Fundur um birtingu dóma og vernd friðhelgi barna

Hinn 30. maí 2018 héldu umboðsmaður barna og dómstólasýslan fund með fulltrúum réttarvörslukerfisins og helstu stofnunum og félagasamtökum sem gæta hagsmuna barna. Á fundinum var farið yfir reglur um birtingu dóma og framkvæmdina, bæði hér á landi og annars staðar á Norðurlöndunum. Rædd voru raunveruleg dæmi og upplýsingar úr dómum sem varða börn. Þá var farið sérstaklega yfir nýjar Evrópureglur um persónuvernd. Af dæmum sem rædd voru er ljóst að nákvæmar atvikalýsingar í dómsmálum geta valdið börnum miklum sársauka. Jafnframt getur verið erfitt að tryggja nafnleynd þegar fram koma persónugreinanlegar upplýsingar um einstaklinga sem búa í fámennum samfélögum.

Á fundinum komu fram mörg ólík sjónarmið um hvernig tryggja mætti betur persónuvernd. Þótt fundarmenn hefðu ekki verið á einu máli um leiðir var einhugur um að mikilvægi þess að gæta hagsmuna og friðhelgi barna við birtingu dóma. Þá töldu fundarmenn að samræming milli dómsstiga við dómabirtingu væri mikilvæg. 

Starfshópur á vegum dómstólasýslunnar vinnur um þessar mundir að samræmdum reglum um birtingu dóma á öllum dómstigum. Umræður á fundinum munu gagnast við vinnu innan starfshópsins í því skyni að tryggja aukna vernd barna.