Fundur 12. janúar um réttláta málsmeðferð við málskot til æðri dómstóls

Hinn 1. janúar 2018 tók til starfa nýtt millidómsstig, Landsréttur. Til Landsréttar verður unnt að skjóta úrlausnum héraðsdómstólanna átta og verða úrlausnir hans endanlegar í flestum málum. Í sérstökum tilvikum og að fengnu leyfi Hæstaréttar Íslands má skjóta niðurstöðum Landsréttar til Hæstaréttar.

Af þessu tilefni mun Róbert R. Spanó ræða dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) samkvæmt 6. gr. MSE er varðar álitaefni um réttláta málsmeðferð við málskot til æðri dóms á sviði einkamála og sakamála.

Í erindinu verður fjallað um:

  • Meginreglur sem gilda við túlkun reglunnar um réttláta málsmeðferð þegar reynir á réttinn til aðgangs að dómstólum í tengslum við kæru- og áfrýjunarskilyrði og um áfrýjunarleyfi.
  • Einstaka efniþætti 1. mgr. 6. gr. MSE sem reynt hefur á í dómaframkvæmd MDE við meðferð mála á málskotsstigi, þ. á m. um opinbera málsmeðferð, rétt til viðveru málsaðila í þinghaldi, rétt til aðstoðar lögmanns og um jafnræði málsaðila.
  • Kröfur til rökstuðnings dóma og um svigrúm æðri dóms til að lagfæra annmarka á meðferð máls á lægra stigi.
  • Álitamál er snúa að hæfi og skipun dómara sem á kann að reyna við meðferð mála á málskotsstigi.

Hvað varðar sakamálin verður loks farið nokkrum orðum um 2. gr. 7. viðauka við MSE um rétt til áfrýjunar í sakamálum.

Lögmannafélag Íslands og dómstólasýslan standa fyrir fundinum.

Staður og stund:

Fundurinn fer fram í H sal Hilton Hótel Nordica föstudaginn 12. janúar nk. kl. 12:00 – 13:30.

Framsögumaður:
Róbert R. Spanó dómari við Mannréttindadómstól Evrópu.

Fundarstjóri:
Benedikt Bogason hæstaréttardómari og formaður stjórnar dómstólasýslunnar.

Að loknum framsögum verður opnað fyrir umræður og fyrirspurnir.

Verð er kr. 3.900 pr/mann (hádegisverður innifalinn) og greiðist við innganginn.

Skráning á vef LMFÍ