Áhrif einangrunarvistar á fanga

- Fundur á vegum dómstólasýslunnar og Dómarafélags Íslands

Hver er reynslan af ákvæðum sakamála um að dómsúrskurð þurfi til að beita einangrunarvist á meðan á gæsluvarðhaldi stendur? Hvernig hefur þessu úrræði verið beitt á liðnum árum og er þróunin hér á landi í takt við það sem er að gerast í nágrannalöndunum? Hvernig eru aðstæður manna í einangrun, hvaða áhrif hefur slík vist andlega heilsu manna og er ástæða til að endurskoða ákvæði laga sem lúta að einangrunarvist?

Þetta voru helstu spurningarnar sem dómarar og aðstoðarmenn dómara veltu upp á fundi sem dómstólasýslan hélt ásamt Dómarafélagi Íslands á dögunum. Eiríkur Tómasson fv. hæstaréttardómari fór yfir lagaumhverfi einangrunarvistar og Sólveig Fríða Kjærnested sálfræðingur, og sviðsstjóri meðferðarsviðs fangelsismálastofnunar, fjallaði um aðstæður fanga í einangrunarvist, möguleg áhrif einangrunarvistar á einstaklinga og verklag fangelsisyfirvalda. Ingibjörg Þorsteinsdóttir dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og formaður Dómarafélags Íslands var fundarstjóri.


70% gæsluvarðhaldsfanga í einangrun á síðasta ári

Tíu ár eru liðin síðan lög um meðferð sakamála nr. 88/2008 voru samþykkt á Alþingi en meðal annars var þeirri breytingu komið á, að danskri og norskri fyrirmynd, að dómsúrskurð þyrfti til að láta menn sæta einangrun. Fyrir þann tíma var þessi ákvörðun á hendi ákæruvaldsins og eins hve lengi fangar voru látnir sæta einangrun.  

Samkvæmt tölfræði frá fangelsismálastofnun var hlutfall gæsluvarðhaldsfanga sem settir voru í einangrun árið 2018 alls 70% en síðustu fjögur árin á undan rúmlega 60%. Meðaltal daga í einangrun voru 8,5 dagar árið 2018 og gæsluvarðhaldsfangi sat lengst í einangrun í 29 daga. Þá var hlutfall einangrunarvistar af heildartíma gæsluvarðhalds 15,6% árið 2018 en einungis 8,2% árið 2017. Hlutfall þeirra gæsluvarðhaldsfanga sem sæta einangrun á Íslandi er mun hærra en í Danmörku en á hinn bóginn er minni munur á fjölda daga sem menn sitja í slíkri vist ekki eins mikill.

Tími einangrunarvistar hefur styst
Fram kom í erindi Eiríks Tómassonar að samkvæmt 98. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, megi einangrun ekki standa samfleytt lengur en í fjórar vikur nema að sá sem henni sætir sé sakaður um brot sem varðað getur að lögum 10 ára fangelsi. Ekkert hámark er sett ef brotið varðar meira en þessu nemur og taldi Eiríkur rétt að skoða það atriði nánar við næstu endurskoðun laganna. „Þótt einangrun sé mun algengari hér en í Danmörku þá hefur dregið verulega úr notkun þessa úrræðis. Árið 2008, sem er síðasta árið sem gömlu lögin voru í gildi, þá varði einangrun um það bil 30% af samanlagðri gæsluvarðhaldsvist. Tíu árum síðar voru gæsluvarðhaldsfangar í 15,6% af tímanum í einangrun og árið 2017 einungis 8%. Við getur því sagt að dregið hafi úr notkun úrræðisins um meira en helming,“ sagði Eiríkur.

Það er tilhneiging hjá lögreglu og ákæruvaldi að krefjast ávallt einangrunarvistar í upphafi gæsluvarðhalds og í dómskerfinu hefur verið tilhneiging til að taka hana til greina. Eiríkur sagðist setja spurningamerki við það: „Í lögum segir að ekki megi úrskurða gæsluvarðhaldsfanga í einangrun nema að hún sé nauðsynleg fyrir rannsóknarhagsmuni. Hér gildir meðalhófsreglan – að ekki eigi að grípa til þessa úrræðis ef hægt er að ná fram sama markmiði með öðrum leiðum og einangrun á að standa eins stutt yfir og hægt er,“ sagði hann. Þá þurfi saksóknari að rökstyðja fyrir dómara hvers vegna framlengja á einangrunarvist sem staðið hefur í einhvern tíma og gera fullnægjandi greint fyrir framvindu rannsóknar og hvaða rannsóknarhagsmunir krefist áframhaldandi einangrunarvistar. Ekki dugi að vísa til sömu röksemda og settar voru fram í upphafi rannsóknar.

Talsverðar umræður urðu á fundinum um almenn atriði sem hafa ber í huga þegar dómari tekur afstöðu til kröfu um einangrunarvist. Til dæmis þarf hann að skoða hvert sé markmið einangrunarinnar og hversu brýnt það sé að halda viðkomandi í einangrun svo hann geti ekki spillt fyrir rannsókn málsins. Þá hefur eðli brotsins þýðingu og sömuleiðis tímalengd einangrunar. Dómarar þurfa einnig að velta fyrir sér hversu íþyngjandi einangrun sé og aðbúnaði einangrunarfanga, hvaða áhrif einangrun hafi á heilbrigði þess sem því sætir, s.s. með tilliti til aldurs og einstaklingsmiðaðra sjónarmiða.

 

Rannsóknir erfiðar
Sólveig Fríða Kærnested sagði erfitt og flókið að rannsaka áhrif einangrunarvistar en þær rannsóknir sem gerðar hafa verið hefðu þó sýnt að einangrun geti hafti miklar líkamlegar, tilfinningalegar, andlegar og hugrænar afleiðingar, svo sem á minnið. Þá getur einangrunarvist haft áhrif á undirliggjandi geðraskanir og svo virðist sem fólk sé misviðkvæmt fyrir henni. Þættir sem hafa áhrif á einangrunarfanga eru til dæmis óvissa sem varðar þá sjálfa og þeirra persónulega líf, hvers eðlis brotin eru, almenn geðheilsa s.s. taugaraskanir, þroskaskerðingar, persónuleikaeinkenni og í hvaða ásigkomulagi þeir eru í gæsluvarðhaldinu. Sumir virtust ekki bera sýnilegan skaða af á meðan aðrir eigimjög erfitt með að afbera hana.

 

Eftirlit með einangrunarföngum
Eftirlit er haft með heilsu einangrunarfanga en sálfræðingar fangelsismálastofnunar fara einu sinni í viku í fangelsið á Hólmsheiði, þar sem fangar í einangrun eru vistaðir, og athuga hvort þeir sofi, nýti sér útivist og fleira sem viðkemur almennri líðan. Þá eiga fangarnir rétt á að hitta sálfræðing auk annarrar heilbrigðisþjónustu. Þá skal kalla til lækni til að skoða fanga í einangrun, ef unnt er þá daglega.

 

Reglur svipaðar og á Norðurlöndum

Páll Winkel fangelsismálastjóri, sem einnig sat fundinn, sagði að reglur um einangrunarvist væru mjög sambærilegar á Íslandi og Norðurlöndum. Munurinn lægi meðal annars í því að allt fangelsiskerfið á Íslandi væri minna en eitt fangelsi í Danmörku. Hér væru gæsluvarðhalds- og afplánunarfangar saman í fangelsum landsins og því væri ekki hægt að tryggja að einstaklingur sem væri úrskurðaður í gæsluvarðhald hefði ekki samband við umheiminn nema með þessu úrræði.

 

Í lokin
Fundarmenn voru sammála um að æskilegt væri að draga úr notkun einangrunarvistar svo sem kostur væri án þess að rannsóknarhagmunum væri ógnað. Gagnlegt væri að fylgjast vel með beitingu þessa úrræðis og huga mætti að endurkoðun lagaákvæða í þessu efni á grundvelli þeirra reynslu sem fengist hefur á gildistíma núgildandi ákvæða.

EI

Frummælendur ásamt hluta fundarmanna.