Vel sótt ráðstefna um stafræna framtíð dómstólanna

Ráðstefna dómstólasýslunnar um stafræna framtíð dómstólanna var haldin 10. júní síðastliðinn í tilefni af 30 ára afmæli héraðsdómstólanna.

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir, dómstjóri við Héraðsdóm Reykjavíkur, opnaði ráðstefnuna. Hún fjallaði um þær miklu umbætur sem urðu á dómskerfinu með lögum um aðskilnað umboðs- og dómsvalds sem tóku gildi 1. júlí 1992 og setti þær í samhengi við fortíð og framtíð dómskerfisins. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, heiðraði ráðstefnuna með inngangserindi þar sem hún lagði áherslu á mikilvægi stafrænnar þróunar í dómskerfinu en minnti líka á að tæknin getur aldrei leyst af hólmi mannlega dómgreind. Í erindi Sigurðar Tómasar Magnússonar, hæstaréttardómara og formanns stjórnar dómstólasýslunnar, var meðal annars fjallað um stafræn skref dómstólanna fram til dagsins í dag og þau tækifæri sem nýjar tæknilausnir skapa til framtíðar, mögulegan ávinning og áskoranir. Guðlaug Dröfn Þórhallsdóttir, sérfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, gerði grein fyrir þróun réttarvörslugáttar sem miðar að því að gera réttarvörslukerfið stafrænt. Hún sýndi virkni réttarvörslugáttarinnar í dag og hvernig gögn verða í framtíðinni gerð aðgengileg rafrænt og þvert á stofnanir. Þrír fyrirlesara frá Danmörku, Katrine Bork, lögfræðingur og yfirmaður upplýsingatæknimála hjá dönsku dómstólasýslunni, Henrik E. Rhod, dómstjóri við dómstólinn í Bornholm og Nikolaj Linneballe, lögmaður, fjölluðu um stafrænt dómskerfi í Danmörku. Danmörk er meðal fremstu ríkja í heiminum í stafrænni þróun hjá dómstólum. Erindi þeirra gáfu hugmynd um hvernig framtíðarkerfi hér á landi gæti litið út, hver ávinningurinn gæti orðið en líka hvað beri að varast.

Ráðstefnan var vel sótt og fjölmargir fylgdust með í streymi. Dómstólasýslan þakkar kærlega öllum sem tóku þátt og fylgdust með ráðstefnunni.