• Lykilorð:
  • Sérálit
  • Umboðssvik
  • Sýkna

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2014 í máli nr. S-553/2013:

Ákæruvaldið

(Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari)

gegn

Sigurjóni Þorvaldi Árnasyni

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

Sigríði Elínu Sigfúsdóttur og

(Helga Melkorka Óttarsdóttir hrl.)

Steinþóri Gunnarssyni

(Lárentsínus Kristjánsson hrl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 6. maí 2014, er höfðað með ákæru, útgefinni af sérstökum saksóknara 15. mars 2013, samkvæmt II.-IV. kafla ákæru á hendur Sigurjóni Þorvaldi Árnasyni, kt. 000000-0000, Sigríði Elínu Sigfúsdóttur, kt. 000000-0000, og Steinþóri Gunnarssyni, kt. 000000-0000, fyrir eftirtalin brot gegn lögum um verðbréfaviðskipti og almennum hegningarlögum:

II a

Á hendur ákærðu Sigurjóni sem bankastjóra og Sigríði Elínu sem framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Landsbankans, báðum meðlimum í lánanefnd bankans, fyrir umboðssvik með því að hafa 30. september 2008, í störfum sínum fyrir Landsbankann, misnotað aðstöðu sína og stefnt fé bankans í verulega hættu, með því að fara út fyrir heimildir til lánveitinga er þau í sameiningu veittu Imon ehf., kt. 000000-0000, 5.163.000.000 króna lán til að fjármagna að fullu kaup félagsins á 250.000.000 hluta í Landsbankanum, án fullnægjandi trygginga fyrir endurgreiðslu lánsins, þar sem ekki voru fyrir hendi aðrar tryggingar en veð í hinum keyptu hlutabréfum og allsherjarveð í stofnfjárhlutum félagsins í Byr sparisjóði en Imon ehf. hafði þegar fullnýtt veðrými stofnfjárhlutanna við aðrar lántökur. Lánveitingin braut í bága við ákvæði útlánareglna Landsbankans frá árinu 2008 um hámarksveðsetningarhlutfall hlutabréfa. Auk þess var útlánareglum bankans hvorki fylgt við mat á greiðslugetu né eignastöðu Imon ehf., en félagið hafði verið í vanskilum hjá Landsbankanum frá 30. júlí 2008 og var veitt 170.121.000 króna yfirdráttarlán hjá bankanum til að standa skil á greiðslu dráttarvaxta af eldri lánum félagsins sama dag og fyrrgreind lánveiting var afgreidd. Við lánveitinguna var einnig brotið gegn ákvæðum útlánareglna bankans um undirskriftir og samráð við báða bankastjóra og ákvæðum útlána- og áhættureglna bankaráðs Landsbanka Íslands hf. frá 2005 um útlánaáhættu bankans. Auk þess var vanrækt að bera lánveitinguna undir bankaráð Landsbankans í samræmi við starfsreglur þess, sem skylt var í ljósi hárrar lánsfjárhæðar og óvenjulegra lánskjara.

            Í samræmi við ákvörðun ákærðu var lánsfjárhæðin að frádregnu lántökugjaldi, 5.150.079.000 krónur, lögð inn á bankareikning Imon ehf. nr. 0101-26-022670 í sex greiðslum 3. október 2008. Í kjölfarið var andvirði lánsins varið til að gera upp kaup Imon ehf. á 250.000.000 hluta í Landsbankanum. Lánsfjárhæðin hefur síðan verið í vanskilum og telja verður hana Landsbankanum að fullu glataða.

            Brot ákærðu Sigurjóns og Sigríðar Elínar samkvæmt kafla II a eru talin varða við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II b

Á hendur ákærðu Sigurjóni sem bankastjóra og Sigríði Elínu sem framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Landsbankans, fyrir markaðsmisnotkun við sölu Landsbankans á 250.000.000 hluta í Landsbankanum, sem voru í eigu bankans, til Imon ehf., kt. 000000-0000, 30. september 2008 fyrir 20,6 krónur á hvern hlut. Með viðskiptunum og tilkynningu þeirra sem utanþingsviðskipta til Kauphallarinnar 1. október 2008 var ranglega látið líta svo út að fjárfestir hefði lagt fé til kaupa á rúmlega 2,23% útgefins hlutafjár í Landsbankanum og borið af þeim fulla markaðsáhættu. Markaðsáhætta af hlutabréfunum færðist hins vegar ekki frá Landsbankanum til Imon ehf. þar sem Landsbankinn fjármagnaði að fullu kaupin með lánveitingu til Imon ehf., en lánið var aðeins tryggt með veði í hinu selda hlutafé og allsherjarveði í stofnfjárhlutum félagsins í Byr sparisjóði en Imon ehf. hafði þegar fullnýtt veðrými stofnfjárhlutanna við aðrar lántökur hjá bankanum. Þar sem fjárfestar voru ekki upplýstir um skilmála þessara umfangsmiklu viðskipta voru þau til þess fallin að gefa ranga og misvísandi mynd af eftirspurn hlutabréfa í Landsbankanum eða voru líkleg til að gera það og fólu auk þess í sér blekkingu og sýndarmennsku.

Ákærðu Sigurjón og Sigríður Elín veittu Imon ehf. lánið í þeim tilgangi að fjármagna að fullu kaup á hlutabréfunum þrátt fyrir vitneskju sína um að hin seldu hlutabréf kæmu frá eigin fjárfestingum Landsbankans. Auk þess var þeim kunnugt um að staða Imon ehf. væri bágborin og þær tryggingar sem félagið lagði fram í tengslum við lánveitinguna ófullnægjandi, sbr. umfjöllun í kafla II a í ákæru. Viðskiptin voru afar umfangsmikil, enda um að ræða stærstu viðskipti með hlutabréf í Landsbankanum á árinu 2008.

Brot ákærðu Sigurjóns og Sigríðar Elínar samkvæmt kafla II b í ákæru eru talin varða við a-lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007.

III

Á hendur ákærðu Sigurjóni sem bankastjóra og Steinþóri sem forstöðumanni verðbréfamiðlunar Landsbankans, fyrir markaðsmisnotkun við sölu Landsbankans á 200.000.000 hluta í Landsbankanum, sem voru í eigu bankans, til Imon ehf., kt. 000000-0000, 3. október 2008 fyrir 19,11 krónur á hvern hlut. Viðskiptin gáfu eftirspurn hlutabréfa í Landsbankanum ranglega og misvísandi til kynna, eða voru líkleg til að gera það, og fólu í sér blekkingu og sýndarmennsku, en með viðskiptunum og tilkynningu þeirra sem utanþingsviðskipta til Kauphallarinnar sama dag var ranglega látið líta svo út að fjárfestir hefði lagt fé til kaupa á tæplega 1,79% hlut í Landsbankanum og borið fulla markaðsáhættu af viðskiptunum þrátt fyrir að ekki hefði verið gengið frá fjármögnun hlutabréfakaupanna. Í tengslum við viðskiptin voru útbúin drög að samningi um 3.831.600.000 króna lán Landsbankans til Imon ehf. Drögin voru óundirrituð og því óskuldbindandi, auk þess sem lánveitingin hafði hvorki verið afgreidd á fundi lánanefndar Landsbankans né samþykkt utan funda nefndarinnar af þar til bærum starfsmönnum bankans, eins og lánareglur hans áskildu.

Ákærði Sigurjón tók ákvörðun um viðskiptin af hálfu Landsbankans og ákærði Steinþór tilkynnti þau til Kauphallarinnar þrátt fyrir vitneskju hans um að hin seldu hlutabréf kæmu frá eigin fjárfestingum Landsbankans og án þess að gengið hefði verið frá fjármögnun viðskiptanna. Uppgjörsdagur viðskiptanna var fyrirhugaður 8. október 2008. Viðskiptin voru afar umfangsmikil enda um að ræða þriðju stærstu viðskipti með hlutabréf í Landsbankanum á árinu 2008.

                                                                            IV

Á hendur ákærðu Sigurjóni sem bankastjóra og Steinþóri sem forstöðumanni verðbréfamiðlunar Landsbankans fyrir markaðsmisnotkun við sölu Landsbankans á 199.000.000 hluta í Landsbankanum, sem voru í eigu bankans, til Azalea Resources Ltd., félagi með takmarkaðri ábyrgð skráðu á Bresku Jómfrúaeyjunum, 3. október 2008 fyrir 19 krónur á hvern hlut. Viðskiptin gáfu eftirspurn hlutabréfa í Landsbankanum ranglega og misvísandi til kynna, eða voru líkleg til að gera það, og fólu í sér blekkingu og sýndarmennsku, þar sem staðið var þannig að viðskiptunum og tilkynningu þeirra sem utanþingsviðskipta til Kauphallarinnar sama dag að ranglega var látið líta svo út að fjárfestir hefði lagt fé til kaupa á tæplega 1,78% hlut í Landsbankanum og borið fulla markaðsáhættu af viðskiptunum, þrátt fyrir að ekki hefði verið gengið frá fjármögnun hlutabréfakaupanna. Í tengslum við viðskiptin var útbúinn samningur um 4.000.000.000 króna lán Landsbankans til Azalea Resources Ltd. Samningurinn var undirritaður 3. október 2008 af Ari Salmivuori, fyrirsvarsmanni Azalea Resources Ltd., en var að öðru leyti óundirritaður. Samningurinn var því óskuldbindandi, auk þess sem lánveitingin hafði hvorki verið afgreidd á fundi lánanefndar Landsbankans né samþykkt utan funda nefndarinnar af þar til bærum starfsmönnum bankans, eins og lánareglur hans áskildu.

Ákærði Sigurjón tók ákvörðun um viðskiptin af hálfu Landsbankans. Ákærði Steinþór tilkynnti viðskiptin þrátt fyrir vitneskju sína um að hin seldu hlutabréf kæmu frá eigin fjárfestingum Landsbankans og að til stæði að Landsbankinn fjármagnaði kaupin að fullu en án þess að staðfesting lægi fyrir um fjármögnunina. Uppgjörsdagur viðskiptanna var fyrirhugaður 8. október 2008. Viðskiptin voru afar umfangsmikil, enda um að ræða fjórðu stærstu viðskipti með hlutabréf í Landsbankanum á árinu 2008.

Brot ákærðu Sigurjóns og Steinþórs samkvæmt köflum III og IV í ákæru varða við a-lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

 

Í þinghaldi 12. júní 2013 var þáttur ákærðu skilinn frá máli samkvæmt I. kafla ákæru, sbr. 2. mgr. 169. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, en það mál er rekið undir málsnúmerinu S-207/2013. Í I. kafla ákæru er ákærðu Sigurjóni Þorvaldi Árnasyni, Ívari Guðjónssyni, fyrrverandi forstöðumanni eigin fjárfestinga Landsbankans, og Júlíusi Steinari Heiðarssyni og Sindra Sveinssyni, fyrrverandi starfsmönnum eigin fjárfestinga Landsbankans, gefin að sök markaðsmisnotkun í sameiningu í störfum sínum fyrir bankann í tilboðum og viðskiptum fyrir eigin reikning Landsbankans með hlutabréf útgefin af bankanum sjálfum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands á tímabilinu frá og með 1. nóvember 2007 til og með 3. október 2008, samtals 228 viðskiptadaga, sem tryggðu óeðlilegt verð og bjuggu til verð á hlutabréfunum og gáfu, eða voru líkleg til að gefa, eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna. Kemur fram í ákæru að hin miklu kaup eigin fjárfestinga Landsbankans á hlutabréfum í Landsbankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum umfram sölu hafi leitt til þess að hlutabréfin söfnuðust upp hjá bankanum. Vegna lögbundinna takmarkana á eignarhaldi fjármálafyrirtækja á eigin hlutabréfum, reglna um flöggunarskyldu og neikvæðra áhrifa á eiginfjárhlutfall Landsbankans hafi þurft að losa Landsbankann við hlutabréfin til þess að unnt væri að halda áfram umfangsmiklum kaupum á hlutabréfum í Landsbankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum. Það hafi meðal annars verið gert með sölu á þeim í stórum utanþingsviðskiptum, fyrir tilstilli verðbréfamiðlunar Landsbankans, en ákært sé fyrir þrenn slík hlutabréfaviðskipti í köflum II-IV. Er háttsemi ákærðu talin varða við a- og b-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007.

 

Ákærðu krefjast þess aðallega að þau verði sýknuð af kröfum ákæruvalds, en til vara að þeim verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa. Þá krefjast ákærðu þess að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

 

II. kafli ákæru

 

Málsatvik

            Með bréfi, dagsettu 20. maí 2009, vísaði Fjármáleftirlitið til embættis sérstaks saksóknara máli vegna kaupa einkahlutafélagsins Imon á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf., af eigin viðskiptum Landsbankans í byrjun október 2008. Kemur fram að í kjölfar þess að starfsemi Landsbankans var tekin yfir af Fjármálaeftirlitinu hafi verið tekin til skoðunar öll viðskipti með hlutabréf gefin út af bankanum á tímabilinu 1. september til 10. nóvember 2008. Við rannsóknina hafi vakið athygli umfangsmikil viðskipti Imon ehf. skömmu fyrir fall bankans. Um tvenn viðskipti hefði verið að ræða og hefði Fjármálaeftirlitið fengið þær upplýsingar frá skilanefnd Landsbankans að þau fyrri hefðu verið fjármögnuð með láni frá bankanum, en þau síðari ekki verið frágengin við fall bankans 7. október 2008. Fjármálaeftirlitið geri ýmsar athugasemdir við verklag sem viðhaft var við lánveitinguna. Sé talið að um tvö aðskilin mál sé að ræða, annars vegar brot stjórnenda við lánveitingar Landsbankans og hins vegar hugsanlega markaðsmisnotkun. Fyrra málið kunni að varða við ákvæði almennra hegningarlaga. Hvað hugsanlega markaðsmisnotkun varði líti Fjármálaeftirlitið svo á að umrædd viðskipti og lánveiting sé hluti af umfangsmeira máli, en ekki hafi að svo stöddu verið ákveðið hvort það mál skyldi kært til embættis sérstaks saksóknara, sbr. 2. mgr. 148. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007.

            Atvikum málsins er þannig lýst í bréfi Fjármálaeftirlitsins að lánssamningur milli Landsbankans og Imon ehf. hafi verið undirritaður 30. september 2008 og hafi lánsfjárhæðin numið 5.163.000.000 króna. Lánið hafi verið veitt til 19 mánaða og átt að greiða í einni greiðslu í lok lánstímans, auk vaxtagreiðslna á lánstíma, en lántökugjald hafi verið 0,25% af lánsfjárhæðinni. Til tryggingar láninu hafi verið settar þær 250.000.000 hluta í Landsbankanum sem keyptir voru fyrir lánið, auk allsherjarveðs sem Imon ehf. hefði þegar lagt fram vegna annarra skuldbindinga við Landsbankann. Lánssamningurinn hafi verið undirritaður fyrir hönd Landsbankans af Árna Maríassyni og ákærðu Sigríði Elínu Sigfúsdóttur, en Magnús Ármann hafi ritað undir samninginn fyrir hönd Imon ehf. Lánið hafi verið greitt út 3. október og notað samdægurs til að kaupa 250.000.000 hluta í Landsbankanum fyrir 5.150.000.000 króna. Þá kemur fram að svo virðist sem 3. október hafi Imon ehf. ákveðið að kaupa 200.000.000 hluta til viðbótar og óskað eftir láni vegna þess að fjárhæð 3.831.600.000 krónur til 20 mánaða ásamt vöxtum, með veði í bréfunum sem lánið fjármagnaði og öðrum eignum Imon ehf. Lánssamningurinn virðist ekki hafa verið undirritaður og lánsbeiðnin ekki tekin fyrir af lánanefnd Landsbankans. Hafi lánið aldrei verið veitt og líti Imon ehf. svo á að umrædd viðskipti hafi aldrei gengið í gegn vegna brostinna forsendna eftir að íslenska ríkið tók Landsbankann yfir aðfaranótt 7. október. Bréfin hafi þó verið færð á nafn Imon ehf. 8. október, en viðskiptavinur settur á lokunarskrá þar sem greiðsla hafi ekki borist.

            Fram kemur í bréfi Fjármálaeftirlitsins að ýmsar athugasemdir séu gerðar við lánveitingu Landsbankans til Imon ehf. og sé hún hvorki talin í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði, sbr. 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, né útlánareglur bankans.  

            Með bréfi, dagsettu 19. október 2010, kærði Fjármálaeftirlitið 17 fyrrverandi starfsmenn Landsbankans til sérstaks saksóknara vegna meintrar markaðsmisnotkunar með hlutabréf í Landsbanka Íslands. Kemur þar m.a. fram að starfsmenn deildar eigin fjárfestinga Landsbankans hafi keypt á tímabilinu 1. maí 2003 til 3. október 2008 umtalsvert af hlutabréfum útgefnum af Landsbankanum. Hlutabréf hafi síðan verið seld í gegnum verðbréfamiðlun bankans, oft á tíðum í stórum utanþingsviðskiptum, til viðskiptavina bankans. Í mörgum tilvikum hafi viðskiptin verið fjármögnuð af bankanum sjálfum. Í kærunni er að finna skrá yfir stærstu viðskipti í Landsbankanum árin 2007 og 2008 og er þar meðal annars getið um viðskipti Imon ehf. og Azalea Recourses Ltd.  

Þess ber að geta að kæru Fjármálaeftirlitsins 20. maí 2009 fylgdu útlánareglur Landsbankans frá 1. nóvember 2003, en samkvæmt 1. grein reglnanna var þeim ætlað að taka til almennra lánveitinga bankans, en jafnframt tekið fram að ef um væri að ræða ákvarðanir um lánveitingu sem ekki féllu innan reglnanna þyrfti skriflega ákvörðun frá lánanefnd eða viðkomandi fagsviði. Hinn 20. ágúst 2008 voru gefnar út nýjar útlánareglur, sem komu í stað hinna eldri, og giltu á þeim tíma sem ákæra tekur til. Kemur fram í 1. gr. reglnanna að tilgangur þeirra sé að setja meginreglur um öll útlán til viðskiptamanna sem bankinn veiti á Íslandi og úr erlendum útibúum sínum. Í reglunum komi fram hvaða aðilar innan bankans hafi útlánaheimildir og hvaða takmörkunum þær séu háðar. Einnig komi fram hvaða kröfur bankinn geri til þeirra trygginga sem hann fari fram á að lántakar setji fyrir lánum sínum og hvernig bankinn verðleggi útlán sín. Útlánareglunum sé ætlað að taka til almennra lánveitinga í starfsstöðvum Landsbanka Íslands hf. á Íslandi og í erlendum útibúum hans. Sé um að ræða ákvarðanir um lánveitingu sem falli ekki innan ramma reglnanna eða vafi leiki á að lánveiting falli undir reglurnar þurfi skriflega ákvörðun frá lánanefnd eða viðkomandi fagsviði. Í niðurlagi greinarinnar kemur fram að lánanefnd bankans sé æðsta vald í útlánamálum bankans. Nefndin hafi þríþætt hlutverk: Í fyrsta lagi taki hún ákvarðanir um lánveitingar sem séu umfram útlánaheimildir annarra aðila innan bankans. Í öðru lagi veiti hún ákveðnum aðilum innan bankans útlánaheimildir. Í þriðja lagi hafi nefndin eftirlit með stærstu áhættuþáttum í samstæðu bankans, bæði er varðar einstaka viðskiptamenn og flokka útlána.

Útlánaheimildir og tryggingar fyrirtækjasviðs eru tilgreindar í 12. og 13. kafla reglnanna. Kemur fram í grein 12.1 að fyrirtækjasvið hafi heimild til að samþykkja einstaka fyrirgreiðslu allt að 200.000.000 króna, enda verði heildarskuldbinding viðskiptamanns og tengdra aðila lægri en 1.000.000.000 króna eftir fyrirgreiðsluna. Hærri fyrirgreiðslu skuli leggja fram til samþykktar í lánanefnd. Í grein 13.1 kemur fram sú meginregla að útlán bankans skuli vera tryggð með tryggingum innan skilgreindra veðmarka, þ.e. innan við þau veðsetningarhlutföll sem skilgreind eru í útlánareglum. Í grein 13.5.13 er fjallað um veðsetningarhlutföll í hlutabréfum og hlutum í einkahlutafélögum. Kemur þar fram að almenna reglan sé sú að veita einungis lán með veði í skráðum hlutabréfum. Ef taka á veð í hlutabréfum eða hlutum í einkahlutafélagi skuli lánaákvörðun um það tekin á fyrirtækjasviði. Veðsetningarhlutfall skuli taka mið af seljanleika og viðskiptum með bréfin. Veðhæf bréf teljist þau sem uppfylli eftirfarandi skilyrði: Meðal viðskiptadagsvelta á 12 mánaða tímabili sé hærri en 40.000.000 króna og viðskiptadagar/heildarfjöldi viðskiptadaga á 12 mánaða tímabili er hærra en 95%. Hámarksveðsetningarhlutfall á skráðum innlendum hlutabréfum á Aðallista Kauphallar og erlendum skráðum hlutabréfum sé 50% af markaðsverði. Hámarksveðsetningarhlutfall annarra innlendra skráðra hlutabréfa sé 30%. Heimilt sé að veita lán með veði í óskráðum hlutabréfum, en sú ákvörðun skuli tekin af fyrirtækjasviði eða lánanefnd. Óskráð hlutabréf skuli aldrei veðsett hærra en 30%.

Í 16. kafla reglnanna er fjallað um lánanefnd og útlánaheimildir hennar. Samkvæmt grein 16.1 sátu bankastjórar og framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs í lánanefnd. Kemur fram að lánanefnd taki ákvarðanir um lánveitingar sem séu umfram útlánaheimildir annarra aðila innan bankans sem hafi útlánaheimildir eða umfram þær viðmiðanir sem tilgreindar séu í útlánareglum. Lánanefnd sé æðsta vald í útlánamálum bankans og geti hún vikið frá gildandi útlánareglum við lánaákvarðanir sínar. Samkvæmt grein 16.3 skuli lánanefnd að jafnaði funda vikulega. Gild samþykkt lánanefndar og fundargerð sé árituð af báðum bankastjórum. Í fjarveru annars bankastjóra undirriti bankastjóri, staðgengill bankastjóra og framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs framangreind skjöl. Í fjarveru annars bankastjóra og staðgengils bankastjóra undirriti bankastjóri og framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs framangreind skjöl. Í fjarveru beggja bankastjóra dugi ekki undirritun staðgengils bankastjóra og framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs. Í grein 16.4 er kveðið á um samþykktir á milli funda. Segir þar að til að flýta fyrir afgreiðslu mála á milli funda lánanefndar sé framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs heimilt að samþykkja lánsfjárhæðir allt að 400.000.000 króna. Séu málin talin óvanaleg eða áhættusöm skuli þó ætíð fyrst hafa samráð við bankastjóra. Sömu undirskriftarreglur gildi varðandi útlánaákvarðanir sem samþykktar séu á milli funda. Samþykkt lánsbeiðni skuli staðfest af formanni lánanefndar á næsta lánanefndarfundi en aðrir samþykki utanfundarsamþykktirnar með því að undirrita fundargerð lánanefndar þar sem utanfundaákvarðanir eru tilgreindar. Í 3. mgr. greinarinnar segir síðan: „Að höfðu samráði við bankastjóra er heimilt að afgreiða stærri fjárhæðir en 400 m.kr. á milli funda enda séu þau staðfest á næsta fundi.“

Í málinu liggja jafnframt fyrir Starfsreglur fyrir bankaráð Landsbanka Íslands hf. frá 29. júlí 2004, sem í gildi voru á þeim tíma sem um ræðir. Í grein 8.1 í reglunum kemur fram að bankastjórar myndi bankastjórn. Segir í grein 8.2. að bankastjórn beri ábyrgð á daglegum rekstri bankans og fari með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki séu öðrum falin með lögum, samþykktum bankans eða ákvörðunum bankaráðs. Hinn daglegi rekstur taki ekki til ráðstafana sem séu óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir geti bankastjórn aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild bankaráðs nema ekki sé unnt að bíða ákvörðunar bankaráðs án verulegs óhagræðis fyrir bankann. Í grein 9.2 eru taldar í 9 liðum ráðstafanir sem teljast óvenjulegar eða mikils háttar, en samkvæmt ákvæðinu er sú talning ekki tæmandi.

            Þá liggja fyrir í málinu Almennar útlána- og áhættureglur Landsbanka Íslands hf., sem settar voru samkvæmt 5. tölul. framangreindrar greinar 9.2 í starfsreglum bankaráðs. Í 2. gr. reglnanna er fjallað um útlánaáhættu og segir þar m.a. að við útlánaákvarðanir og áhættutökur skuli bankastjórn sjá til þess að hagsmuna bankans sé ætíð gætt, fjárhagsstaða hans treyst og að ákvarðanir brjóti ekki í bága við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Þá skuli bankastjórn hafa hliðsjón af stöðu og horfum í efnahags- og atvinnulífi, svo og þróun peningamarkaða, við ákvarðanir sínar.

            Skjöl vegna lánveitingar til Imon ehf. liggja fyrir í málinu. Um er að ræða svonefnt ákvörðunartökublað, fyrir lánveitingu til Imon ehf. upp á 5.163.000.000 krónur, dagsett 30. september 2008, sem ber með sér að hafa verið samþykkt 3. október 2008 af ákærðu Sigríði Elínu og Árna Maríassyni, forstöðumanni á fyrirtækjasviði. Þá hafa upphafsstafir ákærða Sigurjóns jafnframt verið ritaðir á ákvörðunartökublaðið. Á ákvörðunartökublaðinu kemur fram að lán félagsins nemi 3.759.400.000 krónum. Tryggingar nemi 4.211.035.000 krónum miðað við síðasta viðskiptagengi Byr stofnfjárhlutabréfa sem hafi verið 1,6, en 5.269.063.000 krónur miðað við fyrirhugað gengi í samruna við Glitni banka, sem hætt hafi verið við. Veðhlutfall er tilgreint 86-95%. Lánssamningur, dagsettur 30. september 2008, er undirritaður af ákærðu Sigríði Elínu og Árna Maríassyni fyrir hönd Landsbanka Íslands hf., en Magnúsi Ármann fyrir hönd Imon ehf. Samkvæmt samningnum var lánið veitt til 19 mánaða og bar 6 mánaða Reibor-vexti auk 3,0% álags, lántökugjald var 0,25%. Í handveðsyfirlýsingu, undirritaðri af Magnúsi Ármann og dagsettri sama dag, kemur fram að 250.000.000 hluta í Landsbankanum hafi verið handveðsettir og afhentir bankanum. Þá liggur fyrir í málinu að með fjórum veðsamningum, dagsettum 27. mars, 7. ágúst, 21. nóvember og 19. desember 2007, veðsetti Imon ehf. stofnfjárhlutaeign félagsins í Byr sparisjóði, samtals að nafnvirði 1.210.107.666 krónur,  til tryggingar á skaðlausri greiðslu á skuldum félagsins við bankann „nú eða síðar, á hvaða tíma sem er“.

            Í málinu er kaupnóta vegna viðskipta Imon ehf. við Landsbanka Íslands hf., dagsett 3. október 2008 og kvittanir vegna kaupa miðlunar bankans á 250.000.000 hluta af eigin viðskiptum 30. september klukkan 17:07 á genginu 20,5382 og sölu til Imon ehf. klukkan 17:31, á genginu 20,6. Þá kemur fram á kvittununum og yfirliti yfir bankareikning Imon ehf. nr. 0101-26-022670, að 5.150.000.000 króna, sem varið var til kaupanna, hafi verið millifærðar af reikningnum 3. október. Samkvæmt tilboðabók Kauphallarinnar voru viðskiptin tilkynnt 1. október klukkan 10:27 að sænskum tíma, eða klukkan 8:27.

            Loks liggur fyrir í málinu bréf forstöðumanns fyrirtækjasviðs LBI hf., áður Landsbanka Íslands hf., dagsett 5. maí sl., þar sem kemur fram að skuld Imon ehf. vegna lánsins sem um ræðir nemi 5.163.000.000 króna, auk vaxta og dráttarvaxta, eða samtals 10.989.002.822 krónum.   

 

Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærðu og vitna við aðalmeðferð málsins, að því leyti sem nauðsynlegt þykir til úrlausnar málsins.

            Ákærði Sigurjón Þorvaldur Árnason gerði grein fyrir því að Ívar Guðjónsson, forstöðumaður eigin fjárfestinga Landsbankans, hefði komið á vikulega fundi fjármálanefndar bankans og farið yfir hagnað, tap og stöður sem hann hefði verið með í hlutabréfum, Landsbankabréfum sem öðrum. Af yfirlitum sem Ívar dreifði á þessum fundum hefði mátt ráða nettóbreytingar á hlutabréfaeign bankans.

            Hlutabréfamarkaðir hefðu verið fallandi allt árið 2008. Ákærði lýsti því að þegar það gerðist væri þekkt að litlir fjárfestar seldu oft hlutabréf sín, en stórir aðilar sæju sér hins vegar tækifæri í því að kaupa hlutabréf eftir því sem verðið lækkaði. Teldi ákærði Magnús Ármann einmitt dæmi um slíkan fjárfesti. Hann hefði á árinu 2006 keypt hlutabréf í Landsbankanum eftir að gengi bréfanna lækkaði úr 30 niður í 20, en selt bréfin síðar á genginu 40 og þannig hagnast verulega. Kvaðst ákærði telja augljóst að Magnús hefði haft í hyggju að endurtaka þennan leik með þeim viðskiptum sem ákæra lýtur að.

            Borin var undir ákærða fundargerð fjármálanefndar frá 24. september 2008, þar sem fram kom að Ívar Guðjónsson hefði skýrt frá því á fundinum að mikið magn af Landsbankabréfum hefði verið að fara inn á markaðinn. Ákærði kvaðst ekki muna eftir sérstökum umræðum um þetta, hvorki á fundinum né innan bankans. Þá kvaðst hann ekki muna eftir sérstökum umræðum um eign bankans í sjálfum sér á fundi 1. október 2008, en fram kom í fundargerð að dreift hefði verið yfirliti þar um. Kvaðst ákærði fullyrða að bankinn hefði ekki verið yfir þeim 10% mörkum sem í 29. gr. þágildandi laga um fjármálafyrirtæki greindi, en mismunandi leiðir hefðu verið til að reikna það hlutfall út. Spurður um áhrif eignar í eigin bréfum bankans á svonefnt CAD-hlutfall, samkvæmt 84. gr. sömu laga, vísaði ákærði til þess að eiginfjárstaða bankans hefði numið rúmum 300 milljörðum króna og hefði aukning í eign eigin bréfa því lítið haft að segja í því sambandi.  

            Ákærði hafnaði því alfarið að leitað hefði verið að kaupendum að hlutabréfum í Landsbankanum. Borinn var undir ákærða tölvupóstur hans til Björgólfs Thors Björgólfssonar 17. september 2008, um mögulegan samruna Landsbankans og Straums, þar sem meðal annars kom eftirfarandi fram: „Kjarni málsins er að það er of mikið flot á bréfum hvors banka fyrir sig, þ.e. okkur vantar endakaupendur af bréfum sem og fjármögnunaraðila á bréfin almennt.“ Spurður hvað átt væri við með því að það vantaði endakaupendur kvaðst ákærði hafa verið að vísa til þess að alltaf hefði skort á það á íslenskum fjármálamarkaði að einhverjir keyptu hlutabréf með það fyrir augum að eiga þau í langan tíma og fjármagna kaupin með eigin fé.

            Ákærði lýsti aðdraganda þeirra viðskipta er II. kafli ákæru lýtur að þannig að hann hefði heyrt af því, að því er hann taldi frá Árna Maríassyni, að Magnús Ármann hefði áhuga á að „skjóta sér inn í stokkinn“. Hefði hann vitað til þess að Magnús hefði rætt þetta bæði við Árna og Steinþór Gunnarsson. Félag Magnúsar, Imon ehf., hafi verið stærsti eigandi stofnfjárhlutabréfa í Byr sparisjóði. Á þessum tíma hefðu átt sér stað viðræður milli forsvarsmanna Byrs og Glitnis banka um sameiningu, en þær viðræður hefðu farið út um þúfur eftir að fyrirsvarsmenn Glitnis leituðu eftir lánafyrirgreiðslu hjá Seðlabanka Íslands, en í kjölfarið var tekin ákvörðun um yfirtöku ríkissjóðs á 75% hlut í Glitni banka. Ákærði kvaðst áður hafa rætt það óformlega við stjórnarformann Byrs að hann væri tilbúinn í viðræður um sameiningu Byrs og Landsbankans ef viðræður við Glitni færu út um þúfur. Þá kvað hann það meðal annars hafa verið rætt á fundi bankaráðs Landsbankans 29. september hvort reyna ætti að ná Byr undir bankann. Þegar fyrir hefði legið að Glitnir og Byr myndu ekki sameinast kvaðst ákærði hafa séð sér hag í því að „fara þétt upp að“ Magnúsi Ármann, eiganda Imon ehf. Magnús hefði verið búinn að ræða það við Árna Maríasson og Steinþór Gunnarsson að hann vildi óska eftir lánafyrirgreiðslu til að kaupa hlutabréf í Landsbankanum. Kvaðst ákærði hafa hugsað málið þegar þessi staða var komin upp og verið reiðubúinn að samþykkja slíka lánafyrirgreiðslu. Ákærði kvaðst hafa talið þetta mjög gott lánamál. Hlutabréf í bankanum hefðu farið lækkandi á þessum tíma og því hefði verið skynsamlegt að selja þau. Hlutabréfin sem seld voru Magnúsi hefðu verið keypt af Landsbankanum þannig að enginn möguleiki hefði verið á því að bankinn yrði fyrir tjóni. Þá hefðu bréfin verið handveðsett bankanum, þannig að í versta falli hefði bankinn eignast þau aftur ef Magnús hefði ekki staðið í skilum. Árni Maríasson hefði kannað hve mikið eigið fé væri í Imon ehf. og metið það svo að það hafi numið 500 milljónum króna miðað við síðustu viðskipti með stofnfjárbréfin, en 1.500 milljónum króna miðað við það verð sem miðað var við í sameiningarviðræðum Byrs og Glitnis. Miðað við síðarnefnt gengi stofnfjárbréfanna hefði það þýtt að eftir að Imon ehf. hefði fengið 5 milljarða króna að láni til viðbótar fyrri lánum hefði „loan to value“ hlutfallið verið um 85%, sem hafi ekki verið óeðlilega hátt hlutfall á þessum tíma. Þá lagði ákærði áherslu á að fjármagn sem lánað var hefði verið bundið í bréfum sem bankinn átti fyrir, þannig að með viðskiptunum hefði einni eign verið breytt yfir í aðra, en ekkert fjárflæði hefði orðið úr bankanum. Ákærði kvaðst hafa samþykkt að veita Magnúsi Ármann lán frá bankanum til hlutabréfakaupanna og hefði Árni Maríasson gengið frá öllu varðandi það mál, meðal annars með því að fá samþykki ákærðu Sigríðar Elínar. Samkvæmt útlánareglum þyrfti samþykki tveggja lánanefndarmanna til millifundaákvarðana, en nægjanlegt hefði verið að samþykkja fyrirgreiðsluna munnlega, þannig að hún væri síðar staðfest skriflega.     

Ákærði kvaðst hafa heyrt af áhuga Magnúsar Ármann frá Árna Maríassyni einhverjum dögum eða vikum fyrir viðskiptin. Hann kvaðst ekki muna hvort þetta hefði borist í tal á milli þeirra Steinþórs Gunnarssonar einnig, en honum hefði verið kunnugt um að Steinþór hefði verið að spyrja Árna út í þetta, sem hefði ekki verið óeðlilegt þar sem starf Steinþórs hefði verið í því fólgið að koma á viðskiptum. Ákærði kvaðst hafa gefið sér að bréfin sem Magnús keypti myndu koma úr eigin stöðutöku bankans, enda hefðu þau Sigríður Elín rætt það áður að ef einhver hefði áhuga á að kaupa Landsbankabréf yrði það úr lager bankans. Annars yrði aukið við eign bankans samkvæmt framangreindri 10% reglu, þar sem lán veitt út á bréf sem keypt væru af öðrum myndu fela í sér nettóaukningu. Þau Elín hefðu ekki lánað gegn veði í bréfunum nema vegna þess að þau komu frá bankanum sjálfum.

            Ákærði kvaðst hafa talið Magnús Ármann mjög heiðarlegan mann og hefði hann komið með milljarða tryggingar til að standa við skuldbindingar félaga sinna gagnvart bankanum. Hann kvað það rétt vera að einhver félaga Magnúsar hefðu staðið illa á þessum tíma, en það hefði ekki átt við Imon ehf., sem hafi verið stærsti eigandi Byrs sparisjóðs. Félagið hefði fengið gríðarlega arðgreiðslu fyrr á þessu ári, sem hefði runnið til Landsbankans. Ákærði kvað útfærslu á láninu, svo sem fjárhæð og lánskjör, hafa komið frá Árna Maríassyni og hefði hann samþykkt að ganga frá málinu þannig. Kvaðst ákærði hafa tekið ákvörðun um lánveitinguna með hagsmuni bankans í huga og myndi gera það aftur við sömu aðstæður. 

            Borin voru undir ákærða tvö eintök af lánsbeiðni/ákvörðunartökublaði vegna málsins, dagsett 3. október 2008, annað samþykkt með upphafsstöfum ákærðu Sigríðar Elínar og Árna Maríassonar, en að auki með upphafsstöfum ákærða á hinu. Ákærði kvaðst ekki muna hvenær hann ritaði undir þetta blað, en kvaðst telja líklegast að það hefði verið 7. eða 8. október. Hann kvað það hafa komið fyrir að tvö eintök af sama skjali væru til innan bankans, t.d. vegna þess að það hefði verið ljósritað eða skannað inn á einhverjum tímapunkti. Ákærði kvað Sigríði Elínu og ritara lánanefndar hafa komið með þetta blað til sín á fundi sem haldinn hefði verið um lánamálin 8. október og hefði hann í síðasta lagi skrifað undir það þá. Hann áréttaði hins vegar að hann hefði verið búinn að samþykkja lánsbeiðnina áður.

            Ákærði kvað lánssamning vegna málsins aldrei hafa komið inn á sitt borð. Hann kvað ekkert óeðlilegt við að lánað hefði verið fyrir lántökugjaldinu eins og kveðið væri á um í samningnum. Það væri oft gert, enda væru þetta tekjur bankans. Ákærði kvað áhættuflokkunarkerfi bankans hafa verið úrelt og hefði verið unnið að því að lagfæra það. Því hefði áhættuflokkun sem fram kæmi á lánssamningum haft takmarkað vægi við lánaákvarðanir. Það sem skipt hefði máli hefðu verið tryggingar að baki lánunum, sem í þessu tilviki hefðu verið stofnfjárbréfin í Byr.

            Að því er varðaði það sem fram kæmi á ákvörðunartökublaðinu um vanskil Imon ehf. við bankann kvað ákærði þar hafa verið um að ræða að fyrirtækjasviðið hefði lánað félaginu fyrir vöxtum. Árni Maríasson hefði ekki nefnt þetta við hann þegar hann samþykkti lánveitinguna, en þetta væri ekkert sem skipti máli í hans huga. Fyrri lán til Imon ehf. hafi verið til kaupa á hlutabréfunum og tekjur af þeim væri arður sem greiddur væri út einu sinni á ári. Imon ehf. hefði síðast fengið greiddan arð frá Byr í mars 2008. Það hefði verið stór greiðsla sem öll hafi farið inn á lán félagsins hjá bankanum. Vaxtagreiðslur hafi hins vegar verið stilltar af á sex mánaða fresti og því hafi verið augljóst að ekki yrði arðgreiðsla einmitt á þeim gjalddögum. Það hafi legið fyrir að félagið fengi lán til að stilla þetta af. Kvaðst ákærði líta svo á að félagið hafi ekki verið í vanskilum eftir að því var lánað fyrir vöxtunum. Þá áréttaði ákærði að aðalatriðið í þessu lánamáli hefði verið verðmatið á stofnfjárbréfunum.

            Ákærði kvað reglu 13.5.13 í útlánareglum, um hámarksveðsetningarhlutfall í hlutabréfum, hafa átt að skýrast með hliðsjón af öðrum reglum, en samkvæmt reglu 1.1 hefði þurft skriflega ákvörðun frá lánanefnd eða viðkomandi fagsviði ef um var að ræða ákvörðun sem ekki félli innan ramma reglnanna, eða vafi léki á að svo væri. Þá vísaði ákærði til þess að samkvæmt útlánareglum sem gilt hefðu um starfsemi bankans í London hefði verið miðað við 80 til 90% veðsetningarhlutfall í hlutabréfum.

Ákærða Sigríður Elín Sigfúsdóttir gerði grein fyrir verklagi við afgreiðslu lánamála á fyrirtækjasviði Landsbankans og útlánareglum sem giltu í bankanum, þ.m.t. reglum um millifundaákvarðanir. Hún kvaðst hafa haft heimild til að afgreiða mál sem ekki gat beðið næsta lánanefndarfundar að höfðu samráði við annan bankastjórann. Alla jafna hefði hún haft samráð við ákærða Sigurjón þegar slíkt kom upp, þar sem hann var formaður lánanefndarinnar. Reglurnar hefðu síðan gert ráð fyrir því að hann staðfesti ákvörðun sína á millifundasamþykktirnar sjálfar á næsta fundi nefndarinnar, en aðrir á fundargerð þess fundar þar sem þessar samþykktir voru skráðar sérstaklega með viðeigandi texta. Gert hefði verið ráð fyrir sérstökum kafla í fundargerðinni um millifundasamþykktir, sem hefði síðan verið samþykktur á þeim fundi sem fundargerðin var samþykkt. Í sumum tilvikum hefði formaður lánanefndar verið búinn að undirrita millifundasamþykktina fyrir fund nefndarinnar, eins og hefði verið í tilviki Imon ehf. Ákærða kvað þennan máta á samþykktum hafa tíðkast allan þann tíma sem hún starfaði í bankanum. Hefði það verið í samræmi við lánareglurnar, og henni vitandi án nokkurra athugasemda eða fyrirspurna frá þeim aðilum sem höfðu eftirlit með starfsemi bankans, hvorki af hálfu innri eftirlitsaðila né ytri.

Ákærða lýsti aðdraganda að lánveitingunni til Imon ehf. 30. september 2008 þannig að Árni Maríasson, sem hefði verið viðskiptastjóri Magnúsar Ármann og félaga hans í bankanum, hefði komið til hennar og sagt henni að Magnús eða félag hans hefði áhuga á að kaupa hlutabréf í Landsbankanum. Hefði Árni sagt henni að þeir Sigurjón hefðu verið búnir að ræða lánveitingu vegna viðskiptanna og hefði Sigurjón samþykkt hana. Ákærða kvaðst telja mjög líklegt að þau Árni hefðu á þessum tímapunkti rætt kjör og aðra skilmála lánsins. Hefði hún samþykkt lánveitinguna áður en Árni útbjó ákvörðunartökublaðið, þar sem þau atriði sem þau voru búin að ræða sín á milli komu fram. Ákærða kvaðst hafa undirritað ákvörðunartökublaðið 3. október 2008 og hefði hún sjálf skráð þá dagsetningu á blaðið. Kvaðst hún telja langlíklegast að hún hefði undirritað lánssamninginn sama dag, þó að aðrir sem hefðu ritað undir hann hefðu gert það 30. september, samkvæmt dagsetningu samningsins. Hún kvaðst enga aðkomu hafa átt að kaupum eða sölu á hlutabréfunum, enda hefði hún ekki komið að hlutabréfaviðskiptum í sínu starfi og ekki haft heimild til þess heldur. Þá kvaðst ákærða telja að það myndi fela í sér gróft brot á reglum um bankaleynd að tilkynna um veitt lán til viðskiptavinar út fyrir bankann. Ákærða kvaðst hafa dregið þá ályktun að bréfin, sem seld voru, hlytu að vera í eigu bankans sjálfs, þar sem Sigurjón hefði verið búinn að samþykkja lánveitinguna, en á þessum tíma hefði bankinn ekki verið að „setja út neitt sjálfur“. Í ljósi þess að bankinn átti bréfin og ekki voru „settir nýir peningar út úr bankanum“, auk þess sem lántakandinn hefði bætt við frekari tryggingum í stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði, kvaðst ákærða tvímælalaust hafa talið það bankanum í hag að veita lánið á þeim tíma sem það var gert. Í versta falli hefði bankinn getað gengið að undirliggjandi tryggingum og eignarhluta Imon ehf. í Byr, ef alvarlegt greiðslufall hefði orðið. Ákærða kvaðst hafa talið eign í Byr sparisjóði mjög áhugaverða á þessum tíma. 

Ákærða kvaðst hafa átt sæti í fjármálanefnd bankans þar sem meðal annars hefðu verið lögð fram yfirlit um stöðu bankans í eigin bréfum. Hún kvaðst ekki muna sérstaklega eftir umræðum í því sambandi og ekki hafa verið meðvituð um að bankinn hefði verið að kaupa mikið af eigin hlutabréfum í september og október 2008. Þá hefði hún lítið velt fyrir sér flöggunarmörkum, þar sem slíkt hefði verið fjarri hennar starfssviði. Hins vegar hefði útlánaeftirlitið fylgst með því sem sneri að handveði í eigin bréfum, vegna 10% reglunnar.

Ákærða kvaðst hafa þekkt ágætlega til félaga Magnúsar Ármann, sem hefði verið viðskiptavinur bankans. Magnús hefði lent í erfiðleikum með eitt af sínum félögum fyrr þetta ár og hefðu Árni Maríasson og fleiri starfsmenn fyrirtækjasviðs verið búnir að vinna góða vinnu með honum vegna þess. Hún kvaðst ekki hafa þekkt Imon ehf. mjög mikið, en vitað að félagið var stór eigandi í Byr og í góðu standi að hennar mati. Hún hefði talið rétt að lána þessu félagi með undirliggjandi tryggingum.

Ákærða kvað sig minna að hún hefði farið með ákvörðunarblaðið til ákærða Sigurjóns í beinu framhaldi af því að hún undirritaði það sjálf, föstudaginn 3. október. Hefði hún verið viðstödd þegar hann ritaði undir það. Að því er varðar óvissu um tímasetningu að þessu leyti kvaðst ákærða þess fullviss að Sigurjón hefði undirritað blaðið fyrir 7. október. Hún kvaðst ekki hafa setið fund með bankastjórunum 8. október, en sá dagur væri skýr í minningunni. Ákærða kvaðst líta svo á að með því að Sigurjón setti upphafsstafi sína á ákvörðunarblaðið hefði verið orðin til gild millifundaákvörðun lánanefndar í samræmi við útlánareglur bankans. Þá kvaðst hún telja það fyllilega í samræmi við 18. grein útlánareglnanna þótt lánssamningurinn hefði verið undirritaður áður en ákvörðunarblaðið var staðfest, þar sem Árni Maríasson hefði verið búinn að fá samþykki þeirra Sigurjóns fyrir lánveitingunni. Hún kvaðst ekki líta svo á að formlegt samþykki samkvæmt greininni hefði þurft að vera skriflegt.  Þá bar ákærða á sama veg og ákærði Sigurjón um áhættuflokkunarkerfi bankans, sem hún sagði mikla vinnu hafa verið setta í, en illa hefði gengið að fá rökrétta niðurstöðu úr kerfinu þrátt fyrir það. Kerfið hefði verið í vinnslu og hefði ekki verið horft á áhættuflokkun samkvæmt því við ákvörðunartöku. Ákærða kvað Magnús Ármann hafa verið búinn að semja um vanskil sem getið væri um á ákvörðunartökublaðinu, en um hefði verið að ræða gjaldfallna vexti, sem mætt var með því að hækka lánalínu félagsins hjá bankanum.

            Ákærða kvað millifundasamþykktir lánanefndar hafa verið mjög algengar. Hefðu slíkar samþykktir verið upplistaðar á hverjum einasta lánanefndarfundi. Hún kvaðst hafa haft heimild samkvæmt útlánareglum til að samþykkja millifundaákvörðun með því að hafa samráð við bankastjóra, hvorn þeirra sem var. Þá kom fram hjá ákærðu að undir bankaráð hefðu einvörðungu verið bornar lánveitingar sem vörðuðu bankaráðsmenn eða fyrirtæki þeim tengd. Hins vegar hefði bankaráð ekki haft með lánveitingar til ótengdra aðila að gera.

Loks áréttaði   ákærða að hún teldi lánveitinguna hafa þjónað hagsmunum bankans. Bankinn hefði verið búinn að „setja út fjármuni“ til þess að kaupa þau hlutabréf sem viðskiptin snerust um. Þar með hefði bankinn verið búinn að taka áhættu. Síðan hefði komið nýr aðili, keypt bréfin og lagt undir það nýjar tryggingar.

Árni Maríasson, sem var forstöðumaður á fyrirtækjasviði Landsbankans, kvaðst hafa séð um lánamál Magnúsar Ármann og félaga hans hjá bankanum. Hann kvað stöðu félaganna hafa verið misjafna, sum hefðu staðið illa, önnur betur. Magnús hefði staðið sig mjög vel í að koma með frekari tryggingar vegna skuldbindinga sinna og hefði hann átt mikið „good-will“ í bankanum.

Vitnið kvað Magnús hafa ámálgað það við einhverja í bankanum að hann hefði áhuga á að kaupa hlutabréf í Landsbankanum þegar gengi bréfanna væri komið niður í ákveðna tölu. Hefði Steinþór Gunnarsson fært það í tal við vitnið hvort Magnús hefði áhuga á að kaupa bréf og hann í framhaldinu rætt það við ákærða Sigurjón, meðal annars um hvort rými væri til að lána Magnúsi fyrir kaupunum. Vitnið kvaðst hafa gert sér grein fyrir því síðar að hlutabréfin sem viðskiptin snerust um voru keypt af eigin fjárfestingum bankans. Borin var undir vitnið skýrsla hans hjá sérstökum saksóknara í desember 2010, þar sem meðal annars kom fram að þetta hefði byrjað væntanlega á því að bréfin voru keypt inn og það „fyllist þarna upp“ og þess vegna „þurfti víst að tappa af þessum sílóum sem eru hinum megin við þarna“. Vitnið kvaðst hafa verið að vísa til orðalags sem hann hefði séð í skýrslu einhvers annars sem yfirheyrður hefði verið vegna málsins og hefðu þetta verið hugleiðingar hans í framhaldi af því.

Vitnið kvaðst ekki muna hvort Magnús hefði áður rætt við hann um að hann hefði áhuga á að kaupa bréf og ekki geta fullyrt hvernig þetta mál hefði komið fyrst til hans. Hann hefði hins vegar þurft að fá samþykki yfirmanna sinna til að ganga frá lánamálinu, annað hvort beggja bankastjóra eða bankastjóra og framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs. Hann hefði haft munnlegt samþykki ákærðu Sigurjóns og Sigríðar Elínar og hefði skriflegt samþykki þeirra legið fyrir a.m.k. þegar lánið var greitt út. Vitnið kvaðst ekki minnast þess að Steinþór Gunnarsson hefði ýtt á eftir þessu máli. Hann kvaðst telja að Magnús Ármann hefði óskað eftir því að bankinn fjármagnaði viðskiptin, en hann hefði einnig lagt fram stofnfjárbréf í Byr á móti. Magnús hefði ekki átt laust fé á þessum tíma, en þar sem hann átti eignir sem hann gat lagt undir að veði kvaðst vitnið hafa talið að forsendur væru til að veita honum lánið. Veðrými hafi verið til lánveitingarinnar.

            Vitnið kvaðst hafa útbúið ákvörðunartökublað vegna lánveitingarinnar og lagt það fyrir ákærðu Sigríði Elínu. Hún hefði lesið það yfir, samþykkt lánsbeiðnina með því að rita upphafsstafi sína á blaðið og síðan tekið það til að fá skriflegt samþykki ákærða Sigurjóns. Vitnið kvaðst ekki minnast þess að hafa rætt um það við Sigríði Elínu hvernig viðskiptin voru til komin. Hann kvaðst ekki telja sig hafa þurft að fá skriflega undirritun ákærðu á ákvörðunartökublaðið áður en lánssamningur var útbúinn og undirritaður. Það hefði hins vegar þurft að liggja fyrir áður en lánið var greitt út. Vitnið kvað ekkert óeðlilegt við að lánað hefði verið fyrir lántökugjaldi, en það væri nánast undantekningarlaust gert. Hann kvað áhættuflokkun prentast sjálfkrafa út úr kerfinu þegar ákvörðunartökublað væri útbúið. Í þessu máli hefði fyrst og fremst verið litið til undirliggjandi veða við ákvörðun um lánveitingu. Þótt nokkur félög á vegum Magnúsar Ármann hefðu fengið á sig högg vegna hræringa sem orðið hefðu á fjármálamörkuðum hefðu önnur félög hans staðið vel. Þá hefði verið búið að ganga frá vanskilum hans við bankann á þessum tíma. Magnús hefði fært auknar tryggingar fyrir lánum sínum og enn hefði verið veðrými í Byr bréfunum. Vitnið kvaðst telja að hægt hefði verið að selja bréfin fyrir hærri fjárhæð en lánveitingunni nam og vísaði til verðmats á bréfunum sem stuðst var við í sameiningarviðræðum Byrs og Glitnis. Ákærðu hefðu haft heimild til að víkja frá ákvæðum útlánareglna um veðsetningarhlutföll og kvaðst vitnið telja þau hafa haft hagsmuni bankans að leiðarljósi við lánveitinguna. Bankinn hefði átt hlutabréfin sem seld voru fyrir og hefði áhætta hans því í raun lækkað með því að tekið var veð í Byr stofnfjárbréfunum. Þar sem hlutabréfin í Landsbankanum hefðu þegar verið keypt af bankanum hefðu fjármunir ekki farið út úr bankanum við það að lánað var með veði í þeim. Vitnið kvað lánsfjárhæðina hafa verið greidda inn á reikning Imon ehf. í bankanum og millifærða þaðan inn á reikning eigin fjárfestinga sem endurgjald fyrir hlutabréfin. Þetta gerist með skuldfærslu og í einni svipan.

            Magnús Ármann kvaðst hafa verið að fylgjast með því að hlutabréfaverð í Landsbankanum hefði farið lækkandi. Hefðu bréfin lækkað um 50% á ákveðnu tímabili. Hann hefði verið í miklum samskiptum við starfsmenn bankans, einkum Þorstein Gunnar Ólafsson, starfsmann bankans Í Lúxemborg, Árna Maríasson og Steinþór Gunnarsson, dögum, vikum og hugsanlega mánuðum fyrir viðskiptin, og leitað álits þeirra á því hvort ekki væri að myndast kauptækifæri fyrir hann í bankanum og hvort hann ætti að „skjóta sér inn í stockinn“.

Vitnið kvaðst hafa fengið símtal frá Árna Maríassyni klukkan 16:08 föstudaginn 30. september, en hann hefði þá verið búinn að koma því á framfæri að hann vildi taka stöðu í bankanum. Hann hefði farið á fund Árna í bankanum og lýst því að forsenda hans fyrir kaupum á hlutabréfum væri að hann fengi lánafyrirgreiðslu frá bankanum. Hefði Árni sagt honum að hann fengi þá fyrirgreiðslu gegn allsherjarveði í Byr stofnfjárbréfunum og veði í hlutabréfunum sem keypt yrðu. Vitnið kvað Ívar Guðjónsson og Steinþór Gunnarsson hafa komið inn á þennan fund „í einhverri mynd“. Rætt hefði verið um magntölur og fjárhæðir á fundinum. Hefðu viðskiptin verið afgreidd þarna og fundinum lokið klukkan rúmlega 18. Vitnið kannaðist við að lánalína Imon ehf. hefði verið hækkuð þennan sama dag til að koma vaxtagjalddaga á öðrum lánum í skil. Vitnið kvað það ekki skipta máli í samhengi við lánveitinguna þar sem tryggingarþekjan hefði verið nægjanleg. Loks kom fram hjá vitninu að eftir hrun Landsbankans hefði slitastjórn bankans gengið að Byr stofnfjárbréfunum til fullnustu skulda hans við bankann.

Steinþór Gunnarsson kvað Árna Maríasson hafa hringt til sín þennan dag og boðað sig á fund á fyrirtækjasviðinu, þar sem Magnús Ármann hefði verið fyrir. Vitnið kvaðst hafa staldraði stutt við á fundinum, en síðan farið í að ganga frá viðskiptunum. Búið hefði verið að ákveða heildarverðmæti viðskiptanna og hefði hann hringt í deild eigin fjárfestinga til að kaupa af þeim bréfin sem miðlað var til Imon ehf. Hann kvaðst engar upplýsingar hafa haft um fjármögnun viðskiptanna. Viðskiptin hefðu átt sér stað eftir lokun Kauphallar og hefði hann beðið Guðmund Víði Guðmundsson, starfsmann á verðbréfasviði, um að tilkynna þau Kauphöllinni morguninn eftir.

Ívar Guðjónsson, forstöðumaður eigin fjárfestinga Landsbankans, kvaðst einnig hafa verið kallaður á fundinn og hefðu Árni Maríasson, Magnús Ármann og Steinþór Gunnarsson verið þar fyrir. Hann hefði þarna verið kynntur fyrir nýjum hluthafa Landsbankans. Vitnið kvaðst hafa staldrað við í um fimm mínútur á fundinum og vottað einhver skjöl. Hann kvað hlutabréfin sem keypt voru hafa komið frá sinni deild. Vitnið kvað óróatíma hafa verið á mörkuðum þegar þetta var. Það hefði verið framboð á hlutabréfum í bankanum, en líka eftirspurn. Hann neitaði því að þrýstingur hefði verið frá hans deild á miðlara bankans í þá veru að finna kaupendur að hlutabréfum í bankanum. Það væri hins vegar hlutverk verðbréfamiðlunar að leita að kaupendum.

            Vitnið kvaðst hafa komið inn á vikulega fundi fjármálanefndar bankans, kynnt breytingar á stöðu og þróun hlutabréfaeignar bankans almennt og dreift yfirlitum þar um. Hann kvaðst ekki muna eftir sérstökum umræðum um aukið framboð hlutabréfa í bankanum á markaði á fundi nefndarinnar 24. september 2008.

            Júlíus Þór Gunnarsson, ritari lánanefndar, kvað það hafa færst í aukana undir lok bankans að ákvarðanir um lántökur væru teknar á milli funda nefndarinnar. Vitnið kvað ákærðu hafa haft heimild til að taka ákvörðun um lánveitinguna sem um ræðir á milli funda lánanefndarinnar og vísaði til greinar 16.4 í útlánareglum. Næsti fundur nefndarinnar hefði verið fyrirhugaður 8. október. Vitnið gerði grein fyrir því að við fall bankans hefði hann setið uppi með 16 samþykktir sem ákvörðun hefði verið tekin um frá síðasta fundi lánanefndar 24. september og hefði lánveitingin til Imon ehf. verið þar á meðal. Hann kvaðst hafa tekið saman ákvörðunartökublöðin sem um ræðir, útbúið óformlega fundargerð, og beðið ákærðu Sigríði Elínu um að útvega undirritun bankastjóra. Vitnið kvaðst telja að hann hafi fengið í hendur ákvörðunartökublað vegna lánveitingar til Imon ehf., sem staðfest var með upphafsstöfum beggja ákærðu, mánudaginn 6. október, en kvaðst ekki með vissu geta sagt til um hvenær upphafsstafir Sigurjóns voru ritaðir á blaðið. 

            Hrafnhildur Vala Grímsdóttir, forstöðumaður lánavinnslu bankans, kvaðst hafa útbúið lánssamninginn til Imon ehf. að beiðni Árna Maríassonar. Hún kvaðst ekki muna hvort ákærði Sigurjón hefði staðfest ákvörðunartökublaðið þegar hún útbjó lánasamninginn, en það væri ekki óeðlilegt í sjálfu sér. Hins vegar kvaðst hún ekki hafa trú á því að lánið hefði verið greitt út án þess að ákærðu hefðu bæði undirritað ákvörðunartökublaðið.

            Kristinn Björn Sigfússon, sérfræðingur í lánavinnslu, kvaðst hafa greitt út lánið sem um ræðir. Lánssamningur og ákvörðunartökublað hafi þurft að liggja fyrir við afgreiðslu lána, auk þess sem hann hafi kannað hvort réttar undirskriftir væru til staðar á lánsskjölum.

            Halldór Jón Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri, kvaðst ekki muna sérstaklega eftir umræðu á fundi fjármálanefndar 24. september 2008 um að mikið af Landsbankabréfum hefði verið að fara inn á markaðinn. Mikill lausafjárskortur hafi verið hjá fjárfestum og fyrirtækjum á þessum tíma. Hafi oft verið brugðist við því með því að selja eignir, svo sem hlutabréf, til að afla lausafjár. Það hefði ekki endilega þýtt að menn hefðu ótrú á bréfunum. Vitnið kvaðst ekki minnast þess að ákveðið hefði verið að bregðast við því með einhverjum hætti að mikið af hlutabréfum í bankanum væri að fara inn á markaðinn. Þá kvaðst vitnið ekki minnast umræðu um yfirlit um stöðu bankans í eigin bréfum, sem dreift var á fundi nefndarinnar 1. október 2008.        Vitnið kvað ákvörðun um lánveitingu til Imon ehf. hafa verið tekna á milli lánanefndarfunda, eins og heimilt hafi verið. Hann hefði verið upplýstur um málið 8. eða 9. október, eftir að Fjármálaeftirlitið hafði tekið bankann yfir. Hann kvað millifundaákvarðanir hafa öðlast gildi þegar þær voru teknar. Um endanlegar ákvarðanir hefði verið að ræða, en þær hefðu verið lagðar fram á næsta lánanefndarfundi til kynningar, bókunar og staðfestingar. Vitnið kvað millifundaákvarðanir ekki hafa verið óalgengar og hefðu þá ákærðu yfirleitt komið að þeim vegna starfssviðs þeirra innan bankans. Hann kvaðst líta svo á að fullnægjandi hefði verið samkvæmt útlánareglum að annar bankastjóranna og framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs undirrituðu millifundaákvörðunina. Þá hafi það verið mat ákærðu að málið væri þess eðlis að það þyrfti að afgreiða það á milli lánanefndarfunda. 

            Björgólfur Guðmundsson, sem var formaður bankaráðs, kvað ráðið engin afskipti hafa haft af almennum útlánum. Þau hefðu alfarið verið á vegum bankastjóranna, sem jafnframt hefðu sett útlánareglur bankans. Bankaráð hefði fengið upplýsingar um útlán á fundum, auk þess sem innri endurskoðandi bankans hefði fylgst með þessum málum. Þá hefði bankaráð fengið upplýsingar um stöðu bankans í eigin hlutabréfum á fundum, en samþykkt hefði verið á aðalfundi að eigin eign bankans mætti nema 10%.

Þá komu fyrir dóminn sem vitni Einar Þór Sverrisson, sem var varamaður í stjórn Imon ehf., Guðmundur Víðir Guðmundsson, starfsmaður verðbréfamiðlunar Landsbankans, og Brynjólfur Helgason, fyrrum framkvæmdastjóri alþjóðasviðs og staðgengill bankastjóra Landsbankans, en ekki eru efni til að rekja framburð þeirra.

 

Niðurstaða

 

Kafli II a ákæru

     Ákærðu, Sigurjóni Þorvaldi Árnasyni og Sigríði Elínu Sigfúsdóttur, er í kafla II a í ákæru gefin að sök umboðssvik, með því að hafa í störfum sínum fyrir Landsbankann misnotað aðstöðu sína og stefnt fé bankans í verulega hættu með því að fara út fyrir heimildir til lánveitinga er þau veittu Imon ehf. lán það sem um ræðir, sem veitt hafi verið án fullnægjandi tryggingar. Óumdeilt er að ákærðu voru í aðstöðu til að skuldbinda Landsbankann, stöðu sinnar vegna hjá bankanum. Kemur þá til skoðunar hvort þau hafi misnotað þá aðstöðu með þeim hætti að háttsemi þeirra hafi haft í för með sér verulega fjártjónshættu fyrir bankann, svo að teljist umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga.

     Fyrir liggur að ákærðu samþykktu að veita Imon ehf. 5.163.000.000 króna lán til kaupa á 250.000.000 hluta í Landsbankanum, sem voru í eigu bankans sjálfs, og að til tryggingar láninu var handveð í hinum keyptu hlutabréfum og allsherjarveð í stofnfjárhlutum Imon ehf., sem áður hafði verið veitt vegna skuldbindinga félagsins við bankann. Við mat á því hvort háttsemi ákærðu hafði í för með sér verulega fjártjónshættu fyrir Landsbankann skiptir máli að bréfin sem seld voru höfðu áður verið keypt af bankanum með tilheyrandi fjárútlátum. Svo sem rakið hefur verið var lánsfjárhæðin skuldfærð af starfsmanni lánavinnslu bankans á bankareikning Imon ehf. og þaðan yfir á reikning deildar eigin fjárfestinga í bankanum, sem endurgjald fyrir bréfin. Hin keyptu bréf voru handveðsett bankanum, sem hefði getað leyst þau til sín á ný hefði komið til vanefnda á lánssamningnum. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að veðrými stofnfjárhluta í Byr hafi á þessum tíma verið fullnýtt vegna annarra skuldbindinga Imon ehf. við bankann, sem í ákæru greinir. Er í því sambandi vísað til mats forstöðumanns á fyrirtækjasviði bankans sem fram fór í aðdraganda lánveitingarinnar og kemur fram á ákvörðunartökublaði vegna málsins. Um mat á tryggingum að þessu leyti verður að líta til þeirra gagna sem fyrir lágu um gengi stofnfjárhlutanna á þeim tíma sem lánveitingin fór fram. Þótt ákvörðun um lánveitinguna hafi verið tekin á viðsjárverðum tímum í íslensku efnahagslífi er ekki unnt að leggja til grundvallar að ákærðu hafi séð það fyrir að Fjármálaeftirlitið myndi taka yfir rekstur Landsbankans, sem raunin varð, með þeim afleiðingum að hlutabréf í bankanum urðu verðlaus. Samkvæmt framansögðu þykir ósannað að ákærðu hafi með háttsemi sinni stefnt fé bankans í verulega hættu, eins og þeim er gefið að sök í ákæru. Af framangreindu leiðir að ekki hefur að mati dómsins verið sýnt fram á að fullnægt hafi verið skilyrðum auðgunarásetnings samkvæmt 243. gr. almennra hegningarlaga. 

            Samkvæmt 3. mgr. greinar 16.1 í útlánareglum Landsbankans var lánanefnd æðsta vald í útlánamálum bankans og gat hún vikið frá gildandi útlánareglum við lánaákvarðanir sínar. Verður að telja að sú heimild hafi náð til þess að víkja frá viðmiðum um hámarksveðsetningarhlutfall hlutabréfa samkvæmt grein 13.5.13 í reglunum, þó þannig að gætt væri að útlánaáhættu. Samkvæmt grein 16.4 hafði framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs heimild til að afgreiða lánamál á milli lánanefndarfunda að höfðu samráði við bankastjóra og verður ráðið af orðalagi ákvæðisins, sem og framburði ákærðu og vitna, sem rakinn hefur verið, að nægjanlegt hafi verið að hafa samráð við annan bankastjóranna tveggja.

Í málinu liggja fyrir tvö eintök af ákvörðunartökublaði vegna lánveitingarinnar sem um ræðir, dagsett 3. október 2008, annað staðfest með upphafsstöfum Árna Maríassonar og ákærðu Sigríðar Elínar, en hitt jafnframt með upphafsstöfum ákærða Sigurjóns. Síðara blaðið fannst í fórum ritara lánanefndar, sem kvaðst hafa fengið það í hendur ekki síðar en mánudaginn 6. október. Ákærða Sigríður Elín hefur borið að sig minni að hún hafi farið með ákvörðunartökublaðið til Sigurjóns eftir að hún ritaði undir það 3. október, til að fá staðfestingu hans, og styður vitnisburður Árna Maríassonar, Hrafnhildar Völu Grímsdóttur og Kristins Björns Sigfússonar þá frásögn. Ákærði Sigurjón kvað sig minna að hann hefði ritað undir blaðið síðar, en hann hefði ekki talið það skipta máli þar sem hann hefði áður samþykkt lánveitinguna. Allan vafa um þetta atriði verður að skýra ákærðu í hag og er að mati dómsins ósannað að ákærði Sigurjón hafi ekki staðfest ákvörðunarblaðið formlega áður en lánið var greitt út 3. október, eins og 19. grein útlánareglna kvað á um. Fram er komið að fyrirhugað var að leggja millifundasamþykktina fram á fundi lánanefndar 8. október til samþykktar samkvæmt ákvæðum útlánareglna, en af þeim fundi varð ekki þar sem Fjármálaeftirlitið hafði þá tekið stjórn bankans yfir.

Sem að framan er rakið lá fyrir mat forstöðumanns á fyrirtækjasviði bankans á greiðslugetu og eignastöðu Imon ehf. Þá hafði lánalína félagsins verið hækkuð og var með því samið um vanskil vegna vaxtagreiðslna tengdum öðrum skuldbindingum. Samkvæmt því og með vísan til þess sem fyrr greinir um mat á fjártjónshættu vegna lánveitingarinnar þykir ekki hafa verið sýnt fram á að með ráðstöfun ákærðu hafi verið brotið gegn ákvæðum útlánareglna bankans við mat á greiðslugetu og eignastöðu félagsins eða ákvæðum útlána- og áhættureglna bankaráðs um útlánaáhættu, sem áður hefur verið gerð grein fyrir.

Áður hefur verið vikið að starfsreglum bankaráðs, en samkvæmt ákvæði þeirra skyldi ráðið annast ráðstafanir sem voru óvenjulegar eða mikils háttar. Eru lánveitingar ekki taldar meðal ráðstafana sem getið er um í grein 9.2 í reglunum sem dæmi um óvenjulegar eða mikils háttar ráðstafanir. Þá fór lánanefnd bankans með æðsta vald í útlánamálum bankans, samkvæmt ákvæðum útlánareglna. Þykir samkvæmt þessu ekki hafa verið sýnt fram á að ákærðu hafi borið að bera lánveitinguna undir bankaráð, svo sem í ákæru greinir.

Með vísan til framangreinds hefur að mati dómsins ekki verið sýnt fram á að ákærðu hafi misnotað aðstöðu sína með því að fara út fyrir heimildir sem þau höfðu við lánveitinguna sem um ræðir, eins og þeim er gefið að sök í ákæru. Þá þykir, sem fyrr greinir, ósannað að ákærðu hafi með háttsemi sinni stefnt fé bankans í verulega hættu, eða aðhafst af auðgunarásetningi í umrætt sinn. Samkvæmt því þykir ekki fullnægt skilyrðum til að ákærðu verði gerð refsing samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga og verða þau sýknuð af kröfum ákæruvalds þar um.

 

Kafli II b ákæru

            Í kafla II b í ákæru er ákærðu Sigurjóni og Sigríði Elínu gefin að sök markaðsmisnotkun við sölu á framangreindum hlutum í Landsbankanum, en með viðskiptunum og tilkynningu þeirra sem utanþingsviðskipta til Kauphallarinnar hafi ranglega verið látið líta út fyrir að fjárfestir hefði lagt fé til kaupa hlutafjárins og borið af þeim fulla markaðsáhættu. Þar sem fjárfestar hafi ekki verið upplýstir um skilmála viðskiptanna hafi þau verið til þess fallin að gefa ranga og misvísandi mynd af eftirspurn hlutabréfa í Landsbankanum, eða verið líkleg til að gera það, og falið auk þess í sér blekkingu og sýndarmennsku.

            Í röksemdum með ákæru, samkvæmt d-lið 1. mgr. 152. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, kemur jafnframt fram að dagana 29. og 30. september 2008 hafi nettó kaup deildar eigin fjárfestinga Landsbankans numið 271.695.724 hlutum í bankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í Kauphöllinni, sem hafi numið 2,4% af útgefnu hlutafé bankans. Hafi umrædd sala verðbréfamiðlunar bankans á hlutafé til Imon ehf. verið liður í að losa bankann við þessa hlutafjáreign svo að deild eigin fjárfestinga gæti haldið áfram umfangsmiklum kaupum á hlutabréfum í bankanum. Í niðurlagi I. kafla ákæru, og röksemdum, er í þessu sambandi vísað til lögbundinna takmarkana á eignarhaldi fjármálafyrirtækja á eigin hlutabréfum, sbr. þágildandi 1. mgr. 29. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, reglna um flöggunarskyldu, sbr. 93. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, og neikvæðra áhrifa á eignarfjárhluta bankans, sbr. þágildandi 4. og 5. mgr. 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Til þess er þó að líta að ekki verður séð að viðskiptin sem um ræðir hefðu haft áhrif til lækkunar gagnvart 10% viðmiði því sem mælt var fyrir um í 29. gr. laga um fjármálafyrirtæki, þar sem hin keyptu bréf voru handveðsett Landsbankanum. Jafnframt er rétt að líta til þess að gögn málsins bera ekki með sér að gengi hlutabréfa í bankanum hafi hækkað í kjölfar þess að tilkynnt var um viðskiptin, heldur þvert á móti að það hafi farið lækkandi.

            Framburður ákærðu og vitna um aðdraganda viðskiptanna hefur verið rakinn. Kom þar meðal annars fram að Magnús Ármann hefði verið í samskiptum við starfsmenn bankans, þ. á m. Árna Maríasson og Steinþór Gunnarsson, og hefði hann lýst áhuga á að kaupa hlutabréf í Landsbankanum. Þá kom fram að lánafyrirgreiðsla frá bankanum hefði verið forsenda kaupanna af hans hálfu, en á þessum tíma var ekki í lögum mælt fyrir um að fjármálafyrirtæki væri óheimilt að veita lán sem tryggð væru með veði í hlutabréfum útgefnum af því sjálfu. Ákærðu tóku sameiginlega ákvörðun um lánveitinguna með vitneskju um að hin seldu hlutabréf kæmu frá eigin fjárfestingum Landsbankans.

Samkvæmt 29. gr. laga um verðbréfaviðskipti skal fjármálafyrirtæki, sem á viðskipti utan skipulegra verðbréfamarkaða eða markaðstorga fjármálagerninga annaðhvort fyrir eigin reikning eða fyrir hönd viðskiptavina, með hlutabréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, gera opinberar upplýsingar um verð, umfang og tímasetningu viðskipta. Upplýsingarnar skal birta eins nálægt rauntíma og mögulegt er, á eðlilegum viðskiptakjörum, og á þann hátt að þær séu aðgengilegar öðrum markaðsaðilum. Svo sem rakið hefur verið tilkynnti starfsmaður verðbréfamiðlunar Landsbankans viðskiptin til Kauphallarinnar við upphaf næsta viðskiptadags og var það í samræmi við reglur sem Kauphöllin hafði sett, eða aðildarreglur Norex. Í lögum um verðbréfaviðskipti er ekki að finna ákvæði um að upplýsa skuli hvernig staðið hefur verið að fjármögnun tilkynntra viðskipta. Þá verður ekki ráðið af lögunum, eða reglum sem um þetta gilda, hvernig standa skyldi að því að upplýsa um skilmála viðskipta af þessu tagi.

Með því að lánið sem veitt var til viðskiptanna var tryggt með handveði í hinum keyptu hlutabréfum bar Landsbankinn eftir sem áður markaðsáhættu vegna bréfanna. Jafnvel  þótt lagt yrði til grundvallar að sala bréfanna hefði verið liður í því að losa bankann við uppsafnaða hlutafjáreign, eins og byggt er á í ákæru, verður ekki horft fram hjá því að til viðbótar veði í hinum keyptu hlutabréfum kom trygging samkvæmt veði í Byr stofnfjárhlutum í eigu lántaka, en dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið sýnt fram á að veðrými þeirra hafi verið fullnýtt við aðrar lántökur. Þykir því ekki hafa verið sýnt fram á að engin breyting hafi orðið á markaðsáhættu Landsbankans vegna viðskiptanna. Með hliðsjón af því, og vísan til þess sem rakið hefur verið um aðdraganda viðskiptanna og reglur um upplýsingagjöf fjármálafyrirtækja um slík viðskipti, þykir óvarlegt að slá því föstu að viðskiptin og upplýsingagjöf um þau, hafi verið til þess fallin að gefa ranga og misvísandi mynd af eftirspurn hlutabréfa í bankanum, eða verið líkleg til að gera það, og jafnframt falið í sér blekkingu og sýndarmennsku, svo að varði ákærðu refsingu samkvæmt a-lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Verða ákærðu því sýknuð af ákæru þar um. 

 

III. kafli ákæru

            Eins og rakið hefur verið beindi Fjármálaeftirlitið, með bréfum dagsettum 20. maí 2009 og 17. október 2010, til sérstaks saksóknara máli vegna meintrar markaðsmisnotkunar við sölu 200.000.000 hluta í Landsbankanum, sem voru í eigu bankans, til Imon ehf. 3. október 2008.

            Í málinu liggja fyrir ódagsett og óundirrituð drög að lánssamningi vegna 3.831.600.000 króna lánveitingar Landsbankans til Imon ehf. til kaupa á 200.000.000 hluta í bankanum, ásamt drögum að lánsbeiðni. Samkvæmt viðskiptakvittunum, sem Landsbankinn gaf út 3. október 2008, keypti miðlun bankans 115.000.000 hluta af deild eigin fjárfestinga þennan dag klukkan 16:04 á genginu 19,09255 og klukkan 16:16 85.000.000 hluta til viðbótar á genginu 18,99285. Klukkan 16:17 seldi Landsbankinn síðan Imon ehf. 200.000.000 hluta á genginu 19,11 og er dagsetning uppgjörs skráð 8. október. Ákærði Steinþór er skráður miðlari viðskiptanna.

            Samkvæmt gögnum fengnum úr tilboðabók Kauphallarinnar voru tilkynnt þrenn viðskipti með hlutabréf í Landsbankanum þennan dag, klukkan 12:01 og 17:05, sem samtals námu 200.000.000 hluta. Tímasetning tilkynninganna kemur ekki heim og saman við tímasetningar á viðskiptakvittunum, en óumdeilt er í málinu að um sömu viðskipti er að ræða. Kemur fram í tilboðabókinni að ákærði Steinþór hafi tilkynnt viðskiptin.

            Þá er að finna í gögnum málsins frétt, sem birtist í Fréttablaðinu 4. október 2008, þar sem kemur fram að mikil viðskipti hafi verið með hlutabréf í Landsbankanum í Kauphöllinni deginum áður og hafi gengi bréfa í bankanum hækkað um 4,2%. Er til þess vísað að af viðskiptum með bréf bankans hafi utanþingsviðskipti skorið sig úr, en þau hafi numið 8,2 milljörðum króna. Hafi tvenn utanþingsviðskipti með bréf bankans upp á tæpa 3,8 milljarða króna skorið sig úr, sem kemur heim og saman við þau viðskipti sem III. og IV. kafli ákæru lúta að.

            Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði Sigurjón enga aðkomu hafa haft að þeim viðskiptum sem hér um ræðir. Hann kvaðst þó muna eftir því að hafa heyrt einhverjar umræður um að Magnús Ármann ætlaði að kaupa fleiri hlutabréf í bankanum, en ekki geta fullyrt við hverja hann ræddi þetta. Það gæti verið að ákærði Steinþór hefði minnst á þetta við hann, en eins gæti hann hafa hitt Árna Maríasson á göngum bankans og þetta borist í tal á milli þeirra. Ákærði kvaðst ekki minnast þess að hafa hringt til Árna Maríassonar fimmtudagskvöldið 2. október og spurt hann um stöðu Imon ehf. Þá kvaðst hann aldrei hafa fengið nein lánsskjöl til afgreiðslu varðandi þetta mál. Hins vegar fyndist honum ekki ólíklegt að hann hefði verið tilleiðanlegur að veita Magnúsi frekara lán, ef málið hefði verið lagt fyrir hann. Það sé hins vegar alrangt sem komi fram í ákæru að hann hafi ákveðið viðskiptin.

Ákærði kvaðst ekki vita hvaða umræður hefðu átt sér stað um fjármögnun vegna fyrirhugaðra hlutabréfakaupa, en gera ráð fyrir að þær hefðu farið fram á milli ákærða Steinþórs, Árna Maríassonar og Magnúsar Ármann. Þá hljóti ákvörðun um magn hluta að hafa verið tekin af þeim sem vildi selja bréfin annars vegar, sem í þessu tilfelli var deild eigin fjárfestinga, eða Ívar Guðjónsson, og hins vegar af þeim sem vildi kaupa, það er Magnúsi Ármann, fyrirsvarsmanni Imon ehf. Viðskiptin hafi átt sér stað fyrir milligöngu miðlara. Ef Magnús hefur haft í hyggju að fá fjármögnun frá bankanum fyrir kaupunum sé líklegt að hann hefði rætt það við einhvern lánamann. Slíkt hefði hins vegar ekki verið rætt við ákærða. Ákærði benti á að með því að Magnús Ármann hefði pantað hlutabréfin vegna Imon ehf. og Ívar Guðjónsson staðfest sölu þeirra, hefði Imon ehf. verið skuldbundið til að greiða fyrir bréfin. Þá vísaði ákærði til þess að allsherjarveð í stofnfjárhlutum Imon ehf. í Byr sparisjóði, hefði þegar legið fyrir í bankanum og staðið til tryggingar í viðskiptunum.

            Ákærði Steinþór kvað það hafa verið hlutverk verðbréfamiðlara að „búa til viðskipti“, og að hafa milligöngu í því sambandi. Vinnudagurinn hefði yfirleitt gengið þannig fyrir sig að miðlararnir byrjuðu með tómt borð að morgni og þurftu að hringja í eins marga aðila og þeir komust yfir til þess að reyna að koma á viðskiptum. Ákærði kvaðst hafa átt nokkur samskipti við ákærða Sigurjón á þessum tíma, aðallega í því skyni að upplýsa hann um það sem ætti sér stað á verðbréfasviðinu. Þá kvaðst ákærði hafa átt nokkur samskipti við viðskiptastjóra á fyrirtækjasviði bankans.

            Ákærði lýsti aðdraganda viðskiptanna sem um ræðir þannig að eftir kaup Imon ehf. á hlutabréfum í bankanum 30. september hefði Magnús Ármann verið í miklum símasamskiptum við þá Árna Maríasson. Kvað ákærði það áreiðanlega hafa borið á góma í þessum samskiptum að Magnús vildi kaupa fleiri bréf. Ákærði kannaðist við að hafa verið miðlari í viðskiptunum og vísaði til gagna sem liggja fyrir um símtöl vegna málsins. Samkvæmt þeim gögnum var hringt úr síma Magnúsar Ármann í síma ákærða klukkan 9:28 þennan dag. Þá hafi Árni Maríasson hringt til hans klukkan 9:43, en sennilega fengið samband við talhólf, því að ákærði hefði hringt til baka í Árna klukkan 9:43. Í kjölfari þess símtals, klukkan 9:53, hafi ákærði hringt í Ívar Guðjónsson. Viðskiptin hefðu síðan verið tilkynnt í Kauphöllinni klukkan 10.01.17 og 10.01.21, miðað við íslenskan tíma. Ákærði kvaðst ekki muna sérstaklega þau samskipti sem áttu sér stað í framangreindum símtölum. Hann vísaði til þess að samkvæmt reglum Kauphallarinnar, aðildarreglum Norex, hefði honum borið að tilkynna viðskiptin innan þriggja mínútna frá því þau komast á. Þá benti ákærði á að eftir að samningar hafa tekist hafi kaupandi þrjá daga til að greiða kaupverðið. Vísaði ákærði þar til ákvörðunar stjórnar Kauphallarinnar varðandi viðskipti með skráð hlutabréf, svokallaðrar t+3 reglu sem gilti á þessum tíma, en samkvæmt henni var uppgjörstími hlutabréfaviðskipta þrír dagar, sem þýddi að afhending hlutabréfa og greiðsla fyrir þau skyldi fara fram fyrir opnun markaða á þriðja viðskiptadegi eftir að viðskipti áttu sér stað.

            Ákærði kvaðst hafa getað séð á yfirliti sem Kauphöllin sendi frá sér vikulega hver eign veltubókarinnar væri í hlutabréfum í bankanum. Auk þess hefði hann fylgst með markaðnum þegar hann var „við borðið“. Hann kvaðst hafa gert sér grein fyrir því að meira framboð en eftirspurn var eftir bréfum í Landsbankanum á þessum tíma, enda hefði gengi hlutabréfanna lækkað úr 40 niður í 20 og jafnvel farið neðar. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við umræður innan bankans um að halda sig innan flöggunarmarka við kaup á eigin bréfum, en það hefði verið hlutverk áhættustýringar bankans að hafa eftirlit með því. Þá hefði það ekki verið hluti af hans starfi að fylgjast með því að eign bankans og handveð í eigin bréfum næmu ekki hærri fjárhæð en 10% af nafnverði innborgaðs hlutafjár. Í þessu sambandi voru borin undir ákærða tölvupóstsamskipti milli þeirra Alexanders Lapas, starfsmanns í útlánaeftirliti bankans, frá 30. september 2008, þar sem eftirfarandi kom fram hjá Alexander: „Samtals eign plús handveð 14,74%“ og ákærði svaraði: „Var að keyra 250 nom út af Ívari“. Ákærði kvaðst ekki geta gefið skýringar á því hvers vegna Alexander sendi honum þennan tölvupóst, en kvaðst ekki útiloka að það hefði tengst flöggunarmörkum.

            Borinn var undir ákærða eftirfarandi framburður hans við yfirheyrslu hjá embætti sérstaks saksóknara í júní 2009: „Menn voru að reyna að halda uppi, í fyrsta lagi verðmyndun og einhverri veltu þannig að þetta væri ekki að hrynja um 10% á dag á einhverjum 10 milljónum eða eitthvað, skiljið þið. Þá skapast vandamál, þú færð fullt af bréfum inn á þig og þú mátt ekki eiga nema ákveðið magn og þá þarftu náttúrlega alltaf að vera, til þess að þú gerir þetta, þarftu alltaf að vera að finna einhverja kaupendur.“ Og síðar í sömu skýrslu: „En það er hins vegar búið að vera viðvarandi verkefni að finna, eins og ég sagði, til að halda uppi einhverri skilvirkni, bæði í veltu og verðmyndun, þannig að þetta er stórt fyrirtæki og það gengur ekki að það sé verið að fara upp eða niður um 5 eða 10% á dag á engri veltu. Það eru slæm skilaboð, svona út á við. Það þarf að vera einhver skilvirk velta þannig að það séu hreyfingar og að það séu einhverjar tölur á bak við það. Það sé ekki bara einhver sem hefur straujað þetta niður um tugi prósenta, bara á 5 milljónum.“ Ákærði kvaðst ekki hafa verið að lýsa sýn sinni á ástand Landsbankans á þessum tíma, heldur hefði hann verið að fjalla um markaðsaðstæður almennt og hvernig markaðurinn þyrfti að vera til þess að menn fengjust til að taka þátt í honum. Enginn vilji vera þátttakandi í markaði þar sem ekki er velta.

Við sömu yfirheyrslu, var ákærði spurður hvort bankinn hefði verið „sterkur á kaupendahliðinni“ á þessum tíma og svaraði hann: „Ég hugsa að við höfum verið ansi stórir síðustu tvær vikurnar [...] þetta var viðvarandi verkefni hvort sem við vorum að fara ofan í markaðinn, hvort sem markaðurinn var á leiðinni upp, hvort sem hann var flatur eða niður. Þá var það bara viðvarandi verkefni að halda uppi góðri veltu í bankanum og þá var náttúrulega verkefnið, ef það safnaðist í sílóið, að selja úr því og fá einhverja til þess að fjárfesta.“ Ákærði kvaðst hafa verið að vísa til kaupa veltubókar bankans og þess að Ívar Guðjónsson hefði stundum leitað eftir því við verðbréfamiðlunina að selja bréf. Hefði miðlunin þá reynt að leysa það verkefni.  Ákærði kvaðst ekki hafa fundið fyrir þrýstingi frá deild eigin fjárfestinga í þá veru að selja hlutabréf í eigu bankans. Þá hefðu ekki alltaf fundist kaupendur að þeim bréfum sem Ívar leitaði með til verðbréfamiðlunarinnar. Borin voru undir ákærða eftirfarandi ummæli sem hann viðhafði í símtali við starfsmann Landsbankans í London 22. maí 2008: „OK, let me know if something changes regarding the appetite for Landsbankinn because I´m in some mood to find homes for Landsbankinn shares from our propbook“. Ákærði kvað Ívar Guðjónsson þarna hafa verið búinn að lýsa því yfir að hann hefði áhuga á að selja bréf og hefði miðlunin verið að reyna að finna kaupendur að þeim. Ákærði áréttaði að þetta hefði verið starf verðbréfamiðlaranna, að finna kaupendur eða seljendur að hvers konar bréfum, íslenskum eða erlendum. Eigin bók bankans hefði verið eins og hver annar viðskiptavinur verðbréfamiðlunarinnar og greitt þóknun vegna viðskipta eins og aðrir.

            Árni Maríasson kvað ákærða Sigurjón hafa hringt til sín fimmtudagskvöldið 2. október og spurt hvort Magnús Ármann hefði áhuga á að kaupa fleiri hlutabréf í bankanum og hvort rými væri til að lána honum í því skyni. Þetta hefði verið örstutt símtal og hefðu þeir rætt eitthvað um veðhlutföll, en ekki hefði verið „gengið frá fjármögnun“. Vitnið kvaðst eflaust hafa verið í samskiptum við ákærða Steinþór vegna málsins, en fram kom hjá vitninu við skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara í júlí 2009 að hann teldi sig hafa heyrt í Steinþóri þetta sama kvöld. Vitnið kvaðst morguninn eftir hafa beðið lánavinnslu bankans um að útbúa lánssamning svo að hann væri til reiðu ef af þessum viðskiptum yrði. Hann hefði jafnframt fyllt út ákvörðunartökublað vegna málsins.

            Borin voru undir vitnið ummæli hans við skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara í desember 2010, er hann var spurður að því hvort ákærði Steinþór hefði getað „keyrt viðskiptin í gegn“ án þess að búið væri að ganga frá lánsskjölum og svaraði vitnið: „Þú veist, það er þá bara eitthvað sem þeir ákveða þarna uppi enda greinilega búin að vera samskipti þar á milli að það þarf að selja meira og koma út og síðan er það þá bara, þú veist, seinni tíma mál að koma peningunum af stað.“ Kvaðst vitnið þarna hafa verið að vísa til samskipta milli deildar eigin fjárfestinga og verðbréfamiðlunar, sem hefðu haft skrifstofur á hæðinni fyrir ofan skrifstofu hans.

            Magnús Ármann kvað aðdraganda viðskiptanna vera óskýran í sínum huga og tók fram að hann liti svo á að þau hefðu ekki gengið í gegn. Hann kvaðst hafa verið í miklu símasambandi við starfsmenn Landsbankans á þessum tíma, einkum Árna Maríasson og ákærða Steinþór, og hefðu þeir rætt um ástandið á fjármálamörkuðum. Í þeim símtölum hefði honum verið boðið að kaupa viðbótar hlutabréf í bankanum. Ekki kvaðst hann muna hvor bauð honum þetta, Árni eða Steinþór, en hann hefði verið búinn að koma því á framfæri við þá báða að hann væri reiðubúinn að bæta við sig bréfum. Vitnið kvaðst hafa séð í þessu ákveðin viðskiptatækifæri, en forsenda hans hefði sem fyrr verið að hann fengi lánafyrirgreiðslu frá bankanum til kaupa á bréfunum. Hann kvaðst þó hafa litið svo á að hann tæki ákveðna áhættu með viðskiptunum, þar sem veðhlutfall gagnvart skuldbindingum hans við bankann myndi hækka.

Vitnið vísaði til þess að samkvæmt yfirliti um símasamskipti, sem liggur fyrir í málinu, hefði hann átt 41 símtal við Árna og Steinþór þessa daga, og kvaðst hann ekki muna glöggt hvað þeim fór á milli. Þó hefði verið ákveðið í einhverjum þeim símtölum að hann myndi kaupa 200.000.000 hluta í bankanum. Verðið hefði ekki verið sérstaklega rætt, en miðað hefði verið við markaðsverð hlutabréfanna á þessum tíma. Vitnið kvaðst hvorki hafa verið í sambandi við ákærða Sigurjón né Sigríði Elínu í tengslum við þessi viðskipti, frekar en hin fyrri.

            Ívar Guðjónsson gaf skýrslu fyrir dóminum og kvaðst ekki muna eftir að hafa komið að þessum viðskiptum, en hafa séð eftir á að hans deild hefði selt bréfin sem um ræðir. Sigríður Elín Sigfúsdóttir kvaðst vita það eitt um þetta mál að hún hefði hitt Árna Maríasson á gangi bankans og hefði hann sagt henni að Magnús Ármann vildi kaupa meira í Landsbankanum. Hún kvaðst ekki muna fyrir víst hverju hún svaraði, en hún gæti hafa sagt: „Við skoðum það.“ Ákvörðunartökublað sem Árni hafði útbúið vegna málsins hefði hins vegar ekki verið borið undir hana, enda hefði málið ekki verið komið á það stig. Hrafnhildur Vala Grímsdóttir staðfesti að hafa útbúið drög að lánssamningi, sem liggur fyrir í málinu. Þá kom Gróa Dagmar Gunnarsdóttir, starfsmaður í bakvinnslu Landsbankans, fyrir dóminn og staðfesti að númer á bankareikningi Imon ehf., sem tilgreint er á viðskiptakvittun vegna kaupa á bréfunum, hafi verið til marks um að skuldfæra ætti þann reikning á uppgjörsdegi og kæmu þessar upplýsingar frá miðlara viðskiptanna. Vitnið bar að ef það gerðist í viðskiptum sem þessum að innstæða reyndist ekki vera fyrir hendi á uppgjörsdegi, væri verklagsreglan sú að lokað væri fyrir viðskipti við viðkomandi og málið síðan sent lögfræðideild bankans til innheimtu. 

 

Niðurstaða

            Ákærðu er gefin að sök markaðsmisnotkun við sölu á 200.000.000 hluta í Landsbankanum til Imon ehf., en viðskiptin hafi gefið eftirspurn hlutabréfa í bankanum ranglega og misvísandi til kynna, eða verið líkleg til að gera það, og falið í sér blekkingu og sýndarmennsku. Með viðskiptunum og tilkynningu þeirra sem utanþingsviðskipta til Kauphallarinnar, hafi verið ranglega látið líta svo út að fjárfestir hefði lagt fé til kaupa hlutafjárins og borið af þeim fulla markaðsáhættu.

            Í röksemdum með ákæru er rakið að dagana 1. til 3. október 2008 hafi deild eigin fjárfestinga Landsbankans keypt samtals 414.393.703 hluti í Landsbankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í Kauphöllinni, sem hafi numið 3,7% af útgefnu hlutafé bankans. Viðskipti með hlutabréf í Landsbankanum, sem í III. og IV. kafla ákæru greinir, hafi verið liður í að losa bankann við þessi hlutabréf í því skyni að deild eigin fjárfestinga gæti haldið uppi verði hlutabréfanna með umfangsmiklum kaupum á hlutabréfum í bankanum.

            Ákærða Sigurjóni er gefið að sök að hafa tekið ákvörðun um viðskiptin sem um ræðir af hálfu Landsbankans. Árni Maríasson bar fyrir dóminum að ákærði hefði hringt til hans að kvöldi fimmtudagsins 2. október 2008 og spurt hvort Magnús Ármann hefði áhuga á að kaupa fleiri hlutabréf í bankanum. Hafi ákærði spurt hvort rými væri til að bankinn veitti Magnúsi lán til kaupanna og hefðu þeir rætt um veðhlutföll. Hefur Árni borið staðfastlega um atvik að þessu leyti frá því er hann gaf fyrst skýrslu við rannsókn málsins. Ákærði Sigurjón kvaðst ekki minnast þess að hafa hringt til Árna. Við yfirheyrslu hjá lögreglu í júlí 2009 kom þó fram hjá ákærða að líklegt væri að hann hefði í einhverju samtali við Árna sagt eitthvað á þessa leið: „Bara klárum þessi viðskipti eða bara gerum þetta það er allt í lagi.“ Þá kom fram hjá ákærða fyrir dóminum að ekki væri ólíklegt að hann hefði samþykkt lánveitingu vegna viðskiptanna, hefði hún verið borin undir hann. Að morgni föstudagsins 3. október útbjó Árni lánsbeiðni vegna viðskiptanna og hlutaðist til um að undirbúin væru drög að lánssamningi. Verður að telja ósennilegt að hann hefði hafið undirbúning lánveitingar sem nam svo verulegum fjárhæðum, án þess að hafa fengið um það fyrirmæli frá yfirboðara sínum. Framburður ákærða um samskipti þeirra Árna hefur verið nokkuð misvísandi, sem rakið hefur verið. Á hinn bóginn hefur framburður Árna um samtal þeirra ákærða verið staðfastur og var frásögn hans af atvikum við aðalmeðferð málsins trúverðug að mati dómsins. Breytir ekki þeirri niðurstöðu að upplýsingar um símtalið sem Árni hefur borið um hafi ekki komið fram við athugun rannsakenda á gögnum um farsímanotkun ákærða Sigurjóns, sem heimiluð var með dómsúrskurði, enda getur ákærði hafa notað annað símtæki en þau sem sú athugun náði til. Samkvæmt framansögðu verður lagt til grundvallar að ákærði Sigurjón hafi tekið ákvörðun um viðskiptin sem hér um ræðir, án þess að málið væri borið undir lánanefnd bankans.

Ákærða Steinþóri er gefið að sök að hafa tilkynnt viðskiptin til Kauphallarinnar, þrátt fyrir vitneskju um að hin seldu hlutabréf kæmu frá eigin fjárfestingum Landsbankans og að til stæði að Landsbankinn fjármagnaði kaupin að fullu en án þess að staðfesting lægi fyrir um fjármögnunina. Af gögnum um farsímanotkun verður ráðið að ákærði var ítrekað í símasamskiptum við ákærða Sigurjón, Árna Maríasson, Ívar Guðjónsson og Magnús Ármann að kvöldi fimmtudagsins 2. október og föstudaginn 3 október. Þá er óumdeilt að ákærði tilkynnti viðskiptin til Kauphallarinnar og að hlutabréfin sem um ræðir voru í eigu deildar eigin fjárfestinga, eins og gögn um viðskiptin bera jafnframt með sér.

Fyrir liggur að Magnús Ármann hafði ákveðið að kaupa 200.000.000 hluta í Landsbankanum og að forsenda fyrir viðskiptunum af hans hálfu var að hann fengi lánafyrirgreiðslu frá bankanum til kaupa á hlutabréfunum. Í málinu liggur fyrir ódagsett lánsbeiðni, sem Árni Maríasson hefur borið að hafa samið eftir samtal við ákærða Sigurjón, og er lánsfjárhæð tilgreind 3.831.600.000 krónur. Eru upplýsingar sem skráðar eru í beiðnina þær sömu og fram komu í lánsbeiðni/ákvörðunartökublaði vegna lánveitingar sem í II. kafla ákæru greinir, að öðru leyti en því að tryggingar voru taldar felast í heildareign Imon ehf. í Landsbankanum, þ.e. þeim 450.000.000 hluta sem félagið eignaðist með viðskiptunum sem í II. og III. kafla ákæru greinir, auk stofnfjárhluta í Byr Sparisjóði. Í röksemdum með ákæru kemur fram að talið sé að verðmæti stofnfjárhluta Imon ehf. hafi á þessum tíma numið 4.250.729.973 krónum. Samkvæmt gögnum málsins var síðasta skráða viðskiptagengi með bréfin 1,6 og miðað við það hefði stofnfjárhlutaeignin því numið nær 4.374.679.570 krónum. Sem fyrr er rakið verður við mat á tryggingum að líta til þeirra gagna sem fyrir lágu um gengi stofnfjárhlutanna á þeim tíma sem lánveitingin fór fram. Við mat á tryggingum í lánsbeiðni sem Árni Maríasson útbjó vegna viðskiptanna var verðmæti stofnfjárhlutanna miðað við fyrirhugað gengi í viðræðum um samruna Glitnis og Byrs Sparisjóðs. Samkvæmt því var stofnfjárhlutaeign Imon ehf. talin nema 5.269.000.000 króna og veðhlutfall eftir kaupin talið 89-97%. Fær það mat stuðning í skjali um viðræðuramma Glitnis banka hf. og Byrs Sparisjóðs hf., sem liggur fyrir í málinu. Í lánsbeiðninni kemur fram að Árni Maríasson hafi lagt til að beiðnin yrði samþykkt, miðað við framangreindar forsendur.

Hin keyptu hlutabréf í Landsbankanum stóðu jafnframt til tryggingar fyrirhugaðri lánveitingu. Sem við fyrri lánveitingu til Imon ehf. verður ekki lagt til grundvallar að ákærðu hafi séð það fyrir að Fjármálaeftirlitið myndi taka yfir rekstur Landsbankans, með þeim afleiðingum að hlutabréf í bankanum urðu verðlaus. Að virtum þeim gögnum sem rakin hafa verið um verðmæti Byr stofnfjárhlutanna verður ekki séð að veðrými þeirra hafi verið fullnýtt eftir þá lánveitingu til Imon ehf., sem II. kafli ákæru lýtur að. Eftir þau viðskipti gat veðhlutfallið numið 85,6% og hefðu hlutabréf í Landsbankanum því mátt lækka um 29%, eða úr genginu 20,6 í gengi 14,61 áður en veðrýmið yrði að fullu nýtt. Miðað við sömu forsendur hefði veðhlutfallið verið 89,6% eftir síðari viðskiptin, sem III. kafli ákæru lýtur að, og hefði verðmæti hlutabréfa í Landsbankanum því mátt lækka um rúm 16% áður en veðhlutfallið næði 100%, eða úr gengi 20,6 í 17,19 og úr 19,11 í 15,94. Verður af því ráðið að áhætta Imon ehf., sem fólst í því að missa stofnfjárbréfin, hafi aukist við viðskiptin.

Samkvæmt a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga um verðbréfaviðskipti er markaðsmisnotkun óheimil. Segir þar að með markaðsmisnotkun sé átt við að eiga viðskipti eða gera tilboð sem gefa eða eru líkleg til að gefa framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga ranglega eða misvísandi til kynna. Þá kemur fram í 2. tölulið 1. mgr. 117. gr. laganna að með markaðsmisnotkun sé átt við að eiga viðskipti eða gera tilboð sem byggð eru á tilbúningi eða þar sem notuð eru einhver form blekkingar eða sýndarmennsku. Ákærðu Sigurjón og Steinþór eru í III. kafla ákærunnar ákærðir fyrir brot gegn framangreindum ákvæðum.

Rakið er í niðurstöðu dómsins um kafla II b í ákæru, að jafnvel þótt lagt yrði til grundvallar að sala hlutabréfa í Landsbankanum hefði verið liður í að losa bankann við uppsafnaða hlutafjáreign, eins og byggt er á í ákæru, verði ekki horft fram hjá því að til viðbótar veði í hinum keyptu hlutabréfum kom trygging samkvæmt veði í Byr stofnfjárhlutum í eigu lántaka. Til þessa verður einnig að líta hér. Samkvæmt framansögðu hefur ekki verið sýnt fram á að veðrými stofnfjárbréfanna sem um ræðir hefði verið fullnýtt þótt seinna lánið hefði verið veitt, en veðhlutfallið hefði þó orðið hærra. Þótt tryggingar með aðeins 10% veðrými teljist almennt ekki veita mikið svigrúm í lánaviðskiptum er þó jafnframt til þess að líta við mat á trúverðugleika viðskiptanna að ákærði Sigurjón hefur borið að hann hafi talið að Landsbankinn hefði af því hagsmuni til framtíðar að félag Magnúsar Ármann eignaðist hlut í bankanum og bankinn eignaðist kröfur á hendur því með veði í stofnfjárhlutum félagsins í Byr.

Fram er komið að eftir fall Landsbankans gekk slitastjórn bankans að stofnfjárbréfunum sem um ræðir til fullnustu skuldbindinga Imon ehf. við bankann. Sem fyrr greinir verður lagt til grundvallar að ákærði Sigurjón hafi tekið ákvörðun um viðskiptin sem hér um ræðir, án þess að málið væri áður borið undir lánanefnd bankans, en til þess kom ekki vegna þeirra atburða sem urðu í kjölfarið. Verður framburður Árna Maríassonar lagður til grundvallar um að þeir ákærði hafi rætt um veðhlutföll áður en ákvörðun um viðskiptin var tekin. Sem fyrr greinir styðst það bæði við framburð ákærðu og vitna og gögn málsins að Árni hafi upplýst Steinþór um fyrirhuguð viðskipti fimmtudagskvöldið 2. október og daginn eftir. Af gögnum málsins verður ráðið að föstudagsmorguninn 3. október átti Árni símtal við ákærða Steinþór og Steinþór hringdi í kjölfarið í Ívar Guðjónsson. Verður lagt til grundvallar að í þessum símtölum hafi Steinþór fengið upplýsingar frá Árna um að fjármögnun viðskiptanna hefði verið ákveðin.

Fjárfestirinn Magnús Ármann var, samkvæmt framburði hans fyrir dóminum, reiðubúinn að taka á sig markaðsáhættu af viðskiptunum og leitaði hann eftir kaupum á fleiri hlutum á betra verði og lækkandi gengi. Taldi hann sig hafa nefnt það við ákærða Steinþór og Árna Maríasson að hann væri tilbúinn að bæta við sig hlutabréfum. Magnús bar fyrir dóminum að hann hafi talið áhættu sína hlutfallslega meiri með því að kaupa fleiri bréf þar sem veðhlutfall í eignum hans hækkaði. Að þessu virtu verður því ekki slegið föstu að ákærðu hafi með viðskiptunum og tilkynningu um þau til Kauphallarinnar ranglega látið líta svo út að fjárfestir hefði lagt fé til kaupa á hlutafé í bankanum og borið af því fulla markaðsáhættu, heldur hafi viðskiptin haft raunverulegan viðskiptalegan bakgrunn.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið um aðdraganda viðskiptanna og til reglna um upplýsingagjöf fjármálafyrirtækja um slík viðskipti þykir, með sama hætti og í niðurstöðu dómsins um kafla II b í ákæru, óvarlegt að slá því föstu að viðskiptin og upplýsingagjöf um þau, hafi verið til þess fallin að gefa ranga og misvísandi mynd af eftirspurn hlutabréfa í bankanum, eða verið líkleg til að gera það, og jafnframt falið í sér blekkingu og sýndarmennsku, svo að varði ákærðu refsingu samkvæmt a-lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Verða ákærðu því sýknaðir af ákæru að því leyti.  

 

Sérálit Ragnheiðar Harðardóttur

            Að framan hafa verið reifuð ákvæði a-liðar 1. töluliðar og 2. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga um verðbréfaviðskipti, um markaðsmisnotkun. Nánari skilgreiningu á markaðsmisnotkun samkvæmt lögunum er að finna í reglugerð um innherjaupplýsingar og markaðssvik nr. 630/2005, sem sett var með stoð í 118. gr. laganna. Samkvæmt a-lið 8. gr. reglugerðarinnar skal við mat á því hvort um markaðsmisnotkun er að ræða m.a. líta til þess hversu stórt hlutfall umrædd tilboð eða viðskipti séu af árlegri meðalveltu viðkomandi fjármálagernings á viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði, einkum þegar þau leiði til marktækra breytinga á verði viðkomandi fjármálagerninga.

Að virtum þeim gögnum sem lágu fyrir um mat á verðmæti Byr stofnfjárhlutanna, sem áður hefur verið vikið að, tel ég ekki leika vafa á því að eftir lánveitingu til Imon ehf., sem II. kafli ákæru lýtur að, var veðrými þeirra nær fullnýtt. Við síðari viðskiptin var félagið orðið enn skuldsettara en fyrr og eigið fé þess hefði enn lækkað, m.a. vegna lántökugjalds við bæði viðskiptin. Lánveiting á grundvelli þeirra draga að lánsskjölum sem liggja fyrir í málinu, hefði í raun haft í för með sér að  Landsbankinn fjármagnaði að fullu kaup hlutabréfanna, sem áður voru í eigu bankans, og hefði þannig engin breyting orðið á markaðsáhættu á bréfunum með viðskiptunum. Þá hafði lánsbeiðnin ekki verið samþykkt af þar til bærum aðilum í bankanum þegar viðskiptin voru tilkynnt til Kauphallarinnar og fjármögnun vegna þeirra því ófrágengin, sem þýddi að markaðsáhætta vegna bréfanna hvíldi enn á Landsbankanum. Samkvæmt framangreindu var um óvenjuleg viðskipti að ræða og höfðu aðilar markaðarins augljósa hagsmuni af því að vera upplýstir um hvernig að þeim var staðið. Skiptir máli í því sambandi að um var að ræða umfangsmikil viðskipti með hlutabréf í bankanum, eða þau þriðju stærstu sem höfðu átt sér stað þetta ár. Loks verður ráðið af gögnum um fréttaflutning frá þessum tíma að viðskiptin hafi haft áhrif á verðmæti hlutabréfa í bankanum.

Með vísan til alls framangreinds tel ég vera sýnt fram á að viðskiptin og tilkynning þeirra til Kauphallarinnar hafi verið til þess fallin að gefa eftirspurn hlutabréfa í Landsbankanum ranglega og misvísandi til kynna, auk þess sem í þeim hafi falist blekking og sýndarmennska. Gat ákærðu ekki dulist að svo var. Ákærði Sigurjón tók ákvörðun um viðskiptin, en ákærði Steinþór tilkynnti þau til Kauphallarinnar. Samkvæmt framansögðu, og með vísan til þess sem rakið er um varnarástæður ákærða Steinþórs í niðurstöðum dómsins vegna IV. kafla ákæru, tel ég að ákærðu hafi gerst brotlegir við a-lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr. laga um verðbréfaviðskipti og að sakfella beri þá samkvæmt III. kafla ákæru.

 

IV. kafli ákæru.

 

Málsatvik

Í minnisblaði Fjármálaeftirlitsins til sérstaks saksóknara 17. júlí 2009 kemur fram að ábending hafi borist frá regluverði NBI hf. um ætluð kaup félagsins Azalea Resources Limited með hlutabréf í Landsbanka Íslands með fjármögnun frá bankanum sjálfum 3. október 2008. Viðskiptin hafi ekki verið gerð upp, en þau hafi verið af svipuðum toga og viðskipti Imon ehf., sem áður hefði verið vísað til sérstaks saksóknara.

            Azalea Resources Ltd. hafi verið stofnað í júlí 2007 á eyjunni Tortola. Stofnaður hafi verið bankareikningur og vörslureikningur á nafni Ara Mika Petteri Salmivuori hjá Landsbanka Íslands fyrir hönd félagsins. Hafi skjöl þar að lútandi verið móttekin og undirrituð í Landsbankanum í Lúxemborg. Tilgangur með notkun bankareikningsins hafi verið tilgreindur verðbréfaviðskipti og uppruni fjármagnsins tilgreindur sem lántaka.

Samkvæmt sölunótum hafi eigin viðskipti Landsbankans selt 199.000.000 hluta í bankanum á genginu 19,0 til markaðsviðskipta bankans 3. október 2008, sem síðan hafi selt félaginu Azalea hlutina á sama verði. Upphæð viðskiptanna hafi verið 3.781.000.000 króna. Uppgjörsdagur hafi verið tilgreindur 8. október 2008 eins og venja væri í hlutabréfaviðskiptum, þ.e. þremur viðskiptadögum síðar. Hinn 3. október 2008 hafi Ari Salmivuori undirritað lánssamning fyrir hönd Azalea Resources Ltd. við Landsbanka Íslands, en samningurinn hafi ekki verið undirritaður af hálfu bankans. Lánssamningurinn hafi hljóðað upp á 4.000.000.000 króna og hafi gjalddagi lánsins ásamt vöxtum verið 3. apríl 2009. Í lánssamningnum komi m.a. fram að: „The sums made available by the Lender to the Borrower shall be used by the borrower to buy shares in Landsbanki Íslands.“ Samhliða lánssamningnum hafi verið gerður samningur um að hin keyptu hlutabréf væru sett að veði fyrir láninu. Í lánssamningnum hafi verið ákvæði um veðköll þannig að ef hlutfall láns á móti veði færi upp í 105% hefði lánveitandi rétt til að: „Krefjast endurgreiðslu lánsins, eða; krefja lántaka um að koma LTV aftur í 100%, eða; selja undirliggjandi eign.“ Ekki hafi verið um aðrar tryggingar að ræða en veð í hlutabréfunum.

Í kæru Fjármálaeftirlitsins til sérstaks saksóknara 19. október 2010, sem vikið hefur verið að, er viðskipta Azalea getið sem tíundu stærstu viðskipta með hlutabréf í Landsbankanum á árunum 2007 til 2008. Þá kemur fram í gögnum málsins að viðskiptin hafi verið þau fjórðu stærstu með bréf í bankanum árið 2008.

Minnisblaði Fjármálaeftirlitsins fylgdu ýmis gögn, sem þar er vísað til, þ. á m. drög að lánssamningi undirrituðum af Ara Salmivuori, drög að veðsetningarsamningi og gögn um stofnun banka- og vörslureiknings vegna Azalea Resources Ltd. í Landsbanka Íslands 3. október 2008. Þá liggja fyrir ýmis gögn um félagið, en fram kemur í málinu að það hafi verið í eigu Landsbankans í Lúxemborg áður en viðskiptin sem um ræðir áttu sér stað.

Í málinu liggja fyrir endurrit símtala vegna viðskiptanna, sem tekin voru upp í borðsímum í Landsbankanum 3. október 2008. Þann dag, klukkan 14:31, ræddu ákærði Steinþór og Ari Salmivuori saman um möguleg kaup félags í eigu Ara á hlutabréfum í Landsbankanum og kemur þar meðal annars fram hjá Ara: „I would say my maximum limit is 3,8 billion Icelandic krona.“ Þeir ræða aftur saman í síma klukkan 14:50 og kemur þá fram hjá ákærða Steinþóri: „I have a quote from prop desk, which means that we can finish the deal.“ Kemur fram hjá Steinþóri að verðið sé 19 á hlut og Ari segir: „Okey, then it´s okey. I trust you. So just finalise it and do it.“ Ákærði Steinþór svarar: „Okey, then it´s 199 million shares at 19“. Í framhaldinu ræða ákærði Steinþór og Ívar Guðjónsson saman klukkan 14:53. Símtalið varir í 9 sekúndur og kemur fram hjá Steinþóri: „199 bara á 19“, Ívar svarar: „Okei“ og Steinþór segir: „Ég læt það fara“. Klukkan 14:54 hringir Steinþór í Ara og segir: „The deal is done and the last price is 19,10“.

Samkvæmt viðskiptakvittunum sem Landsbankinn gaf út vegna viðskiptanna keypti verðbréfamiðlun Landsbankans 3. október 2008 klukkan 16:01 199.000.000 hluta í bankanum af eigin fjárfestingum á genginu 19,00 og seldi jafnmarga hluta á sama gengi til Azalea Resources Ltd. klukkan 16:02. Kemur fram að uppgjörsdagur viðskiptanna hafi verið fyrirhugaður 8. október 2008. Samkvæmt tilboðabók Landsbankans hjá Kauphöllinni voru viðskiptin tilkynnt klukkan 16:54:17. Ákærði Steinþór er skráður miðlari á viðskiptakvittunum og kemur jafnframt fram í tilboðabókinni að hann hafi tilkynnt viðskiptin.

            Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði Sigurjón fyrst hafa fengið vitneskju um félagið Azalea Resources Ltd. við lestur Rannsóknarskýrslu Alþingis. Ara Salmivuori kvaðst hann einhvern tíma hafa hitt í hanastélsboði á vegum íslenska sendiráðsins í London, en þekkti hann annars ekki. Ákærði kvað Marinó Frey Sigurjónsson, sem fór fyrir lánamálum Landsbankans í Lúxemborg, hafa haft samband við sig eða Sigríði Elínu Sigfúsdóttur vegna þessa máls og gæti það hafa verið 3. október, þótt hann myndi það ekki með vissu. Hann kvaðst þó muna eftir því að þau Sigríður Elín hefðu rætt saman um málið. Ákærði kvaðst hafa talið að Ari Salmivuori væri viðskiptavinur Landsbankans í Lúxemborg. Það hefði komið fram hjá Marinó að vandamál hefðu komið upp vegna fyrirhugaðrar lánveitingar til Ara vegna athugasemda við lánveitingar sem Landsbankanum í Lúxemborg hefðu borist í bréfi frá Fjármálaeftirlitinu þar. Athugasemdirnar lutu að því að of mikið hefði verið lánað út á samkynja hlutabréf sem gerði að verkum að áhætta bankans væri einsleit. Hefði því verið ákveðið að dregið yrði úr lánveitingum á móti íslenskum hlutabréfum almennt. Ari Salmivuori hefði viljað kaupa hlutabréf í Landsbankanum og hefði niðurstaðan verið að skoða hvort Landsbanki Íslands myndi veita lán til kaupanna. Ákærði kvaðst hafa skilið það svo að Sigríður Elín myndi vera í samskiptum við Marinó og hefði hún átt að fá einhver gögn um málið. Málið hefði hins vegar ekki komist neitt lengra. Sigríður Elín hefði ekkert verið farin að skoða það og engin ákvörðun hefði verið tekin um lánveitinguna.

Ákærði kvað Tinnu Jónsdóttur Molphy, sem starfaði við almannatengsl hjá Landsbankanum, hafa hringt til sín, að því er hann taldi laugardaginn 4. október, og sagt sér að hún hefði upplýsingar um að „einhver Finni“ ætlaði að kaupa hlut í bankanum. Tinna hefði viljað koma þessu á framfæri við fjölmiðla, en ákærði kvaðst hafa þvertekið fyrir það og sagt við hana að hann vissi ekki til þess að búið væri að gera neitt í málinu. Þetta væri aðeins eitthvað sem væri til umræðu. Ákærði kvaðst ekki minnast þess að hafa rætt við Guðjón Sævarsson, yfirmann einkabankaþjónustu Landsbankans í Lúxemborg, vegna þessa máls. Hann myndi hins vegar eftir því að hafa rætt við lánafólkið, Sigríði Elínu og Marinó, og að einhver umræða hefði verið um að mögulega myndu koma til einhverjar tryggingar með veðum í fasteignum sem Ari þessi væri eigandi að. Ákærði kvaðst aldrei hafa séð nein lánsskjöl vegna málsins.  Spurður hvort komið hefði til greina að lána Ara með þeim kjörum sem fram komi í drögum að lánssamningi, sem liggur fyrir í málinu, kvað ákærði að væntanlega myndi hafa verið kannað hvort unnt væri að fá einhverjar tryggingar til viðbótar. Kvaðst hann gera ráð fyrir því að Sigríður Elín hefði verið að bíða eftir upplýsingum þar að lútandi.

            Ákærði kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir því fyrr en eftir að honum var kunnugt um þetta mál að ekkert hefði verið því í vegi að viðskipti væru „keyrð í gegn“ án þess að staðfesting á fjármögnun þeirra lægi fyrir. Hefði regluvörður bankans staðfest það við sig eftir á að engar reglur innan bankans hefðu kveðið á um að miðlari mætti ekki framkvæma viðskipti án þess að vera 100% öruggur um að fjármögnun fengist. Almennt hefði það gengið eftir sem samið hefði verið um og menn hefðu verið borgunarmenn fyrir því sem þeir keyptu. Þó væru nokkur dæmi þess að svo hefði ekki verið. Ef menn hefðu ekki getað staðið við það sem þeir hefðu samið um hefði orðið úr því innheimtumál. Í sumum tilfellum hefðu viðskipti þó verið bakfærð og nefndi ákærði dæmi um slíkt.

            Ákærði Steinþór kvaðst hvorki hafa þekkt til félagsins Azalea Resources Ltd. né Ara Salmivuori, sem hann hefði þó vitað að væri viðskiptafélagi Björgólfs Thors Björgólfssonar. Ákærði kvað Guðjón Sævarsson hafa hringt til sín föstudagsmorguninn 3. október 2008 og sagst vera með viðskiptavin sem hann væri að „koma með inn í Landsbankann“. Þeir hefðu átt einhver samskipti vegna málsins þennan dag og hefði Guðjón upplýst hann um hvaða magn bréfa væri um að ræða og því um líkt. Síðan hefði Guðjón hringt í borðsíma hans í bankanum og rétt Ara símann, en símasamskipti ákærða og Ara hafa verið rakin. Kvað ákærði Ara hafa staðfest viðskiptin við sig símleiðis. Hann kvaðst hafa verið í þeirri trú að þessi viðskiptavinur væri á vegum Guðjóns og hann hefði ekki talið sig þurfa að spyrja frekar út í málið. Ari hefði rekið á eftir því að gengið yrði frá viðskiptunum og hefði komið fram hjá honum að hann hefði einhverjar upplýsingar um að von væri á fjárstyrk frá finnska Seðlabankanum til að styðja við íslenska bankakerfið. Eftir að Ari hafði staðfest viðskiptin í símtali hefði hann beðið ákærða um að hringja til sín aftur „after the trade has been printed“, þ.e. eftir að viðskiptin hefðu verið tilkynnt Kauphöllinni og prentuð út. Ákærði kvaðst hafa afgreitt viðskiptin í verðbréfakerfi bankans, tilkynnt þau Kauphöllinni, eins og lög geri ráð fyrir, og sent bráðabirgðakvittun til Guðjóns Sævarssonar og Jóhönnu Jafetsdóttur, starfsmanns Landsbankans í Lúxemborg, til að þau hefðu skýr greiðslufyrirmæli um krónutölu sem miðað væri við í viðskiptunum, sem leggja hefði átti inn á nýstofnaðan reikning Ara hjá Landsbankanum. Hann hefði fengið „kvót“ frá veltubókinni, Ívari Guðjónssyni eða einhverjum starfsmanni þar, en sem áður er rakið áttu ákærði og Ívar símtal klukkan 14:53. Ákærði kvaðst ekki minnast þess að hafa verið í sambandi við bankaráðsmanninn Andra Sveinsson vegna þessa máls. Þó kvað hann sig minna að Andri hefði verið búinn að nefna það við sig að mögulega væri Ari á leið inn í hluthafahóp bankans, en þeir Andri hefðu átt í talsverðum samskiptum vegna annarra mála þessa daga. Ákærði kvaðst hafa litið svo á að þessi viðskipti væru á vegum Landsbankans í Lúxemborg. Hann hefði keypt bréfin og miðlað þeim inn í þetta félag að beiðni Guðjóns Sævarssonar.

Ákærði kannaðist við að hafa tilkynnt viðskiptin til Kauphallarinnar, klukkan 16:54, eða klukkan 14:54 að íslenskum tíma. Hann kvað sér ekki hafa verið kunnugt um að Ari hefði óskað eftir lánafyrirgreiðslu frá Landsbankanum til kaupa á bréfunum. Hann hefði aðeins séð um að miðla bréfunum og hefði honum ekki borið að „fá stimplaða lánssamninga“, eða yfirfara lánskjör. Hefði verið við það miðað að eftir að viðskipti komust á hefði viðskiptavinurinn þrjá daga til að greiða fyrir bréfin. Ákærði kvaðst ekki muna til þess að Guðjón Sævarsson hefði rætt neitt um fjármögnun viðskiptanna við hann. Hann hefði allt eins talið að þessi maður ætti fjármagn til að reiða út fyrir hlutabréfunum.

Guðjón Sævarsson, fyrrum yfirmaður einkabankasviðs Landsbankans í Lúxemborg, greindi frá því að Andri Sveinsson, bankaráðsmaður í Landsbanka Íslands, hefði haft samband fimmtudaginn 2. október og sagt honum að Ari Salmivuori hefði áhuga á að taka stöðu í Landsbankanum. Vitnið kvaðst í framhaldinu hafa rætt við lögmann Ara, Kaj Autio, og hefðu þeir mælt sér mót í höfuðstöðvum Landsbankans í Lúxemborg að morgni föstudagsins 3. október. Þegar Ari og Kaj komu til fundar við hann hefði komið fram að Ari ætlaði sér að taka stöðu í Landsbankanum með fjármögnun frá bankanum. Vitnið kvaðst hafa farið og rætt við Marinó Frey Sigurjónsson, yfirmann lánasviðs Landsbankans í Lúxemborg, og spurt hann hvort búið væri að heimila fjármögnun bankans vegna þessara viðskipta. Marinó hefði ekki kannast við það og hefði hann gengið í að kanna málið. Marinó hefði síðan komið til vitnisins síðar um daginn og sagt honum að þessi viðskipti væru ekki á vegum Landsbankans í Lúxemborg, heldur Landsbanka Íslands. Starfsmenn Landsbankans í Lúxemborg, Sigurlaug Erla Gunnarsdóttir og Jóhanna Jafetsdóttir, hefðu síðan hafið undirbúning málsins fyrir Landsbanka Íslands. Hefði Sigurlaug farið að undirbúa lánsskjöl, en Jóhanna útvegað eignarhaldsfélag til kaupanna. Vitnið kvaðst hafa verið í sambandi við ákærða Steinþór eftir þetta og í lok dags hefði Ari hringt í Steinþór vegna viðskiptanna. Hann kvaðst hafa rætt um það við Steinþór hvað Ari myndi kaupa stóran hlut og um fjárhæðir í því sambandi. Það hefði verið búið að ræða þau mál við Ara áður en hann kom í bankann á föstudagsmorgninum og kvaðst vitnið telja að Ari hefði verið í sambandi við Andra Sveinsson vegna þessa. Vitnið kvað Marinó hafa staðfest við sig að hann hefði átt samskipti við ákærða Sigurjón vegna málsins, en kvaðst ekki vita hvað þeim hefði farið á milli. Þá kvaðst hann ekki minnast þess að hafa verið í samskiptum við aðra en Steinþór í Landsbanka Íslands.

            Borið var undir vitnið endurrit símtals klukkan 14:31, sem vikið hefur verið að, þar sem kemur fram að vitnið hafi hringt til ákærða Steinþórs og Ari og Steinþór rætt saman í framhaldinu. Vitnið kannaðist við að hafa verið viðstaddur þetta símtal, en kvaðst ekki hafa hlýtt á það sem Ara og Steinþóri fór á milli. Hann kvað það vera sinn skilning að með þessu símtali hefðu komist á viðskipti, þ.e. samkomulag um kaup og sölu á hlutabréfunum.

Borinn var undir vitnið framburður hans við skýrslutöku hjá embætti sérstaks saksóknara í maí 2012, þar sem kom fram að hann minnti að hann hefði fengið þær upplýsingar frá Andra Sveinssyni í samskiptum þeirra á fimmtudagskvöldinu að Landsbankinn myndi fjármagna kaupin á hlutabréfunum og að ekki yrðu aðrar tryggingar en veð í bréfunum sem keypt voru. Vitnið kvaðst telja líklegt að þetta hefði verið með þessum hætti.

Ari Mika Petteri Salmivuori, sem kvaðst vera fjárfestir, sagði stjórnendur Landsbankans í Lúxemborg lengi hafa reynt að fá sig í viðskipti. Hefði hann fyrst og fremst átt samskipti við Guðjón Sævarsson vegna þessa. Þá kvaðst hann hafa verið í samskiptum við Andra Sveinsson um einhverra mánaða skeið og fylgst með þróun mála í íslenska bankakerfinu. Hefði hann lýst því við Andra að á Íslandi gæti farið eins og í Finnlandi á árunum 1992 til 1993, þegar sterkasti banki landsins hefði tekið yfir aðra banka, með fjárstuðningi frá finnska ríkinu. Kvaðst vitnið hafa fylgst með umfjöllun í fjölmiðlum um Landsbankann, þ.m.t. rýni sérfræðinga. Hefði hann haft trú á því að Landsbankinn myndi hafa yfirhöndina í erfiðri baráttu íslenska bankakerfisins.

Vitnið kvaðst hafa fengið símanúmer Guðjóns Sævarssonar hjá Andra Sveinssyni. Hann hefði ekki rætt við neinn annan en Guðjón um málið og samið um öll smáatriði við hann. Guðjón hefði sagt honum að hann hefði ekki algert umboð til samningsgerðar og að hann yrði að leita fulltingis frá Íslandi um viðskiptin. Vitnið kvaðst hins vegar ekki hafa verið í sambandi við neinn hjá Landsbanka Íslands vegna viðskiptanna. Þá kvaðst hann ekki hafa rætt um lánaútfærslu vegna málsins við Andra Sveinsson. Hann kvaðst hafa fengið lögmanninn Kaj Autio til að koma með sér á fundinn í Landsbankanum í Lúxemborg til viðræðna um lánafyrirgreiðslu vegna viðskiptanna. Hann hefði óskað eftir því strax í upphafi að hann yrði ekki persónulega aðili að viðskiptunum, heldur félag á hans vegum. Á fundinum hefði verið rætt um útfærslu á láninu sem hann leitaði eftir, lánstíma, vaxtaálag og því um líkt.

Spurður um símtal þeirra ákærða Steinþórs, þar sem fram kom hjá vitninu að hámark fjárfestingarinnar væru 3,8 milljarðar króna, kvaðst vitnið hafa verið búinn að

fá upplýsingar frá Guðjóni um hámark lánsfjárhæðarinnar. Að auki hafi átt að veita lán fyrir lántökukostnaði og fjárhæðin því numið 4 milljörðum króna. Vitnið kvaðst ekki vita hvaðan Guðjón fékk upplýsingar um fjárhæð lánsins. Það hefði hins vegar verið forsenda vitnisins fyrir viðskiptunum að þau yrðu að fullu fjármögnuð af Landsbankanum. Af hálfu bankans hefði verið beðið um frekari tryggingar, en vitnið kvaðst hafa svarað því til að honum væri ómögulegt að reiða þær fram með svo stuttum fyrirvara, þó að til þess kynni að koma síðar. Nánar tiltekið hefði Guðjón spurt vitnið um tryggingar eða veð. Hefði vitnið sagt honum að hann yrði að selja eignir til að eiga handbært fé. Ekki hefði komið til greina á þessum tíma að leggja fasteignir í hans eigu að veði fyrir láninu. Þá bar vitnið að Guðjón hefði litlu getað svarað þegar hann var spurður um skilmála lánsins. Hann hefði alltaf þurft að hringja eitthvert annað til þess að fá umboð, en vitnið kvaðst ekki vita hvert hann hafi hringt.

Vitnið kvaðst hafa staðið í þeirri meiningu að komið hefði til greina að Landsbankinn í Lúxemborg lánaði honum fyrir kaupunum og hefði hann skilið lánsskjöl sem hann undirritaði á þann veg. Þá kvað vitnið að þegar hann yfirgaf höfuðstöðvar Landsbankans í Lúxemborg þennan dag hefði hann talið sig vera eiganda að 199.000.000 hluta í Landsbankanum og að hann hefði fengið fjármögnun fyrir viðskiptunum.

Kaj Autio lögmaður kvaðst hafa ferðast frá Finnlandi til Lúxemborgar að morgni föstudagsins 3. október, til að liðsinna Ara Salmivuori í samningaviðræðum í höfuðstöðvum Landsbankans í Lúxemborg, en Ari hefði beðið hann um þetta tveimur eða þremur dögum fyrr. Hefði Ari farið fram á það á fundinum að fá kaupin á bréfunum fjármögnuð að fullu með láni frá bankanum. Vitnið kvað Guðjón Sævarsson hafa verið á þessum fundi, en auk hans hefðu Jóhanna Jafetsdóttir og Sigurlaug Erla Gunnarsdóttir komið að málinu. Hefði Guðjón tekið það skýrt fram að lánið ætti að koma frá Landsbankanum á Íslandi, þar sem Landsbankinn í Lúxemborg veitti ekki slík lán. Vitnið kvað Guðjón og Sigurlaugu ítrekað hafa brugðið sér frá, væntanlega til að hringja eitthvert vegna samningaviðræðna um lánsskilmála. Hefði Guðjón spurt Ara hvort hann gæti reitt fram einhverjar tryggingar, en Ari sagt að svo væri ekki, þótt til þess gæti komið á síðari stigum. Spurður hvort Ari hefði verið búinn að fá loforð um fjármögnun áður en hann kom til fundarins kvaðst vitnið ekki hafa haft annað á tilfinningunni en að umræður um þetta hefðu hafist þarna um morguninn.

Marinó Freyr Sigurjónsson, sem var yfirmaður lánasviðs Landsbankans í Lúxemborg, kvaðst ekki hafa þekkt til Ara Salmivuori. Föstudagsmorguninn 3. október 2008 hefði komið inn á hans borð lánsbeiðni til fjármögnunar kaupa félagsins Azalea Resources á 199.000.000 hluta í Landsbankanum. Hefði málið komið frá Guðjóni Sævarssyni. Vitnið gerði grein fyrir því að skömmu fyrir þetta hefði bankanum borist bréf frá Fjármálaeftirlitinu í Lúxemborg þar sem farið var fram á að bankinn minnkaði áhættu sína gagnvart Landsbanka Íslands. Það eitt sér hefði leitt til þess að málið hefði ekki farið lengra. Vitnið kvaðst hafa rætt þetta lauslega við Halldór Jónsson yfirlögfræðing og hefði niðurstaðan verið sú að Landsbankinn í Lúxemborg myndi ekki koma að þessari fjármögnun. Þeim hefði heldur ekki litist vel á lánamálið, en eins og það lá fyrir hefði hvorki verið að sjá að eignir væru í félaginu sem óskaði lánveitingar, né að eigið fé eða aðrar tryggingar ættu að koma til vegna viðskiptanna.

Vitnið kvaðst hafa verið í nokkuð miklum samskiptum við Landsbanka Íslands á þessum tíma og hefði hann hringt til ákærða Sigurjóns og tilkynnt honum að Landsbankinn í Lúxemborg myndi ekki koma að fjármögnuninni. Þetta hefði verið mjög stutt símtal. Hann kvað sig minna að Sigurjón hefði þekkt til viðskiptanna, en kvaðst þó ekki treysta sér til að fullyrða það, enda væri langt um liðið. Hann kvaðst muna að Sigurjón hefði verið óvenju þurr á manninn þegar þeir ræddu saman, en tók fram að það þyrfti ekki endilega að hafa tengst þessu máli. Líklegt hafi verið að Sigurjón hafi verið með hugann við annað á þessum tíma. Vitnið kvaðst ekki hafa átt nein samskipti við Ara Salmivuori þennan dag og ekki þekkja aðdraganda málsins. Þá minntist hann þess ekki að hafa séð drög að lánsskjölum vegna málsins.

Halldór Jónsson, sem var yfirmaður lögfræðisviðs Landsbankans í Lúxemborg, kvaðst ekkert hafa komið að viðskiptunum sem um ræðir. Hann kvaðst þó minnast þess að borist hefði erindi um að lána einhverjum aðila án þess að nokkurt eigið fé kæmi til og hefði hann ekki talið það koma til greina. Hefðu Marinó Sigurjónsson eða Guðjón Sævarsson leitað eftir því hvort unnt væri að bera þetta mál upp á lánanefndarfundi, sem halda átti í bankanum þennan dag. Kvaðst vitnið hafa svarað því til að það kæmi ekki til greina þar sem ekki yrði lánað með þessum hætti. Vitnið kvaðst hafa skilið Marinó svo að ákærði Sigurjón hefði orðið „fúll“ yfir því að þetta hefði ekki gengið eftir, en tók fram að það gætu hafa verið bollaleggingar hans eftir á. Loks bar vitnið að synjun um lánveitinguna hefði ekkert tengst fyrrnefndu bréfi sem bankanum hafði borist frá fjármálaeftirlitinu í Lúxemborg.

Jóhanna Sigurborg Jafetsdóttir, sem var aðstoðarmaður Guðjóns Sævarssonar, kvaðst hafa komið að því að ganga frá samningum við Ara Salmivuori, í samvinnu við Landsbanka Íslands. Upphaflega hefði staðið til að Landsbankinn í Lúxemborg myndi veita lán til viðskiptanna, en Halldór Jónsson hefði gripið þar inn í og hefði niðurstaðan orðið sú að lánafyrirgreiðslan yrði frá Landsbanka Íslands. Hún kvaðst hafa hitt Ara Salmivuori þegar hann kom í bankann til að undirrita lánsskjöl, en ekkert hafa rætt við hann um samninginn. Hefði Guðjón Sævarsson alfarið séð um samskipti við Ara. Þá kvaðst vitnið ekki hafa verið í neinum samskiptum við Landsbanka Íslands vegna málsins, en vita til þess að starfsfólk lánadeildar og Guðjón hefðu verið í sambandi við starfsfólk þar. Hún kvað Sigurlaugu Erlu Gunnarsdóttur hafa útbúið drög að lánssamningi, sem liggur fyrir í málinu, í samráði við starfsfólk lánadeildar Landsbanka Íslands. Kvaðst vitnið hafa yfirfarið samninginn, til að athuga hvort hann væri í samræmi við það sem Guðjón hefði mælt fyrir um, og farið með hann til Ara til undirritunar.

Vitnið kannaðist við að hafa í tölvuskeytum til starfsmanna Landsbanka Íslands í nóvember og desember 2008, spurst fyrir um hvort þessi tilteknu viðskipti hefðu gengið í gegn, eða verið bakfærð. Hún kvað þau Guðjón hafa þurft að fá þetta upplýst áður en þau sendu Landsbanka Íslands lánssamninginn, en það hefði verið óþarft ef viðskiptin hefðu verið bakfærð.

Sigurlaug Erla Gunnarsdóttir, sem starfaði í lánadeild Landsbankans í Lúxemborg, kvað Guðjón Sævarsson hafa beðið sig um að hjálpa til við skjalagerð vegna lánveitingar frá Landsbanka Íslands. Hún hefði gert það þannig að hún hefði sett heiti Landsbanka Íslands í stað Landsbankans í Lúxemborg á þeim eyðublöðum sem notast var við. Þá kvaðst hún hafa vottað undirskriftir á lánsskjölum. Hún kvaðst ekki hafa verið viðstödd umræður um lánskjör og ekki muna hver gaf henni upplýsingar um þau við gerð lánssamningsins. Þá kvaðst hún ekki minnast þess að hafa átt samskipti við neinn annan en Guðjón vegna málsins, en staðfesti þó að hafa sent Hrafnhildi Völu Grímsdóttur í Landsbanka Íslands lánssamninginn í tölvupósti. Vitnið kvaðst hafa verið þess fullviss að þetta mál væri ekki tengt Landsbankanum í Lúxemborg, enda hefði Marinó Freyr Sigurjónsson þá annast það. Hennar aðkoma hefði einvörðungu falist í aðstoð við skjalagerð.

Andri Sveinsson, sem sat í bankaráði Landsbanka Íslands, kvaðst hafa þekkt Ara Salmivuori um árabil og hefðu þeir átt viðskiptatengsl. Vitnið kvað Ara hafa verið áhugasaman um Ísland og það sem var að eiga sér stað á íslenska hlutabréfamarkaðnum. Þeir Ari hefðu rætt saman í síma skömmu eftir að Glitnir banki var tekinn yfir og hefði Ari rætt það við hann að þetta gæti orðið til þess að þeir bankar sem stæðu eftir yrðu sterkari en áður. Ari hefði lýst því að hann hefði áhuga á að kaupa hlutabréf í Landsbankanum og kvaðst vitnið hafa vísað honum á Guðjón Sævarsson hjá Landsbankanum í Lúxemborg. Vitnið kvaðst ekki muna nákvæmlega hvaða dag þetta samtal átti sér stað, en kvaðst telja að hann hefði komið því á framfæri við Guðjón að þessi maður myndi hafa samband. Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa rætt þetta mál við ákærða Sigurjón eða einhvern annan hjá Landsbanka Íslands, en það væri ekki útilokað. Þá kvaðst vitnið hafa verið í nokkrum samskiptum við ákærða Steinþór á þessum tíma, en það hefði verið vegna annarra mála. Vitnið kvaðst ekki muna hvort þeir Ari ræddu saman um fjármögnun vegna hlutabréfakaupanna, en taldi ekki ólíklegt að hann hefði leitað eftir því hvort unnt yrði að fá fjármögnun frá bankanum. Kvaðst vitnið alfarið hafa vísað Ara á Guðjón.  

Björgólfur Thor Björgólfsson, eigandi Samson eignarhaldsfélags, sem var eigandi 45% hlutar í Landsbankanum, var spurður um skuldbindingar félagsins og áhrif lækkandi hlutabréfaverðs í bankanum í því sambandi. Þá var vitnið spurt um kaup nafngreinds félags á hlut í Landsbankanum 30. september 2008, skráð á eyjunni Tortola, sem sagt var vera í eigu búlgarsks viðskiptafélaga vitnisins. Vitnið kvaðst ekki þekkja til viðskiptanna og að félagið tilheyrði ekki félagasamstæðu hans. Vitnið kvaðst þekkja Ara Salmivuori, en ekki félagið Azalea Resources Ltd. Hann kvaðst ekkert hafa komið að viðskiptum Ara með hlutabréf í bankanum 3. október 2008. 

Sigríður Elín Sigfúsdóttir kvað sig minna að ákærði Sigurjón hefði rætt við sig um fyrirhuguð viðskipti félagsins Azalea með hlutabréf í bankanum. Hún hefði síðan rætt við Marinó Frey Sigurjónsson og hefði orðið niðurstaða þeirra að ekki væri gerlegt að Landsbankinn í Lúxemborg lánaði til viðskiptanna, vegna nýlegra samskipta bankans við fjármálaeftirlitið þar ytra. Því hefði verið ákveðið að skoða lánamálið á Íslandi. Vitnið kvaðst hafa rætt við einhvern í lögfræðingahópi fyrirtækjasviðs bankans og hefði könnun vegna „customer rules“ verið byrjuð. Málið hefði hins vegar aldrei komist lengra en það. Vitnið kvað sig minna að í samtali þeirra Sigurjóns hefði komið fram að Ari ætti einhverjar tryggingar fyrir láninu. Málið hefði hins vegar ekki komist á það stig að gengið væri úr skugga um það. Vitnið kvað ekki myndu hafa komið til greina að lána með þeim kjörum sem gert var ráð fyrir í drögum að lánssamningi sem liggur fyrir í málinu, nema einhverjar aðrar undirliggjandi tryggingar hefðu verið til staðar, sem getið hefði verið um í sérstökum veðsamningi.  

Hrafnhildur Vala Grímsdóttir kvaðst hafa fengið drögin að lánssamningnum send frá Landsbankanum í Lúxemborg. Vitnið kvaðst ekki minnast þess að hafa verið í samskiptum við neinn í Landsbanka Íslands vegna málsins. Hún kvaðst hafa lagt samningsdrögin upp í hillu og þar hefðu þau legið, en ef komið hefði til þess að greiða lánið út hefði hennar deild annast það.

Gróa Dagmar Gunnarsdóttir, starfsmaður í svokallaðri bakvinnslu Landsbanka Íslands, sem annast frágang viðskipta, gerði grein fyrir því að pantanir um viðskipti bærust í gegnum sérstakt verðbréfakerfi. Verðbréfamiðlarar skrái pantanirnar inn í kerfið og viðskiptin séu síðan afgreidd af bakvinnslunni. Almennt sé því treyst að innstæða sé fyrir viðskiptum þegar þau eru afgreidd, en þau komi síðan oftast til greiðslu þremur dögum síðar. Ef innstæða hefði ekki reynst vera fyrir hendi, eða greiðsla ekki borist frá kaupanda á uppgjörsdegi, hefði verklagsreglan verið sú að lokað var fyrir viðskipti við viðkomandi og málið síðan sent lögfræðideild bankans til innheimtu. 

Vitnið bar að miðað við viðskiptakvittun sem fyrir liggur í málinu, hefði félagið Azalea Resources Ltd. eignast hlutabréfin í Landsbankanum 3. október 2008, þ.e. á viðskiptadegi, en jafnframt kæmi fram á kvittuninni að uppgjörsdagur hafi verið fyrirhugaður 8. október, en þá hefði þurft að greiða fyrir bréfin. Hún kvaðst ekki hafa afgreitt þessi viðskipti og því ekki þekkja til þeirra. Hún kvað miðlara sem annaðist þau hafa átt að vita með hvaða hætti kaupandi bréfanna ætlaði að greiða fyrir þau.

Guðmundur Víðir Guðmundsson, starfsmaður verðbréfamiðlunar Landsbanka Íslands, kvað ákærða Steinþór hafa beðið sig um að stofna vörslureikning fyrir Ara Salmivuori í Landsbanka Íslands. Hann hefði jafnframt fengið erindi um það sama sent með tölvupósti frá Landsbankanum í Lúxemborg. Hann kvaðst hins vegar ekki hafa átt nein samskipti við starfsmenn Landsbankans í Lúxemborg vegna málsins.

Vitnið kvaðst aldrei hafa heyrt um að verðbréfamiðlari, sem kæmi að viðskiptum með hlutabréf, þyrfti að afla sér staðfestingar á því að sá sem óskaði eftir kaupunum hefði gengið frá fjármögnun vegna þeirra. Nánar spurður um þetta svaraði vitnið: „Viðskipti eru gerð og svo eru t+3 að borga.“

            Þórður Örlygsson, regluvörður Landsbanka Íslands, kvað Guðmund Víði Guðmundsson hafa hringt til sín þennan dag og verið að velta fyrir sér hvaða gögn þyrfti að fylla út til að uppfylla kröfur samkvæmt reglum um peningaþvætti. Vitnið kvaðst engar upplýsingar hafa haft um fjármögnun viðskiptanna sem um ræðir, en síðar hefði verið tilkynnt um þau til Fjármálaeftirlitsins, eftir að í ljós kom að gert hefði verið ráð fyrir fullri fjármögnun frá bankanum og í ljósi þess hversu stór viðskipti var um að ræða.  

            Vitnið kvaðst ekki vita til þess að miðlarar hefðu þurft að fá staðfestingu á greiðslugetu viðskiptavinar áður en viðskipti með hlutabréf væru tilkynnt, en hann kvaðst ekki þekkja þær verklagsreglur sem viðhafðar hefðu verið í þessu sambandi. Þá hefði það almennt ekki verið á ábyrgð miðlara að kanna hvort innstæða væri á bankareikningi þegar uppgjör færi fram þremur dögum eftir viðskiptin.

Tinna Jónsdóttir Molphy, sem starfaði sem sérfræðingur á alþjóðasviði Landsbankans, kvaðst hafa átt ótal símtöl við ákærða Sigurjón á þessum tíma, en mundi ekki sérstaklega eftir því að hafa rætt við hann um fjárfestingar Ara Salmivuori í bankanum. Hún kannaðist þó við að hafa heyrt um þetta mál innan bankans. Hún kvað langt um liðið og myndi hún ekki hvort fjölmiðlar hefðu verið í sambandi við hana vegna þessa máls þegar þetta var.  

Yngvi Örn Kristinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri verðbréfasviðs, kvaðst hafa verið yfirmaður ákærða Steinþórs. Vitnið kvað hvorki lög né reglur kveða á um að verðbréfamiðlarar ættu að kynna sér hvort viðskiptavinir ættu fjármagn til að kaupa hlutabréf sem þeir óskuðu eftir að kaupa. Það hefði heyrt undir fyrirtækjasvið að meta greiðslugetu. Ef það ætti sér stað að viðskiptavinur, sem hefði pantað hlutabréf, gæti ekki greitt fyrir þau, yrði til innheimtumál, sem færðist til fyrirtækjasviðs. Vitnið svaraði því jafnframt að ef viðskiptavinur staðfesti í símtali við miðlara að hann ætlaði að kaupa hlutabréf væri kominn á samningur sem yrði að efna. Loks sagði vitnið það rétt vera, sem komið hefði fram hjá honum við yfirheyrslu hjá embætti sérstaks saksóknara, að hann hefði tvívegis á árinu 2008 fengið fyrirmæli frá ákærða Sigurjóni um að beina því til Ívars Guðjónssonar að lækka mörkin þegar eign bankans í eigin hlutabréfum hefði verið komin yfir 10%. Hann kvaðst hafa komið þessum fyrirmælum áfram til Ívars.

Loks gáfu skýrslur fyrir dóminum Katrín Ólafsdóttir, Aðalbjörg Björnsdóttir og Ásta Margrét Þórhallsdóttir, sem allar voru starfsmenn Landsbankans á þeim tíma sem um ræðir. Ekki eru efni til að rekja framburð vitnanna.

 

Niðurstaða

            Ákærðu er gefin að sök markaðsmisnotkun við sölu á 199.000.000 hluta í Landsbankanum til félagsins Azalea Resources Ltd., sem skráð var á Bresku Jómfrúaeyjum, en viðskiptin hafi gefið eftirspurn hlutabréfa í bankanum ranglega og misvísandi til kynna, eða verið líkleg til að gera það, og falið í sér blekkingu og sýndarmennsku. Með viðskiptunum og tilkynningu þeirra sem utanþingsviðskipta til Kauphallarinnar hafi verið ranglega látið líta svo út að fjárfestir hefði lagt fé til kaupa hlutafjárins og borið af þeim fulla markaðsáhættu.

            Ákærða Sigurjóni er gefið að sök að hafa tekið ákvörðun um viðskiptin af hálfu Landsbankans. Hefur ákærði alfarið hafnað því að ákvörðun hafi verið tekin um þessi viðskipti og hafi hann ekki haft vitneskju um að þau hefðu verið „keyrð í gegn“, svo sem rakið hefur verið. Fær framburður ákærða að þessu leyti stoð í vitnisburði Sigríðar Elínar Sigfúsdóttur, sem bar að tekið hefði verið til skoðunar innan bankans hvort lánafyrirgreiðsla yrði veitt vegna málsins, en sú athugun hefði verið á frumstigi. Þá kom fram hjá Sigríði Elínu að ekki myndi hafa komið til greina að lána til kaupa á hlutabréfunum án þess að frekari tryggingar kæmu til en veð í hinum keyptu bréfum. Ákærðu Sigurjón og Steinþór hafa ekki borið um að þeir hafi verið í samskiptum vegna málsins. Ari Salmivuori kvaðst hafa fengið upplýsingar um hámark lánsfjárhæðar vegna viðskiptanna frá Guðjóni Sævarssyni, sem hefði verið í símasamskiptum við einhvern vegna málsins. Framburður Guðjóns um hvernig lánsfjárhæð og skilmálar, sem tilgreindir eru í drögum að lánssamningi, voru ákveðin, var mjög óljós við meðferð málsins. Spurður um þetta við skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara í mars 2009 kvað hann geta verið að hann hefði rætt við Sigríði Elínu eða ákærða Sigurjón vegna málsins, en hann minntist þess ekki. Sérstaklega spurður kvaðst hann þó telja ósennilegt að Sigurjón hefði gefið honum fyrirmæli um hvernig lánssamningurinn ætti að líta út. Við yfirheyrslu í maí 2012 kvaðst vitnið telja líklegt, þótt hann minntist þess ekki, að hann hefði rætt við Sigurjón eftir að fyrir lá að ekki yrði lánað til viðskiptanna frá Landsbankanum í Lúxemborg og hafi Sigurjón hugsanlega sagt honum að Landsbanki Íslands myndi „taka þessi viðskipti“. Við aðalmeðferð málsins kvaðst hann hins vegar ekki minnast þess að hafa verið í samskiptum við aðra en ákærða Steinþór hjá Landsbanka Íslands, við vinnslu málsins. Af framburði annarra vitna, sem rakinn hefur verið, verður engin ályktun dregin um að ákærði Sigurjón hafi gefið fyrirmæli um að málið yrði afgreitt með þeim hætti sem gert var. Er jafnframt til þess að líta að fram er komið að Ari Salmivuori hafði verið í samskiptum við aðra en ákærða innan bankans í aðdraganda viðskiptanna. Samkvæmt framansögðu, og með vísan til 108. gr. og 109. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, er gegn eindreginni neitun ákærða ósannað að hann hafi tekið ákvörðun um viðskiptin sem um ræðir, og verður hann sýknaður ef kröfum ákæruvaldsins að því leyti.   

            Ákærða Steinþóri er gefið að sök að hafa tilkynnt viðskiptin til Kauphallarinnar þrátt fyrir vitneskju hans um að hin seldu hlutabréf kæmu frá eigin fjárfestingum Landsbankans og að til stæði að Landsbankinn fjármagnaði kaupin að fullu án þess að staðfesting lægi fyrir um fjármögnunina. Fyrir liggur að ákærði tilkynnti viðskiptin sem um ræðir til Kauphallarinnar og að hlutabréfin sem miðlað var voru í eigu deildar eigin fjárfestinga. Ákærði hefur hins vegar borið að honum hafi ekki verið kunnugt um hvernig staðið yrði að fjármögnun hlutabréfakaupanna. Er vörn ákærða á því reist að honum hafi ekki borið að afla sér vitneskju um fjármögnun vegna viðskiptanna áður en frá þeim var gengið og þau tilkynnt til Kauphallarinnar, enda hafi það ekki verið hlutverk verðbréfamiðlara að ganga úr skugga um slíkt. Ekki er hægt að fallast á þá málsvörn. Í starfi ákærða fólst að koma á viðskiptum með hlutabréf og tilkynna þau til Kauphallarinnar. Gat honum ekki dulist að upplýsingar um hvernig að viðskiptum væri staðið gátu haft áhrif á mat aðila verðbréfamarkaðarins á verði hlutabréfa. Bar ákærða að haga starfi sínu á þann veg að misvísandi eða villandi upplýsingar um verðmæti hlutabréfa bærust ekki út á markaðinn. Er enn fremur í því sambandi vísað til ákvæða 2. og 3. mgr. 117. gr. laga um verðbréfaviðskipti, um skyldur sem á fjármálafyrirtækjum og starfsmönnum þeirra hvíla, vakni grunur um markaðsmisnotkun í tengslum við viðskipti.

            Rakin hafa verið símasamskipti ákærða Steinþórs og Ara Salmivuori, um kaup á 199.000.000 hluta í Landsbankanum. Þá liggur fyrir að ákærði var ítrekað í símasambandi við Guðjón Sævarsson vegna málsins þennan dag. Fram er komið að Ari Salmivuori fór fram á að félag með takmarkaðri ábyrgð, sem hann væri í fyrirsvari fyrir, keypti hlutabréfin sem um ræðir, með lánafyrirgreiðslu frá Landsbankanum í Lúxemborg gegn veði í bréfunum. Þá liggja fyrir drög að lánssamningi og veðsamningi Landsbanka Íslands við félagið Azalea Resources Ltd., og er efni þeirra í samræmi við það sem að framan greinir. Ákærði Steinþór hafði milligöngu um stofnun reiknings fyrir félagið í Landsbanka Íslands vegna viðskiptanna þennan dag. Samkvæmt viðskiptakvittun sem ákærði gaf út vegna kaupa á bréfunum skyldi félagið greiða fyrir þau 3.790.452.500 krónur þremur viðskiptadögum síðar. Þykir ekki leika á því vafi að ákærða hafi verið fullkunnugt um hvernig að viðskiptunum var staðið.

Lánveiting á grundvelli framangreindra draga að lánsskjölum hefði ekki haft í för með sér að raunveruleg breyting yrði á markaðsáhættu Landsbankans vegna hinna seldu hlutabréfa. Þá hafði lánsbeiðnin ekki heldur verið samþykkt af þar til bærum aðilum í bankanum þegar ákærði og Ari Salmivuori sömdu símleiðis um kaup á bréfunum og ákærði tilkynnti viðskiptin til Kauphallarinnar. Var fjármögnun vegna viðskiptanna því ófrágengin, sem þýddi að markaðsáhætta vegna bréfanna hvíldi áfram á Landsbankanum. Um var að ræða óvenjuleg og umfangsmikil viðskipti og höfðu aðilar markaðarins augljósa hagsmuni af því að vera upplýstir um hvernig að þeim var staðið, enda gat það haft áhrif á mat þeirra á verðmæti hlutabréfa í Landsbankanum. Gat ákærða ekki dulist að viðskiptin og tilkynning þeirra til Kauphallarinnar voru til þess fallin að gefa eftirspurn hlutabréfa í Landsbankanum ranglega og misvísandi til kynna, auk þess sem í þeim hafi falist blekking og sýndarmennska. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt IV. kafla ákæru og er háttsemi hans þar rétt færð til refsiákvæða.   

 

            Ákærði Steinþór er fæddur í ágúst 1966 og hefur hann ekki áður sætt refsingu. Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að ákærði var forstöðumaður verðbréfamiðlunar Landsbanka Íslands og bar sem slíkur ríkar skyldur gagnvart aðilum markaðarins, einstaklingum og lögaðilum, sem áttu í viðskiptum með hlutabréf. Ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun í tengslum við viðskipti með hlutabréf í Landsbankanum sem námu verulegri fjárhæð. Á hinn bóginn er til þess að líta að hartnær sex ár eru liðin frá því brotið var framið. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 9 mánuði, en rétt þykir að fresta fullnustu 6 mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu Sigurjóns og Sigríðar Elínar greiðist úr ríkissjóði, sem og helmingur málsvarnarlauna verjenda ákærða Steinþórs, eins og nánar greinir í dómsorði. Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

            Við rannsókn málsins, og máls þess sem rekið er undir málsnúmerinu S-207/2013, fékk embætti sérstaks saksóknara heimild með dómsúrskurði til að hlusta á og taka upp símtöl ákærðu á tímabili í janúar og febrúar 2011, samkvæmt 81. gr., sbr. 83. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Fram er komið að þegar ákærðu og verjendur þeirra fengu aðgang að upptökum vegna símhlustana, eftir að ákæra hafði verið gefin út, var þar að finna upptökur símtala sem ákærðu Sigurjón og Sigríður Elín höfðu átt við verjendur sína vegna rannsóknar málsins. Með vísan til 1. mgr. 36. gr. laga um meðferð sakamála bar rannsakanda að láta af símhlustun og stöðva upptöku þegar ljóst var að um var að ræða samtal milli ákærðu og verjenda þeirra. Samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 85. gr. sömu laga bar jafnframt að farga upptökum símtalanna þegar í stað. Hvorugt var gert og fólu framangreindar rannsóknaraðgerðir, eins og að þeim var staðið, í sér brot gegn tilvitnuðum ákvæðum laga um meðferð sakamála.

Dómsuppsaga hefur dregist lítillega umfram fjögurra vikna frest samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga um meðferð sakamála, vegna umfangs málsins, en málflytjendur töldu ekki þörf á endurflutningi þess.

Dóminn kváðu upp héraðsdómararnir Ragnheiður Harðardóttir, sem dómsformaður, og Kristrún Kristinsdóttir og Ólafur Ásgeirsson viðskiptafræðingur.

 

Dómsorð:

 

            Ákærðu, Sigurjón Þorvaldur Árnason og Sigríður Elín Sigfúsdóttir, eru sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

Ákærði, Steinþór Gunnarsson, sæti fangelsi í 9 mánuði, en fresta skal fullnustu 6 mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærða Sigurjóns, Sigurðar G. Guðjónssonar hrl., 17.783.350 krónur, og ákærðu Sigríðar Elínar, Helgu Melkorku Óttarsdóttur hrl., 9.045.814 krónur, greiðast úr ríkissjóði. Helmingur málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða Steinþórs, Lárentsínusar Kristjánssonar hrl., 3.137.500 krónur, og verjanda ákærða á rannsóknarstigi málsins, Brynjars Níelssonar hrl., 1.255.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði, en helming málsvarnarlauna verjenda greiði ákærði sjálfur.

                                                                        Ragnheiður Harðardóttir

                                                                        Kristrún Kristinsdóttir

                                                                        Ólafur Ásgeirsson