Þjónustu- og ímyndarkönnun dómstólanna 2022

Fyrir tilstilli dómstólasýslunnar framkvæmdi Gallup þjónustu- og ímyndarkönnun dómstólanna meðal lögmanna og sækjenda á tímabilinu 26. apríl – 12. maí sl. 
Úrtakið var 1108 einstaklingar og svörun fékkst frá 388 eða 35% sem er 2.1% meira en þegar sambærileg könnun var framkvæmd síðast árið 2019.  Spurt var um ánægju með ýmsa þjónustuþætti dómstólanna og traust hjá öllum dómstigum. 
 
Traust lögmanna og ákærenda hefur aukist til allra dómstiga frá könnuninni árið 2019. Um það bil 80.8% lögmanna og ákærenda báru mikið traust til héraðsdómstólanna sem er 1.8% hækkun, 72.2% báru mikið traust til Landsréttar sem er 1.5% hækkun og 89.3% báru mikið traust til Hæstaréttar sem er 5.1% hækkun milli kannanna. Heilt yfir hefur ánægja með þjónustu Landsréttar og Hæstaréttar minnkað en héraðsdómstólarnir standa í stað. Í könnuninni var auk þess spurt um mat á málsmeðferðartíma, rökstuðning dóma, ánægju með tæknilegan aðbúnað, vefsíður dómstólanna og aðra einstaka þjónustuþætti.  
 
Í svörum við opnum spurningum komu fram ýmsar ábendingar sem verða teknar til nánari skoðunar t.d um mikilvægi stafrænnar þróunar svo sem möguleika á rafrænum skilum gagna, athugasemdir varðandi vefsíður dómstólanna og fleira. 
 
Dómstólasýslan vill þakka þeim sem gáfu sér tíma til þess að svara spurningunum og koma með ábendingar um það sem betur má fara. 
 
Ítarlegri niðurstöður könnunarinnar má nálgast hér: þjónustu- og ímyndarkönnun 2022