Reglur dómstólasýslunnar nr. 9/2018

 

1. gr.
Gildissvið.

Reglur þessar eiga einvörðungu við um þá sem ekki eru aðilar að því dómsmáli sem beiðni um aðgang tekur til. Brotaþoli í sakamáli og sakborningur á rannsóknarstigi skoðast sem málsaðilar í þessum skilningi.

Með gögnum í reglum þessum er átt við framlögð dómskjöl og endurrit úr dómabók og þingbók skv. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 2. mgr. 12. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómara er óheimilt að láta öðrum en aðila máls í té eftirgerð af hljóðupptöku eða myndbandsupptöku af skýrslutöku fyrir dómi. Hið sama á við um eftirrit af skýrslugjöf aðila og vitna.

Reglum þessum skal beitt um aðgang að gögnum í málum sem rekin eru fyrir dómi eftir almennum reglum um meðferð einkamála, enda leiði ákvæði í sérlögum ekki til annars.

Umfram það sem mælt er fyrir í reglum þessum verða ekki veittar upplýsingar um einstök mál. Gildir það um hvers kyns upplýsingar úr málaskrá viðkomandi dómstóls, þar á meðal um það hvort tilteknir einstaklingar eða lögaðilar eigi eða hafi átt aðild að dómsmáli.

 

2. gr.
Beiðni um aðgang að gögnum máls, form og skráning.

Sá sem leitar eftir því að fá aðgang að gögnum skal beina skriflegri beiðni þess efnis til viðkomandi héraðsdómstóls þar sem nafn og kennitala beiðanda eiga að koma fram auk tölvupóstfangs ef það er fyrir hendi. Í beiðninni skal tilgreina það dómsmál sem um ræðir eins nákvæmlega og unnt er. Þegar um einkamál er að ræða skal sérstaklega rökstutt að áskilnaði um lögvarða hagsmuni sé fullnægt. Sama gildir um sakamál hafi dómur í því verið kveðinn upp fyrir 1. janúar 2009. Þá skal tekið fram í beiðni hvort óskað er eftir endurriti eða afriti á pappír í stað rafrænnar sendingar.

Beiðni skal undirrituð en heimilt er að senda hana rafrænt.

Beiðni skal skrá í málaskrá viðkomandi héraðsdómstóls undir málaflokknum önnur mál (Ö-mál).

 

3. gr.
Aðgangur að gögnum í einkamáli.

Um rétt til aðgangs að gögnum í einkamáli fer eftir 14. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Öðrum en aðila máls verður ekki afhent frumrit skjals nema með samþykki þess sem lagði það fram, sbr. þó 3. mgr. 69. gr. laga nr. 91/1991.

Áður en endurrit úr þingbókum og dómabókum eða afrit málsgagna eru afhent skal, ef sérstök ástæða er til, afmá úr þeim atriði sem eðlilegt er að leynt fari með tillit til almanna- eða einkahagsmuna.

4. gr.
Aðgangur að gögnum í sakamáli.

Um rétt til aðgangs að ákæru, greinargerð ákærða og endurriti úr dómabók og af úrskurðum og ákvörðunum sem færðar hafa verið í þingbók fer eftir 16. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Synja skal um að láta í té afrit af þeim hlutum ákæru og greinargerðar sem hafa að geyma upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuni einstaklinga eða lögpersóna sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari nema sá samþykki sem í hlut á. Enn fremur ef mikilvægir almannahagsmunir krefjast þess, svo sem ef um er að ræða upplýsingar um öryggi ríkisins eða varnarmál eða samskipti þess við önnur ríki eða alþjóðastofnanir.

Áður en endurrit eru afhent skal, ef sérstök ástæða er til, afmá úr þeim atriði sem eðlilegt er að leynt fari með tilliti til almanna- eða einkahagsmuna, þar á meðal atriði úr endurritum af úrskurðum og ákvörðunum ef það hefði í för með sér hættu á sakarspjöllum að þau kæmust til vitundar almennings.

Ákvörðun dómara um að þinghald í máli skuli háð fyrir luktum dyrum stendur aðgangi að ákæru ekki í vegi.

Um aðgang að gögnum í sakamáli sem lokið var fyrir 1. janúar 2009 fer eftir ákvæðum eldri laga.

 

5. gr.
Aðgangur að gögnum og upplýsingum í þágu vísinda og til almannaheilla.

Heimilt er að veita aðgang að gögnum og upplýsingum úr dómsmálum í þágu fræðirannsókna og til almannaheilla. Slíkur aðgangur felur aðeins í sér heimild til að kanna gögn og upplýsingar á aðsetri dómstóls og skal gripið til viðeigandi úrræða til að koma í veg fyrir að gögn verði afrituð.

Ef ástæða þykir til skal leyfi til aðgangs að gögnum og upplýsingum bundin því skilyrði að fyrir liggi heimild Persónuverndar til vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 33. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuuplýsinga.

Áður en aðgangur að gögnum eða upplýsingum skv. 1. mgr. er veittur skal viðkomandi undirrita yfirlýsingu um trúnað.

 

6. gr.
Málsmeðferð.

Dómari máls, sem er ólokið, tekur afstöðu til beiðni um aðgang að gögnum þess, en að öðrum kosti fjallar dómstjóri um beiðni.

Dómari skal gefa aðilum máls, sem beiðni tekur til og ekki er endanlega lokið, kost á að koma á framfæri athugasemdum áður en ákvörðun er tekin um að heimila aðgang að gögnum eða afhenda endurrit. Heimilt er að krefjast úrskurðar um synjun um aðgang að gögnum eða afhendingu endurrits og skal þeim sem er ólöglærður bent á þann rétt sinn.

Beiðni um aðgang að gögnum máls skal afgreidd innan fjögurra vikna frá því að hún barst. Hafi beiðni borist með rafrænum hætti er heimilt að tilkynna beiðanda um ákvörðun dómara með tölvupósti.

Endurrit skulu staðfest með undirskrift dómara eða annars starfsmanns dómstóls.

 

7. gr.
Gjaldtaka.

Um gjaldtöku fyrir aðgang að gögnum fer samkvæmt lögum nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs.

Heimilt er að krefjast greiðslu áætlaðs gjalds samkvæmt 1. mgr. áður en afhending fer fram.

8. gr.
Heimild og gildistaka.

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 6. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla. Þær öðlast gildi 1. janúar 2018.

 

Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
18. desember 2017.

Benedikt Bogason
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.