• Lykilorð:
  • Fasteign
  • Galli
  • Skaðabætur

 

                                                            Dómur

Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 22. desember 2009 í máli nr. E-3407/2008:

 

Óskar Halldór Valtýsson og

                                                            Guðbjörg Rannveig Jónsdóttir

                                                (Gísli Guðni Hall hrl.)

                                                             gegn

Arkitektum Laugavegi 164 ehf.

Hallgrími Friðgeirssyni,

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

TVT ehf.,

Guðmundi K. Kjartanssyni,

(Skarphéðinn Pétursson hrl.)

Baldri Baldurssyni,

(Ólafur Eiríksson hrl.)

Sveini Loga Björnssyni,

(Björn Þorri Viktorsson hrl.)

Oddi Guðnasyni,

(Ólafur Kjartansson hdl.)

Gólfefnavali ehf.,

Blikksmiðnum ehf.

(Bjarni Ásgeirsson hrl.)

og gagnsök

og til réttargæslu

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Þóra Hallgrímsdóttir hdl.)

og

Vátryggingafélagi Íslands hf.

 (Skarphéðinn Pétursson hrl.)

 

 

Mál þetta, sem tekið var til dóms 25. nóvember 2009, er höfðað með stefnu þingfestri 12. nóvember 2008 og gagnstefnu þingfestri 10. desember 2008. Aðalstefnendur og gagnstefndu eru Óskar Halldór Valtýsson kt. […], Jórsölum 18, Kópavogi og Guðbjörg Rannveig Jónsdóttir, kt. […], með sama heimilisfang.

Aðalstefndu eru Arkitektar Laugavegi 164 ehf., kt. […], Laugavegi 164, Reykjavík, Hallgrímur Friðgeirsson, kt. […], Kirkjustétt 22, Reykjavík, TVT ehf., kt. […], Lyngrima 16, Reykjavík,  Guðmundur K. Kjartansson, kt. […], Lyngrima 16, Reykjavík, Baldur Baldursson, kt. […], Fjallalind 1, Kópavogi, Sveinn Logi Björnsson, kt. […], Nesbala 26, Seltjarnarnesi, Oddur Guðnason, kt. […], Sveighúsum 9, Reykjavík, Gólfefnaval ehf., kt. […], Vatnagörðum 14, Reykjavík, og Blikksmiðurinn ehf., kt. […], Malarhöfða 8, Reykjavík. Aðalstefndi Gólfefnaval ehf. er einnig gagnstefnandi.

Til réttargæslu er stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. […], Kringlunni 5, Reykjavík, og Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. […], Ármúla 3, Reykjavík.

Dómkröfur aðalstefnenda í aðalsök eru eftirfarandi:

 

1.      Að aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf., Hallgrímur Friðgeirsson, Guðmundur K. Kjartansson og TVT ehf. verði dæmdir óskipt til að greiða stefnendum kr. 1.560.000 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. september 2007 til 10. maí 2008, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 10. maí 2008 til greiðsludags.

 

2.      Að aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf., Hallgrímur Friðgeirsson, Guðmundur K. Kjartansson, TVT ehf. og Sveinn Logi Björnsson verði dæmdir óskipt til að greiða stefnendum kr. 424.000 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. september 2007 til 10. maí 2008, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 10. maí 2008 til greiðsludags.

 

3.      Að aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf., Hallgrímur Friðgeirsson, Guðmundur K. Kjartansson, TVT ehf. og Blikksmiðurinn ehf. verði dæmdir óskipt til að greiða stefnendum kr. 130.000 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. september 2007 til 10. maí 2008, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 10. maí 2008 til greiðsludags.

 

4.      Að aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf., Hallgrímur Friðgeirsson, Guðmundur K. Kjartansson, TVT ehf., Oddur Gunnarsson og Baldur Baldursson verði dæmdir óskipt til að greiða stefnendum kr. 2.630.000 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. september 2007 til 10. maí 2008, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 10. maí 2008 til greiðsludags.

 

5.      Að aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf., Hallgrímur Friðgeirsson og Gólfefnaval ehf. verði dæmdir óskipt til að greiða stefnendum kr. 388.000 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. september 2007 til 10. maí 2008, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 10. maí 2008 til greiðsludags.  

 

6.      Að aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf., Hallgrímur Friðgeirsson, Guðmundur K. Kjartansson, TVT ehf., Oddur Gunnarsson og Baldur Baldursson verði dæmdir óskipt til að greiða stefnendum kr. 3.386.387 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. september 2007 til 10. maí 2008, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 10. maí 2008 til greiðsludags.

 

7.      Að aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf., Hallgrímur Friðgeirsson, Guðmundur K. Kjartansson og TVT ehf. verði dæmdir óskipt til að greiða stefnendum kr. 92.000 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. september 2007 til 10. maí 2008, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 10. maí 2008 til greiðsludags.

 

8.      Að aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf. og Hallgrímur Friðgeirsson verði dæmdir til að greiða stefnendum óskipt kr. 1.931.957 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. ágúst 2005 til 10. maí 2008, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 10. maí 2008 til greiðsludags.

 

9.      Að aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf., Hallgrímur Friðgeirsson, Guðmundur K. Kjartansson og TVT ehf. verði dæmdir óskipt til að greiða stefnendum kr. 4.954.926,  auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af kr. 2.003.168 frá 11. apríl 2005 til 22. nóvember 2005, en af kr. 4.954.926 frá 22. nóvember 2005 til greiðsludags.

 

10.  Að aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf., Hallgrímur Friðgeirsson, Guðmundur K. Kjartansson, TVT ehf. og Blikksmiðurinn ehf. verði dæmdir óskipt til að greiða stefnendum kr. 588.481, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 12. janúar 2006 til greiðsludags.

 

11.  Að aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf., Hallgrímur Friðgeirsson og Baldur Baldursson verði dæmdir óskipt til að greiða stefnendum kr. 90.000, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. júní 2006 til greiðsludags.

 

12.  Að aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf. og Hallgrímur Friðgeirsson verði dæmdir óskipt til að greiða stefnendum kr. 196.439, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. apríl 2005 til greiðsludags.

 

13.  Að aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf. og Hallgrímur Friðgeirsson verði dæmdir óskipt til að greiða stefnendum kr. 54.500, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. febrúar 2005 til greiðsludags.

 

14.  Að aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf., Hallgrímur Friðgeirsson, Guðmundur K. Kjartansson og TVT ehf. verði dæmdir óskipt til að greiða stefnendum kr. 3.000.000,  auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. maí 2008 til greiðsludags.

 

15.  Að aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf., Hallgrímur Friðgeirsson, Guðmundur K. Kjartansson og TVT ehf. verði dæmdir óskipt til að greiða stefnendum kr. 1.000.000,   auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. maí 2008 til greiðsludags.

 

            Loks krefjast aðalstefnendur þess að stefndu verði dæmdir til að greiða þeim málskostnað að skaðlausu.

            Aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf., Hallgrímur Friðgeirsson, TVT ehf., Guðmundur K. Kjartansson og Baldur Baldursson krefjast aðallega sýknu en til vara að kröfur aðalstefnenda verði lækkaðar. Aðalstefndu Gólfefnaval ehf. Blikksmiðurinn ehf., Oddur Guðnason og Sveinn Logi Björnsson krefjast sýknu. Allir aðalstefndu krefjast málskostnaðar úr hendi stefnenda.

            Í gagnsök krefst gagnstefnandi, Gólfefnaval ehf., þess að gagnstefndu, Óskar Halldór Valtýsson og Guðbjörg Rannveig Jónsdóttir, verði in solidum dæmd til að greiða gagnstefnanda 619.566 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2006 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar.

            Gagnstefndu krefjast sýknu og málskostnaðar.

            Af hálfu réttargæslustefndu eru ekki gerðar kröfur og engar kröfur eru gerðar á hendur þeim.

            Í málavaxtalýsingu hér að neðan verða aðalstefnendur nefndir stefnendur og aðalstefndu stefndu en um gagnsök verður fjallað í XI. kafla.

 

I.

Almennt um málavexti.

            Stefnendur kveða málavexti þá að þau hafi festu kaup á ófullgerðu einbýlishúsi að Jórsölum 18, Kópavogi í september 2004. Fasteigninni hafi verið ætlað að vera  framtíðarheimili þeirra. Við kaupin hafi húsið verið fokhelt að innan en fullfrágengið að utan. Stefnendur hafi ákveðið að fá fagaðila til þess að hafa yfirumsjón með öllum innanhússframkvæmdum sem í hönd færu eftir afhendingu hússins, þ.e. bæði hönnun og verkumsjón. Hafi þetta verið gert í því skyni að tryggja að vandað yrði til allrar hönnunar og efnisvals, fengnir yrðu fagmenn til allra verka og kostnaði haldið eðlilegum. Stefnendur hafi verið neytendur samkvæmt skilgreiningu í 3. mgr. 1. gr. laga um þjónustukaup nr. 42/2000 og í almennum skilningi.

            Stefndi Arkitektar Laugavegi 164 ehf. reki arkitektastofuna Glámu Kím. Stefnendur hafi samið við Glámu Kím um hönnunar- og umsjónarvinnu vegna hússins.Samningurinn hafi grundvallast á tilboði arkitektastofunnar, dags. 28. júlí 2004. Í tilboðinu komi fram að vinnan felist í meginatriðum í eftirfarandi verkþáttum:

 

a.      Heildarfyrirkomulag húss.

b.      Frágangur gólfa, val á gólfefnum og samsetning þeirra.

c.       Innrétting og frágangur á 2 baðherbergjum.

d.      Eldhúsinnrétting.

e.       Innréttingum í fataskáp við stiga, í þvottahúsi, svefnherbergjum og vinnuherbergi.

f.        Loft, lýsing og frágangur og samræming vegna raflagna.

g.      Litaval.

h.      Val á gardínum.

i.        Val á innihurðum.

j.        Arinn, teikning og frágangur?

k.       Val á húsgögnum.

l.        Handrið á stiga og við stigaop.

 

            Í tilboðinu komi jafnframt fram að um sé að ræða hönnun á ofangreindu, val á efni og litum í samráði við verkkaupa og lokaúttekt á einstökum verkþáttum. Um verkið segi að Gláma Kím muni vinna það á eftirfarandi hátt:

 

1.      Tillögur.

Lagðar verða fram tillögur í mkv. 1:50 þar sem fram kemur efnis- og litaval.  Tillögurnar eru umræðugrundvöllur fyrir endanlegt fyrirkomulag.

 

2.      Útfærsla.

Þegar tillögur hafa fengið samþykki er gerður kostnaðarrammi.  Innan hans hefst vinna við verkteikningar í mælikvarða 1:50, 1:20, 1:5, eftir því sem við á.

 

3.      Umsjón og eftirlit.

Umsjón með vali iðnaðarmanna, samhæfing og eftirlit á byggingastað er unnið í tímavinnu utan tilboðs.  Tímagjald er kr. 5.960 án VSK.

Arkitekt framkvæmir lokaúttekt.

 

Tilboðið hafi verið undirritað af Sigurði Halldórssyni, einum eigenda Glámu Kím.  Gláma Kím hafi falið starfsmanni fyrirtækisins, stefnda Hallgrími Friðgeirssyni innanhúsarkitekt, að sjá um verkið. Samskipti hans og stefnanda hafi átt að fara fram með tölvupósti.  Hallgrímur hafi séð um að leita tilboða í alla verkliði, eftir atvikum mælt með tilboðum og borið undir stefnendur til samþykktar.  Einnig hafi stefnendur átt að samþykkja hvers kyns breytingar og aukinn kostnað ef um hann yrði að ræða.  Hallgrímur hafi átti öll samskipti við einstaka verktaka á verktímanum og lagt fyrir stefnendur að blanda sér ekki í þau.  Hann hafi einnig séð um úttektir á einstökum verkliðum og uppgjöri gagnvart verktökum með því að gera tillögu um greiðslur og fyrirkomulag.  Í mörgum tilvikum hafi hann tekið  við greiðslum frá stefnendum og komið þeim til skila til verktaka. Hallgrímur sem verkumsjónaraðili hafi einnig valið verktaka er komu að húsinu.  Áður en verkframkvæmdir hófust hafi hann valið stefnda Guðmund K. Kjartansson sem byggingastjóra.  Guðmundur sé fyrirsvarsmaður og starfsmaður stefnda TVT ehf., sem hafi gert stefnendum reikninga vegna verka Guðmundar.

Guðmundur hafi tekið við sem byggingastjóri 17. nóvember 2004 og sem húsasmíðameistari 26. nóvember 2004.  Þá hafi Sveinn Logi Björnsson verið skráður sem rafvirki og stefndi Oddur Guðnason sem múrari. Þessir menn hafi tekist á hendur meistaraábyrgðir og verið tilkynntir og skráðir meistarar hjá byggingarfulltrúanum í Kópavogi. Húsasmíði hafi verið í höndum stefnda Guðmundar en í nafni stefnda TVT ehf.  TVT ehf. hafi gert stefnendum reikninga vegna vinnu og byggingastjórnar Guðmundar. Rafverk í húsinu hafi verið unnið af Rafveitunni ehf. sem Guðmundur Pétur Yngvason hafi farið fyrir. Bæði fyrirtækið og hann persónulega séu gjaldþrota og því tilgangslaust að stefna þeim í mál þessu.  Eins og áður sagði hafi stefnd Sveinn Logi Björnsson ábyrgst rafverk í húsinu en stefnendum hafi ekki verið kunnugt um það meðan á verki stóð. Flotgólf ehf. hafi séð um flotun gólfa í húsinu en stefndi Baldur Baldursson séð um lagningu náttúrusteins á sturtuklefa, baðherbergisgólf og önnur gólf þar sem náttúrusteinn hafi verið lagður.  Eins og áður sagði hafi stefndi Oddur Guðnason ábyrgst múrverkið en hann hafi verið á vegum Flotgólfs ehf. Stefndi Gólfefnaval ehf. hafi selt stefnendum parket á gólf hússins, þ.e. þau gólf sem náttúrusteinn hafi ekki verið lagður á, og hafi lagning parketsins verið innifalin í samningsverði. Stefndi Blikksmiðurinn ehf. hafi séð um lagningu loftræstikerfa í húsinu.  Enginn blikksmíðameistari sé skráður á húsinu hjá byggingarfulltrúanum í Kópavogi.

Skemmst sé frá því að segja að mjög margt hafi farið úrskeiðis við verkframkvæmdir í húsinu, svo mikið að enn í dag sé það á mörkum þess að teljast íbúðarhæft.  Hönnun, verkumsjón og verkeftirliti hafi verið verulega ábótavant hjá Glámu Kím.  Oftar en ekki hafi verkum verið skilað alvarlega gölluðum og jafnvel hafi verið unnar skemmdir á húsinu.  Nokkrir verktakanna hafi farið langt fram úr kostnaðaráætlunum og tilboðsfjárhæðum í kröfum sínum um greiðslur úr hendi stefnenda.  Orð fái vart lýst framgöngu verktakanna og hvernig Gláma Kím og byggingastjóri hafi brugðist gjörsamlega skyldum sínum við stefnendur hvað eftir annað.  Mál hafi farið í hrein óefni af þessum sökum.

Vegna alls þessa hafi stefnendur séð sig knúna til að óska eftir að dómkvaddur yrði matsmaður. Tilgangurinn með öflun matsgerðar hafi í fyrsta lagi verið að staðreyna hvort verk væru haldin göllum, í öðru lagi hvort störf Glámu Kím við hönnun, verkumsjón og verkeftirlit hafi verið fullnægjandi og í þriðja lagi að fá staðreynt hvort telja mætti að hæfilegs endurgjalds hefði verið krafist fyrir einstaka verkliði, miðað við vinnu sem innt hefði af hendi.  Matsbeiðni sé dagsett 19. mars 2006 og hafi Helgi S. Gunnarsson, byggingaverkfræðingur og húsasmíðameistari, verið dómkvaddur til að gera matsgerð.  Hún sé dagsett 29. september 2007.  Matsgerðin sé að mati stefnenda svört skýrsla um störf Glámu Kím og ýmissa annarra sem unnu einstaka verkþætti eða báru á þeim ábyrgð.  Sé komist að niðurstöðu um stórfellda galla á nokkrum verkþáttum og að hönnun, tilboðsgerð, verkumsjón og eftirliti hafi verið verulega ábótavant.  Í nokkrum tilvikum hafi endurgjald fyrir vinnu, sem krafist var, verið allt of hátt.

Kröfum stefnenda megi skipta í fernt.  Í fyrsta lagi (kröfuliðir 1-7 í eftirfarandi sundurliðun) séu gerðar kröfur vegna galla á verkum hinna stefndu verktaka og iðnmeistara í tilvikum þar sem þeir hafi ekki skilað verki af sér í samræmi við þær gæðakröfur sem gera hefði mátti til þeirra.  Stefnendum sé rétt að gera strangar gæðakröfur til verktakanna í ljósi allra aðstæðna.  Stefnendur höfðu fengið fagaðila til að sjá um hönnun og öll samskipti við verktaka í nýbyggðu einbýlishúsi þar sem áhersla hafi átti að vera á vönduð vinnubrögð. Verulegur misbrestur hafi verið á að verkum væri skilað í umsömdu ástandi þannig að gæðakröfur  teldust uppfylltar.  Í tilvikum þar sem verktakar hafi brugðust hafi byggingastjóri og Gláma Kím einnig brugðist skyldum sínum sem eftirlits- og umsjónaraðilar.  Þeim hafi borið að sjá til þess að verktakarnir bættu úr ágöllum innan hæfilegs tíma og án aukakostnaðar fyrir stefnendur.  Þvert á móti hafi óforsvaranleg vinnubrögð verið látin viðgangast, m.a. með því að samþykkja reikninga frá verktökum og ráðleggja stefnendum að greiða þá, án þess að það hafi verið tímabært eða réttmætt.  Stefnendur kveðast líta svo á að Gláma Kím og byggingastjóri séu meðábyrg með verktökum og iðnmeisturum vegna gallanna þar sem um ítrekuð tilvik hafi verið að ræða og verkumsjón og verkeftirliti ekki verið sinnt með viðhlítandi hætti.  Mikill losarabragur hafi verið á öllu utanumhaldi hjá Glámu Kím og fyrirtækið ekki gætt hagsmuna stefnenda sem skyldi samkvæmt áðurnefndum samningi aðila.  Sama sé að segja um byggingastjóra.

Í öðru lagi sé krafist endurgreiðslu á öllum fjárhæðum sem stefnendur greiddu Glámu Kím vegna þjónustu þess fyrirtækis (kröfuliður 8 í eftirfarandi sundurliðun).  Sé byggt á því að Gláma Kím hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt þjónustusamningi aðila svo verulega að fyrirtækið hafi ekki átt rétt til nokkurrar greiðslu fyrir þjónustuna.

Í þriðja lagi sé krafist skaðabóta eða endurgreiðslu á fjárhæðum sem stefnendum hafi verið gert að greiða verktökum en hafi ekki átt sér stoð í samningum aðila (kröfuliðir 9-13 í eftirfarandi sundurliðun).  Yfirleitt hafi það verið þannig að Gláma Kím hafi ýmist samþykkt reikninga frá verktökunum eða látið stefnendur greiða þeim innáborganir án þess að verktakar hefðu lokið störfum, án fullnægjandi eftirlits með framvindu verka og án þess að samið hefði  verið um greiðslur eftir framvindu. Með þessu móti hafi reikningagerð verktaka farið algerlega úr böndunum eins og nánar verði lýst hér á eftir.  Sérstaklega sé vísað til tölvupósts stefnda Hallgríms Friðgeirssonar til stefnanda Óskars, dags. 16. mars 2005, og sundurliðunar á kostnaði samkvæmt tilboðum.  Fjárhæðir, sem stefnendur hafi verið krafðir um greiðslu á, hafi verið langt umfram þær er greinir í sundurliðuninni.  Stefnendur byggja á því að þeim hafi ekki borið að greiða verktökum fjárhæðir umfram þær sem samið hafi verið um.  Þeim hafi ekki borið að greiða fyrir aukaverk önnur en þau sem stefnendur hafi óskað eftir og ekki nema þeim hafi verið gert ljóst að viðkomandi verktaki áskildi sér rétt til þóknunar fyrir þau.  Í sumum þessara tilvika sé viðkomandi verktökum stefnt til endurgreiðslu ofgreiddra fjárhæða.  Þá byggja stefnendur á að í öllum tilvikunum beri Gláma Kím skaðabótaábyrgð vegna þess hve illa stofan hafi gætti hagsmuna stefnenda í samskiptum við verktakana.  Í ákveðnum tilvikum beri byggingastjóri einnig ábyrgð.

Í fjórða lagi sé í kröfuliðum 14 og 15 í eftirfarandi sundurliðun krafist bóta vegna afnotamissis, röskunar á stöðu og högum, annarra óþæginda og miska.   

Með innheimtubréfi lögmanns stefnenda 10. apríl 2008 hafi verið krafist bóta úr  hendi Glámu Kím, samtals að fjárhæð kr. 27.859.195.  Krafan hafi verið sundurliðuð, studd gögnum og að verulegu leyti byggð á fyrrnefndri matsgerð.  Með bréfi lögmanns Glámu Kím 11. júní 2008 hafi kröfunni verið hafnað.  Málið sé því þannig vaxið að stefnendum sé nauðugur sá kostur að höfða mál þetta.

 

Sundurliðun krafna og samantekt málsástæðna og lagaraka.

Kröfur stefnenda eru í 15 tölusettum liðum.  Í neðangreindri töflu er nánari útlistun þeirra. Í aftasta dálki er tilgreint gegn hverjum viðkomandi krafa beinist.

 

 

1

v galla á verki húsasm.meistara

kr.  1.560.000

GKÍM, HF, GKK, TVT

2

v galla á verki rafvirkja

kr.     424.000

GKÍM, HF, GKK, TVT og SLB

3

v galla á lofræsingu

kr.     130.000

GKÍM, HF, GKK, TVT og BS

4

v skemmda á parketi á neðri hæð

kr.  2.630.000

GKÍM, HF, GKK, TVT, OG og BB

5

v galla á parketi/lögn á stiga + e.hæð

kr.     388.000

GKÍM, HF og Gólfefnaval

6

v galla á lagningu náttúrusteins

kr.  3.386.387

GKÍM, HF, GKK, TVT, OG og BB

7

v galla á pípulögnum

kr.       92.000

GKÍM, HF, GKK og TVT

8

v þóknunar Glámu Kím

kr.  1.931.957

GKÍM og HF

9

v þóknunar TVT

kr.  4.954.926

GKÍM, HF, GKK og TVT

10

v þóknunar Blikksmiðarins ehf.

kr.     588.481

GKÍM, HF, GKK, TVT og BS

11

v þóknunar múraraverktaka

kr.       90.000

GKÍM, HF, og BB

12

v þóknunar pípulagningameistara

kr.     196.439

GKÍM og HF

13

v þóknunar Flotgólfs ehf.

kr.       54.500

GKÍM og HF

14

v afnotamissis, óhagræðis og miska

kr.  3.000.000

GKÍM, HF, GKK og TVT

15

miskabótakrafa

kr.  1.000.000

GKÍM, HF, GKK og TVT

 

Stefnendur kveða kröfuliði 1-7 vera skaðabætur þar sem fjárhæð sé byggð á matsgerð dómkvadds matsmanns frá 29. september 2007.  Sé með vísan til 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 krafist skaðabótavaxta frá þeim degi til 10. maí 2008 en þá hafi mánuður verið liðinn frá því stefndu Gláma Kím og Hallgrími Friðgeirssyni var sent kröfubréf. Kröfuliður 8 sé um endurgreiðslu þóknunar stefndu Glámu Kím.  Krafan sé skaðabótakrafa vegna galla á þjónustu Glámu Kím sem hafi reynst stefnendum gagnslaus og skaðleg. Upphafstími dráttarvaxta miðist við greiðslu þóknunarinnar til fyrirtækisins. Kröfuliðir 9-13 séu um endurgreiðslu og/eða skaðabætur vegna of hárra þóknana verktaka sem Gláma Kím, og í þremur tilvikum viðkomandi verktakar, séu ábyrgir fyrir.  Miðist upphafstími dráttarvaxta við greiðslu þóknunar hverju sinni. Kröfur í liðum 14 og 15 hafi fyrst verið settar fram í innheimtubréfi 10. apríl 2008 og sé krafist dráttarvaxta af þeim frá 10. maí 2008.

Um lagastoð fyrir vaxtakröfum vísa stefnendur til III. og IV. kafla laga nr. 38/2001.

 

 

Nánari reifun einstakra kröfuliða.

 

1.    Gallar á verki húsasmíðameistara.

Stefnendur kveða ágalla á verki húsasmíðameistara felast í skökkum milliveggjum, skemmdum á vegg í barnaherbergi og verulegum ágöllum á smíði millilofts í bílskúr. Um skakka milliveggi segi eftirfarandi í matsgerð dómkvadds matsmanns:

„Skekkjur á veggjum eiga upptök sín í að verktaki hefur verið að fella létta veggi að steyptum veggjum sem hafa verið skakkir eða hallandi. Skekkjur á veggjum mælast á bilinu 8 – 15 mm á 2 m. réttskeið. Skekkjur eru ekki mjög áberandi. Það er mat undirritaðs að um sé að ræða galla og sé húsið því gallað hvað þetta varðar. Hinsvegar er rót gallans frá uppsteypu hússins. Það er mat undirritaðs að verktaki hafi ekki komist hjá því að verða var við skekkju á steyptum veggjum þegar að hann vann við uppsetningu og smíði léttra veggja. Eðlilegt hefði verið að verktaki hefði tilkynnt eftirlitsaðila um þessa ágalla og að eftirlitsaðili hefði síðan tilkynnt matsbeiðanda um ágallana. Þannig hefðu aðilar getað tekið sameiginlega og grundaða ákvörðun um aðgerðir til að fást við þessa ágalla. Þ.e. hvort fella ætti létta veggi að steyptum eins og gert var eða t.d að rétta steypta veggi með múrákasti. Það er mat undirritaðs að sú leið sem var valin þ.e. að fella létta veggi að steyptum skökkum veggjum hafi verið sú rétta.“

 

Stefnendur segjast ekki sammála matsmanni um þetta efni.  Í matsgerðinni sé staðfest að skakkir veggir teljist vera galli á smíði nýrra veggja.  Stefnendur sætti sig ekki við gallann og hefðu ekki þurft að gera það.  Um hafi verið að ræða framkvæmd við  nýbyggingu, sbr. til hliðsjónar 18. gr. laga nr. 40/2002.  Vilji stefnenda hafi staðið til þess að umræddir veggir yrðu fjarlægðir og steyptir veggir réttir af áður en léttir veggir yrðu reistir að nýju.  Kostnaður og rask við það sé fyrirsjáanlega mjög verulegt.  Stefnendur krefjist bóta að álitum að fjárhæð 1.000.000  kóna og taki fram að kostnaður við úrbætur sé fyrirsjáanlega miklu meiri. 

Við vinnu starfsmanna TVT ehf. hafi  skemmst veggur í barnaherbergi og í lofti á gangi vegna útskiptingar á rennibraut fyrir hurð.  Ekki hafi verið gert við skemmdina og áætla stefnendur viðgerðarkostnað vegna þessa að lágmarki  300.000 krónur.  Sé krafist bóta sem nemi sömu fjárhæðar. 

Ágalli hafi verið á  smíði starfsmanna TVT ehf. og Guðmundar á millilofti í bílskúr.  Hluti loftsins hafi hrunið í gólfið.  Um þetta segi dómkvaddur matsmaður:

 

„Á þessum reikningi er verið að rukka fyrir efni og vinnu við loft í bílskúr. Klæðning lofts er

haldin verulegum ágöllum. Loftaplötur „Huntonit“ hafa losnað og fallið niður við það að

verða fyrir hnjaski. Sjá má að plötur eru heftaðar upp með grönnum heftum sem er skotið

inn í nót platna. Hefti eru með bili ca. 300 mm. Festing er ekki næg þar sem nót platna er

of veik. Þetta er ágalli á verki matsþola TVT ehf. að mati undirritaðs.“

Matsmaður áætli að það kosti  260.000 krónur að bæta úr síðastnefnda gallanum og sé krafist bóta að  sömu fjárhæð.

 

2.    Gallar á verkum rafvirkjameistara.

            Í matsgerð dómkvadds matsmanns séu staðreyndir umfangmiklir gallar á verkum rafvirkjameistara.  Í matsgerðinni sé vísað til úttekta skoðunarstofu, sbr. skýrslu Frumherja hf. frá 18. október 2005, og í athugasemdalista raflagnahönnuðar, Helga Eiríkssonar. Í skýrslu Frumherja hf. séu m.a. gerðar athugasemdir við aðaltöflu og búnað sem henni tengist, við raflagnir í húsi, við raflagnir ofan á bílgeymslulofti og raflagnir utanhúss. Athugasemdir raflagnahönnuðar séu í 26 liðum, bæði stórum og smáum. Er allt hafi verið komið í óefni hafi  stefnendur gert samkomulag við rafverktakann, Rafveituna ehf., dags. 18. nóvember 2005, um að Rafveitan ehf. myndi bæta úr ágöllum og ljúka verki sínu eigi síðar en 25. nóvember 2005.  Við það hafi rafverktakinn ekki staðið  frekar en annað.  Jafnvel á dögum þar sem hann hafi lofað að mæta hafi hann ekki sést og ekki náðst í hann.  Um miðjan febrúarmánuð 2006 hafi  rafverktakinn óskað eftir að fá að klára verkið og bæta úr göllum en þá höfðu stefnendur gefist upp og ákveðið að óska eftir mati dómkvaddra matsmanna á göllum á rafverkinu.  Í tölvupóstsamskiptum við Glámu Kím sé hvað eftir annað fundið að störfum rafverktakans án þess að það hafi borið viðhlítandi árangur.

            Í matsgerð dómkvadds matsmanns sé fallist á margar aðfinnslur í fyrrnefndum skýrslum og að þar sé lýst göllum á rafverki.  Kostnaður við úrbætur sé metinn samtals 424.000 krónur og krefjist stefnendur bóta að sömu fjárhæð.

 

3.    Gallar á loftræsikerfum.

            Stefndi Blikksmiðurinn ehf. hafi séð um gerð lofræstikerfa í húsinu en þau hafi verið útfærð undir stjórn Glámu Kím.  Í matsgerð dómkvadds matsmanns sé lýst göllum á loftræsikerfum, sem stefnendur vísi til.  Orðrétt segi:

„Þrjú aðskilin loftræsikerfi eru í húsi þ.e. eitt sem sinnir útsogi frá böðum og þvottahúsi, annað sem sinnir útsogi frá eldhúsi og það þriðja sem sinnir útsogi frá arin. Fyrstnefnda kerfið er virkt en þau síðarnefndu ekki. Vifta við eldavél (Dacor vifta) er tengd inn á útsogskerfi eldhúss, vifta hefur sjálfstæðan mótor á inntaksstað sem er ekki virk og virðist það vera vegna þess að vifta er ótengd, kerfi hefur einnig sérstakan útsogsmótor sem staðsettur er yfir bílskúr. Útsogskerfi frá arni virðist óvirkt vegna þess að það er ekki tengt. Ekki liggja fyrir hönnunargögn vegna þessara loftræsikerfa. Svo virðist sem kerfi hafi verið útfærð og leyst undir stjórn umsjónaraðila (matsþola Gláma-Kím). Rétt er að benda á að hönnun loftræsti og útsogskerfa er ekki heimil öðrum en þeim sem hafa til þess tilskilin réttindi.

Ekki hefur verið sýnt fram á að matsþolar hafi haft til þess réttindi. Það er mat undirritaðs að til að loftræsikerfi og loftun frá tækjum sé í samræmi við eðlilegar kröfur og viðmiðanir sé nauðsynlegt að framkvæma eftirfarandi:

·      Tengja þurfi viftu við eldavél og gera hana starfhæfa, ennfremur þarf að komaútsogsblásara á grein í gang. Lagt er til að útsogsblásari sé á sér stýrikerfi og hann sé látinn soga frá grein t.d. milli 7:00 – 24:00 alla daga. Dacor vifta sé síðan ræst handvirkt á sömu grein eftir þörfum. Kostnaður við aðgerðir er áætlaður samtals 105.000 kr. m.VSK. þar af er efniskostnaður 45.000 kr.

·      Tengja þarf blásara frá arni. Kostnaður við aðgerðir er áætlaður samtals 28.000 kr. m.VSK. þar af er efniskostnaður 3.000 kr.

·      Lagfæra þarf útloftun frá eldhústækjum þ.e. ísskáp og ofnum. Kostnaður við aðgerðir er áætlaður samtals 22.000 kr. m.VSK. þar af er efniskostnaður 2.000 kr.

Eftir þessar aðgerðir er loftræsing og loftun í eðlilegu ástandi að mati undirritaðs.“

 

            Samkvæmt framangreindu séu gallar á loftræstikerfum sem kostar samtals 130.000 krónur að bæta úr.  Stefnendur krefjist bóta að sömu fjárhæð.

 

4.        Skemmdir á parketi á neðri hæð.

            Um ástand parkets á neðri hæð vísi stefnendur til matsgerðar dómkvadds matsmanns. Þar segi:

            „Ljóst er að parket í öllu húsinu á jarðhæð er ónýtt. Ástæða þess er fyrst og fremst vegna raka sem kemur úr gólfi. Í gólf kemst raki frá sturtuklefum í austurhluta húss. Vatn frá sturtuklefum á mjög greiða leið inn í gifsveggi og ofan í gólfílögn þar sem þéttilag á gifsveggjum er gallað sem og að fúgun og vatnsþétting á stein og bak við stein í sturtuklefum vantar. Gallar á þéttilagi og vatnsþéttingu veggja og steins eru svo umfangsmiklir að nánast engin hindrun er fyrir vatn og raka að komast inn í vegg og í gólfílögn.

            Um er að ræða gegnheilt eikarparket í heilum borðum sem er límt á gólfílögn (flot), parket er lakkað. Að sögn aðila var settur rakagrunnur á gólfílögn undir lím. Parket sem hefur losnað rífur með sér límið frá flotuninni, það er eðlilegt í aðstæðum sem þessum. Parket sem þetta er mjög viðkvæmt fyrir raka og rakabreytingum og er það ástæðan fyrir svo miklum áhrifum frá lekanum í sturtuklefunum í húsinu.   ...

            Það er mat undirritaðs að hús sé gallað hvað varðar parketlögn og frágang, ennfremur er parket á neðrihæð hússins ónýt vegna raka í gólfi sem á upptök sín frá gölluðum frágangi á þéttilögum í sturtuklefum.“ 

 

            Í matsgerðinni sé áætlaður kostnaður við að leggja nýtt parket 2.630.000 krónur, þar af  300.000 krónur í kostnað við að yfirgefa hús og leigja íbúð meðan framkvæmdir standa yfir.  Stefnendur krefjist skaðabóta vegna skemmda á parketinu.  Sé byggt á niðurstöðu matsmannsins um að orsakir skemmdanna á parketinu séu óvandaður frágangur á baðherbergjum. 

 

5.    Gallar á parketi og parketlögn á efri hæð og stiga milli hæða.

            Í matsgerð dómkvadds matsmanns sé komist að niðurstöðu um að parket á efri hæð og í stiga sé að mestu ónýtt.  Um aðrar skemmdir á parketi segi matsmaðurinn:

            „Frágangur parkets við veggi og samskeyti við önnur gólfefni er óvandaður og þarfnast lagfæringar eða honum er ekki lokið.

·       Parket í turni er laust frá gólfi á nokkrum stöðum og hefur bólgnað upp (verpst) Það er mat undirritaðs að annað tveggja valdi þessu þ.e. ílögn hefur verið of rök þegar parket var lagt eða að rakastig parkets var ekki rétt við niðurlögn. Fyrri skýringin er mun líklegri. Taka þarf upp hluta parkets, endurleggja og slípa allt og lakka.

·       Parket á stiga er ekki fullfrágengið ennfremur sem los er í parketi, sérstaklega á framstykkjum. Lagfæra þarf þessa ágalla með því að líma fleti niður, slípa parket og lakka.“

 

            Í matsgerðinni sé áætlaður kostnaður við lagfæringar á parketi á efri hæð og í stiga. 388.000 krónur. Stefnendur krefjist skaðabóta sem nemi fjárhæðinni vegna galla á parketinu og lagningu þess.

 

6.    Gallar á lagningu náttúrusteins

            Í matsgerð dómkvadds matsmanns sé staðreynt að verulegir gallar hafi verið á lagningu náttúrusteins í sturtuklefum og á baðherbergjum og ennfremur á undirvinnu allri.  Stefnendur vísi til niðurstöðu matsmannsins:

            „Á veggi og gólf í sturtuklefum er lagður náttúrusteinn ca. 12 mm þykkur. (basalt). Steinn er límdur á gifsveggi sem eiga að vera vatnsvarðir með þar til gerðri gúmmí kvoðu. Steinn hefur ekkert verið meðhöndlaður eftir að hann var lagður né hefur hann verið fúgaður. Samskeyti milli steina og í kverkum eru mjög opin.

 

            Það er mat undirritaðs að steinalögn og undirvinna sé haldin stórvægilegum ágöllum sem hafi valdið gríðarlegum skemmdum á gifsveggjum og parketi.

 

            Ágallar felast í eftirfarandi:

 

·           Að útfæra sturtuklefa með þessum hætti þ.e. engin sér sturtubotn annar er flísalagt gólf á sömu ílögn og parket er niðurlímt c.a. 150 mm frá, krefst mjög vandaðra og vel útfærðrar þéttinga og frágangs. Mikið mæðir á kverkum og afvötnun þarf að vera góð. Steinn sem er valin getur í engum tilvikum verið eina vatnsþéttilagið þó að á hann sé borið vatnsvarnarlag, veggur og gólf (botn) sem hann er límdur á þarf að vera fullkomlega vatns og rakaþéttur og slitin frá öðrum hlutum aðliggjandi gólfa. Ekkert af þessu er til staðar. Hönnun, útfærsla og eftirlit með framkvæmd er því haldin stórvægilegum ágöllum.

·           Veggir í sturtuklefa eru byggðir upp með venjulegum krossvið og gifs yfir. Svo virðist sem rakaþolið gifs hafi verið notað á hluta veggja en venjulegt á hluta, sjá ljósmyndir af sýnishornum. Yfir gifs hefur verið sett þéttilag (gúmmíkvoða) sem á að hindra að vatn og raki komist inn að plötum. Þetta þéttileg er gallað þar sem það er þunnt, opið að hluta og grisju vantar í kverkar á ýmsum stöðum, grisja var á helming þeirra staða sem opnaðir voru. Þéttilag hefur því gefið sig og/eða ekki 15 af 24 verið í lagi frá upphafi. Vatn á því greiða leið inn í gifsplötur og niður í gólfílögn. Framkvæmd á undirvinnu er haldin stórvægilegum ágöllum.

·           Frágangi á náttúrustein er ekki lokið, ekki hefur verið sett vatnsvarnarefni á stein né hann fúgaður eða þétt með skeytum og götum. Þetta gerir það að verkum að vatn á greiðari leið inn að gölluðu þéttilagi á gifsplötum. Það er mat undirritaðs að þó að yfirborðsfrágangi steins hefði verið lokið þá hefðu sturtuklefar lekið þar sem steinn sem þessi er ekki vatnsþéttur. Það er mat undirritaðs að steinlögn sé haldin stórvægilegum ágöllum.

Það er mat undirritaðs að verk þ.e. hönnun, útfærsla, framkvæmd, eftirlit og frágangur sem snýr að uppbyggingu veggja og sturtuklefa, undirvinnu undir stein og frágangur steins sé / hafi verið haldinn stórvægilegum ágöllum. Ágallar á þessum verkhluta er orsök fyrir skemmdum og losi í parketi á svefnálmu og gangi.“

 

            Í matsgerð sé áætlaður og sundurliðaður kostnaður við úrbætur á gallanum samtals  2.659.000 krónur, þar af 450.000 krónur vegna kostnaðar við að yfirgefa hús og leigja meðan framkvæmdir standi yfir.

            Til viðbótar hafi verið galli á lagningu náttúrusteins á gólfum í eldhúsi, forstofu og á böðum.  Vísist til matsgerðar dómkvadds matsmanns en þar segi:

            „Brot eru á tveimur stöðum á böðum sem má rekja til þess að lím er ekki nægjanlega vel undir öllum fleti flísa. Skipta þarf út þessum flísum.

·         Mikið los er í gólfi forstofu. Það er mat undirritaðs að ágalli megi rekja til niðurlímingar. Taka þarf upp hluta steinlagnar og endurleggja. Gert er ráð fyrir að taka þurfi upp um 50 % gólfs og að 30 % þess steins skemmist.“

 

            Matsmaðurinn meti kostnað við síðastnefndar úrbætur 124.000 krónur. Stefnendur geri bótakröfu sem nemi samtölu fyrrnefndra fjárhæða, þ.e. 2.659.000 +. 124.000 = 2.783.000 krónur.

 

7.    Gallar á pípulögnum.

            Í matsgerð dómkvadds matsmanns sé staðreynt að verk pípulagningameistara hafi verið haldin þeim göllum að eftir hafi verið að stilla gólfhitakerfi sem og að ganga frá og merkja upp inntaksgrind.  Matsmaðurinn metur kostnað við úrbætur kr. 92.000 og krefjast stefnendur bóta sem nemur fjárhæðinni.

 

8.    Þóknun Glámu Kím.

            Þjónusta Glámu Kím gagnvart stefnendum hafi verið haldin stórfelldum göllum sem jaðri við hrein svik.  Stefnendur vísi í þessu sambandi til þess sem að framan greinir og til umfjöllunar í matsgerð dómkvadds matsmanns:

            „Það er mat undirritaðs að fullnægjandi gögn til að afla vel grundaðrar tilboða, með eðlilegri áhættu og óvissu, frá verktökum hafi ekki legið fyrir í flestum tilvikum. Þetta á við t.d. tréverk, flísalögn, loftræsingu, gólfílögn og gifsun. Ágallar á vinnu matsþola snúa að liðum s.s. magntölum, skilgreiningum á verki, verklýsingum og samningsskilmálum. Ennfremur að leggja mat á tilboð og gerð samninga við verktaka. Framangreinda þætti ýmist vantar eða að vinnu við þá er haldir miklum ágöllum. Góð og fagleg vinnubrögð hvað varðar þessi atriði hafa því ekki verið viðhöfð.“

 

9.    Þóknun TVT ehf.

            Gláma Kím hafi fengið sundurliðað tilboð frá stefnda TVT ehf. í milliveggi og loft að fjárhæð 3.934.700 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.  Stefnendum hafi verið tilkynnt um tilboðið með tölvupósti stefnda Hallgríms 3. janúar 2005.  Til viðbótar tilboðinu hafi stefndi tekið að sér að taka niður milliloft í bílskúr fyrir  470.000 krónur. Kröfur stefnenda í þessum lið séu til komnar vegna reikningagerðar stefnda.  Reikningar stefnda TVT ehf. hafi samtals numið 9.359.626 krónum. Það sé 4.954.926 krónum umfram það sem samið hefði verið um.     Fyrsti reikningurinn, sem sé dagsettur 30. desember 2004, sé sagður vera vegna vinnu samkvæmt dagskýrslum og vegna steypusögunar og kostnaðar.  Fjárhæð reiknings sé 1.437.968 krónur. Stefnendum hafi verið rétt að líta svo á er þeir greiddu reikninginn að hann væri hluti af tilboðsvinnu og eigi það jafnt við um vinnu og meinta kostnaðarliði.  Ekkert liggi fyrir um að samið hafi verið við stefnda TVT ehf. um aukagreiðslur vegna þessa og engin leið hafi verið fyrir stefnendur að staðreyna hvað hefði verið unnið. Stefnendur hafi  greitt reikninginn samkvæmt fyrirmælum Glámu Kím. Annar reikningurinn frá 7. janúar 2005 sé innborgunarreikningur á tilboðsverk að fjárhæð 2.000.000 króna. Gláma Kím hafi  ráðlagt stefnendum að greiða reikninginn og hafi svo verið gert. Þriðji reikningurinn, dags. 30. mars 2005, sér uppgjörsreikningur vegna tilboðsverksins.  Fjárhæð hans sé 2.969.900 krónur.  Í tölvupósti stefnda Hallgríms, dags. 7. apríl 2005, sé útskýrt að hækkun frá tilboði væri vegna magnaukningar.  Stefnendur hafi greitt reikninginn samkvæmt ráðleggingum Glámu Kím.  Við aukninguna sé helst að athuga að fúgur í lofti og veggjum hafi farið úr 50 upp í 270 við magntöku.  Í tölvupósti Hallgríms sé jafnframt útskýrt að honum hafi fundist það fallegra en stefnendur hafi ekki verið með í ráðum og ekki hafi verið leitað samþykkis þeirra. Einnig sé aðfinnsluvert að ekkert hafi verið rætt um lægra einingarverð við svo mikla magnaukningu.  Í matsgerð dómkvadds matsmanns komi í ljós að magntakan hafi verið röng þannig að skeikað hafi umtalsverðu. Magntaka matsmannsins sé sundurliðuð í matsgerðinni.  Þar segi:  „Samkvæmt uppgjöri á magntölum þá hefur uppgjör verið ofmetið sem nemur um 4.206.100-4.969.900=763.800 kr.m.VSK.“.

 

            Fjórði reikningurinn, dags. 30. mars 2005,  sé að fjárhæð  2.149.481 króna og sá fimmti, dags. 1. maí 2005, sé að fjárhæð 802.277 krónur.  Þessir reikningar hafi ekki aðeins komið stefnendum í opna skjöldu, heldur einnig Glámu Kím. Þeir eigi sér ekki neina stoð í samningum við TVT ehf. og ekkert liggi fyrir um að stefndi hafi áskilið sér rétt til þóknunar umfram það sem um hafi verið samið. Þá sé einnig ósannað að sú vinna og kostnaður, sem tilgreind sé í reikningnum, hafi raunverulega verið unnin eða greidd í þágu stefnenda.  Reikningarnir séu óútskýrðir og beri með sér að vera tilhæfulausir. Stefndi hafi falið lögmanni sínum innheimtu síðustu tveggja reikninganna.  Stefnendur hafi mótmælt innheimtunni en að ráði lögmanns síns greitt ásamt dráttarvöxtum og kostnaði með  fyrirvara um lögmæti innheimtunnar og áskilnaði um endurgreiðslu, sbr. yfirlýsingu dags. 22. nóvember 2005. Í matsgerð dómkvadds matsmanns sé fjallað um þessa reikninga. Þar komi fram að matsmaðurinn hefði litlar forsendur til að meta hvort reikningarnir gætu talist sanngjarnir eður ei.  Matsmaðurinn telji eðlilegt að TVT ehf. fái sérstaka greiðslu fyrir byggingastjórn, en hluti reikninga hafi verið vegna byggingastjórnar og byggingastjóratryggingar.  Stefnendur lýsi sig ósammála því eins og atvikum sé hér háttað.  Lögð sé áhersla á að TVT ehf. hafi gert skriflegt tilboð.  Hvorki TVT ehf. né stefndi Guðmundur K. Kjartansson hafi áskilið sér rétt til sérstakrar þóknunar fyrir byggingastjórnina, hvorki í tilboðinu né með öðrum hætti.  Gláma Kím hafi ekki gert stefnendum grein fyrir aukakostnaði við skráningu Guðmundar sem byggingastjóra en stefnendur hafi samið við Glámu Kím um alla verkumsjón.

            Með bréfi lögmanns TVT ehf. til dómkvadds matsmanns, dags. 18. júlí 2007, hafi hinir umdeildu reikningar verið útskýrðir og lögð fram gögn reikningunum til stuðnings.  Stefnendur mótmæli þessum skjölum í heild sinni sem röngum og síðbúnum skýringum.  Öll fylgigögn, sem TVT ehf. hafi lagt fram með reikningunum eiga það sammerkt að vera einhliða fullyrðingar sem gegn mótmælum stefnenda hafa ekki sönnunargildi frekar en aðrar skriflegar aðilaskýrslur.

            Samkvæmt því sem hér hafi verið rakið  hafi stefnendur neyðst til að greiða TVT ehf. kröfur alls að fjárhæð 9.359.626 krónur þrátt fyrir samninga um 4.404.700 krónur.  Stefnendur krefjist endurgreiðslu á mismuninum, 4.954.926 krónum, sem hafi verið ofgreidd fjárhæð.  Vísist til reglna VII. kafla laga nr. 42/2000 um verð fyrir þjónustukaup, reglna um endurheimt ofgreidds fjár og meginreglna samninga- og verktakaréttar.  Sérstaklega sé byggt á að TVT ehf. hafi borið að áskilja sér þóknanir umfram það sem samið hafi verið um fyrirfram en ekki eftir á. TVT ehf. beri sönnunarbyrði fyrir réttmæti krafna sinna.

            Í þessu sambandi sé skaðabótakrafa einnig gerð á hendur Glámu Kím. Gláma Kím ehf. beri ábyrgð á öllum samskiptum við  stefnda TVT ehf.  og hafi borð að sjá til þess að fyrirtækið gerði ekki reikninga fyrir hærri fjárhæð en þeirri sem samið hefði verið um.  Með fullnægjandi vinnubrögðum hefðu reikningar fyrirtækisins ekki átt að koma neinum á óvart og þeir hefðu átt að vera í samræmi við samþykkt tilboð.  Glámu Kím hafi borið að sjá til þess að stefnendur inntu ekki af hendi greiðslur til verktakans umfram það sem samið hefði verið um fyrirfram að fengnu samþykki stefnenda og í samræmi við verkframvindu.  Gláma Kím beri einnig ábyrgð á að öflun tilboða hafi verið ómarkviss og að ekki hafi verið gætt annarra hagsmuna stefnenda í viðskiptum við stefndu Guðmund og TVT ehf. eins og t.d.  með úttektum. Um þetta vísi stefnendur m.a. til umfjöllunar dómkvadds matsmanns um þessi störf Glámu Kím.

 

10.    Þóknun Blikksmiðsins ehf.

            Blikksmiðurinn ehf. hafi gert tilboð í reykrör o.fl. vegna arins að fjárhæð 129.731 króna og í loftræstingu, reykhólf o.fl. vegna arins að fjárhæð 400.000 krónur eða samtals 529.731 króna.  Reikningar Blikksmiðsins ehf. séu hins vegar samtals að fjárhæð 1.118.212 krónur, eða 588.481 krónu umfram tilboð.  Stefnendur hafi verið nauðbeygð til að greiða reikningana, en gert fyrirvara um innheimtuna með yfirlýsingu  12. janúar 2006.  Stefnendur krefjist endurgreiðslu á umframfjárhæðinni og/eða skaðabóta sem henni nemi.

            Um þóknun Blikksmiðsins ehf. sé fjallað í matsgerð dómkvadds matsmanns en þar segi m.a:

            „Samkvæmt framlögðum matsgögnum nr. 20 og 21 þá var upphaflegt tilboð matsþola Blikksmiðarins hf. 530.000 kr. (529.731 kr.) í loftræsingu fyrir arinn og loftræsingu fyrir eldhús, böð og þvottahús. Öflun tilboð virðist hafa verið mjög ómarkviss og óskýr, enda engin fyrirliggjandi hönnun á þessum liðum sem undirrituðum er kunnugt um. Á þeim gögnum sem liggja fyrir og innihalda „tilboð“ eða áætlun frá matsþola Blikksmiðsins kemur nánast undantekningalaust fram að um „ca“ tölur er að ræða. Það er síðan greinilegt á reikningum frá matsþola Blikksmiðsins að verið er að vinna í útseldri tímavinnu en ekki tilboðsverki. Í ljósi skorts á hönnun og slakrar samræmingar og verkumsjónar frá hendi Glámu Kím er það mat undirritaðs að matsþoli Blikksmiðurinn hf. sé ekki að krefjast of hás endurgjalds fyrir verkþáttinn. Hinsvegar má gera ráð fyrir að ef að eðlilega hefði verið staðið að verki frá hendi undirbúningsaðila (matsþola Glámu Kím) þá hefði upphafleg tilboðsfjárhæð ekki verið fjarri lagi sem “eðlilegur” kostnaður við verkið.“

            Til viðbótar því sem fram komi hjá matsmanninum bendi stefnendur á að enginn blikksmíðameistari staðfesti ábyrgð sína á verki eins og kveðið sé á um í 42. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Samkvæmt 37. gr. reglugerðarinnar geti einungis iðnmeistarar með löggildingu eða staðbundna viðurkenningu tekið að sér verkþætti og borið ábyrgð á gagnvart byggingaryfirvöldum og byggjanda og að þeir séu unnir í samræmi við viðurkennda verkhætti, samþykkta uppdrætti, verklýsingar, lög og reglugerðir.  Stefnendur vísi til matsgerðar dómkvadds matsmanns þar sem bent sé á að hönnun loftræstikerfa sé ekki heimil öðrum en þeim sem hafi til þess réttindi.  Í þessu tilviki hafi ekki verið fyrir hendi fullnægjandi hönnunargögn.  Matsmaðurinn telji að kostnaður hafi farið úr böndunum vegna galla á þjónustu Glámu Kím.  Stefnendur taki undir það en telji jafnframt að við fyrrnefndar aðstæður hafi Blikksmiðurinn ehf. sem fagaðili borið ábyrgð á því gagnvart stefnendum að hafa gert tilboð í verkið og unnið það án viðhlítandi hönnunargagna, verklýsinga og með tilliti til ákvæða byggingarreglugerðar.  Á þessu beri stefndi Guðmundur ennfremur ábyrgð sem byggingastjóri.  

            Stefnendur krefjist endurgreiðslu á 588.481 krónu úr hendi Blikksmiðsins ehf., þ.e. greiddri þóknun umfram fyrrnefndar tilboðsfjárhæðir.  Vísist til reglna VII. kafla laga nr. 42/2000 um verð fyrir þjónustukaup, reglna um endurheimt ofgreidds fjár, meginreglna samninga- og verktakaréttar og almennu skaðabótareglunnar.

            Stefnendur byggi og á því að Gláma Kím, stefnu Hallgrímur, TVT ehf. og Guðmundur beri ábyrgð á tjóni stefnenda með Blikksmiðnum ehf., sem umframkostnaðinum nemi, með því að láta það viðgangast að umræddir verkþættir væru unnir án uppáskriftar meistara og án fullnægjandi hönnunar og verklýsinga.

 

11.    Þóknun Baldurs Baldurssonar

Tilboð Baldurs Baldurssonar hafi verið samtals að fjárhæð  980.000 krónur.  Stefnendum hafi verið gert að greiða honum samtals 1.070.000 krónur eða 90.000 krónur umfram það sem um hafi verið samið.  Með tilliti til þess að stefnendur krefjist skaðabóta vegna tjóns, sem rakið sé til meiri háttar galla á verkum Baldurs, geri stefnendur í þessum lið eingöngu kröfu um endurgreiðslu og eða skaðabætur sem nemi umframfjárhæðinni,  90.000 króna.

 

12.    Þóknun Verkþings-Pípulagna ehf.

Tilboð Verkþings-Pípulagna ehf. hafi verið að fjárhæð 1.520.000 krónur.  Reikningar frá fyrirtækinu, sem stefnendum hafi verið gert að greiða, hafi numið samtals 1.717.561 krónu, eða  196.439 krónum umfram það sem um hafi verið samið.  Stefnendur krefjist skaðabóta úr hendi Glámu Kím og Hallgríms sem nemi umframkostnaðinum.

 

13.    Þóknun  Flotgólfs ehf.

Tilboð Flotgólfs ehf. í flotun gólfs og gifs á veggi hafi verið að fjárhæð 1.970.500 krónur.  Við hafi bæst 350.000 krónur vegna gifsunar steinveggja.  Stefnendum hafi verið gert að greiða 2.375.000 krónur eða 54.500 krónur umfram það sem um hafi verið samið.  Stefnendur krefjist skaðabóta úr hendi Glámu Kím og Hallgríms sem nemi umframkostnaðinum. 

 

14.    Bótakrafa vegna afnotamissis o.fl.

Stefnendur hafi flutt í húsnæðið um mánaðamótin apríl/maí 2005.  Ef allt hefði verið með felldu hefðu þau flutt í nýbyggt og fullgert einbýlishús en sú hefði ekki verið raunin.  Þau hafi einungis getað notað húsið að óverulegu leyti vegna stórfelldra galla og skemmda sem hér að framan hafi verið lýst.  Þá beri að taka tillit til þess að því hefur fylgt óhemju vinna fyrir stefnendur að eiga samskipti við stefndu þessa máls og aðra sem að húsinu hafa komið vegna þess hvernig Gláma Kím og byggingastjóri hafi brugðist skyldum sínum gagnvart stefnendum.  Óvissan um alla hluti hafi verið mikil. Stefnendur hafi staðið í ágreiningsmálum við marga verktaka vegna reikningagerðar og slíkra atriða.  Þeim hafi ítrekað verið hótað lögsóknum vegna reikninga og sjálf þurft að leita lögmannsaðstoðar vegna þess háttar mála. Sem dæmi um slík mál séu ágreiningsmál við stefnd TVT ehf., Gólfefnaval ehf., Blikksmiðinn ehf. og Cego ehf.  Vegna þessa, þ.e. afnotamissis, röskunar á stöðu og högum og tíma, sem stefnendur hafa þurft að verja í eigin hagsmunagæslu vegna óforskammaðra vinnubragða umsjónaraðila með framkvæmdum, krefjist stefnendur bóta að álitum að fjárhæð  3.000.000 króna.

 

15.    Miskabótakrafa.

Af sömu ástæðum og greinir í kröfulið 15 krefjist stefnendur miskabóta að fjárhæð  1.000.000 króna.

 

 

Málsástæður og lagarök stefnenda.

Gláma Kím og Hallgrímur Friðgeirsson.

Eins og að framan sé lýst hafi Gláma Kím tekið að sér með samningi að annast hönnun, verkumsjón, öll samskipti við verktaka, eftirlit og úttektir á framkvæmdum innanhúss í einbýlishúsi, sem stefnendur hafi keypt á byggingarstigi.  Við mat á skyldum Glámu Kím beri að líta til þess að fyrirtækið sé sérfróður aðili og verðleggi þjónustu sína í samræmi við það.  Stefnendur hafi verið neytendur í almennum skilningi og í skilningi ákvæða 3. mgr. 1. gr. laga um þjónustukaup nr. 42/2000 sem gilt hafi um viðskiptin.  Þau hafi enga sérþekkingu á sviði húsbygginga og hafi treyst á þjónustu Glámu Kím.  Í ljósi þessara aðstæðna beri að gera ríkar kröfur til Glámu Kím um ráðvendni, vönduð vinnubrögð og hagsmunagæslu fyrir stefnendur.  Stefnendur vísi til og taki undir umfjöllun dómkvadds matsmanns þar sem segi:    „Í samningsgrunni milli aðila sem er ofangreint skjal frá 28.07.2004 kemur fram að matsþoli Gláma Kím er að taka að sér að vinna innanhússhönnun og lokaúttekt á tilgreindum verkþáttum sem og að annast umsjón með vali á iðnaðarmönnum, samhæfingu og eftirliti á byggingarstað. Í minnisblaði er nokkuð ítarlega fjallað um verksvið og hvernig matsþoli muni vinna sitt verk sem snýr að hönnun. Það er hinsvegar rýrari skilgreining á verksviðinu “umsjón og eftirlit”. Með því að horfa í gögn og samskipti sem hafa farið á milli aðila þá má áætla sameiginlegan skilning aðila, matsbeiðanda og matsþola (Gláma Kím) hvað varðar verksvið við umsjón og eftirlit. Á grunni framansagðs er gert ráð fyrir að verksvið matsþola (Gláma Kím) við “umsjón og eftirlit” felist í að undirbúa og vinna útboðsgögn, afla verða frá verktaka (verktökum), leggja mat á tilboð þeirra, gera samninga við verktaka og fylgja eftir að þeir skili sínu verki af þeim gæðum sem samið var um og innan þess tíma sem samið var um.“

 

            Samkvæmt 4. gr. laga nr. 42/2000 skuli útseld þjónusta, sem veitt sé í atvinnuskyni, ávallt vera byggð á fagþekkingu og í samræmi við góða viðskiptahætti sem tíðkist hverju sinni.  Skylt sé að veita allar upplýsingar og leiðbeiningar um vinnu verks með hagsmuni neytanda fyrir augum.  Gláma Kím hafi borið ríka leiðbeiningarskyldu samkvæmt 6., 7. og 8. gr. sömu laga.  Í 9. gr. séu ítarlegri ákvæði um hvenær seld þjónusta teljist gölluð. Hún teljist það m.a. ef hún uppfyllir ekki almennar gæðakröfur 4. gr., felur í sér hættu á líkams- eða eignatjóni, árangur verks eða þjónustu verður minni eða hefur minna notagildi fyrir neytanda og ennfremur ef þjónusta víkur að öðru leyti frá því sem samningur kveður á um. 

            Í stuttu máli hafi gæðin á þjónustu Glámu Kím við stefnendur  verið víðs fjarri því að uppfylla gæðakröfur samkvæmt þessum ákvæðum og samkvæmt grunnreglum kaupa- og verktakaréttar.  Af því hafi hlotist stórfellt tjón sem Gláma Kím beri ábyrgð á samkvæmt meginreglum kröfuréttar og 15. gr. laga nr. 40/2002.  Einnig vísi stefnendur til almennu skaðabótareglunnar og reglunnar um húsbóndaábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna.  Kröfur á hendur stefnda Hallgrími Friðgeirssyni séu alfarið byggðar á sömu málsástæðum og kröfur á hendur Glámu Kím en eins og fyrr segi hafi Hallgrímur unnið verkin sem starfsmaður Glámu Kím.

            Tjón stefnenda vegna galla samkvæmt kröfuliðum 1-7 í sundurliðuninni hér að framan sé til komið vegna vanefnda Glámu Kím á samningsskyldum sínum.  Í kröfuliðum 1, 3, 4, 5 og 6 sé um að ræða ófullnægjandi hönnun og verklýsingu verkþátta.  Í öllum tilvikum hafi verið ágallar á eftirliti og úttektum á byggingarstað og á eftirfylgni og samskiptum við verktaka, iðnmeistara og byggingastjóra.

            Kröfuliður 8 sé vegna þjónustu Glámu Kím.  Hún hafi verið haldin svo veigamiklum göllum að stefnendur telji sig eiga rétt á að fá hana endurgreidda að öllu leyti samkvæmt grundvallarreglum kröfuréttar um afslátt og skaðabætur, sbr. 13. gr. og 15. gr. laga um þjónustukaup.

            Kröfuliðir 9 til 13 séu vegna þóknana verktaka umfram gerða samninga.  Stefnendur hafi verið látnir greiða þessar umframþóknanir samkvæmt ráðleggingum Glámu Kím, oft undir þeirri hótun að ella myndu verktakarnir láta hús stefnenda mæta afgangi.  Samningsgögn hafi einnig verið ófullnægjandi en á því hafi Gláma Kím borið ábyrgð. Um þetta vísi stefnendur til matsgerðar dómkvadds matsmanns þar sem segi:

            „Það er mat undirritaðs að fullnægjandi gögn til að afla vel grundaðrar tilboða, með eðlilegri áhættu og óvissu, frá verktökum hafi ekki legið fyrir í flestum tilvikum. Þetta á við t.d. tréverk, flísalögn, loftræsingu, gólfílögn og gifsun. Ágallar á vinnu matsþola snúa að liðum s.s. magntölum, skilgreiningum á verki, verklýsingum og samningsskilmálum. Ennfremur að leggja mat á tilboð og gerð samninga við verktaka. Framangreinda þætti ýmist vantar eða að vinnu við þá er haldir miklum ágöllum. Góð og fagleg vinnubrögð hvað varðar þessi atriði hafa því ekki verið viðhöfð.“

 

            Stefnendur árétti ennfremur að Gláma Kím hafi getað áætlað fyrirfram hvaða verkefni hefði þurft að vinna og þar með afla tilboða í þau. Glámu Kím hafi borið samkvæmt  ákvæðum í samningi um verkumsjón að leggja fram kostnaðaráætlun áður en framkvæmdir hæfust. Glámu Kím hafi borið að sjá til þess að nauðsynleg hönnunargögn lægju fyrir áður en framkvæmdir hæfust og að búið væri þannig um hnútana að verktakar gætu ekki krafist viðbótargreiðslna vegna einhverra meintra verkefna sem féllu utan samþykktra tilboða. Með öðrum orðum að stefnendur stæðu ekki berskjaldaðir gagnvart hvers kyns kröfum verktaka. Gláma Kím hafi mátt vita að verktakar hafi ekki átt rétt til greiðslna vegna verka sem ekki hafði verið samið um fyrirfram. Verkumsjón og eftirliti Glámu Kím hafi verið verulega ábótavant sem birst hafi meðal annars í því að Gláma Kím hafi fengið stefnendur til að inna af hendi greiðslur til verktaka án þess að það hafi verið forsvaranlegt að teknu tilliti til samninga við verktaka, vinnubragða, gæða og framvindu verka. Gláma Kím hafi ekki sinnt þeirri sjálfsögðu hagsmunagæslu að magntaka verkþætti sem samið hafi verið um á grundvelli einingarverðs og hafi verið háðir magntöku. Gláma Kím og byggingastjóri hafi vanrækt að láta fara fram fullnægjandi úttektir á  einstökum verkþáttum.

            Kröfuliður 14 hafi verið rökstuddur hér að framan og eigi allt sem í stefnu þessari hafi verið sagt um Glámu Kím, einnig við um hann.  Krafa um miskabætur í lið 15 sé gerð með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Stefnendur byggi á því að verkefnið, sem þau höfðu falið Glámu Kím, hafi varðað uppbyggingu á framtíðarheimili fjölskyldunnar og þannig hafi mjög ríkir persónulegir hagsmunir verið í húfi.  Vanefndir Glámu Kím hafi verið svo alvarlegir og öll framganga þess eðlis að í þeim hafi falist ólögmæt meingerð gegn persónum stefnenda.  Skilyrði 26. gr. skaðabótalaganna séu því uppfyllt til greiðslu miskabóta.  Miskabætur beri að ákvarða að álitum og sé krafa stefnenda mjög hófleg.

            Til stuðnings öllum kröfum sínum vísi stefnendur jafnframt til almennu skaðabótareglunnar og reglu skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna.

            Kröfur á hendur stefnda Hallgrími Friðgeirssyni séu alfarið byggðar á sömu málsástæðum og kröfur á hendur Glámu Kím en eins og fyrr segi hafi Hallgrímur unnið verkin sem starfsmaður Glámu Kím.

 

TVT ehf. og Guðmundur K. Kjartansson.

            Eins og að framan greini hafi stefndi Guðmundur verið byggingastjóri hússins.  Áður en byggingarframkvæmdir hófust hafi hann undirritað yfirlýsingu um ábyrgð sína og tilkynnt byggingarfulltrúa um aðra iðnmeistara.  Hann hafi unnið verkin sem starfsmaður stefnda TVT ehf., sem hafi gert stefnendum reikninga fyrir byggingastjórn hans og húsasmíðavinnu. Með skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 séu lagðar umfangsmiklar skyldur á byggingastjóra.  Þannig skuli byggingastjóri samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laganna vera við stjórn framkvæmda við hvert mannvirki og samkvæmt upphafsákvæði 3. mgr. greinarinnar sé hann framkvæmdastjóri þeirra.  Sérstaklega sé tekið fram í þeirri málsgrein að hann beri ábyrgð á að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir.  Sé hér vísað til þeirra fyrirmæla, almennra og sérstakra, sem lög og reglugerðir setji um byggingarframkvæmdir og mannvirkjagerð, þar á meðal fyrirmæla byggingarreglugerðar nr. 441/1998, en þar segi t.d. í 118. gr. að tryggt skuli að framkvæmdir séu unnar með tæknilega og faglega fullnægjandi hætti.  Þá séu ýmsar sérstakar skyldur lagðar á byggingastjóra varðandi iðnmeistara sem að framkvæmdum komi.  Skuli hann samkvæmt 3. mgr. 51. gr. laganna ráða þá í upphafi verks með samþykki eiganda eða samþykkja ráðningu þeirra og sama gildir um uppsögn iðnmeistara.  Beri iðnmeistari ábyrgð samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laganna gagnvart byggingastjóra og eiganda byggingarframkvæmda á að þeir verkþættir, sem hann taki að sér að hafa umsjón með, séu unnir í samræmi við viðurkennda verkhætti, samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Samkvæmt fyrrnefndum lögum og reglugerð hvíli á byggingastjóra skyldur til að hafa yfirumsjón og eftirlit með byggingarframkvæmdum þeim sem hann stýri, þar á meðal því að iðnmeistarar þeir sem að verki komi sinni sínum skyldum og að framkvæmdin sé með tæknilega og faglega fullnægjandi hætti.  Vanræki byggingastjóri þessa umsjónar- og eftirlitsskyldu sína með saknæmum hætti beri hann skaðabótaábyrgð gagnvart eiganda mannvirkis vegna tjóns sem af hljótist.  Til viðbótar vísi stefnendur til almennra reglna kröfuréttar, ákvæða laga nr. 42/2000, einkum 15. gr.,  almennu skaðabótareglunnar og reglu skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna.  Stefnendur beini kröfum sínum jafnt að stefndu TVT  ehf. og Guðmundi.  Öll verkefni, sem Guðmundur hafi unnið fyrir stefnendur, hafi hann unnið sem starfsmaður TVT ehf. og allir reikningar séu gefnir út af TVT ehf. 

 

            Í kröfuliðum 1-7 séu gerðar kröfur vegna galla á verkþáttum iðnmeistara.  Stefndi Guðmundur sem byggingastjóri beri ábyrgð á þessum göllum öllum samkvæmt ofangreindum laga- og reglugerðarákvæðum.  Hann hafi ekki sinnt eftirlits- og umsjónarskyldum sínum sem byggingastjóri.  Sem húsasmíðameistari hafi hann einnig skilaði sínu verki gölluðu.

            Krafa undir lið nr. 9 sé um endurgreiðslu á of hárri þóknun  stefnda TVT ehf. og vísist um hana til reifunar á kröfuliðnum.

            Krafa samkvæmt 10. lið sé um endurgreiðslu á of hárri þóknun Blikksmiðsins ehf. og vísist um hana til reifunar á þeim kröfulið. Sem byggingastjóra hafi stefnda Guðmundi borið að semja við blikksmíðameistara um verk er tengst hafi blikksmíði samkvæmt reglum byggingarreglugerðarinnar nr. 441/1998 og að hafa eftirlit með því að verk hans væri unnið í samræmi við samþykkta uppdrætti og viðurkennda verkhætti.  Í matsgerð dómkvadds matsmanns sé komist að niðurstöðu um að kostnaður hafi farið úr böndunum af þessum sökum.

            Kröfuliður 14 hafi verið rökstuddur hér að framan og eigi sömu sjónarmið við um þátt stefnda Guðmund og stefnda TVT ehf. Krafa um miskabætur í lið 15 sé gerð með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Stefnendur byggi á því að mjög ríkir persónulegir hagsmunir stefnenda hafi verið í húfi.  Vanefndir stefnda Guðmundar og stefnda TVT ehf. hafi verið  svo alvarlegar og öll framganga þess eðlis að í þeim hafi falist ólögmæt meingerð gegn persónum stefnenda.  Skilyrði 26. gr. skaðabótalaganna séu því uppfyllt til greiðslu miskabóta.  Miskabætur beri að ákvarða að álitum og sé krafa stefnenda mjög hófleg.

 

       Sveinn Logi Björnsson.

            Stefndi Sveinn Logi hafi borið ábyrgð á rafverki í húsinu sem skráður rafvirkjameistari.  Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 beri hann ábyrgð gagnvart byggingastjóra og stefnendum á að rafverkið í húsinu sé í samræmi við viðurkennda verkhætti, samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir.  Til viðbótar vísi stefnendur til almennra reglna kröfuréttar, ákvæða laga nr. 42/2000, einkum 15. gr., og almennu skaðabótareglunnar. Í matsgerð dómkvadds matsmanns sé komist að niðurstöðu um marga ágalla á rafverki hússins, sem Sveinn Logi beri ábyrgð á samkvæmt ofanrituðu. 

 

            Oddur Gunnarsson.

            Hann beri ábyrgð á múrverki í húsinu sem skráður múrarameistari.  Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 beri hann ábyrgð gagnvart byggingastjóra og stefnendum á að múrverk í húsinu sé í samræmi við viðurkennda verkhætti, samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir.  Til viðbótar vísi stefnendur til almennra reglna kröfuréttar, ákvæða laga nr. 42/2000, einkum 15. gr., og almennu skaðabótareglunnar. Í matsgerð dómkvadds matsmanns sé komist að niðurstöðu um að múrverk, nánar tiltekið frágangur náttúrusteins á baðherbergjum og annars staðar í húsinu sé haldið stórfelldum göllum og að þessi frágangur sé m.a. orsök þess að parket á neðri hæð hússins gjöreyðilagðist.

 

            Baldur Baldursson.

            Stefndi Baldur hafi séð um lagningu náttúrusteins fyrir milligöngu Glámu Kím en stefndi Oddur þó borið ábyrgðina sem skráður múrarameistari. Vinnan hafi verið haldin miklum göllum og af því hlotist stórfellt tjón eins og að framan sé rakið.  Stefnendur byggi á því að Baldur hafi unnið verk sitt með saknæmum hætti og hann beri ábyrgð á tjóni vegna þess á grundvelli almennu skaðabótareglunnar innan og utan samninga, sbr. einnig 15. gr. laga nr. 40/2002. Kröfuliður 12 sé vegna þóknunar stefnda umfram það sem um hafi verið samið.  Í matsgerð dómkvadds matsmanns sé komist að niðurstöðu um að vegna gallanna hafi stefnendum ekki borið að greiða Baldri neitt, hvað þá umfram tilboðsverð.  Þar sem bótakröfur stefnenda miðist við úrbótakostnað geri stefnendur eingöngu kröfu um endurgreiðslu á þóknun umfram umsamið verð.  Stefnendur vísi til framangreindra reglna um skaðabætur og reglna um endurgreiðslu ofgreidds fjár.

 

            Gólfefnaval ehf.

            Fyrir milligöngu Glámu Kím hafi Gólfefnaval ehf. samkvæmt tilboði selt stefnendum parket á húsið, nánar tiltekið á neðri hæð, stiga og efri hæð. Allt efni og lagning parketsins hafi verið innifalin.  Lagning parketsins á stiga og efri hæð hafi haldin miklum göllum og vísist til umfjöllunar um kröfulið 5 þar að lútandi.  Stefnendur byggji kröfu sína í kröfulið 5 á því að Gólfefnaval ehf. beri bótaábyrgð á göllunum samkvæmt 15. gr. laga nr. 40/2002 og 40. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup.   

 

            Blikksmiðurinn ehf.

            Fyrir milligöngu Glámu Kím hafi Blikksmiðurinn ehf. tekið að sér vinnu við loftræstikerfi í húsinu, sem reynst hafi gölluð eins og að framan sé rakið.  Krafist sé bóta vegna gallanna og sé sú krafa reifuð í umfjöllun um kröfulið 3. Kröfuliður 10 sé vegna þóknunar Blikksmiðsins ehf., sem hafi hækkað mikið frá því að tilboð hafi verið gert. Í umfjöllun um kröfuliðinn sé rökstutt að Blikksmiðurinn ehf. beri ábyrgð á því að svo fór og að stefnendur eigi endurkröfu sem mismuninum nemi, samkvæmt ákvæðum laga nr. 40/2002, einkum 15. gr., og reglum um endurgreiðslu ofgreidds fjár.  

            Stefnandi Óskar Valtýsson kom fyrir dóm og gaf skýrslu. Hann kvaðst vera rafeindavirki að mennt og ekki vera byggingafróður. Stefnendur hafi keypt húsið fokhelt að innan en fullfrágengið að utan. Þar sem þau hafi ekki verið byggingafróð hafi þau ákveðið að fá fagaðila til að hanna húsið að innan og stjórna verkinu í þeim tilgangi að halda kostnaði niðri og í þeim tilgangi að hafa allt eins vandað og unnt væri. Hafi þau talið að slíkur eftirlitsaðili myndi hafa betri tök á verktökum. Þau hafi heyrt að Gláma Kím tæki slík verk að sér og hafi Gláma Kím gert þeim tilboð um hönnun, verkumsjón, eftirlit og skipulag. Gláma Kím hafi síðan hannað verkið og gert kostnaðaráætlun. Gláma Kím hafi krafist þess að val verktaka væri á þeirra vegum og að Gláma Kím hefði öll samskipti við verktaka en stefnendur ekki. Þá hafi Gláma Kím einnig óskað eftir því að allar greiðslur færu í gegnum Glámu Kím og að Gláma Kím greiddi síðan verktökum. Öll samskipti hafi verið í gegnum tölvupóst. Stefndi Hallgrímur hafi kynnt stefnendum tilboð verktaka í pósti, stefnendur samþykkt þau og Hallgrímur síðan haft öll samskipti við verktakana.

            Óskar kveðst hafa samþykkt aukaverk vegna raflagnar. Um hafi verið að ræða að draga í afþreyingarkerfi í turni að fjárhæð 150.000 krónur. Þá hafi verið samið um að bílskúrsloft yrði tekið niður og væri það aukaverk. Hann kveðst ekki hafa beðið um fúgur í loft í öllum herbergjum en Hallgrími hafi þótt það fallegra og óskað eftir því aukaverki að honum forspurðum. Þá kveðst Óskar ekki hafa samþykkt aukaverk vegna Blikksmiðsins ehf. Hafi stefnendur staðið í þeirri trú að búið væri að hanna verk Blikksmiðsins ehf. og tilboðið ætti að taka til þess og væri endanlegt. Óskar sagði að stefnendur hafi staðið í þeirri trú að tilboð sem þau hefðu samþykkt væru endanleg og innan kostnaðaráætlunar sem Gláma Kím hefði gert. Síðar hafi komið í ljós að Gláma Kím hefði samþykkt aukaverk án þess að láta þau vita. Taldi Óskar að Gláma Kím hefði ekki haft umboð til annars en að bera öll aukaverk undir eigendur hússins.

            Óskar sagði að þau hefðui fengið fyrirmæli um að þau mættu ekki hækka hitann nema um 1-2 gráður á sólarhring eftir að þau fluttu inn í húsið. Þau hafi byrjað að nota sturtur u.þ.b. einum mánuði eftir að þau fluttu inn vegna þess að baðtæki hafi vantað. Engin viðvörun hafi komið fram um það að þau mættu alls ekki nota sturturnar heldur hafi þeim verið sagt að búið væri að sílanbera steininn.

            Varðandi stefnda TVT ehf. hafi þau fengið tilboð og talið að öll verk TVT ehf. væru innifalin í því tilboði. Síðan hafi alltaf borist fleiri og fleiri reikningar og sá síðasti að fjárhæð um 3.000.000 króna. Gláma Kím hafi talið þennan reikning tilhæfulausan í fyrstu en síðan talið að hann væri eðlilegur. Óskar kvað stefnendur hafa verið í slæmri stöðu til að mótmæla reikningum vegna aukaverka vegna þess að þau hafi ekki haft yfirsýn yfir verkið og hvað teldist eðlilegt varðandi tilboð og aukaverk. Þessi umframkeyrsla hafi hins vegar sett allar fjárhagslegar áætlanir þeirra úr skorðum.

            Þau hafi orðið vör við bólgu eða rakaskemmdir í hjónaherbergi um tveimur til þremur mánuðum eftir að þau fluttu inn. Þau hafi kallað á Hallgrím og hann komið og skoðað verksummerki. Hann hafi talið þennan raka koma frá gólfi. Hallgrímur hafi sagt þeim að það væri í lagi að nota sturturnar þegar um mánuður var liðinn frá því að stefnendur fluttu inn.

 

 

 

II.

            Undir rekstri málsins fyrir dómi aflaði stefndi Baldur Baldursson yfirmatsgerðar um lagningu náttúrusteins, um flotun gólfs og um hvort frágangur á parketi hafi verið eðlilegur. Matsgerð yfirmatsmannanna, Jóns Sigurjónssonar byggingaverkfræðings og Sverris Jóhannessonar byggingatæknifræðings, er dagsett í maí 2009.

            Í matsgerð segir að á jarðhæð sé steinsteypt plata á einangrun og ofan á hana séu lögð grá plaströr sem hulin séu anhydrít og séu rörin hluti af gólfhitakerfi hússins. Anhydrítlagið sé slípað og grunnað og jafnað með flotefni. Loks sé grunnað undir límingu náttúrusteins og hann lagður með opnum fúgum, þ.e. án fúgufyllinga. Uppbyggingin sé hefðbundin og eðlilegur framgangsmáti.

            Yfirmatsmenn telja að eðlilega hafi verið staðið að verki við lagningu náttúrusteins í anddyri, forstofu og eldhúsi. Árangur flísalagnar sé fremur venjulegur þó með einstökum ágöllum eins og lausum, sprungum og brotnum flísum. Orsakir þessa hafi ekki komið í ljós við skoðanir og sýnatöku matsmanna og því sé ógerlegt að fullyrða um þennan ágalla. Niðurstaða matsmanna er varðandi flísar í anddyri, forstofu og eldhúsi að nauðsynlegt sé að gera við sprungur og lausar flísar.

            Varðandi lagningu flísa í baðherbergjum segja matsmenn að lagningin sé faglega unnin en aðferð við lagningu sé í stórum dráttum áfátt. Í heild megi segja að aðferðin við lagningu flísanna á baðherbergi og sturtuklefa sé óheppileg og ofmat lagt á gæði fljótandi þéttidúks undir flísunum. Ekki sé tekið tillit til viðurkenndra aðferða sem víða megi sjá í fræðilegri umfjöllun um þetta málefni.

            Lagningu flísa á gólf og sturtubotn í baðherbergjum sé verulega ábótavant. Ekki sé tekið nægilegt tillit til rakaálags sem þar sé einkum í sturtuklefum. Í fyrsta lagi sé eðlilegt að setja þéttilag á allt gólf þar sem baðherbergisflísar séu lagðar með opnum fúgum og a.m.k. 100 mm upp á aðliggjandi veggi. Opnar fúgur séu einnig óheppilegar með tilliti til vatnsálags og hreinlætis. Þéttilag hafi ekki verið lagt á allt gólf baðherbergjanna. Í öðru lagi sé eðlilegt að niðurföll séu opin í hæð þéttilags auk þess sem rist þeirra sé þétt að flísum þannig að yfirborðsvatn renni niður í niðurföll en ekki fram hjá þeim milli niðurfallsristar og flísa. Niðurfall baðgólfanna sé aðeins opið í yfirborðshæð flísanna og það valdi því að vatn eða raki milli flísanna komist ekki ofan í niðurföll. Í þriðja lagi sé ekki heppilegt eða skynsamlegt að leggja náttúrustein án fúga á sturtubotn. Þessi aðferð geti aðeins leitt til þess að vatn leki undir flísunum. Sama sé að segja um veggi. Óheppilegt sé að leggja náttúrustein á veggi í sturtuklefa án fúga. Ofmat sé lagt á þéttleika vatnsþéttilagsins sem sé borið á vegginn í fljótandi formi.

            Niðurstaða yfirmatsmanna varðandi lagningu náttúrusteins á böðum og í sturtu er að endurskoða þurfi aðferðir við frágang þéttilags, niðurfalla og frágangs flísalagnar. Engin önnur leið sé en að rífa upp flísalögn á baðherbergjum og endurgera baðherbergin með hefðbundnum og þekktum aðferðum að leiðarljósi.

            Niðurstaða yfirmatsmanna er að það muni kosta 2.990.000 krónur að gera við og endurbæta framangreint.

            Varðandi spurningu matsbeiðanda um flotun gólfs undir parketi telja yfirmatsmenn að styrkur anhydríts sé mismikill undir parketi. Anhydrítið hafi misst styrk og mátt vegna þess að vatn hafi legið á því að hluta og hiti sé í gólfi. Þar hafi mátt moka því upp og ryksuga. Þetta ástand sé mjög greinilegt í hjónaherbergi undir parketi við baðherbergisvegg, þ.e.a.s. raki frá baðherbergi hafi náð um tvo metra inn á gólfið í hjónaherbergi. Matsmenn leggi til varðandi úrbætur að eftir að parket og flísar á baðgólfum hafi verið fjarlægt þurfi að gera við los í anhýdríti undir parketi. Anhýdrít baðgólfa þurfi að fjarlægja algjörlega niður í gólfplötu og einnig að hluta til í aðliggjandi rýmum vegna rakaskemmda og leggja ný gólfhitarör. Síðan beri að flota á ný með rakaþolnu flotefni. Kostnað við þetta meta matsmenn 850.000 krónur.

            Yfirmatsmenn segja parket að Jórsölum 18 vera 20 mm þykkt og 200 mm breitt gegnheilt niðurlímt eikarparket sem sé nótað saman. Á stofu hafi parketið rýrnað og sé gallað að því leyti að rifur séu á milli borða þess, allt að 2 mm á breidd. Aðrir gallar á parketi í stofu á jarðhæð hafi ekki verið utan þess að parket sé ófrágengið að veggjum og hafi verpst lítillega og eigi það reyndar við um allt parket hússins. Sama lýsing eigi við borðstofu á jarðhæð en þar séu rifur allt að 1 mm. Á gangi milli stofu og baðs sé ástand parketsins þannig að það breytist smám saman eftir því sem nær dregur baðherbergi. Þar hafi parketið verulega þrútnað vegna raka frá baði og gengið upp í háa hryggi sem sé varasamt að ganga um. Parketið sé mikið aflagað þar og algjörlega ónýtt auk þess sem slysahætta geti stafað af hryggjum þess ef óvarlega er gengið um. Sama lýsing eigi við herbergi við hlið baðsins svo og hjónaherbergi en þar sé ástandið verst. Ástand parkets í turnherbergi sé að mestu leyti eins og í stofunni. Rifur séu milli parketsborðanna allt að 3-3,5 mm. Parketið hafi rýrnað þar og verpst. Niðurstaða yfirmatsmanna er sú að parketið sé almennt meira og minna gallað. Það hafi rýrnað og sé með óeðlilega víðum rifum og allvíða laust frá gólfi. Við baðherbergi sé það svart af rakaskemmdum. Að öllu samanlögðu sé parketið því ónýtt á öllu húsinu. Ástæður þess séu tvíþættar, annars vegar rakaskemmdir vegna raka frá böðum og hins vegar rýrnun eftir ásetningu vegna of mikils raka í parketinu við niðurlagningu. Gólfhiti auki þessi áhrif og valdi lægri jafnvægisraka hjá parketinu, einkum að vetrarlagi. Matsmenn telja að eftir atvikum hafi verið staðið eðlilega að lagningu parketsins að því frátöldu að meta rakaaðstæður. Ekki sé unnt nú að mæla hvort parket, gólfplata og anhýdrít hafi verið nægilega þurrt er lagning fór fram. Ástand parkets í stofu, borðstofu og á turni sýni þó að jafnvægisraki parketsins sé lægri en raki þess var við lagningu. Þess vegna hafi parketið rýrnað og rifur myndast auk þess sem parketið hafi verpst og sé nú íhvolft. Þess sé þó að gæta að til langs tíma séu það breytingar á hlutfallslegum loftraka hússins sem ráði sveiflum í rakastigi parketsins og sú staðreynd að parketið sé límt ofan á gólfhitann sem valdi því að sveiflur verði meiri í raka parketsins en á gólfum án gólfhita. Meiri hætta sé því að parket losni. Við baðherbergi hússins sé það þó ótvírætt raki frá steypuböðum sem hafi valdið auknum skemmdum á parketinu.

            Yfirmatsmenn geta þess að erlendis, t.d. í Noregi, sé talið óráðlegt að líma niður gegnheilt parket á gólf með gólfhitun vegna aukinna rakasveifla í efninu. Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins í Noregi ráðleggi t.d. algjörlega frá slíkri framkvæmd í sínum tækniblöðum og leggi frekar til að notað sé samlímt parket ef líma á það niður. Niðurstaða matsmanna er því að óráðlegt sé að líma gegnheilt parket á hitagólf.

            Yfirmatsmenn telja nauðsynlegt að rífa eikarparketið burt á öllu húsinu og hreinsa laust og veikt anhýdrít og gera við það. Eftir að raki eða leki frá böðum hafi verið fyrirbyggður sé unnt að leggja nýtt samlímt parket með eikarslitlagi á gólfið, niðurlímt eða fljótandi gegnheilt eikarparket. Best væri að leggja fljótandi samlímt parket á gólfin því að það minnki verulega áhættu á tjóni. Kostnaður við þessar úrbætur telja matsmenn vera 4.210.000 krónur.

            Yfirmatsmenn komu fyrir dóm og staðfestu matsgerð sína. Kom m.a. fram hjá þeim að algjört skilyrði sé að blaut svæði í baðherbergi séu vatnsheld. Í þessu tilviki hafi verið treyst alfarið á þéttilag undir flísunum, svokallaðan dúk í dós. Flísarnar séu meira að segja lagðar án fúgu og því sé algjörlega treyst á dúkinn. Niðurfall sé einnig í efri brún þannig að vatn liggi alltaf á. Það hefði verið viðleitni til að koma í veg fyrir skemmdir að fúga en ekki sé víst að það hefði bjargað öllu nema með því að nota einnig betra þéttilag undir flísunum. Það hefði þó dregið úr hættu að fúga flísarnar. Ljóst sé að parket sé skemmt næst baðherbergjum vegna raka frá þeim. Lengra frá og á efri hæð sé orsökin önnur. Þar séu rakabreytingar sem ráðist af því að timburraki stilli sig af eftir hlutfallsraka loftsins í kringum timbrið. Hiti í gólfum skapi meiri sveiflur en ella. Þetta sjáist glöggt í herbergi við hlið eldhúss og í turni en þangað hafi varla borist raki frá böðum. Fram kom hjá matsmönnum að ekki hefði skipt máli þó að sílan hefði verið sett í sprungur milli flísa í sturtu. Sílan geti ekki brúað sprungur sem fari yfir 0,2 mm.

           

III.

            Stefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf. og Hallgrímur Friðgeirsson, segjast ekki hafa heyrt frá stefnendum um galla á verki þeirra fyrr en þeim hafi borist kröfubréf lögmanns stefnenda, dags. 10. apríl 2008. Þá hafi verið liðnir 32 mánuðir frá því að stefnendur greiddu stefndu lokareikning vegna vinnu þeirra við Jórsali 18. Stefndu hafi hafnað öllum kröfum stefnenda á grundvelli undirmatsgerðar, m.a. á þeirri forsendu að matsmaðurinn væri ekki sérfróður um öll þau atriði sem hann hafi skoðað. Engin efnis- eða lagarök séu til þess að stefnendur geti löngu eftir verklok haft uppi kröfur um endurgreiðslu þess fjár sem þeir greiddu stefndu fyrir vinnu þeirra. Í matsgerð séu ekki greindir neinir hnökrar á hönnunar- og teiknivinnu stefndu, vali á litum og efnum. Fullt samráð hafi verið haft við stefnendur og í hvívetna reynt að mæta kröfum þeirra og að verkið gengi hratt fyrir sig. Framkvæmd og efnisval hafi tekið mið af óskum stefnenda um að verkið gengið hratt fyrir sig en á þessum tíma hafi verið mikill skortur á iðnaðarmönnum.

            Stefndu byggi á því að stefnendur hafi sýnt af sér tómlæti um meintan rétt sinn og eigi því að sýkna stefndu að kröfulið nr. 8 í stefnu að fjárhæð 1.931.957 krónur.

            Stefndubyggi á því að þeir beri enga ábyrgð á meintum göllum samkvæmt liðum 1-8 vegna vinnu iðnaðarmanna í húsinu. Samkvæmt 51. gr. laga nr. 73/1997 sé það byggingastjóri sem stjórni framkvæmdum. Byggingastjóri sé framkvæmdastjóri byggingarframkvæmda og ráði iðnmeistara í upphafi verks með samþykki eigenda. Stefndu hafi komið að vali byggingastjóra og iðnmeistara, enda þekki þeir vel til iðnaðarmanna. Mikil þensla hafi verið á byggingarmarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu á þessum tíma og því ekki auðvelt að fá menn til vinnu. Þátttaka stefndu í vali á byggingastjóra og iðnmeisturum geti aldrei gert þá meðábyrga á þeim göllum sem kunna að vera á verkum einstakra meistara. Samkvæmt 3. mgr. 51. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 beri byggingastjóri ábyrgð á því að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir, m.a. byggingarreglugerð nr. 441/1998, sbr. 218. gr. Samkvæmt samningi aðila um hönnun hafi eftirlit þeirra aðeins náð til eftirlits á byggingarstað en ekki með byggingaframkvæmdunum sjálfum. Þá benda stefndu á að samkvæmt 52. gr. skipulags- og byggingarlaga beri iðnmeistari ábyrgð gagnvart byggingastjóra og eiganda byggingarframkvæmda á að þeir verkþættir sem þeir taki að sér að hafa umsjón með séu unnir í samræmi við viðurkennda verkhætti, samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Stefndu hafi auk þess enga heimild til að gera teikningar af mannvirkjum sem lúti að burðarvirkjum, boðveitum, rafkerfum, raflögnum, vatns-, hita- og fráveitukerfum, loftræstikerfum og lýsingakerfum, sbr. 2. mgr. 49. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Stefndu geti því ekki borið ábyrgð á þeim göllum sem kunni að vera á verkum húsasmíðameistara, rafvirkja, blikksmiðs, parketleggjanda, múrarameistara og pípulagningameistara eins og byggt sé á í liðum 1-9 í stefnu.

            Samkvæmt 1. kröfulið krefjist stefnendur 1.560.000 króna vegna þriggja þátta sem þeir telji vera galla á verki húsasmíðameistara. Stærsti liður þessarar kröfur sé 1.000.000 króna vegna verkþátta er matsmaður meti ógallaða. Framlagningu matsgerðar verði að skoða sem málflutningsyfirlýsingu meðan ekki sé lögð fram yfirmatsgerð sem gangi framar að þessu leyti. Stefnendur sætti sig ekki við niðurstöðu matsmannsins. Ágreiningur stefnenda við matsmann vegna þessa þáttar feli ekki í sér sönnun fyrir réttmæti kröfu þeirra. Matsmaður hafi komist að þeirri niðurstöðu að fasteign sé fullnægjandi að þessu leyti og því ógölluð. Engin sönnun um hið gagnastæða liggi frammi í málinu. Varðandi hina tvo þættina í 1. kröfulið, samtals að fjárhæð 560.000 krónur, er á því byggt af hálfu stefndu að trésmíðameistarinn hljóti að hafa átt og eiga rétt til að bæta úr þessum smávægilegu hnökrum á verki sínu sem þar sé lýst af hálfu matsmannsins, sbr. 16. gr. laga um þjónustukaup nr. 42/2000. Þetta sé stefndu  með öllu óviðkomandi enda utan verksviðs þeirra.

            Samkvæmt 2. kröfulið sé gerð krafa um greiðslu á 424.000 krónum vegna galla á verki rafverktaka. Stefndu geti ekki borið ábyrgð á verkum rafvirkja. Allar teikningar rafvirkjans séu utan verksviðs þeirra sem hönnuða að Jórsölum 18, sbr. 2. mgr. 49. gr. laga nr. 73/1997. Sérstakir úttektarmenn frá rafmagnssviði Frumherja hf. hafi gert úttekt á vinnu rafvirkja frá 18. október 2005 og gert skýrslu um hana. Gert hafi verið samkomulag um frágang af hálfu rafverktaka og samkvæmt því hafi rafvirki átt að ljúka verki sínu og úrbótum fyrir 25. nóvember 2005. Stefndu hafi komið að gerð þessa samkomulags án þess að krefjast sérstakrar greiðslu sér til handa. Stefnendur hafi hins vegar komið í veg fyrir að rafvirkinn lyki verki sínu og endurbótum á því sem gallað var. Hann hafi þó átt rétt til þess, sbr. 18. gr. laga um þjónustukaup nr. 42/2000.

            Samkvæmt 3. lið sé gerð krafa um greiðslu á 130.000 krónum vegna galla á loftræstikerfi. Stefndu kveðast ekki geta borið ábyrgð á verkum sem tengist loftræstikerfum og hafi teikningar skort sé það á ábyrgð þess iðnmeistara sem hafi unnið verkið svo og byggingastjórans.

            Krafa að fjárhæð 2.630.000 samkvæmt 4. lið sé vegna skemmda á parketi á neðri hæð. Stefndu hafna því alfarið að þeir beri ábyrgð á því tjóni. Hönnun þeirra á baðherbergi neðri hæðar og útfærslu hennar á verkstað standist allar kröfur um þéttingar og frágang. Handvömm við framkvæmdina sé ekki á ábyrgð stefndu heldur þess iðnmeistara sem hafi séð um framkvæmdina svo og byggingastjórans sem að lögum sé ábyrgur fyrir allri framkvæmdinni, sbr. 51. og 52. gr. laga nr. 73/1997. Kröfuliður nr. 5 að fjárhæð 388.000 krónur sé vegna galla á lagningu parkets á stiga og efri hæð hússins. Stefndu kveða þessa kröfu sér með öllu óviðkomandi. Í framlagðri matsgerð komi fram að vera kunni að þessum verkþætti sé ekki lokið. Kröfum vegna ófullnægjandi frágangs parkets verði stefnendur að beina gegn þeim sem selt hafi þeim parketið og tekið að sér lögn þess.

            Samkvæmt 6. lið sé gerð krafa að fjárhæð 3.386.387 krónur vegna lagningar náttúrusteins. Þessi krafa sé stefndu með öllu óviðkomandi þar sem lagning náttúrusteins hafi verið í verkahring múrarameistara sem einnig sé stefnt í máli þessu. Hann og byggingastjóri beri ábyrgð á tjóni stefnenda að þessu leyti.

            Samkvæmt 7. lið sé gerð krafa að fjárhæð 92.000 krónur vegna pípulagna. Ábyrgð á pípulögn hvíli á herðum pípulagningameistara hússins en ekki stefndu.

            Stefndu geti ekki borið ábyrgð á þóknun TVT ehf. að fjárhæð 4.954.926 krónur samkvæmt 10. kröfulið. Stefndi TVT ehf. sé félag í eigu byggingastjórans og því beri að beina kröfum sínum þangað.

            Stefndu hafna því að þeir geti borið ábyrgð á umframkostnaði einstakra verkþátta á grundvelli almennu skaðabótareglunnar eins og virðist byggt á í stefnu varðandi þóknun til TVT ehf. Stefnendur hafi notið aðstoðar lögmanns á þessum tíma og samkvæmt stefnu hafi hann ráðlagt stefnendum að greiða uppsetta kröfu TVT ehf. Það uppgjör hafi farið fram án nokkurs atbeina stefndu. Stefndu benda á að það ráðist af almennum reglum kröfuréttar hvort viðkomandi aðilar eigi rétt til þeirra greiðslna sem kröfur séu gerðar um eða ekki. Stefndu geti ekki borið ábyrgð in solidum á ósanngjörnum reikningum með þeim sem gefur reikninga út.

            Stefndu hafna því alfarið að þeir beri ábyrgð á afnotamissi, óhagræði og miska stefnenda vegna framkvæmdanna við Jórsali 18. Ákvæði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1953 eigi fráleitt við um þessa kröfu þar sem stefndu hafi hvorki valdið stefnendum líkamstjóni né meitt æru þeirra eða misgert friðhelgi einkalífs þeirra.

            Stefndu kveða lokaúttekt þeirra á framkvæmdum við Jórsali 18 aldrei hafa farið fram vegna margs konar ágreinings sem hafi komið upp milli stefnenda og einstakra framkvæmdaraðila. Stefndu hafi af fremsta megni reynt að leysa úr þessum deilum en án þess að gera kröfu um greiðslu fyrir þá vinnu. Stefnendur hafi með aðgerðum sínum oft gert stefndu ómögulegt að sinna því takmarkaða eftirliti og umsjón sem þeir að lögum hafi getað haft með framkvæmdum á Jórsölum 18.

            Í skýrslu sinni fyrir dómi sagði stefndi Hallgrímur Friðgeirsson m.a. að hann hafi unnið hönnunarvinnu haustið 2004 og leitað hafi verið tilboða þegar grunnskipulag hafi legið fyrir og það samþykkt af eigendum. Hann kvaðst hafa leitað tilboða og borið þau undir stefnendur til samþykktar. Allir reikningar hafi verið sendir til Glámu Kím og hann yfirfarið þá og magntekið. Í öllum tilvikum hafi verið ljóst að hann hafi verið að vinna í umboði stefnenda. Hallgrímur kvaðst hafa samið við Blikksmiðinn ehf. um hans verk. Upphaflega hafi verið ákveðið að fara með útloftun frá arni upp í gegnum þakið en síðan hafi verið ákveðið að saga sig niður í gólf og fara þá leiðina út. Ákveðið hafi verið að breyta verkinu þannig að Dakor-vifta yrði sett upp og hafi það verið ákveðið á verkstað af honum, Óskari, byggingastjóra og fyrirsvarsmanni Blikksmiðsins ehf. Hann hafi fengið áætlun frá Blikksmiðnum ehf. um hvað þessar breytingar myndu kosta og hafi Óskar staðfest það í tölvupósti. Hallgrímur kvaðst ekki hafa tekið út loftræstikerfið enda hefði hann ekki þekkingu til þess. Upphafleg hönnun hafi gert ráð fyrir kókosteppi á stiga með parketborðum til beggja hliða. Stefnendur hafi hins vegar óskað eftir að eingöngu parket yrði lagt á stigann. Parketlögn á stiga hafi misheppnast og hafi verið samþykkt að endurleggja parket þar. Hallgrímur kvaðst hafa hannað böðin. Í deiliteikningum sé ekki sýndur frágangur á botni sturtu. Hann kvaðst hafa óskað eftir því við stefnda Baldur Baldursson að kvoða væri sett á gólf og borðar á veggi. Hann kvaðst hafa ítrekað við stefnendur að það yrði að sílanbera flísarnar til að loka þeim til að fyrirbyggja leka. Hafi stefnendur ákveðið að taka að sér að finna mann til að vinna það verk. Þetta megi sjá í tölvupóstsamskiptum aðila. Hann hafi vitað að búið hafi verið að bera sílan á flísarnar í framleiðslu en það hafi ekki verið nóg.

            Ekki mundi Hallgrímur eftir því að hann hafi verið kallaður til á vettvang að beiðni stefnda Óskars og skoðað með honum rakabletti á gifsvegg. Hann kvaðst hafa samþykkt að fúgur yrðu líka í herbergjum og hafi það verið ákveðið í samráði við Óskar. Hallgrímur hélt því fram að Óskar hafi vitað af flestöllum aukaverkum og megi sjá það í tölvupósti þeirra í milli.

            Baldur hafi óskað eftir að fúga vegna þess að flísar hafi verið hornskakkar. Flísarnar hafi hins vegar verið sendar til framleiðanda og þær lagaðar. Ekki kannaðist Hallgrímur við að hafa gefið stefnendum leyfi til að nota sturturnar.

            Forsvarsmaður stefnda Arkitekta Laugaveg 164 ehf., Sigurður Halldórsson, kom fyrir dóminn. Kvaðst ekki hafa verið í sambandi við verktaka og í litlu sambandi við stefnendur fyrr en samskipti aðila fóru að stirðna.

 

IV.

            Stefndi TVT ehf. telur að misskilnings gæti hjá stefnendum varðandi hlutverk og ábyrgðarstöðu Glámu Kím í málinu. Gláma Kím hafi verið umsjónaraðili með allri hönnun og teikningum og beri sjálfstæða ábyrgð gagnvart stefnendum sem hönnuðir að stærstum hluta hússins og öllum þeim þáttum sem um sé deilt í máli þessu. Aðkoma stefnda TVT ehf. að málinu sé tvíþætt, annars vegar hafi fyrirtækið séð um smíðavinnu við fasteignina og hins vegar hafi félagið greitt byggingastjóratryggingu með stefnda Guðmundar K. Kjartanssyni.

            Kröfur stefnenda gagnvart TVT ehf. séu á mjög óljósum grundvelli almennt. Ljóst sé að stefndi geti á engan hátt átt hlut að þeim kröfum sem fjallað sé um í dómkröfum 2-4, 6, 7 og 10. Stefndi hafi séð um smíðavinnu og fleira. TVT ehf. hafi hins vegar ekki komið að uppgjöri eða öðrum þáttum er lúti að undirverktökum almennt eða eftirlitsaðila og byggingastjóra. Því verði að sýkna stefnda af þessum kröfum á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Verði ekki fallist á það vísar stefndi til þess að kröfur samkvæmt þessum lið séu ósannaðar og sé ekki sennileg orsakatengsl milli starfs stefnda og þess meinta tjóns sem getið sé um í stefnu. Öllum kröfum stefnenda sé mótmælt af hálfu stefnda sem röngum og ósönnuðum. Þá sé sýknukrafa stefnda almennt byggð á því að ósannað sé að stefndi hafi valdið stefnendum tjóni með saknæmum hætti. Beri stefnendum að sanna staðhæfingar sínar samkvæmt reglum um sönnunarbyrði. Allan vafa ber að meta stefnda í hag. Matsmaður hafi auk þess óumdeilanlega staðfest með mati sínu að allir meginþættir í vinnu stefnda TVT ehf. hafi verið unnir faglega og þeir samþykktir af eftirliti. Stefndi geti ekki borið ábyrgð innan samninga á uppgjöri annarra verktaka eða að þeir standi við tilboð sín. Því geti ekki komið til ábyrgðar stefnda innan samninga og in solidum með öðrum aðilum sem stefnt sé í máli þessu nema varðandi þá liði sem hugsanlega geti einnig varðað stefnda, þ.e. dómkröfur nr. 1, 9, 14 og 15.

            Kröfuliður nr. 1 fjalli um galla á verki húsasmíðameistara. Stefndi telur tjón ekki sannað og vísar til matsgerðar í því sambandi. Orsök gallans megi rekja til uppsteypu sem hafi verið lokið áður en stefndi TVT ehf. hafi komið að verkinu. Skemmd á vegg sé mótmælt sem ósannaðri enda hafi sú krafa vegna hennar ekki komið fram áður. Þá sé bótafjárhæð ósönnuð og vanreifuð. Hvað varði loft í bílskúr sé það rangt að um galla sé að ræða heldur hafi rafvirki hússins stigið niður á loftið og fellt það.

            Stefndi hafnar því að hann beri ábyrgð á verkum rafvirkjameistara. Beri að sýkna hann á grundvelli aðildarskorts. Stefndi hafnar því ennfremur með sömu rökum að hann geti borið ábyrgð á galla á loftræstihönnun. Sama sé að segja um skemmdir á parketi. Stefndi hafi hvorki komið að lagningu parkets né múrað baðherbergið. Í engu sé reynt að tengja saknæma háttsemi stefnda við þetta tjón. Sömu rök eigi við um flísalagnir. Sýkna verði stefnda af þessum lið vegna aðildarskorts. Sömu sjónarmið eigi við um 7. tölulið varðandi pípulagnir.

            Varðandi endurgreiðslu á þóknun stefnda TVT ehf. kveðst stefndi alfarið hafna þeirri kröfu. Ekkert sé komið fram um að reikningar séu rangir og hafi þeir verið samþykktir af eftirliti. Fráleitt sé að halda því fram að aukaverk vinnist samkvæmt tilboði. Innan tilboðsins hafi einungis verið þeir verkliðir sem þar hafi verið tíundaðir. Í þessu tilfelli hafi hönnun verið margbreytt eftir að stefndi hafi byrjað að vinna í húsinu. Magntölum hafi ennfremur verið breytt og stefndi margoft beðinn um að vinna aukaverk. Að beiðni Hallgríms hafi stefndi verið beðinn um að útvega menn til að steypusaga og verið beðinn um að leigja ruslagám fyrir allt verkið svo og að sjá um bílskúrshurðaopnara o.fl. Samfara þessu hafi verið útlagður kostnaður sem stefndi hafi gert reikninga fyrir. Það sé ekki á ábyrgð stefnda að eftirlitsaðili hafi ekki útskýrt þetta fyrir stefnendum. Aukaverk séu að sjálfsögðu unnin í tímavinnu enda ekkert tilboð þar að baki. Stundum hafi hönnun tekið breytingum eins og t.d. þegar stefndi hafi verið beðinn um að rífa niður vegg í eldhúsi og setja hann upp aftur þar sem ákveðið hefði verið að færa hann. Vel útskýrð fylgiskjöl liggi að baki reikningum sem og tímaskýrslur. Ekkert af þessu sé hrakið í stefnu heldur virðist sem byggt sé á einhverri óljósri kröfu um ólögmætt eftirlit og vanrækslu einhverra. Stefndi bendir á að hvergi sé bent á að galli hafi verið á verki stefnda. Varðandi þann þátt er snýr að byggingastjóra beri að sýkna stefnda TVT ehf.

            Stefndi hafnar því að hann geti borið ábyrgð á verki Blikksmiðsins ehf. Tjón vegna vinnu þess félags verði á engan hátt rakið til háttsemi stefnda. Varðandi kröfu um bætur fyrir afnotamissi og miskabætur kveðst stefndi hafna þeim kröfum sem ósönnuðum og órökstuddum. Enginn lagagrundvöllur né fordæmi sé fyrir þessari kröfugerð. Krafan uppfylli á engan hátt sönnunarkröfu skaðabótaréttarins og hún sé vanreifuð.

            Stefndi kveðst byggja varakröfu sína á því að fæstir af hinum umstefndu kostnaðarliðum séu tjón í skilningi skaðabótaréttarins heldur eðlilegur kostnaður við frágang verkþátta við bygginguna. Vísar stefndi til sömu málsástæðna og að framan greinir varðandi kröfu sína um lækkun.

            Þá mótmælir stefndi dráttarvaxtakröfu stefnenda og telur að dráttarvextir verði ekki dæmdir fyrr en mánuði eftir birtingu stefnunnar en þá hafi fyrst verið sett fram endanleg fjárkrafa.

 

V.

            Stefndi Guðmundur K. Kjartansson mótmælir öllum kröfum og málsástæðum stefnenda sem röngum og ósönnuðum. Svo virðist sem stefnendur byggi kröfur sínar á hendur stefnda Guðmundi á því að hann eigi að bæta stefnendum ýmsan kostnað og greiða skaðabætur vegna galla og auk þess beri honum að endurgreiða fjárhæðir sem greiddar hafi verið þriðja manni á grundvelli sakarreglunnar og á grundvelli 51. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 32.2 gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Telji stefnendur að stefndi beri ábyrgð in solidum á flestum dómkröfum stefnenda með stefnda Glámu Kím og stefnda Hallgrími Friðgeirssyni.

            Um bótaábyrgð byggingastjóra fari eftir sakarreglunni, sbr. dóm Hæstaréttar 20. desember 2005 í máli nr. 267/2005. Verði byggingastjóri ekki ábyrgur á grundvelli laganna nema hann hafi með saknæmum hætti vanrækt umsjónar- og eftirlitsskyldu sína með því að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti lög og reglugerðir.

            Sýknukrafa stefnda Guðmundar sé byggð á því að ekki sé sannað að hann hafi sem byggingastjóri valdið stefnendum saknæmu tjóni eða beri nokkra ábyrgð á hinum umstefnda kostnaði á grundvelli 51. gr. laga nr. 73/1957. Beri stefnendum að sanna staðhæfingar sínar og málsástæður samkvæmt meginreglu íslensks réttar um sönnunarbyrði. Það sé ekki stefnda að sanna sakleysi sitt eða ábyrgðarleysi. Stefnendur hafi ekki sýnt fram á að úttektir byggingarfulltrúa hafi leitt í ljós saknæma háttsemi byggingastjóra. Sérstök ástæða sé til að árétta að byggingastjóri sjái ekki um fagvinnu meistara eða undirverktaka. Efnisval og efnisgallar á vinnu þessara aðila geti aldrei verið á ábyrgð byggingastjóra. Ef sú túlkun reyndist rétt væru engin takmörk fyrir því hvar ábyrgðin endaði. Þá sé ekki hægt að gera ráð fyrir því að byggingastjóri hafi þekkingu og löggildingu á öllum sviðum. Stefndi mótmælir því að byggingastjóri geti borið ábyrgð innan samninga á uppgjöri verktaka eða að þeir standi við tilboð sín. Því geti ekki komið til ábyrgðar stefnda innan samninga og in solidum með öðrum aðilum sem stefnt sé í málinu.

            Stefndi hafnar því að verk húsasmíðameistara hafi verið gallað. Vísar hann til matsgerðar í því sambandi. Bótafjárhæð sé ósönnuð og vanreifuð. Varðandi loft í bílskúr sé það rangt að um galla sé að ræða heldur hafi rafvirki hússins stigið niður á loftið og fellt það.

            Stefndi hafnar því að hann geti borið ábyrgð á göllum á verki rafvirkjameistara. Gögn málsins sýni að eftirlit og samningar við rafvirkja hafi farið úr böndum. Byggingastjóri hafi ekki verið upplýstur um það. Byggingastjóri taki ekki út vinnu rafvirkja enda hafi hann ekki þekkingu til þess né löggildingu. Auk þess liggi fyrir í málinu að ýmsir samningar hafi verið gerðir við rafverktakann frá upphaflegri vinnu hans. Um það hafi byggingastjóra ekki verið kunnugt.

            Stefndi hafnar því að loftræstihönnun sé á hans ábyrgð eða samningar við blikksmið. Sýkna beri hann vegna aðildarskorts. Stefndi hafi ekki haft fageftirlit með múraranum. Byggingastjóri hafi ekki haft milligöngu um að múrari hafi farið frá verkinu áður en það var klárað. Stefnendur hafi ekki sýnt fram á saknæma háttsemi stefnda hvað þetta varðar. Sýkna beri hann vegna aðildarskorts. Stefndi hafnar því að hann geti borið ábyrgð á lagningu náttúrusteins. Vísar hann til framangreindra raka í því sambandi. Sama sé að segja um galla á pípulögn. Varðandi þóknun til TVT ehf. kveðst stefndi hafna þeim lið. Byggingastjóri beri ekki ábyrgð persónulega á vinnuliðum og aukaverkum hjá trésmiðum, auk þess sé ekki krafist bóta á grundvelli sakar heldur sé um endurgreiðslukröfu að ræða. Eftirlit hafi samþykkt þessa reikninga og séu stefnendur bundnir við það. Stefndi hafnar endurgreiðslu vegna þóknunar Blikksmiðsins ehf. Loftræstikerfi hafi verið unnið í tímavinnu eins og matsgerð staðfesti. Í engu sé meint tjón rakið til saknæmrar háttsemi byggingastjóra. Varðandi bótakröfu vegna afnotamissis og miskabóta kveður stefnandi þá kröfu ósannaða og órökstudda. Hvorki lagagrundvöllur ná fordæmi sé fyrir kröfunni. Krafan uppfylli heldur ekki sönnunarkröfu skaðabótaréttarins og sé hún vanreifuð.

            Varakröfu sína byggir stefndi á því að fæstir af hinum umstefndu kostnaðarliðum séu tjón í skilningi skaðabótaréttarins heldur eðlilegur kostnaður við frágang verkþátta við bygginguna. Að öðru leyti vísar stefndi til málsástæðna sinna í aðalkröfu.

            Í skýrslu stefnda Guðmundar K. Kjartanssonar fyrir dómi kom m.a. fram að Hallgrímur hafi haft samband við hann og beðið hann um að gera tilboð. Síðar hafi hann verið beðinn um að vera byggingastjóri og hafi Gláma Kím lagt til ákveðna iðnmeistara sem hann hafi samþykkt og tilkynnt til viðkomandi yfirvalda. Öll aukaverk hafi verið unnin að beiðni stefnda Hallgríms. Þeir hafi samið sín á milli í upphafi verks að Hallgrímur þyrfti að samþykkja öll aukaverk fyrirfram. Hallgrímur hafi beðið hann um að útvega gám, ruslagám, hitablásara og menn í steypusögun. Aukning á fúgum hafi einnig verið að beiðni Hallgríms. Veggir hafi verið skakkir þegar hann kom að verkinu og hafi Hallgrímur talið réttast að rétta þá af eins og gert hafi verið en það væri hefðbundin aðferð í svona tilvikum. Guðmundur benti á að matsmaður hafi ekki reiknað með í sínu mati að TVT ehf. þyrfti að rífa niður veggi áður en byrjað væri á verkinu sjálfu. Hann kvaðst hafa verið viðstaddur sem byggingastjóri lögbundnar úttektir og gert reikning fyrir það.

 

VI.

            Stefndi Baldur Baldursson kveður meðstefnda Hallgrím Friðgeirsson hafa óskað eftir því að hann gerði tilboð í flísalögn umræddrar fasteignar. Stefndi Baldur kveðst aldrei hafa verið í sambandi við stefnendur og hafi samningsaðili hans verið Gláma Kím. Allar greiðslur hafi borist frá stefnda Hallgrími. Stefndi kveðst hafa gert Hallgrími grein fyrir því að ómögulegt væri að hans mati að leggja náttúrustein án fúga því alltaf mynduðust rifur á milli flísanna. Hallgrímur hafi hins vegar þvertekið fyrir að fúgað yrði milli flísanna og sagðist hann myndu ábyrgjast að unnt væri að topploka steininn eftir á með sérstöku sílanefni. Stefndi kveðst hafa ítrekað við Hallgrím að forsenda þess að hann kláraði flísalögnina væri að unnt væri að topploka og gera lögnina vatnsþétta. Hafi Hallgrímur sagt að hann myndi sjá um það. Er verkinu hafi verið nær lokið kveðst Baldur hafa ítrekað við Hallgrím að nauðsynlegt væri að sílanbera steininn til að unnt væri að kítta í kverkar. Hafi hann beðið Hallgrím að hafa samband við sig þegar því verki væri lokið. Þess vegna kveðst Baldur ekki hafa kíttað í kverkar og því ekki lokið verkinu. Hafi því verið sjálfgefið að ekki mætti nota sturturnar fyrr en þessu hefði öllu verrið lokið. Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að sýkna beri hann vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Samningsaðili stefnda hafi verið stefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf. og hafi stefndi Hallgrímur komið fram fyrir þeirra hönd. Stefndi hafi aldrei átt samskipti við stefnendur málsins.

            Í öðru lagi byggir stefndi sýknukröfu sína á því að meint sök stefnda sé ekki sönnuð. Stefndi hafi viljað fúga flísarnar en hönnuður hafi neitað því. Stefndi hafi farið frá verkinu ófullgerðu og treyst á að því yrði lokið á réttan hátt. Stefndi telur að verk sitt hafi að öllu leyti verið unnið í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu til lagningar flísa í votrými. Stefndi hafi borið kvoðu á í samræmi við leiðbeiningar, þ.e. tvöfalt lag. Stefnendum hafi auk þess verið fullkomlega kunnugt um að eftir væri að klára verkið. Vísar stefndi í því sambandi í tölvupósta sem lagðir hafa verið fram í málinu. Þar komi fram að stefnendur séu að bíða eftir manni til að sílanbera flísarnar.

            Varðandi skemmdir á parketi á neðri hæð tekur stefndi fram að það hafi ekki verið á ábyrgð hans að stefnendur hafi byrjað að nota sturtuklefann. Stefndi hafi ítrekað það við Hallgrím að ekki væri nóg að sílanbera flísarnar heldur þyrfti einnig að fúga á milli. Tjón af þessum völdum geti því ekki verið á ábyrgð stefnda.

            Stefndi mótmælir því að ágalli hafi verið á handverki hans. Ekki sé sannað að þéttilag hafi verið of þunnt eða að grisjur hafi vantað í kverkar á ýmsum stöðum. Þegar stefndi hafi lokið sínu verki hafi framangreint verið í lagi. Stefndi hafi lagt tvöfalt lag af gúmmíkvoðu yfir veggi votrýmanna. Þá sé það ekki á ábyrgð hans ef náttúrusteininn hefur ekki verið vatnsheldur.

            Í stefndu krefjist stefnendur endurgreiðslu og eða skaðabóta sem nemi 90.000 krónum. Þetta stafi af því að stefndi hafi unnið aukaverk og jafnframt hafi Hallgrímur gefið honum upp rangar magntölur. Því sé ekkert athugavert við þessa greiðslu. Hallgrímur hafi auk þess samþykkt umrædda hækkun og sé það bindandi fyrir stefnendur.

            Að lokum bendir stefndi á að það sem aflaga hafi farið í sturturými að Jórsölum 18 tengist ekki verki stefnda heldur hönnun, verkumsjón og verkeftirliti. Orsök leka í votrými tengist ekki handverki stefnda. Þá bendir stefndi einnig á að byggingastjóra hafi borið að hafa yfirumsjón og eftirlit með byggingarframkvæmdum. Sama sé að segja um ábyrgð múrarameistara. Þessir aðilar hafi ekki gert athugasemdir við verk stefnda.

            Varakrafa stefnda er byggð á því að stefnendur beri einhverja ábyrgð sjálfir vegna þess að þeir hafi notað sturtur án þess að það hafi verið óhætt.

            Stefndi mótmælir vaxtakröfum stefnenda og telur að vextir verði ekki dæmdir fyrr en eftir dómsuppsögu.

            Í skýrslu sinni fyrir dómi sagði stefndi Baldur Baldursson m.a. að engar deiliteikningar hefðu legið fyrir er hann hóf verkið. Verkinu hafi ekki verið lokið þegar hann hafi farið frá því eftir hafi verið að kítta í kverkar.

 

VII.

            Stefndi Sveinn Logi Björnsson kveðst hafa verið skráður rafvirkjameistari framkvæmdanna að Jórsölum 18. Verkið hafi hins vegar ekki verið unnið af honum heldur Guðmundi Pétri Ingvasyni rafvirkja á vegum Rafveitunnar ehf. Stefndi hafi ekki verið fyrirsvarsmaður Rafveitunnar ehf. og ekki tekið þátt í að semja um verkefni á vegum félagsins. Hins vegar sé Guðmundur Pétur æskuvinur hans og hafi verið í Meistaraskólanum á þessum tíma og því kvaðst stefndi hafa ábyrgst hann sem rafvirkjameistara.

            Stefnufjárhæðin, 424.000 krónur, sé grundvölluð á niðurstöðum dómkvadds matsmanns. Um sé að ræða kostnað vegna verkþátta sem séu óunnir og lúti að frágangi á verkinu. Stefnendur hins vegar telji það galla. Af matsgerð megi sjá að matsmaður hafi stuðst við úttekt Frumherja hf. en matsmaður hafi ekki sérþekkingu á sviði raflagna og meti athugasemdalaust ýmsa verkþætti án þess að staðreyna þá sjálfur. Í matsgerðinni sé því ekki að neinu leyti að finna sjálfstætt mat á því hvaða liðir séu gallaðir og hvaða liðir teljist til ólokinna verka. Þá sé ekki að finna í matsgerðinni neina skýringu á því á hvaða forsendum sé byggt. Matsgerðin sé því haldin annmörkum að þessu leyti þar sem byggt sé á úttekt þriðja aðila án sjálfstæðrar skoðunar.

            Í þessu sambandi vekur stefndi athygli á því að matsgerð sé dagsett 29. september 2007 en hafi ekki verið kynnt fyrir stefnda fyrr en með bréfi lögmanns stefnenda 4. júlí 2008.

            Í tölvupóstsamskiptum milli Hallgríms og Guðmundar Péturs Ingvasonar 17. október 2005 komi fram að Guðmundur sé búinn að panta úttekt á húsinu og muni hann óska eftir verklokum, greiðslu og meistaraskiptum þegar hann hafi lagfært það sem úttektin segði til um. Stefndi telur að ekki sé ljóst af gögnum málsins hve mikið hafi verið búið að greiða fyrir verkið. Í bréfi lögmanns stefnda 22. júlí 2008 sé sérstök athygli vakin á þessu atriði og óskað eftir því að fá að sjá gögn í þessu sambandi. Ekki hafi verið orðið við þeirri beiðni og umræddu bréfi ekki svarað. Þá hafi Guðmundi Pétri gengið illa að innheimta fyrir verkið og tekið fram að hann vildi ekki hafa meira en 300.000 krónur útistandandi þegar hann væri að vinna verk.

            Af hálfu stefnda er einnig á því byggt að engin lagastoð sé fyrir kröfum stefnenda á hendur stefnda. Stefnendur hafi með öllu virt að vettugi meginreglur um gagnkvæma tillitssemi samningsaðila og úrbótarétt. Þegar stefndu hafi verið ljóst að ágreiningur væri uppi um framkvæmd verksins hafi hann hlutast til um að fram færi úttekt á verkinu af hálfu úttektaraðila. Áður en til þess kom hafi stefnendur hins vegar óskað eftir úttekt Frumherja hf. á verkinu sem fram hafi farið 18. október 2005 án þess að stefnda sem iðnmeistara væri gefinn kostur á að gæta réttar síns. Á þeim tíma hafi ekki verið búið að lýsa yfir verklokum enda eftir að klára ýmsar lagfæringar, frágang og vinnu við ákveðna þætti.

            Það sé viðtekin venja að viðkomandi iðnmeistara sé gefinn kostur á að vera viðstaddur þegar Frumherji hf. geri úttekt. Svo hafi hins vegar ekki verið í þessu tilviki. Stefndi hafi því ekki getað gert athugasemdir eða gefið skýringar. Þá liggi fyrir að eftir athugun Frumherja hf. hafi að verulegu leyti verið bætt úr verkinu en hvorki stefnda né Rafveitunni ehf. hafi verið gefinn kostur á að ljúka verkinu að fullu. Þann 18. nóvember 2005 hafi aðilar gert samkomulag um verklok á raflögn. Hafi verið við það miðað að verkinu skyldi lokið 25. nóvember 2005. Í tölvupóstsamskiptum aðila hafi verið samið um að frestur yrði á því að verkið yrði klárað. Í tölvupósti 16. og 17. janúar 2006 komi fram að fyrirsvarsmaður Rafveitunnar ehf. óski eftir því að klára verkið. Með bréfi 13. febrúar 2007 hafi stefndi og fyrirsvarsmaður Rafveitunnar ehf. óskað formlega eftir því að fá að ljúka verkinu svo unnt yrði að skila húsinu tilbúnu til úttektar til Neytendastofu. Fyrrverandi lögmaður stefnenda hafi svarað bréfinu og  hafnað því að stefndi eða Rafveitan ehf. kæmi frekar að málinu.

            Stefndi vísar máli sínu til stuðnings til 16. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Úrbótaréttur seljanda eigi við í málinu. Hafnar stefndi því að 15. gr. sömu laga eigi við í málinu.

            Með bréfi lögmanns stefnda 22. júlí 2008 hafi stefndi lýst yfir vilja sínum til að bæta úr og ljúka þeim liðum sem eftir væri að vinna samkvæmt niðurstöðu matsmanns. Í því bréfi hafi jafnframt verið lýst yfir að ótvírætt væri að stefnendur hefðu þegar greitt fyrir alla þá verkliði sem þar séu nefndir. Hafi stefndi lofað að vinna verkið án frekari greiðslna. Þó hafi hann gert athugasemd vegna reyndarteikninga þar sem stefndi telji að almennt falli slíkur aukakostnaður á verkkaupa. Með þessu hafi stefndi sýnt vilja sinn í verki til að ljúka því sem eftir hafi verið að gera í húsinu varðandi raflagnir. Varðandi vaxtakröfur stefnenda bendi stefndi á að hann hafi fyrst verið krafinn um greiðslu bóta á grundvelli matsgerðar samkvæmt bréfi lögmanns stefnenda 4. júlí 2008. Matsgerðin hafi þó legið fyrir 29. september 2007 og hafi engar skýringar fengist á þessum drætti.

            Stefndi Sveinn Logi kom fyrir dóm og greindi frá málsatvikum eins og að framan greinir.

 

VIII.

            Stefndi Oddur Th. Guðnason er fyrirsvarsmaður Flotgólfs ehf. Það félag annaðist flotun gólfa og gifsun á innveggjum í Jórsölum 18, Kópavogi. Samhliða því var stefndi Oddur skráður múrarameistari á fasteigninni. Oddur kom fyrir dóm og kvað hann stefnda Hallgrím hafa leitað til sín og beðið sig um að gera tilboð. Vinna hans hafi einungis verið í sambandi við Flotgólf ehf. Ekki hafi verið haft samband við hann frekar þegar lagning á náttúrusteini hafi byrjað. Meðstefndi Baldur Baldursson hafi annast flísalögn í húsinu og lagningu náttúrusteins. Baldur hafi komið að verkinu án atbeina stefnda Odds. Flotgólf ehf. hafi unnið sína vinnu í samræmi við tilboð og hafi reikningur félagsins verið greiddur. Engar kröfur séu gerðar á hendur Flotgólfi ehf. og sé það félag ekki aðili að þessu dómsmáli. Oddur kveðst hafa lokið sinni vinnu í janúar 2005 og hafi hann ekki heyrt af málinu fyrr en með þingfestingu stefnu þann 12. nóvember 2008.

            Stefndi byggir á því að hann hafi einungis tekið að sér að hafa umsjón með verkþáttum sem Flotgólf ehf. hafi annast. Engir samningar hafi verið gerðir milli aðila um aðkomu stefnda að fleiri verkþáttum, hvorki varðandi vinnu eða umsjón. Sérstök athygli er vakin á því að stefndi hafi ekki tekið greiðslu fyrir störf sín sem múrarameistari. Meðstefndi Baldur hafi því komið að verkinu án atbeina stefnda Odds og ekki starfað undir umsjón Odds. Því hafni stefndi því að 15. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup eigi við um réttarsamband aðila. Það hafi verið Flotgólf ehf. sem hafi selt stefnendum þjónustu við flotun gólfa og pússningu veggja. Stefndi Oddur hafi ekki selt stefndu neina þjónustu gegn endurgjaldi.

            Þá hafnar stefndi því að almenna skaðabótareglan eigi við. Engin gögn hafi verið lögð fram um saknæma háttsemi stefnda né sýnt fram á að stefndi hafi valdið stefnendum tjóni á nokkurn hátt.

            Þá er á því byggt að stefnda hafi ekki verið gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum að við dómkvaðningu matsmanns eða við framkvæmd mats. Það sé ekki í samræmi við 2. mgr. 61. gr. og 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Því verði ekki byggt á niðurstöðum umrædds mats gagnvart stefnda.

            Þá byggir stefndi á að stefnendur hafi misst hugsanlega kröfu á hendur stefnda fyrir tómlæti. Stefndi og Flotgólf ehf. hafi ekki komið að framkvæmdum í Jórsölum síðan í janúar 2005. Frá þeim tíma hafi liðið 34 mánuðir þar til málið var þingfest.

            Stefndi mótmælir sérstaklega dráttarvaxtakröfu stefnenda. Engar kröfur hafi verið gerðar á hendur stefnda fyrr en með stefnu í málinu.

 

IX.

            Af hálfu stefnda Gólfefnavals ehf. er því haldið fram að stefndi Hallgrímur hafi við afhendingu parkets tekið við parketinu og kvittað fyrir móttöku þess á sérstakan afhendingarseðil. Á afhendingarseðli séu gæði parketsins samþykkt og sé það bindandi fyrir stefnendur. Þar sé gerð rækileg grein fyrir að aðgæslu sé þörf varðandi rakastig í gólfi og að parket sé með réttu rakastigi þegar það er lagt niður. Stefndi beri enga ábyrgð á rakastigi parkets. Þá benda stefndu á að umboðsmaður stefnenda, stefndi Hallgrímur, hafi óskað eftir því að efri hæð yrði ekki rakavarin.

            Öllum hugsanlegum kröfum sem stefnendur kynnu að hafa átt á hendur stefnda hafi verið lokið með samkomulagi við eftirlitsmann stefnenda en samið hafi verið um afslátt að fjárhæð 130.000 krónur. Engin mótmæli hafi komið fram varðandi þetta samkomulag. Báðir aðilar séu bundnir af þessu samkomulagi og eigi stefnendur því ekki frekari kröfur á hendur stefnda.

            Orsakavaldur skemmda sé fyrst og fremst frágangur í baðherbergi sem hafi verið áfátt. Raki frá baðherbergi hafi leitt til þess að tjón hafi orðið á parketi. Gífurlegur raki hafi verið í húsinu sem hafi valdið skemmdum á parketinu.

            Stefndi hafi ekki fengið að ljúka verki sínu þar sem stefnendur hafi sjálf viljað koma að því. Þess vegna hafi verkið farið úr böndum og verði stefnda ekki kennt um það. Samkvæmt 16. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup hafi stefndi átt rétt til úrbóta og hafi stefnendur ekki haft ástæðu til að hafna beiðni stefnda um að nota úrbótarétt sinn.

            Stefndi mótmælir alfarið niðurstöðu matsgerðar, bæði hvað varðar fjárhæðir og þá niðurstöðu að galli hafi verið á verki stefnda. Hin almenna skaðabótaregla eigi ekki við í málinu þar sem ásetningur sé ekki fyrir hendi hvað stefnda varðar.  Stefndi mótmælir því að 15. gr. laga nr. 40/2002 eigi við í málinu. Þá mótmælir stefndi ennfremur því að 40. gr. laga 50/2000 um lausafjárkaup komi til greina í lögskiptum aðila.

            Af hálfu stefnda Gólfefnavals ehf. kom fyrir dóminn Gunnar Þór Jóhannesson, fyrirsvarsmaður stefnda, Högni Stefán Þorgeirsson sem lagði parketið og Hjálmar Guðmundsson sem lagði parket á stiga. Í máli Gunnars kom m.a. fram að Hallgrímur hafi beðið hann um að gera tilboð miðað við að koma parketinu á byggingarstað. Síðan hafi hann verið beðinn um að gera annað tilboð þar sem vinna væri innifalin. Lagning parkets á stiga hafi verið undanskilin. Hallgrímur hafi ákveðið að ekki væri þörf á að rakaverja efri hæð. Gunnar kvað það mjög algengt að leggja gegnheilt parket á upphitað gólf. Hins vegar yrði að fara varlega með að hita gólfið. Hann taldi alla framkvæmd hafa verið í lagi af þeirra hálfu. Parketið hafi verið látið bíða í húsinu í 10 daga og rakastig þess mælt áður en það var lagt. Þá hafi rakavarnarlag verið sett til öryggis á neðri hæðina. Gunnar kvaðst hafa talið lagningu á stiga vera aukaverk og hafi Hallgrímur samþykkt það. Í máli Högna Stefáns Þorgeirssonar kom m.a. fram að hann hafi lagt parket á neðri hæð að hluta. Rakastig gólfs hafi verið mælt og slökkt á hita í gólfi. Rakastig hafi verið eðlilegt í parketi. Rakavarnarlag hafi verið sett til öryggis. Hann hafi mælt svo fyrir að ekki mætti hækka hitann í gólfinu en nokkrum dögum síðar hafi hann komið í húsið og þá hafi verið búið að keyra hitann upp. Málarar á staðnum hafi viðurkennt að hafa gert það. Hann kvaðst hafa slökkt á hitanum og látið Hallgrím vita.

           

X.

            Valdimar Þorsteinsson, fyrirsvarsmaður Blikksmiðsins ehf., sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að Blikksmiðurinn ehf. hefði oft áður unnið fyrir Glámu Kím og hafi þau verk gengið vel. Fyrst hafi hann verið fenginn á staðinn til að gera útloftun frá arni. Söguð hafi verið rauf í gólfið og komið fyrir rörum. Seinna hafi hann verið fenginn til að sjá um útsog frá böðum og frá háfi í eldhúsi. Stefndi Hallgrímur hafi verið með hugmyndir um hvernig best væri að gera þetta og lagt línurnar en starfsmenn stefnda hafi síðan tekið að sér að útfæra hugmynd Hallgríms. Lokið hafi verið við þessi verk en svo hafi þeir verið kallaðir aftur til vegna þess að ákveðið hafi verið að breyta útloftun frá eldhúsi. Ákveðið hafi verið að nota veggháf sem tæki loftið niður við gólf. Þess vegna hafi verið settur stokkur utan á vegginn í eldhúsi og hann þynntur og breikkaður út og felldur inn í. Þessu verki hafi verið lokið og hafi hann ekki frétt meira af því fyrr en rafvirki hafi kallað í hann til að skipta um mótor. Kvaðst Valdimar hafa farið á staðinn og skipt um mótor og tekið þann eldri á fullu verði til baka. Valdimar taldi það misskilning hjá matsmanni að Blikksmiðurinn ehf. hafi komið að útloftun frá eldhústækjum. Valdimar kvað Hallgrím hafa ákveðið allt í þessu sambandi en stefndi útfært hugmyndir Hallgríms. Engar sérstakar teikningar hafi legið fyrir og taldi Valdimar að ekki væri þörf á teikningum í svo litlu verki.

            Stefndi mótmælir því að gert hafi verið tilboð í verkið eins og haldið sé fram í stefnu. Verkið hafi verið þess eðlis að ekki hafi verið ljóst hvernig standa ætti að því. Verkinu hafi verið breytt á staðnum og hafi það verið aukaverk. Allt hafi þetta leitt til meiri kostnaðar.

            Í matsgerð sé áætluð lagfæring á útloftun frá eldhústækjum, þ.e. ísskáp og ofnum, að fjárhæð 22.000 krónur. Í þessu sambandi tekur stefndi fram að á engan hátt sé unnt að átta sig á því á hvaða hátt þessi krafa snúi að stefnda. Hann hafi ekki verið beðinn um þetta verk.

            Þá telji matsmaður að tengja þurfi blásara við arinn. Stefndi tekur fram í þessu sambandi að hann hafi valið rafmagnsviftu fyrir útsog. Tenging viftunnar sé honum óviðkomandi og það sé rafvirkjameistara að sjá um það.

            Þá bendir stefndi á að stefndi Hallgrímur hafi samþykkt allar athafnir stefnda og jafnframt reikninga frá stefnda. Hallgrímur sé fagmaður og hafi verið ráðinn sérstaklega af stefnendum til að gæta hagsmuna þeirra. Stefnendur geti ekki borið fyrir sig að þeir hafi ekki þekkt til málsins og að þeir hafi ekki vitað hvað Hallgrímur samþykkti. Allt sem Hallgrímur hafi samþykkt sé bindandi gagnvart stefnendum.

            Þá ber að líta til þess að niðurstaða matsmanns sé að greinilegt sé á reikningum Blikksmiðsins ehf. að hann hafi verið að vinna í útseldri tímavinnu en ekki tilboðsverki. Í ljósi skorts á hönnun og slakrar samræmingar og verkumsjónar frá hendi Glámu Kím sé það mat matsmanns að Blikksmiðurinn ehf. hafi ekki krafist of hás endurgjalds fyrir sína vinnu.

            Þá mótmælir stefndi því að 42. gr. byggingarreglugerðar eigi við í málinu.

 

XI.

Þann 10. desember 2008 þingfesti gagnstefnandi, Gólfefnaval ehf., gagnstefnu þar sem gerðar eru kröfur um að gagnstefndu, Óskar Valtýsson og Guðbjörg Rannveig Jónsdóttir, verði in solidum dæmd til að greiða gagnstefnanda 619.566 krónum ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2006 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar.

Gagnstefnandi útskýrir kröfu sína þannig að tilboðsverð fyrir parket og lagningu þess  hafi verið 1.764.000 krónur. Gagnstefndu hafi greitt án athugasemda 1.316.006 krónur. Tilboðið hafi verið lækkað um 127.995 krónur vegna færri fermetra en áætlað hafði verið. Mismunur og eftirstöðvar séu því 320.000 krónur. Við þá fjárhæð hafi bæst aukaverk vegna spörtlunar, rakavarnargrunns og vinnu að fjárhæð 141.567 krónur, aukaverk vegna vinnu við stiga 256.000 krónur og magnaukning vinnu að fjárhæð 32.000 krónur eða samtals 749.567 krónur. Þegar tekið sé tillit til afsláttar vegna samkomulags aðila að fjárhæð 130.000 krónur séu eftirstöðvar 619.567 krónur sem sé stefnukrafa í gagnsök.

            Aðalstefnendur mótmæla framangreindum kröfum gagnstefnanda. Aðalstefnendur hafi samþykkt tilboð frá gagnstefnanda og sé það eini samningurinn sem sé milli aðila. Er gagnstefnandi hafi átt að hefja vinnu við að leggja parketið hafi hann neitað að gera það án þess að nota rakavarnarlag á neðri hæð. Aðalstefnendur hafi því þurft að samþykkja það og ekki haft tök á að meta hvort nauðsyn væri á slíkum efnum. Aðalstefnendur telja fráleitt að þetta hafi átt að leiða til viðbótarkostnaðar. Gagnstefnandi hafi mátt vita, er hann gerði tilboð sitt, að nota þyrfti rakavarnargrunn. Aukakrafa vegna þessa eigi því ekki rétt á sér og teljist ekki viðbótarverk í skilningi 8. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Sama sé að segja um lagningu parkets á stiga. Það verk hafi verið hluti tilboðs. Kröfur gagnstefnanda um aukaverk séu tilhæfulausar með öllu og sé þeim mótmælt. Reikningar gagnstefnanda séu grundvallaðir á einhverju öðru en tilboði því sem aðalstefnendur samþykktu.

            Tilgreindur afsláttur að fjárhæð 130.000 krónur í gagnstefnu sé rangnefni. Um sé að ræða frádráttarfjárhæð sem samið hafi verið um vegna skemmda sem menn á vegum gagnstefnanda hefðu unnið á veggjum innanhúss með hroðvirknislegum vinnubrögðum sínum. Hafi þurft að fá málara til að gera við skemmdirnar.

            Þá sé til þess að líta að parketið á öllu húsinu sé gallað samkvæmt niðurstöðu matsmanns og talið ónýtt. Allar kröfur um frekari greiðslur séu því ósanngjarnar af hálfu gagnstefnanda. Gagnstefnandi hafi í raun skilað ónýtu og ókláruðu verki.

 

 

 

XII.

            Aðalstefnendur festu kaup á einbýlishúsinu Jórsölum 18 í Kópavogi í september 2005. Húsið var þá fokhelt að innan en tilbúið að utan. Þar sem aðalstefnendur er  ekkibyggingarfróð ákváðu þau að fá fagaðila til þess að hafa yfirumsjón með öllum innanhússframkvæmdum, þ.e. hönnun og verkumsjón. Gerðu þau það í því skyni að vanda til hönnunar og efnisvals, til að tryggja að fagmenn kæmu að verkinu og til að tryggja að kostnaður yrði eðlilegur við framkvæmdirnar. Þau höfðu heyrt að aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf., sem reka arkitektastofuna Glámu Kím, tækju að sér slík verkefni og settu sig í samband við þá. Þessir aðilar málsins gerðu með sér samkomulag 28. júlí 2004 og byggðist það á tilboði Glámu Kím. Í tilboðinu segir m.a. að Gláma Kím geri tilboð í hönnunar- og umsjónarvinnu vegna Jórsala 18. Vinnan felist m.a. í hönnun á heildarfyrirkomulagi, vali á gólfefnum og samsetningu þeirra, hönnun á innréttingum,  lýsingu, vali á litum, hurðum og húsgögnum. Samkvæmt samningnum skyldi Gláma Kím annast lokaúttekt á einstökum verkþáttum og hafa umsjón með vali á iðnaðarmönnum ásamt samhæfingu og eftirlit á byggingarstað. Þessi verkþættir skyldu unnir í tímavinnu utan tilboðs.

            Aðalstefndi Hallgrímur Friðgeirsson, sem er innanhússarkitekt að mennt og starfsmaður aðalstefnda Arkitekta Laugavegi 164 ehf., kom fram fyrir hönd Glámu Kím gagnvart aðalstefnendum. Fram hefur komið í málinu, og er það óumdeilt, að Hallgrímur sá alfarið um val á byggingarstjóra og iðnaðarmönnum og samdi við þá. Hallgrímur óskaði sérstaklega eftir því við aðalstefnendur að hann einn væri í samskiptum við iðnaðarmenn en aðalstefnendur kæmu þar ekki að. Þá er því ekki mótmælt að Hallgrímur sá alfarið um að afla tilboða hjá iðnaðarmönnum og verktökum og fór yfir reikninga þeirra þegar þeir bárust. Þegar hann hafði fullvissað sig um að þeir væru réttir sendi hann aðalstefnendum tölvupóst  þar sem hann tiltók þá fjarhæð sem þau áttu að greiða. Hallgríms og aðalstefnenda fóru að mestu leyti fram í tölvupósti sem hefur verið lagður fram í málinu.

            Af framansögðu má sjá að aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf. og Hallgrímur tóku að sér sem fagmenn og sérfræðingar, gegn greiðslu, að ljúka við húsið að innan frá því að vera fokhelt og til þess að verða fullbúið. Í verki þeirra fólst m.a. hönnun og umsjón, val á iðnaðarmönnum og eftirlit með því að reikningar væru sanngjarnir og gerðir samkvæmt tilboðum og jafnframt eftirlit með því að öll verk í húsinu væru faglega unnin. Fram hefur komið í málinu að aðalstefnendur töldu sig vera að kaupa þjónustu sérfræðinga á þessu sviði og lögðu allt sitt traust á þá.

            Aðalstefnda Oddi Guðnasyni er stefnt sem skráðum múrarameistara hússins vegna þess tjóns sem hlaust af lagningu náttúrsteins á baði. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 beri hann ábyrgð gagnvart stefnendum á að múrverk í húsinu sé í samræmi við viðurkennda verkhætti, samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Aðalstefndi Oddur er fyrirsvarsmaður Flotgólfs ehf. sem annaðist flotun gólfa og gifsun innveggja að Jórsölum 18, Kópavogi. Fram hefur komið í málinu að aðalstefndi kom aðeins að þessum verkþáttum en ekki flísalagningu á forstofu, eldhúsi og böðum. Hallgrímur hefur viðurkennt í skýrslu sinni fyrir dómi að hafa ráðið Baldur Baldursson múrara til að annast flísalögn og hafi það verið án samráðs við Odd. Baldur starfaði því undir verkstjórn Hallgríms en ekki Odds og upplýst er að Oddur tók ekki greiðslu fyrir störf sín sem múrarameistari. Enginn samningur var gerður af hálfu aðalstefnanda við Odd í tengslum við lagningu náttúrusteins, heldur var gengið fram hjá honum sem múrarameistara þegar kom að þeim verkþætti. Hann verður því sýknaður  af kröfum aðalstefnenda í málinu.

            Aðalstefnda Blikksmiðnum ehf. er stefnt annars vegar vegna galla á verki hans og hins vegar til að þola endurgreiðslu á ofgreiddum reikningi.  Í matsgerð er komist að þeirri niðurstöðu að galli á verki Blikksmiðsins ehf. sé þríþættur. Í fyrsta lagi sé eftir að tengja viftu við eldavél, í öðru lagi að tengja blásara frá arni og í þriðja lagi að lagfæra útloftun frá eldhústækjum. Galla þennan metur matsmaður að fjárhæð 130.000 krónur.

            Það er álit dómsins að tvö fyrstu atriðin séu í verkahring rafvirkja og verður Blikksmiðurinn ehf. því ekki talinn ábyrgur fyrir þessum verkþáttum. Varðandi síðastgreinda atriðið, að lagfæra útblástur frá eldhústækjum, er upplýst í málinu, bæði með framburði Hallgríms og fyrirsvarsmanns aðalstefnda Blikksmiðsins ehf., Valdimars Þorsteinssonar, að aldrei var óskað eftir að Blikksmiðurinn tæki þetta verk að sér. Vinna Blikksmiðsins ehf. telst því á engan hátt gölluð.

            Aðalstefnendur telja að Blikksmiðurinn ehf. hafi ekki staðið við tilboð sitt að fjárhæð 529.731 króna heldur gert aðalstefnendum reikning að fjárhæð 1.118.212 krónur sem þau hafi greitt. Krefjast aðalstefnendur endurgreiðslu á mismun. Hér að framan er það rakið hvernig verki Blikksmiðsins ehf. var margbreytt af hálfu Hallgríms eftir að verkið hófst og eftir að tilboð var lagt fram. Starfsmenn Blikksmiðsins ehf. framkvæmdu þær breytingar sem Hallgrímur óskaði eftir og Hallgrímur samþykkti síðan reikninga aðalstefnda fyrir hönd aðalstefnenda. Matsmaðurinn segir að vegna skorts á hönnun, slakrar samræmingar og verkumsjónar af hendi Glámu Kím sé Blikksmiðurinn ehf. ekki að krefjast of hás endurgjalds fyrir sinn verkþátt. Aðalstefndi Blikksmiðurinn ehf. verður því alfarið sýknaður af kröfum aðalstefnenda í málinu.

            Í matsgerð segir matsmaður að verk pípulagningarmeistara sé ekki haldið göllum nema að því leyti að eftir sé að stilla gólfhita og ganga frá og merkja upp inntaksgrind. Metur hann kostnað vegna þessa 92.000 krónur. Í matsgerð segir jafnframt að ekki sé  unnt að stilla gólfhitakerfi hússins fyrr en nýtt parket hafi verið lagt þar sem loftbil sé nú milli parkets og steins. Verktaki gat því í raun ekki stillt kerfið.  Dómurinn telur ofangreind atriði vera ólokin verk en ekki galla. Engin gögn hafa verið lögð fram í málinu sem sína fram á að greitt hafi verið fyrir þessi verk og um þetta var ekki fjallað sérstaklega við aðalmeðferð málsins. Verður því þessi krafa á hendur aðalstefndu Arkitektum Laugavegi 167 ehf., Hallgrími, Guðmundi og TVT ehf. ekki tekin til greina.

            Rafvirkjameistaranum Sveini Loga Björnssyni er stefnt sem skráðum meistara á húsinu. Fyrir liggur að annar rafvirki, Guðmundur Yngvason, vann verkið og var hann ekki á vegum aðalstefnda Sveins Loga. Samkvæmt gögnum málsins gengu samskipti við rafverktaka illa. Frumherji ehf. tók út verk hans 18. okt. 2005 og gerði fjölmargar athugasemdir. Ekki kom þó rafvirkinn til þess að ljúka vinnu sinni og þann 18. nóvember 2005 gerðu Gláma Kím, aðalstefnandi Óskar og Guðmundur Yngvason með sér samkomulag um að Guðmundur lyki verkinu fyrir 25. nóvember 2005 og fengi þá fullnaðargreiðslu. Ekkert heyrðist frá honum fyrr en 17. janúar 2006 en þá sendi hann Óskari tölvupóst og sagðist koma daginn eftir. Honum var svarað með því að aðalstefnendur hefðu nú ákveðið að doka við og óskað eftir allsherjarúttekt á húsinu. Með bréfi 14. febrúar 2006 var því hafnað af hálfu aðalstefnenda að aðalstefndi Sveinn Logi fengi að ljúka verkinu. Samkvæmt framansögðu þykir Sveinn Logi hafa fyrirgert rétti sínum til úrbóta samkvæmt 16. gr. laga nr. 42/2000 þar sem tæpir tveir mánuðir liðu frá því verkinu átti að vera lokið samkvæmt sérstöku samkomulagi aðila 18. nóvember 2005 uns Guðmundur Yngvason bauðst til þess  þann 17. janúar að koma og ljúka sínum verkþætti.

            Aðalstefnendur töldu galla á verki rafvirkjans og óskuðu mats á því. Matsgerð er þeim annmörkum háð að matsmaður metur saman kostnað vegna galla og ólokinna verka án þess að greina á milli. Við aðalmeðferð var ekki gerð nánari grein fyrir þessu. Dómurinn getur því ekki tekið til greina kröfu aðalstefnenda að þessu leyti nema sem varðar fjóra matsliði sem matsmaður telur einungis galla á verkinu. Gátu dómendur sannreynt það í framlögðum undirgögnum frá Frumherja hf. Þessir matsliðir eru að fjárhæð 11.000 krónur, 6.000 krónur, 22.000 krónur, 21.000 krónur og 35.000 krónur eða samtals 95.000 krónur. Einn lið í matsgerð, að fjárhæð 105.000 krónur, telur matsmaður vera galla sem er vegna þess að lagnir vanti í töflu, eftir sé að merkja og gera reyndarteikningar. Ekki verður talið að gerð reyndarteikninga sé á könnu iðnmeistara nema sérstaklega sé samið um það. Í skýrslu sinni fyrir dómi treysti matsmaður sér ekki til að kveða á um hvernig kostnaður þessa liðs matsgerðar skiptist og eru því ekki efni til að taka til greina kröfu aðalstefnenda samkvæmt þessum lið matsgerðar. Niðurstaða dómsins varðandi kröfur á hendur aðalstefnda Sveini Loga er því sú að hann verður dæmdur til að greiða aðalstefnendum 95.000 krónur á grundvelli  15. gr. laga nr. 42/2000, enda þykja reglur um tómlæti ekki eiga við í málinu.

            Aðalstefndi Baldur Baldursson, múrari, lagði náttúrustein á böð og á gólf í forstofu og eldhúsi. Hann heldur því fram að hann hafi verið að vinna fyrir Hallgrím en ekki aðalstefnendur og beri þess vegna að sýkna hann vegna aðildarskorts. Hann hefur þó ekki sýnt fram á, t.d. með því að leggja fram reikning,  að Hallgrímur hafi verið hans viðsemjandi. Þessi krafa aðalstefnda Baldurs verður því ekki tekin til greina. Með undir- og yfirmati er sannað að lagning náttúrusteins á böðum var gölluð og olli það stórtjóni. Upplýst er í málinu að Baldur taldi ráðlegast að fúga en Hallgrímur, hönnuður hússins, réði og fyrirskipaði að náttúrusteinninn skyldi lagður án þess að fúgur væru hafðar í milli. Niðurstaða yfirmats er að þessi hönnun sé vonlaus og hefði aldrei getað leitt til annars en tjóns. Fram kemur í framburði Hallgríms fyrir dómi og í framlögðum bréfaskriftum aðila að til hafi staðið að bera sílan í raufar milli flísa á baði og taldi Hallgrímur að það hefði komið í veg fyrir leka. Í framburði annars yfirmatsmanns kemur hins vegar fram að það hefði ekki skipt neinu máli þar sem sílanefni getur ekki brúað sprungu sem er meira en 0,2 millimetrar að breidd. Það er því niðurstaða dómsins að röng hönnun sé fyrst og fremst orsök þess tjóns sem varð vegna leka frá baði. Verður aðalstefndi Baldur því sýknaður af kröfu aðalstefnenda sem lýtur að galla á lagningu náttúrusteins á baði.

            Bæði undir- og yfirmatsmenn hafa staðreynt galla á lagningu náttúrusteins á gólfi á forstofu svo og í baði þar sem nokkrar flísar eru brotnar eða lausar. Ekki verður aðalstefndi Baldur talin skaðabótaskyldur vegna flísa sem brotnuðu eftir að hann lauk verki sínu en hins vegar verður lögð skaðabótaskylda á hann vegna þeirra flísa sem lausar eru og matsmaður metur að kosti 103.000 krónur að gera við.

            Aðalstefnendur gera jafnframt endurkröfu á hendur Baldri að fjárhæð 90.000 krónur sem er mismunur á tilboðsfjárhæð, 980.000 krónur, og þeirri fjárhæð er aðalstefnendur greiddu Baldri, 1.070.000 krónur. Aðalstefndi Baldur hefur útskýrt þennan mismun þannig að um magnaukningu frá tilboði hafi verið að ræða sem Hallgrímur hafi samþykkt. Af framlögðum gögnum má ráða að samþykki Hallgríms hafi legið fyrir og eru aðalstefnendur bundnir af samþykki hans. Verður þessi krafa aðalstefnenda á hendur aðalstefnda Baldri því ekki tekin til greina.

            Gagnstefnandi Gólfefnaval ehf. seldi aðalstefnendum parket og sá jafnframt um lagningu þess. Engu máli skiptir því afhendingarseðill, sem Hallgrímur kvittaði á þegar hann móttók parketið að Jórsölum 18, en þar segir að rétt meðhöndlun parketsins sé á ábyrgð móttakanda. Gagnstefnandi bar því að öllu leyti ábyrgð á parketinu, bæði vörunni sjálfri og ennfremur því að varan væri rétt meðhöndluð á byggingarstað, þ.m.t. að hætta stafaði ekki af raka í gólfi og að rakstig parketsins væri rétt við niðurlagningu. Samkvæmt niðurstöðu yfirmatsmanna brugðust þessi atriði hjá gagnstefnanda. Rifur milli borða eru merki um að parketið hafi verið lagt of rakt á en þá rýrnar það og verpist. Hiti í gólfi á jarðhæð, eins og er að Jórsölum 18, eykur hættuna en er ekki orsakavaldur. Rifur á milli parketborða í stofu á jarðhæð eru allt að 1 mm víðar en í turnherbergi á annarri hæð eru þær allt að 3-3,5 mm víðar. Það er því niðurstaða dómsins að aðalstefnendur hafi orðið fyrir tjóni af völdum gagnstefnanda. Niðurstaða yfirmats er hins vegar sú að orsök þess að parket á húsinu telst ónýtt með öllu sé tvíþætt, annars vegar vegna of mikils raka í parketinu við niðurlagningu og hins vegar vegna raka frá baðherbergjum. Gólfefnavali ehf. er hins vegar ekki stefnt til ábyrgðar vegna galla á parketi á neðri hæð hússins, sbr. 4. kröfuliður, heldur einvörðungu vegna parkets á stiga og efri hæð. Hins vegar verður leka frá baði ekki kennt um skemmdir á parketi á stiga og efri hæð heldur verða þær skemmdir taldar á ábyrgð gagnstefnanda eins og framan segir. Krafa aðalstefnenda á hendur gagnstefnanda að fjárhæð 388.000 krónur vegna ágalla á parketi á stiga og efri hæð verður því tekin til greina.

            Krafa aðalstefnenda á hendur aðalstefnda TVT ehf. byggist annars vegar á því að verk TVT ehf. sé gallað og hins vegar á því að aðalstefnendur hafi ofgreitt aðalstefnda. Í því sambandi halda aðalstefnendur því fram að viðbótarverk hefðu átt að vera innifalin í tilboði aðalstefnda og þau hafi verið unnin án beiðni.

            Það er niðurstaða matsmanns að útfærsla TVT ehf. á skökkum veggjum sé ekki haldin göllum og verður því krafa aðalstefnenda, sem reist er á þeim grunni, ekki tekin til greina. Aðalstefnendur gera ennfremur kröfu að fjárhæð 300.000 krónur vegna viðgerðar á rennibraut fyrir hurð. Ekki eru forsendur fyrir dóminn til að taka þessa kröfu til greina þar sem matsmaður var ekki beðinn um að meta þennan meinta galla og gera kostnaðarmat þar að lútandi. Matsmaður kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að klæðning í lofti bílskúrs hafi fallið niður m.a. af þeim sökum að hún hafi verið fest upp með of grönnum heftum. Matsmaður metur kostnað við úrbætur 260.000 krónur og verður sú krafa aðalstefnenda tekin til greina.

            Aðalstefnendur krefjast endurgreiðslu á þóknun til TVT ehf. að fjárhæð 4.954.926 krónur en það er sú fjárhæð sem aðalstefnendur greiddu aðalstefnda umfram tilboð hans. Fullsannað er í málinu að aðalstefndi TVT ehf. vann engin verk nema að beiðni Hallgríms og með samþykki hans, umboðsmanns aðalstefnenda á byggingarstað. Eru aðalstefnendur bundnir af þessu samþykki. TVT ehf. er því sýknað af kröfu aðalstefnenda um að hafa unnið viðbótarverk án þess að leita fyrst eftir samþykki.    

Aðalstefnendur beina framangreindum kröfum sínum jafnframt á hendur byggingarstjóranum, Guðmundi K. Kjartanssyni, á þeim grunni að hann hafi verið á launaskrá hjá TVT ehf. Aðalstefndi Guðmundur var skráður sem byggingarstjóri hússins og verður því litið svo á að hann hafi verið persónulega ábyrgur fyrir hugsanlegum göllum á verki sem byggingarstjóri en ekki fyrirtæki það sem hann starfaði hjá. Verður því hafnað kröfu aðalstefnenda um að TVT ehf. beri einnig ábyrgð á hugsanlegum skaða af verkum byggingarstjórans eins og krafist er vegna rafmagns, loftræstingar, parkets, lagningar náttúrusteins, pípulagna og vegna þóknunar til verktaka. Af sömu ástæðu verður kröfum aðalstefnenda á hendur TVT ehf. um afnotamissi og miska ekki teknar til greina.

            Niðurstaða málsins varðandi aðalstefnda TVT ehf. verður því sú að hann verður dæmdur til að greiða aðalstefnendum 260.000 krónur.

            Aðalstefnendur gera kröfu á hendur aðalstefndu Arkitektum Laugavegi 164 ehf. og Hallgrími, in solidum vegna allra kröfuliðanna fimmtán í stefnu, þ.e. vegna galla á verkum iðnmeistara og verktaka, vegna reikningsgerðar þeirra og vegna afnotamissis og miska.

            Hér að framan er það rakið og er óumdeilt í málinu að aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf. og Hallgrímur tóku að sér hönnun, verkumsjón, eftirlit og úttektir. Þeir tóku einnig að sér að afla tilboða, réðu iðnaðarmenn og verktaka til verksins fyrir hönd aðalstefnenda og yfirfóru reikninga áður en aðalstefnendur greiddu þá. Ekki var ætlast til að aðalstefnendur væru í samskiptum við iðnaðarmenn heldur kom Hallgrímur að öllu leyti fram fyrir hönd þeirra. Samkvæmt samþykki aðila fengu aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf. og Hallgrímur greitt fyrir verkumsjón og eftirlit. Dómendur eru sammála matsmanni um að í eftirliti hafi falist að fylgjast með því að verktakar skiluðu verki sínu af þeim gæðum og innan þess tíma sem samið var um. Aðalstefnendur voru neytendur í skilningi 3. mgr. 1. gr. laga um þjónustukaup nr. 42/2000 sem giltu um viðskiptin. Aðalstefnendur hafa enga sérþekkingu á sviði húsbygginga og treystu á þjónustu aðalstefndu. Í ljósi þess að aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf. og Hallgrímur eru sérfróðir á þessu sviði og verðlögðu þjónustu sína í samræmi við það ber að gera ríka kröfu til þeirra um vönduð vinnubrögð og hagsmunagæslu fyrir aðalstefnendur. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 42/2000 skal útseld þjónusta, sem veitt er í atvinnuskyni, ávallt vera byggð á fagþekkingu og í samræmi við þá góðu viðskiptahætti sem tíðkast hverju sinni. Aðalstefndu báru ríka leiðbeiningarskyldu samkvæmt 6., 7. og 8. gr. sömu laga. Það er mat dómsins að verk aðalstefndu Arkitekta Laugavegi 164 ehf. og Hallgríms hafi ekki uppfyllt gæðakröfur samkvæmt framangreindum lagaákvæðum og af því hlaust tjón sem þeir bera ábyrgð á samkvæmt meginreglu 15. gr. laga nr. 40/2002. Aðalstefndi Arkitektar Laugavegi 164 ehf. ber ábyrgð á störfum aðalstefnda Hallgríms eftir reglum skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð. Verður nú fjallað um einstaka kröfuliði á hendur aðalstefndu Arkitektum Laugavegi 164 ehf. og Hallgrími í þeirri röð sem þeir koma fram í stefnu.

Í fyrsta lagi er gerð krafa á hendur aðalstefndu Arkitektum Laugavegi 164 ehf. og Hallgrími um greiðslu 1.560.000 króna vegna galla á verki  TVT ehf. Hér að framan er komist að þeirri niðurstöðu að TVT ehf. beri einungis ábyrgð á galla að fjárhæð 260.000 krónur er varðar loft í bílskúr. Galli þessi stafar af því að of grönn hefti voru notuð við uppsetningu loftplatna. Aðalstefndu Aðalsteinn og Hallgrímur þykja ekki bera ábyrgð á þeim galla heldur telst hann sök starfsmanna TVT ehf.

Í öðru lagi eru aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf. og Hallgrímur krafðir um greiðslu vegna galla á verki rafvirkja að fjárhæð 424.000 krónur. Ekki verður talið að eftirlitsskylda þeirra hafi náð til þess að rafvirki lauk ekki við verk sitt og það reyndist gallað að hluta.

Í þriðja lagi eru aðalstefndu krafðir um greiðslu vegna meints galla á loftræstingu hússins. Hér að framan er því hafnað að galli sé á vinnu Blikksmiðsins ehf. og kemur þessi krafa því ekki til álita gagnvart aðalstefndu Arkitektum Laugavegi 164 ehf. og Hallgrími að öðru leyti en því að þeir verða taldir ábyrgir fyrir því að loftræstingu vantar frá eldhústækjum. Að mati dómsins er því tilfelli um hönnunargalla að ræða, sem matsmaður metur að fjárhæð 22.000 krónur. Verður sú krafa tekin til greina.

Í fjórða og fimmta lagi er gerð krafa á hendur aðalstefndu vegna galla á parketi. Samkvæmt yfirmatsgerð er parket ónýtt á öllu húsinu og eru ástæður tvíþættar. Annars vegar að of rakt parket hafi verið lagt niður og hins vegar að lekið hafi frá baði. Hallgrímur réð því að ekki var fúgað á milli flísa eins og nauðsynlegt var. Þá verður talið að aðalstefndu hefðu átt að fylgjast með lagningu parkets og að rétt vinnubrögð væru viðhöfð varðandi rakastig í gólfi og rakastig í parketi. Þessi krafa á hendur aðalstefndu Arkitektum Laugavegi 164 ehf. og Hallgrími verður því tekin til greina að öllu leyti en krafan byggist á kostnaðarmati undirmatsmanns að fjárhæð 2.718.000 krónur að viðbættum kostnaði við að flytja úr húsinu meðan á framkvæmdum stendur, að fjárhæð 300.000 krónur, eða samtals 3.018.000 krónur.

Í sjötta lagi verður talið samkvæmt framansögðu að aðalstefndu beri einnig ábyrgð á lagningu náttúrusteins þar sem það var fyrst og fremst rangri hönnun að kenna að mati yfirmatsmanna að tjón varð eins og rakið er hér að framan. Verður þessi krafa að fjárhæð 2.209.000 krónur tekin til greina samkvæmt kostnaðarmati undirmatsmanns og að auki 450.000 krónur vegna brottflutnings aðalstefnenda af eigninni, en þeirri kröfu hefur ekki sérstaklega verið mótmælt,  eða samtals 2.659.000 krónur. Ljóst þykir að aðalstefnendur verða að flytja í tvígang af eigninni á meðan endurnýjun stendur þar sem böð og parket verða ekki endurnýjuð samtímis. Í  stefnu er gerð krafa um 3.386.387 krónur samkvæmt þessum lið en af gögnum málsins má sjá að um misritun er að ræða.

Í sjöunda lagi er gerð krafa á hendur aðalstefndu Arkitektum Laugavegi 164 ehf. og Hallgrími um greiðslu 92.000 króna vegna pípulagningar. Kröfu aðalstefnenda vegna stillingar á gólfhita og merkingar á inntaksgrind var hafnað hér að framan og vísast til þess. Það sama á einnig við aðalstefndu Arkitekta Laugavegi 164 ehf. og Hallgrím.

Í áttunda lagi eru ekki efni til að fallast á kröfu aðalstefnenda um endurgreiðslu á þóknun til handa aðalstefndu Arkitektum Laugavegi 164 ehf. og Hallgríms að fjárhæð 1.931.957 krónur enda fá aðalstefnendur bættan þann skaða sem orsakaðist af rangri ráðgjöf og eftirliti þeirra.

Í níunda lagi er krafist skaðabóta vegna þóknunar til TVT ehf. að fjárhæð 4.954.926 krónur. Samkvæmt samningi aðila tóku aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf. og Hallgrímur að sér að magntaka og yfirfara reikninga. Þetta eftirlit þeirra brást varðandi tvo reikninga TVT ehf. eins og getið er um hér að framan. Samkvæmt niðurstöðu matsmanns hafa aðalstefnendur ofgreitt TVT ehf. 763.800 krónur. Aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf. og Hallgrímur verða taldir samábyrgir fyrir þessari endurgreiðslu. Sannað þykir í málinu að ákveðið var í samráði við aðalstefnendur að fúga í lofti í alrými. Hins vegar ákvað Hallgrímur án samráðs við aðalstefnendur að láta einnig fúga í herbergjum vegna þess að honum þótti það fallegra, eins og fram kemur í tölvupósti hans til Óskars. Þetta viðbótarverk kostaði 444.800 krónur samkvæmt mati og tilboði og var það ekki kynnt aðalstefnendum  fyrirfram og þeim gefin kostur á að ákveða hvort þau hefðu áhuga á að láta vinna þetta verk. Telur dómurinn að aðalstefndi Hallgrímur hafi í þessu tilfelli ekki fylgt fyrirmælum 8. gr. laga nr. 42/2000 um viðbótarverk og verður hann talin skaðabótaskyldur ásamt aðalstefndu Arkitektum Laugavegi 164 ehf. hvað þetta varðar. Að öðru leyti hefur matsmaður ekki gert athugasemdir við reikningsgerð TVT ehf. en komst að þeirri niðurstöðu að umframkrafin fjárhæð sé öll vegna viðbótaverka sem þörf hafi verið á. Ekki verður talið að fella eigi ábyrgð á hendur aðalstefndu vegna þessa á grundvelli 8. gr. laga nr. 42/2000. Með vísan til gagna málsins, sérstaklega tölvupósta, verður litið svo á að aðalstefnendur hafi mátt gera sér grein fyrir að tilboð TVT ehf. var mjög takmarkað og fjallaði alls ekki um alla verkþætti sem nauðsynlegt var að framkvæma samhliða. Enda greiddu aðalstefnendur athugasemdalaust fyrstu reikninga TVT ehf. þó að þar væri krafið um greiðslu fyrir verk sem bersýnilega voru fyrir utan tilboð, eins og t.d. steypusögun, leigu á ruslagámi o.fl.

Í tíunda lagi er gerð krafa um endurgreiðslu á 588.481 krónu vegna þóknunar til Blikksmiðsins ehf. Það er niðurstaða matsmanns varðandi loftræstikerfi að vegna skorts á hönnun og slakrar samræmingar og verkumsjónar aðalstefndu  Arkitekta Laugavegi 164 ehf. og Hallgríms hafi reikningur Blikksmiðsins ehf. orðið hærri en efni stóðu til. Metur matsmaður að upphaflegt tilboð Blikksmiðsins ehf. hefði verið eðlilegt endurgjald fyrir vinnu hans ef hönnun hefði legið fyrir. Verður því krafa aðalstefnenda á hendur aðalstefndu Arkitektum Laugavegi 164 ehf. og Hallgrími tekin til greina að fjárhæð 588.481 króna.

Í ellefta lagi er það niðurstaða matsmanns að Baldur Baldursson hafi fengið ofgreitt 90.000 krónur þar sem tilboð hans átti að standast miðað við magntölur. Verða aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf. og Hallgrímur taldir bera ábyrgð á þessari ofgreiðslu þar sem aðalstefnendur inntu hana af hendi á þeim grunni að Hallgrímur hafði samþykkt hana sem rétta.

Í tólfta lagi gera aðalstefnendur kröfu á hendur aðalstefndu Arkitektum Laugavegi 164 ehf. og Hallgrími að fjárhæð 196.439 krónur sem er sagður mismunur á tilboði Verkþings-pípulagna ehf. og endanlegs reiknings fyrirtækisins. Væntanlega er hér um viðbótarverk að ræða en þessi kröfuliður fékk ekki umfjöllun við aðalmeðferð og engin gögn liggja frammi um hann. Verður þessi krafa því ekki tekin til greina.

Í þrettánda lagi er krafist endurgreiðslu á þóknun til Flotgólfs ehf. að fjárhæð 54.500 krónur. Þessi krafa fékk ekki heldur umfjöllun við aðalmeðferð og  engin gögn liggja frammi um hana. Hún telst því vanreifuð og verður ekki tekin til greina.

Í fjórtánda lagi krefjast aðalstefnendur 3.000.000 króna vegna afnotamissis og óhagræðis sökum galla sem upp kom í húsinu. Rökstyðja þau kröfu sína á þann veg að þau hafi ekki geta nýtt húsið nema að óverulegu leyti, mikil vinna hafi fylgt því að eiga samskipti við aðalstefndu og þau hafi þurft að standa í ágreiningsmálum vegna alls þessa.   Hér að framan hefur verið fallist á kröfu aðalstefnenda um að þau eigi rétt á bótum vegna flutnings í annað húsnæði meðan á framkvæmdum stendur við endurbætur á húsnæðinu. Ekki þykja efni til að fallast að öðru leyti á kröfur aðalstefnenda samkvæmt þessum kröfulið.

   Í fimmtánda lagi er gerð krafa á hendur aðalstefndu Arkitektum Laugavegi 164 ehf. og Hallgrími á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Skilyrði þykja ekki vera uppfyllt í málinu til að taka til greina kröfu aðalstefnenda um miskabætur.

Aðalstefndu Arkitektum Laugavegi 164 ehf og Hallgrími Friðgeirssyni verða samkvæmt framansögðu gert að greiða aðalstefnendum 7.586.081 krónu (22.000+3.018.000+2.659.000+763.800+444.800+588.481+90.000), enda verður ekki talið að aðalstefnendur hafi fyrirgert rétti sínum vegna tómlætis.

            Aðalstefndi Guðmundur K. Kjartansson, húsasmíðameistari, var byggingarstjóri hússins. Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. skipulags- og byggingarlaga  nr. 73/1997 skal byggingarstjóri vera við stjórn framkvæmda við hvert mannvirki og samkvæmt upphafsákvæði 3. mgr. sömu greinar er hann framkvæmdastjóri þeirra. Sérstaklega er tekið fram að hann beri ábyrgð á að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir, sbr. einnig 118. gr. byggingareglugerðar nr. 441/1998. Samkvæmt 3. mgr. 51. gr. laganna skal byggingarstjóri í upphafi verks ráða iðnaðarmenn með samþykki eigenda. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laganna ber iðnmeistari ábyrgð gagnvart byggingarstjóra og eiganda byggingaframkvæmda á að þeir verkþættir sem hann tekur að sér að hafa umsjón með séu unnir í samræmi við viðurkennda verkhætti, samþykkta uppdrætti, lög- og reglugerðir. Samkvæmt fyrrgreindum lögum og reglugerð hvíla á byggingarstjóra skyldur til að hafa yfirumsjón og eftirlit með byggingarframkvæmdum þeim sem hann stýrir, þ.á m. að iðnmeistarar þeir sem að verki koma sinni skyldum sínum og að framkvæmdin sé með tæknilega og faglega fullnægjandi hætti. Vanræki byggingarstjóri þessa umsjónar- og eftirlitsskyldu sína með saknæmum hætti ber hann skaðabótaábyrgð gagnvart eiganda mannvirkis vegna tjóns sem af hlýst. Samkvæmt  dómum Hæstaréttar í málum nr. 267/2005 og nr. 37/2009 er ábyrgð byggingarstjóra sakarábyrgð eftir almennu skaðabótareglunni. Verður nú fjallað um einstaka liði kröfugerðar aðalstefnenda á hendur byggingarstjóranum, aðalstefnda Guðmundi.

Í fyrsta lagi er gerð krafa á hendur honum fyrir galla á verki TVT ehf. að fjárhæð 1.560.000 krónur. Samkvæmt matsgerð og niðurstöðu dómsins hér að framan kostaði 260.000 krónur að bæta úr galla á verki TVT ehf. vegna lofts í bílskúr. Þessi galli verður metinn byggingarstjóra til sakar og verður hann gerður meðábyrgur vegna þeirra.

Í öðru lagi er gerð krafa á hendur aðalstefnda Guðmundi sem byggingarstjóra vegna meints galla á verki rafvirkjans. Ekki verður fallist á að byggingarstjóri beri ábyrgð á óloknum verkum rafvirkjans sem matsgerð fjallar um. Í matsgerð eru fjórir matsliðir taldir gallar og var fallist á hér að framan að rafvirkjameistari bæri ábyrgð á þeim göllum, samtals að fjárhæð 95.000 krónur. Það er mat dómsins að byggingarstjóri geti ekki haft þekkingu né tækifæri til að fylgjast með öllum vinnubrögðum rafvirkja við lagningu rafmagnsvíra og við annan frágang í lokuðum rýmum. Verður því talið að sakarábyrgð byggingarstjóra nái ekki til þeirra galla sem hér eru til umfjöllunar vegna verks rafvirkjans.

Í þriðja lagi er byggingarstjóri krafinn um skaðabætur vegna meints galla á loftræstingu. Það er niðurstaða dómsins hér að framan að enginn galli hafi verið á vinnu Blikksmiðsins ehf.  við loftræstikerfi hússins og vísast til þess sem að framan segir um það. Krafa á hendur byggingarstjóra verður því ekki tekin til greina hvað þetta varðar.

Í fjórða lagi er byggingastjóri krafin um skaðabætur vegna parkets á neðri hæð að fjárhæð 2.630.000 krónur. Byggingarstjóri verður  talinn bera fulla ábyrgð á þeim skemmdum  sem urðu á parketi hússins á neðri hæð en ekki er gerð krafa á hendur honum vegna stiga og efri hæðar. Verður talið að byggingarstjóri hefði átt að fylgjast með að parket væri lagt niður með réttu rakastigi og að gengið væri frá flísalögn í baði með faglegum vinnubrögðum.

Í fimmta lagi er gerð krafa á hendur byggingarstjóra vegna galla á lagningu náttúrsteins að fjárhæð 3.386.387 krónur. Hér að framan er fjallað um þennan galla og orsakir hans. Það er álit dómsins, sem styðst við yfirmatsgerð, að undirbúningur undir lagningu náttúrsteins og lagning hans hafi verið hefðbundin og faglega unnin. Hins vegar brást hönnun verksins með fyrrgreindum afleiðingum. Þar sem orsök gallans var fyrst og fremst hönnunarmistök verður byggingarstjóri ekki gerður ábyrgur fyrir þessari kröfu.

Í sjötta lagi er það mat dómsins að enginn galli hafi verið á pípulögnum, sbr. hér að framan, heldur sé um ólokið verk að ræða. Byggingarstjóri verður ekki gerður ábyrgur vegna ólokinna verka.

Í áttunda lagi gera aðalstefnendur kröfu um að aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf., Hallgrímur, TVT ehf. og byggingarstjóri greiði 4.954.926 krónur vegna of hárrar þóknunar til TVT ehf. Samkvæmt 3. mgr. 51. gr. skipulags –og byggingarlaga nær ábyrgð byggingarstjóra til þess að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Ekki verður talið að ábyrgð byggingarstjóra taki til ágreinings um uppgjör við verktaka og verður þessi kröfuliður aðalstefnenda því ekki tekinn til greina á hendur aðalstefnda Guðmundi.

            Í níunda lagi er þess krafist að byggingarstjóri sé gerður ábyrgur fyrir því að ekki lá fyrir hönnun á loftræstikerfi hússins og að vinna Blikksmiðsins ehf. varð af þeim sökum kostnaðarmeiri en þörf var á. Það er mat dómsins að það falli fyrir utan ábyrgðarsvið byggingarstjóra að hönnuður hússins ákvað að láta vinna verkið með þessum hætti. Auk þess, eins og að framan segir, nær ábyrgð byggingarstjóra ekki til uppgjörs húseigenda við verktaka.

            Í tíunda og ellefta lagi er gerð krafa á hendur byggingarstjóra vegna afnotamissis,  óhagræðis og miska. Hér að framan var ekki fallist á þessar kröfur aðalstefnenda á hendur meðstefndu Arkitektum Laugavegi 164 ehf., Hallgrími og TVT ehf. og verður talið að svo eigi einnig við um aðalstefnda Guðmund.

   Aðalstefndi Guðmundur K. Kjartansson verður því dæmdur til að greiða aðalstefnendum 2.890.000 krónur (260.000+2.630.000).

Krafa gagnstefnanda í gagnsök er að fjárhæð 619.566 krónur. Fallist verður á með gagnstefnanda að lagning parkets á stiga hafi ekki verið innifalin í tilboði hans. Sama á við spörtlun og vinnu við rakavarnarlag. Þar sem aðalstefnendur hafa ekki gert kröfu á hendur gagnstefnenda vegna galla á lagningu parkets á neðri hæð eru ekki efni til annars en að taka gagnkröfu gagnstefnanda að fullu til greina.

            Heildarniðurstaða málsins, að teknu tilliti til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað samkvæmt lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. lög nr. 10/2009, verður því eftirfarandi í aðalsök samkvæmt kröfuliðum aðalstefnenda í stefnu. Tekið hefur verið tillit til 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts á þeirri vinnu sem eftir er að framkvæma en endurgreiðslu á 60% virðisaukaskatts á þeirri vinnu sem búið var að vinna áður en ný lög tóku gildi. Dæmdar fjárhæðir miðast við undirmatsgerð eins og krafist er. Vaxtakrafa aðalstefnenda verður tekin til grein, enda samrýmist hún ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. 

1.      Aðalstefndu Guðmundur K. Kjartansson og TVT ehf. greiði aðalstefnendum in solidum 226.546 krónur með vöxtum eins og krafist er í stefnu og nánar greinir í dómsorði.

2.       Aðalstefndi Sveinn Logi Björnsson greiði aðalstefnendum 78.273 krónur með vöxtum eins og krafist er í stefnu og nánar greinir í dómsorði.

3.      Aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf. og Hallgrímur Friðgeirsson greiði in solidum aðalstefnendum 19.639 krónur með vöxtum eins og krafist er í stefnu og nánar greinir í dómsorði.

4.      Aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf., Hallgrímur Friðgeirsson og Guðmundur K. Kjartansson greiði aðalstefnendum in solidum 2.431.442 krónur með vöxtum eins og krafist er í stefnu og nánar greinir í dómsorði.

5.      Aðalstefndi Gólfefnaval ehf. greiði aðalstefnendum 334.474 krónur með vöxtum eins og krafist er í stefnu og nánar greinir í dómsorði.

6.      Aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf., Hallgrímur Friðgeirsson og  greiði aðalstefnendum in solidum 2.377.004 krónur með vöxtum eins og krafist er í stefnu og nánar greinir í dómsorði. Aðalstefndi Baldur Baldursson greiði aðalstefnendum in solidum með framangreindum undir þessum lið 87.060 krónur með vöxtum eins og krafist er í stefnu og nánar greinir í dómsorði.

7.      Aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf., Hallgrímur Friðgeirsson, Guðmundur K. Kjartansson og TVT ehf. eru sýknaðir af þessum kröfulið.

8.      Aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf. og Hallgrímur Friðgeirsson eru sýknaðir af þessum kröfulið.

9.      Aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf. og Hallgrímur Friðgeirsson greiði aðalstefnendum in solidum 1.099.238 krónur með vöxtum eins og krafist er í stefnu og nánar greinir í dómsorði.

10.   Aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf. og Hallgrímur Friðgeirsson greiði aðalstefnendum in solidum 554.257 krónur með vöxtum eins og krafist er í stefnu og nánar greinir í dómsorði.

11.   Aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf. og Hallgrímur Friðgeirsson greiði aðalstefnendum in solidum 90.000 krónur með vöxtum eins og krafist er í stefnu og nánar greinir í dómsorði.

12.    Aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf. og Hallgrímur Friðgeirsson eru sýknaðir af þessum kröfulið.

13.    Aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf. og Hallgrímur Friðgeirsson eru sýknaðir af þessum kröfulið.

14.  Aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf., Hallgrímur Friðgeirsson, Guðmundur K. Kjartansson og TVT ehf. eru sýknaðir af þessum kröfulið aðalstefnenda

15.  Aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf., Hallgrímur Friðgeirsson, Guðmundur K. Kjartansson og TVT ehf. eru sýknaðir af þessum kröfulið aðalstefnenda

Í gagnsök verða aðalstefnendur dæmd til að greiða Gólfefnavali ehf. 619.566 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2006 til greiðsludags.

Eftir þessari niðurstöðu verða aðalstefnendur dæmd til að greiða aðalstefnda Oddi Guðnasyni 500.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti og Blikksmiðnum ehf. 400.000 krónur í málskostnað. Málskostnaður milli aðalstefnenda og aðalstefnda Sveins Loga Björnssonar fellur niður. Málskostnaður milli aðalstefnenda og aðalstefnda Baldurs Baldurssonar fellur niður. Málskostnaður milli aðalstefnenda og aðalstefnda TVT ehf. fellur niður. Aðalstefndi Gólfefnaval ehf. greiði aðalstefnendum 500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Aðalstefndi Guðmundur K. Kjartansson greiði aðalstefnendum 1.000.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.  Aðalstefndu Arkitektar Laugavegi 164 ehf. og Hallgrímur Friðgeirsson greiði aðalstefnendum in solidum 2.000.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.

Í gagnsök fellur málskostnaður niður milli gagnstefnanda Gólfefnavals ehf. og gagnstefndu Óskars Valtýssonar og Guðbjargar Rannveigar Jónsdóttur.

Við framangreinda málskostnaðarákvörðun hefur verið tekið tillit til útlagðs kostnaðar aðalstefnenda vegna öflunar matsgerðar.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður  upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Ragnari Ingimarssyni og Stanley Pálssyni verkfræðingum.

 

Dómsorð

Aðalstefndu,  Guðmundur K. Kjartansson og TVT ehf., greiði aðalstefnendum, Óskari Valtýssyni og Guðbjörgu Rannveigu Jónsdóttur,  in solidum 226.546 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. september 2007 til 10. maí 2008 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Aðalstefndi, Sveinn Logi Björnsson, greiði aðalstefnendum 78.273 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. september 2007 til 10. maí 2008 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Aðalstefndu, Arkitektar Laugavegi 164 ehf. og Hallgrímur Friðgeirsson, greiði aðalstefnendum in solidum 19.639 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. september 2007 til 10. maí 2008 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Aðalstefndu, Arkitektar Laugavegi 164 ehf., Hallgrímur Friðgeirsson og Guðmundur K. Kjartansson, greiði aðalstefnendum in solidum 2.431.442 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. september 2007 til 10. maí 2008 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Aðalstefndi, Gólfefnaval ehf., greiði aðalstefnendum 334.474 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. september 2007 til 10. maí 2008 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Aðalstefndu, Arkitektar Laugavegi 164 ehf. og Hallgrímur Friðgeirsson, greiði aðalstefnendum in solidum 2.377.044 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. september 2007 til 10. maí 2008 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Með þeim in solidum greiði aðalstefndi Baldur Baldursson aðalstefnendum 87.060 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. september 2007 til 10. maí 2008 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Aðalstefndu, Arkitektar Laugavegi 164 ehf. og Hallgrímur Friðgeirsson, greiði aðalstefnendum in solidum 1.099.238 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. september 2007 til 10. maí 2008 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Aðalstefndu, Arkitektar Laugavegi 164 ehf. og Hallgrímur Friðgeirsson, greiði aðalstefnendum in solidum 554.257 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. september 2007 til 10. maí 2008 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Aðalstefndu, Arkitektar Laugavegi 164 ehf. og Hallgrímur Friðgeirsson, greiði aðalstefnendum in solidum 90.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. september 2007 til 10. maí 2008 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Aðalstefndi, Oddur Guðnason, er sýknaður af kröfu aðalstefnenda í málinu.

Aðalstefndi, Blikksmiðurinn ehf., er sýknaður af kröfu aðalstefnenda í málinu.

Í gagnsök greiði gagnstefndu, Óskar Valtýsson og Guðbjörg Rannveig Jónsdóttir, gagnstefnanda, Gólfefnavali ehf., 619.566 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2006 til greiðsludags.

Aðalstefnendur greiði aðalstefnda, Oddi Guðnasyni, 500.000 krónur í málskostnað.

Aðalstefnendur greiði aðalstefnda, Blikksmiðnum ehf., 400.000 krónur í málskostnað.

Málskostnaður milli aðalstefnenda og aðalstefnda, Sveins Loga Björnssonar, fellur niður.

Aðalstefndi, Gólfefnaval ehf., greiði aðalstefnendum 500.000 krónur í málskostnað. 

Málskostnaður milli aðalstefnenda og aðalstefnda, Baldurs Baldurssonar, fellur niður.

Málskostnaður milli aðalstefnenda og aðalstefnda, TVT ehf., fellur niður.

Aðalstefndi, Guðmundur K. Kjartansson, greiði aðalstefnendum 1.000.000 krónur í málskostnað.

Aðalstefndu, Arkitektar Laugavegi 164 ehf. og Hallgrímur Friðgeirsson, greiði aðalstefnendum in solidum 2.000.000 krónur í málskostnað.

Í gagnsök fellur málskostnaður niður milli gagnstefnanda, Gólfefnavals ehf., og gagnstefndu, Óskars Valtýssonar og Guðbjargar Rannveigar Jónsdóttur.

                                                           

                                                            Gunnar Aðalsteinsson

                                                            Ragnar Ingimarsson

                                                            Stanley Pálsson