri stefnda að greiða ógreidda reikninga fyrir verkið. Sé því alfarið hafnað að stefndi eigi kröfur á hendur þeim fyrir greiðslu dagsekta enda verkinu lokið á tilsettum tíma. Engu hafi verið svarað þegar stefnendur hafi boðist til að lagfæra ákveðin atriði og/eða veita afslátt vegna þeirra. Hafi stefndi sýnt af sér stórfellt tómlæti sem hann beri sjálfur ábyrgð á. Þess skuli getið að stefnandi, Múr og flísaþjónustan ehf., sé eftir sem áður tilbúið til að setja steiningarefni á umrætt vatnsbretti sem og undir bílskúrshurð þó svo stefnandi hafi ekki ætlað að setja steiningarefni þar en til þess þurfi stefndi að veita honum heimild til þess.  

            Dráttarvaxtakrafa stefnenda sé byggð á III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Sé dráttarvaxta krafist mánuð eftir útgáfudag reikninga. Þá sé dráttarvaxta krafist á endurgreiðslu á verktryggingu stefnanda, Húshamra ehf., frá þeim degi sem stefndi hafi fengið hana greidda. Um aðild sóknarmegin vísi stefnendur til heimildar í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, um samlagsaðild þar sem kröfurnar séu af sama uppruna, sama atvikalýsing eigi við, þær séu studdar sömu röksemdum og sönnunargögnum.

     Stefnendur vísa máli sínu til stuðnings til reglna samninga- og kröfuréttar. Um dráttarvexti vísa stefnendur til III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Kröfu um málskostnað styðja stefnendur við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggist á lögum nr. 50/1988.

 

 

                                                                        III

            Á því er byggt af hálfu stefnda að það hafi ekki getað farið fram hjá stefnendum að verið væri að setja á húsið mismunandi efni og því sé um ásetningsbrot að ræða. Lögð hafi verið fram sýnishorn af þeim steiningarefnum sem sett hafi verið á húsið. Um sé að ræða vana verktaka og geti slíkt ekki hafa farið fram hjá þeim. Til vara sé á því byggt að um stórfellt gáleysi sé að ræða. Afleiðingar af hvoru sem séu þær að stefnendur verði að bæta úr vegna hins grófa saknæma brots en ella að greiða allan kostnað við að koma eigninni í umsamið horf. Byggt sé á að um gáleysi hafi verið að ræða og almenna skaðabótareglan eigi við bæði varðandi einfalt gáleysi og stórfellt gáleysi, að ekki sé talað um ásetning.

            Með símskeyti 21. júlí 2010 hafi eftirlitsmaður með verkinu, sem aðilar hafi komið sér saman um, úrskurðað á þann veg að verkið væri ekki unnið samkvæmt samningi og hafi hann stöðvað greiðslur fyrir verkið þar til úr yrði bætt. Hafi þetta verið heimilt á grundvelli IST 30 gr. 20.5 og 20.6. Hafi stefnendum borið að hlíta úrlausn eftirlitsmannsins og framkvæma það sem hann hafi lagt til. Í stefnu reyni stefnendur að krafsa í bakkann úr erfiðri stöðu með því að segja að ekki hafi verið samið um hvort efnið yrði glansandi eða matt. Þetta sé rangt. Talað hafi verið um þá áferð sem hafi verið á Bollagötu 10 í Reykjavík en það efni sé glansandi. Auk þess komi fram í samningnum að áferðin skuli alltaf vera söm.

            Kvartað hafi verið yfir frágangi á rennum 14. júlí 2010. Viðgerð á rennuböndum tilheyri verkinu samkvæmt útboðslýsingu. Hins vegar hafi verið gert frávikstilboð sem hægt hafi verið að gera sérstakan reikning fyrir. Verkið hafi hins vegar ekki verið rétt unnið og þurfi að endurvinna það. Aðalvandamálið sé að rennubönd hafi verið söguð sundur og vatnshallinn hafður rangur. Þannig virðist stefnendur hafa gert ráð fyrir því að á Kjartansgötu rynni vatn upp á við. Tekið skuli fram að sömu náttúrulögmál virki þar eins og annars staðar í borginni og þótt víðar væri leitað. Verkið hafi alls ekki verið unnið með fullnægjandi hætti og fullnægjandi árangri og vinnan raunar út í hött. Kvartað hafi verið meðal annars yfir halla á þakrennum í tölvupósti frá 30. júní 2010 og tölvupósti frá 17. ágúst 2010. Um það sé einnig vísað til fundargerðar og athugasemda eftirlitsmanns. Þar komi meðal annars fram að hæsti punkturinn á rennum við norðurhlið sé við niðurfall. Beðið hafi verið um að rennan yrði lárétt á vesturhlið fyrir ofan svalir en síðan hafi rennubönd verið söguð sundur með þeim afleiðingum að rennan halli fram sem sé ótækt.

            Steinsalli hafi verið um alla lóð, hellur rifnar upp og ekki gengið frá þeim aftur en að sjálfsögðu hafi það tilheyrt útboðinu og verksamningum að ganga frá eftir sig. Í stefnu sé því haldið fram að verkinu hafi lokið um miðjan júlí 2010. Það sé ekki rétt.  Þann 17. ágúst 2010 hafi verið gerð athugasemd um að verkinu væri ekki lokið að mati eftirlitsmanns.  Um verklok vísist m.a. til dskj. nr. 11 og dskj. nr. 17 sem leitt hafi til þess að boðað hafi verið til lokaúttektar. Lokaúttekt hafi farið fram eftir verklok og þá komið í ljós að verki hafi ekki verið lokið. 

            Úr málinu beri að leysa á grundvelli laga nr. 42/2000 um þjónustukaup sbr. 2. tl. 1. mgr. 1. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. felst í þjónustunni heildarframlag seljanda hennar sem honum beri greiðsla fyrir. Skipti þá ekki máli hvort um sé að ræða efni eða vinnu. Það felist í 3. mgr. 1. gr. að stefndi sé neytandi í skilningi laganna enda um íbúðarhús að ræða. Í 3. gr. laganna segi orðrétt: „Eigi má með samningi víkja frá ákvæðum laga þessara neytanda í óhag.“ Séu lögin því ófrávíkjanleg að þessu leyti. Samkvæmt 4. gr. laganna þurfi útseld þjónusta að byggjast á fagþekkingu og vera í samræmi við góða viðskiptahætti sem tíðkist hverju sinni. Með vísan til þess sé þjónustan augljóslega ekki byggð á fagþekkingu og hafi flest farið úrskeiðis sem úrskeiðis hafi getað farið við steiningu, frágang renna o.fl. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna sé það seljandi sem leggi til nauðsynleg efni og aðföng nema um annað sé sérstaklega samið. Sé efnisöflun því á hans ábyrgð. Samkvæmt 9. gr. laganna sé þjónusta gölluð ef árangur af verki standist ekki kröfur 4. gr. Það hafi hún augljóslega ekki gert. Einnig ef árangur verks verði minni en til hafi verið ætlast sbr. 5. tl. 1. mgr. 9. gr. Það hafi augljóslega verið í þessu tilfelli. Stefnt hafi verið að steiningu húss með sömu áferð alls staðar með tilteknu hlutfalli hrafntinnulíkis og ljósara efnis en í staðinn hafi einu efni verið bætt við, ólíkt hinum tveimur og áferðin mismunandi á mismunandi veggjum og ekkert samræmi. Sömuleiðis eigi rennur að vera þannig úr garði gerðar að þeim sé almennilega haldið að húsinu með rennuböndum og vatn þurfi ekki að renna upp í mót. 

            Það ákvæði sem skipti ekki síst máli sé 6. tl. 9. gr. laga nr. 42/2000 en hann hljóði svo: „seld þjónusta víkur að öðru leyti frá því sem samningur seljanda og neytanda kveður á um.“ Gerður hafi verið nákvæmur samningur um verkið eins og fyrir liggi. Frá honum hafi verið vikið með grófum hætti eins og lýst hafi verið. Sé litið á samningsbrot sem mjög alvarlegan verknað í þjónustukaupalögum þannig að aldrei sé talið ósanngjarnt að neytandi beri slíkt fyrir sig sbr. 2. mgr. 9. gr. Samkvæmt 11. gr. laganna hvíli úrbótaskylda á seljanda. Eigi stefndi kröfu á að bætt sé úr sbr. 11. gr. og eigi stefndi rétt á að bæta úr gallanum ef seljandi bregðist. Hafi kostnaður verið tekinn saman þar um en áskilið sé að kveðja til dómkvadda matsmenn ef þurfa þyki. Megi halda öllum greiðslum eftir þar til úrbætur hafa farið fram. Sé hér um að ræða verulegan galla á verkinu. 

            Þess sé krafist að gagnvart kröfu stefnenda skuldajafnist ex tunc eftirfarandi fjárhæðir sbr. dskj.nr. 19:

Krafa á verktaka skv. sundurliðun kostnaðar kr. 2.111.436
Endurgreiddur virðisaukaskattur kr. - 334.389
Dagsektir pr. 4.8.2010 kr. 900.000
Lögfræðikostnaður stefnda v. vanefnda verktaka kr. 140.560
Kostnaður vegna sýnatöku Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands kr. 117.066
                                                                                                                                           

                                                                                                Samtals kr. 2.934.673

 

            Skuldajöfnunin byggist aðallega á því að stefnendur hafi hafnað úrbótakröfum og eigi stefndi því rétt á að láta framkvæma viðgerðir á kostnað stefnenda en tölum sé lýst á dskj.nr. 18 þar sem fram komi kostnaðarliðir og gallar á þjónustunni undir heitinu „Kostnaðarmat vegna galla í steiningu og fleira.“ Teljist skjalið hluti greinargerðar. Sé meðal annars vísað til 11. gr. laga nr. 42/2000. Beri stefnda að fá allt tjón sitt bætt. Að því leyti sem þessar málsástæður þrjóti sé byggt á almennu skaðabótareglunni en sérstaklega verði að taka tillit til þess að um sé að ræða ásetningsbrot en ella stórfellt gáleysi. Hafi stefnendur valdið stefnda stórtjóni með framgöngu sinni og eyðilagt hluta af því verki sem þeir hafi tekið að sér að vinna.  Einnig sé vísað til 15. gr. laga nr. 42/2000. 

            Verði ekki fallist á framangreint sé krafist afsláttar sömu fjárhæðar samkvæmt 13. gr. laga nr. 42/2000 en til vara sem nemi hinum umkröfðu reikningum. Stefnendur eigi ekki rétt á að fá greitt fyrir verk sem sé ónýtt og þurfi að endurvinna. Nemi sú fjárhæð sem þar um ræði a.m.k. skuldajafnaðarkröfum stefnda. Skuldajöfnun beinist að stefnendum in solidum en til vara pro rata miðað við dómkröfur þeirra. Krafan um sýknu að svo stöddu sé byggð á 3. mgr. 11. gr. laga nr. 42/2000 en það heimili stöðvun á öllum greiðslum þar til úrbætur hafi farið fram. Dráttarvaxtakröfu sé mótmælt.Verði dráttarvextir dæmdir beri að miða við dómsuppsögudag. Reikninga fyrir aukaverk hafi stefndi ekki fengið en í máli þessu séð í ljósriti. Án frumrits geti stefndi ekki sótt um endurgreiðslu virðisaukaskatts o.fl. og megi jafna vanhöldum á þessu til viðtökudráttar. Krafist sé vaxta áður en reikningar gjaldfalli og sé ekki gerð tilraun til að reifa upphafsdag dráttarvaxta af ofkrafinni verktryggingu m.t.t. útborgunar hennar.  Umkrafðir reikningar hafi ekki verið samþykktir af eftirlitsmanni. Athugasemdir séu gerðar við að virðisaukaskattsskyldir aðilar geri kröfu um að fá virðisaukaskatti bættan ofan á málskostnað. Mál þetta sé tilkomið vegna vinnusvika en ella a.m.k. stórfellds gáleysis af hálfu stefnenda. Beri þeim því enginn málskostnaður hvernig sem málið fari, sbr. meðal annars 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991

 

 

                                                                        IV

            Stefnendur hafa höfðað mál þetta í sameiningu á hendur stefnda til greiðslu efnda samkvæmt verksamningi aðila frá 16. mars 2010. Nemur stefnufjárhæðin eftirstöðvum samkvæmt verksamningi og er stefnufjárhæðin sundurliðuð miðað við kröfur stefnenda hvors um sig. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 er fleiri en einum heimilt að sækja mál í félagi ef dómkröfur þeirra eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða sama löggernings. Í máli þessu eiga dómkröfur stefnenda rætur að rekja til sama löggerningsins og er kröfugerð hvors samlagsaðila fyrir sig sjálfstæð. Er samlagsaðild til sóknar því heimil á grundvelli 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991.

            Svo sem fyrr greinir hafa stefnendur höfðað mál þetta til heimtu eftirstöðva samkvæmt verksamningi aðila frá 16. mars 2010. Umrætt verk laut að utanhúsviðhaldi á veðurkápu, þaki, gluggum og hurðum á húsinu að Kjartansgötu 5 í Reykjavík. Í stefnu krefjast stefndu sýknu á grundvelli skuldajafnaðar og hafa gegn kröfum stefnenda teflt fram gagnkröfum á hendur stefnendum vegna galla á hinu umsamda verki. Er gagnkröfunum teflt fram aðallega gagnvart stefnendum sameiginlega, en til vara pro rata miðað við dómkröfur stefnenda.

            Samkvæmt 2. tl., 1. mgr. 1. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup gilda þau lög um hvers kyns kaup á þjónustu sem veitt eru neytendum í atvinnuskyni gegn endurgjaldi og þegar veitt þjónusta felur í sér vinnu við fasteignir, vinnu vegna byggingaframkvæmda eða aðrar framkvæmdir. Með neytanda í ákvæðinu er samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laganna átt við einstakling sem er kaupandi þjónustu og kaupin eru ekki í atvinnuskyni eða í tengslum við starf hans. Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús eru húsfélög til í öllum fjöleignarhúsum í krafti ákvæða laga nr. 26/1994 og þarf ekki að stofna þau sérstaklega og formlega. Hafa húsfélög verið talin hafa aðildarhæfi að dómsmáli samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Í ljósi ákvæða um húsfélög í lögum nr. 26/1994 verður talið að stefndi falli undir að vera neytandi í skilningi laga nr. 42/2000. Verður því leyst úr ágreiningi aðila á grundvelli laga nr. 42/2000.  

            Stefndu bera því við að verk stefnenda sé einkum galla að tvennu leyti. Í fyrsta lagi sé svokölluð steiningaráferð á húsinu gölluð þar sem efni það sem sett hafi verið á húsið sé ekki alls staðar það sama og fullnægi því einungis að hluta þeim kröfum sem verksamningur kveði á um. Í annan stað bera stefndu því við að verkið sé gallað að því leyti að þakrennur hafi ekki verið settar upp þannig að fullnægjandi sé. Hafi rennubönd verið söguð í sundur og vatnshalli hafður rangur.

            Að því er fyrra atriðið varðar bera stefndu því við að samið hafi verið um steiningu á húsið með þeim hætti að steining skyldi vera álíka og húsið að Bollagötu 10 í Reykjavík og væri áferðin kvars og 7% svonefnt hrafntinnulíki. Hrafntinnulíkið skyldi vera 50% á köntum. Stefndi heldur því fram að suðurhlið hússins sé með réttu efni, ef frá er talinn kantur yfir anddyri. Austurhlið sé með réttu efni að hluta til. Sé um að ræða nyrðri enda austurhliðar, en svalir og syðri hluti austurhliðar sé með röngu efni. Norðurhlið sé með réttu efni, ef frá er talinn kantur á tröppum. Austurhlið á bílskúr sé með röngu efni, sem og suðurhlið á bílskúr og svalir og veggir við svalir á vesturhlið. Efnið sé gallað á þessu svæði að því leyti að hið svonefnda hrafntinnulíki sé ekki svart og glansandi á þessum hlutum hússins heldur með möttum kornum. Stefnendur eru þessu ósammála. Telja þeir hið svonefnda hrafntinnulíki vera það sama alls staðar á húsinu, en það komi frá sama framleiðanda.

            Um þetta atriði er til þess að líta að Nýsköpunarmiðstöð Íslands tók, að beiðni umsjónarmanns með verksamningi, sýni úr steiningarefni við húsið til að skoða hvort sjáanlegur munur væri á útveggjum hússins. Fór sýnataka fram 11. ágúst 2010. Samkvæmt skýrslu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands er um greinilegan mun á svörtum kornum að ræða í steiningarefni eftir því hvar sýnið er tekið af húsinu. Eru kornin annars vegar sögð mött basaltkorn og hins vegar hrafntinnulíki. Við vettvangsskoðun hafi þessi munur verið greinilegur. Í skýrslu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eru ljósmyndir í lit af efnunum. Dómkvaddir matsmenn unnu matsgerð sem að meginstefnu til tók til þessa álitaefnis. Samkvæmt niðurstöðum matsmanna er munur á hinum dökku steiningarefnum sem notuð voru í klæðninguna á húsið að Kjartansgötu 5 eftir því hvaða útvegg sé um að ræða. Sé sá munur fyrst og fremst útlitslegur. Sé hið svonefnda hrafntinnulíki álíka dökkt og gljáandi eins og náttúruleg hrafntinna á meðan möttu kornin séu ljósari og mött, enda úr kristölluðu basalti. Dökka steiningarefnið á Kjartansgötu 5 sé líkara dökka steiningarefninu að Bollagötu 10 í Reykjavík.

            Í verksamningi aðila frá 16. mars 2010 er kveðið á um í 5. gr. að steining hússins skuli vera álíka og húsið að Bollagötu 10 í Reykjavík, kvars og 7% hrafntinnulíki. Í samningi er ekki kveðið á um leyfileg frávik í þessum efnum. Dómendur gengu á vettvang og skoðuðu klæðningu hússins og báru saman við klæðningu hússins að Bollagötu 10 í Reykjavík. Við þá skoðun var staðfest það sem fram kemur í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna og í skýrslu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, að sjáanlegur munur er á hinum dökku steiningarefnum í klæðningunni. Eru þeir veggir hússins sem stefndi kveður vera í samræmi við verksamning aðila með dökkt og glansandi steiningarefni með álíka áferð og húsið að Bollagötu 10 í Reykjavík, á meðan hinir veggirnir eru með dökk korn í steiningunni sem eru mött. Þar sem dökku kornin eru mött ber svo til ekkert á dökkum glansandi kornum. Mismunur á milli þessara tveggja dökku korntegunda sést með góðu móti á dskj. nr. 47.   

            Í aðilaskýrslu fyrirsvarsmanns stefnanda Múr- og flísaþjónustunnar ehf., Sigþórs Þórarinssonar, fyrir dóminum kom fram að efni það sem notað hafi verið á húsið hafi ekki allt komið í upphafi framkvæmda. Á síðari stigum hafi bæst við verkþættir sem leitt hafi til þess að bæta hafi þurft efni við. Bar hann að austurhlið hússins hafi verið steinuð síðust útveggja. Hafi Múr- og flísaþjónustan ehf. einnig unnið að steiningu hússins að Bollagötu 10 í Reykjavík og Sigþór bent eigendum hússins að Kjartansgötu 5 á það hús sem hugsanlega fyrirmynd þegar kæmi að vali á steiningarefni. Fyrirsvarsmaður stefnda, Orri Þór Bogason, staðhæfði einnig í aðilaskýrslu fyrir dómi að verkinu hafi ekki lokið í einni samfellu. Hlé hafi komið í ásetningu klæðningarinnar í allt að 3 vikur. Eftirlitsmaður með verksamningi, Davíð Karl Andrésson, staðhæfði í skýrslu sinni hér fyrir dómi að verksalar hafi byrjað að leggja klæðningu á baklið hússins, hluta austurhliðar, vesturhlið og framhlið. Hlé hafi síðan komið í steiningu útveggja og það staðið í allt að 4 til 5 vikur. Hafi eftirlitsmanni ekki verið gert viðvart þegar framkvæmdir hafi hafist að nýju og þeim verið lokið er Davíð hafi séð hvers kyns var. Eftir að klæðning hafi öll verið komin á hafi Davíð og Orra Þór Bogasyni orðið ljóst að ekki væri sama áferð á þeirri steiningu er sett hafi verið á eftir hlé.

            Fyrir liggur að stefnandi, Múr- og flísaþjónustan ehf., hafði áður unnið að ásetningu klæðninga á húsnæði og var að vinna við annað hús í sömu götu á þessum tíma. Að mati dómsins hefur stefnda tekist sönnun þess að útveggir þeir sem mött dökk korn eru í steiningu hafi verið klæddir eftir að hlé varð á framkvæmdum. Sem fagaðila á þessu sviði mátti stefnanda vera ljóst að hætta gæti orðið á því að áferðarskil yrðu við hlé á framkvæmdum, auk þess sem hætta var á mismun í efni þar sem viðbótar efni var sótt til Fínpússningar ehf. Í því ljósi bar þeim að kalla eftirlitsaðila með verksamningi til þegar steining hófst á nýjan leik, en samkvæmt gr. 1.3.4 í útboðsgögnum, sem voru hluti af verksamningi aðila, var hlutverk eftirlitsmanns meðal annars að annast efnisprófanir og skyldi verktaki leita úrskurðar eftirlitsmanns væri hann í vafa um einstök atriði verksins. Það var ekki gert og verður það metið stefnanda til vanrækslu.     

            Að mati dómsins er um óeðlilega mikil frávik að ræða í dökkum efnum í steiningu hússins á milli útveggja þar sem dökk steinkorn eru svört og glansandi annars vegar og mött hins vegar. Er þetta mest áberandi þar sem mismunandi samsetning korna í steiningu er á sömu hlið hússins, eins og austurhlið. Fær það samrýmst því sem haldið er fram í málinu af hálfu stefnda og eftirlitsmanns með verksamningi að eftir hlé í steiningu útveggja hússins hafi steining verið lögð í þá útveggi sem eru með mött dökk korn í klæðningunni. Samkvæmt 6. gr. verksamnings var allur efniskostnaður innifalinn í samningsverði. Í samræmi við það hafði stefnandi, Múr- og flísaþjónustan ehf., með höndum að nálgast steiningarefni hjá Fínpússningu ehf. Samkvæmt 4. gr. verksamnings bar verktaki fulla ábyrgð á efni, vinnu og hönnun verksins.    

            Mismunur í efni sem hér hefur verið fjallað um er að mati dómsins meira en svo að það geti talist eðlilegt og sanngjarnt miðað við þá starfsemi sem um ræðir. Er það jafnframt niðurstaða dómsins að steining hússins að Bollagötu 10 sé álíka og þeirra útveggja hússins á Kjartansgötu 5, sem hafa að geyma svört og glansandi korn. Er það niðurstaða dómsins með hliðsjón af öllu framanrituðu að verksamningur aðila sé ekki réttilega efndur af hálfu stefnenda í þeim tilvikum þar sem mött dökk korn eru í steiningu útveggja hússins að Kjartansgötu 5.

            Samkvæmt 6. tl., 1. mgr. 9. gr. laga nr. 42/2000 telst seld þjónusta gölluð ef hún víkur frá því sem samningur seljanda og neytanda kveður á um. Dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að hið dökka, en matta steiningarefni í klæðningu hússins að Kjartansgötu 5, sé ekki í samræmi við verksamning aðila, miðað við eðlileg og sanngjörn frávik og að á því beri stefnandi, Múr- og flísaþjónustan ehf. ábyrgð. Er verkið því gallað í skilningi 9. gr. laga nr. 42/2000. Í málinu liggja frammi símskeyti sem eftirlitsmaður með verksamningi hefur sent stefnendum 21. júlí og 22. október 2010 þar sem krafist er úrbóta af hálfu stefnda á þessum galla. Er óumdeilt að stefnendur hafa ekki bætt úr, enda hafa þeir miðað við að verkinu sé lokið með fullnægjandi hætti í samræmi við verksamning aðila. Hafa stefnendur því ekki bætt úr galla að því er varðar klæðninguna. Stefndi teflir gegn kröfu stefnanda, Húshamra ehf., að fjárhæð 1.973.035 krónum gagnkröfu vegna endurbóta á klæðningunni. Samkvæmt mati hinna dómkvöddu matsmanna er heildarkostnaður við endurbætur á klæðningu metinn á 3.887.000 krónur, og þá tekið tillit til þess að setja þyrfti nýja klæðningu á allt húsið, þar sem ella sé hætta á áferðarskilum. Með matinu hefur stefnda tekist sönnun þess að hann eigi gagnkröfu á hendur stefnanda, Húshömrum ehf., sem nemur hærri fjárhæð en kröfu stefnanda og verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda, Húshamra ehf.

            Að því er varðar kröfu stefnanda, Múr- og flísaþjónustunnar ehf., að fjárhæð 284.709 krónur, er sú krafa vegna vangreidds reiknings sem er sagður vera vegna aukaverks við þakkant. Í þessum þætti ber stefndi því við að uppsetning og frágangur á rennuböndum hafi verið þannig að rennubönd hafi verið söguð í sundur og vatnshalli hafður rangur. Hinir dómkvöddu matsmenn voru beðnir að leggja mat á hvort rennur hafi verið settar upp í samræmi við byggingarreglugerð og góðan og vandaðan frágang miðað við faglegar kröfur. Í niðurstöðu matsmanna kemur fram að í byggingarreglugerð sé hvergi fjallað um hvernig setja skuli upp rennur. Að jafnaði sé rennan að Kjartansgötu 5 sett upp í láréttri stöðu og hafi halli a.m.k. á einum stað verið öfugur. Ástæða þess að rennan hafi verið sett upp í láréttri stöðu hafi verið sú að efsta skrúfa í öll rennubönd sé fest í kantinn á timburklæðningu. Þar sem timburklæðningin endi öll í sömu hæð leiði það af sér að ómögulegt sé að fylgja kröfum um lágmarkshalla. Í tilraun til að lagfæra halla á þakrennum hafi verktaki gripið til þess ráðs að skera í nokkur rennubönd svo hægt væri að beygja þau niður. Við það hafi styrkur bandanna verið skertur allnokkuð. Með notkun á fjarlægðarklossum á bak við rennuböndin hafi mátt tryggja rétta staðsetningu rennunnar í fjarlægð frá brún bárujárns og einnig tryggja lágmarks vatnshalla hennar. Auk þess hafi mátt tryggja að ís og snjór rynni fram yfir hana. Er það niðurstaða matsmanna að uppsetning rennunnar sé ekki í samræmi við vandaðan frágang. Stefnandi, Múr- og flísaþjónustan ehf., hefur ekki hnekkt niðurstöðu matsmanna um frágang á nefndri þakrennu. Verksamningur aðila kvað á um viðhald á þaki og er óumdeilt að stefnandi, Múr- og flísaþjónustan ehf., hafi tekið að sér sem aukaverk vinnu við þakkant. Þar sem stefnanda hefur ekki tekist að hnekkja matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna um frágang á þakrennum verður einnig talið að verkið hafi verið gallað í skilningi 9. gr. laga nr. 42/2000 um þetta atriði og stefnanda gefinn kostur á úrbótum samkvæmt 11. gr. laganna, en frágangur á þakrennu var framkvæmd sem kvartað var yfir í símskeyti 22. október 2010 og krafist úrbóta. Í verksamningi frá 16. mars 2010 hafa stefnendur ekki greint á milli ábyrgðar stefnenda á verkþætti hvors um sig. Verður því litið svo á að ábyrgð stefnenda samkvæmt verksamningi sé sameiginleg. Í umfjöllun um kostnað af því að setja nýja klæðningu á húsið kom fram hver kostnaður stefndu væri af framkvæmdinni. Nemur hann í heildina hærri fjárhæð en samanlagðar kröfur stefnenda. Í ljósi sameiginlegrar ábyrgðar stefnenda af framkvæmdinni nær gagnkrafa stefnda einnig til að mæta kröfu stefnanda, Múr- og flísaþjónustunni ehf. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnenda.

            Sigurður Sigurðsson meðdómsmaður tekur fram að hann sé sammála meirihluta dómenda um að frágangur á þakrennum teljist vera galli í skilningi laga nr. 42/2000. Að því er varðar steiningu hússins sé afstaða hans þessi. Í ljósi niðurstöðu dómkvaddra matsmanna að áferð á steiningu að Kjartansgötu 5 sé „álíka“ og á Bollagötu 10 eins og skilyrt var í verksamningi og að sjáanlegur munur á milli steiningar á Bollagötu 10 og Kjartansgötu 5 sé vart merkjanlegur nema að undangenginni nákvæmri skoðun þá er það niðurstaða mín að það frávik sem kom upp varðandi steiningu að Kjartansgötu 5 sé innan þeirra marka sem gera megi ráð fyrir í svona verkefnum og teljist ekki galli. Ég er þeirrar skoðunar að sanngjarnt sé að stefndi, Húshamrar ehf., veiti 25% afslátt af greiðslu fyrir verkið vegna mismunandi steintegunda í steiningu útveggja.

            Í ljósi niðurstöðu málsins greiði stefnendur stefnda sameiginlega málskostnað svo sem í dómsorði greinir. Hefur þá verið tekið tillit til kostnaðar af matsgerð að fjárhæð 691.000 krónur.

            Af hálfu stefnenda flutti málið Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir héraðsdómslögmaður en af hálfu stefnda Halldór Þ. Birgisson hæstaréttarlögmaður.

            Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari, ásamt meðdómendunum Sigurði Sigurðssyni húsasmíðameistara, byggingatæknifræðingi og byggingaverkfræðingi og Tryggva Jakobssyni múrarameistara og byggingafræðingi.

 

                                                            D ó m s o r ð:

            Stefndi, Húsfélagið Kjartansgötu 5, er sýkn af kröfum stefnenda, Húshamra ehf. og Múr- og flísaþjónustunnar ehf.

            Stefnendur greiði stefnda sameiginlega 1.200.000 krónur í málskostnað.  

 

                                                            Símon Sigvaldason

                                                            Sigurður Sigurðsson

                                                            Tryggvi Jakobsson