Spurningar og svör

 
 

Réttarkerfið

  • Hver er munurinn á sakamálum og einkamálum?

    Sakamál eru þau mál sem ákæruvaldið (eða handhafar þess) höfðar á hendur einstaklingum eða lögaðilum (fyrirtækjum). Í sakamálum er skorið úr um sekt þess sem hefur verið ákærður fyrir refsivert afbrot og honum ákveðin viðeigandi refsing ef hann er fundinn sekur.

    Önnur dómsmál teljast einkamál og þau snúast fyrst og fremst um úrlausn ágreiningsmála á milli tveggja eða fleiri aðila. Aðilar að einkamáli geta verið einstaklingar eða lögaðilar (fyrirtæki). Þá getur ríkið og stofnanir þess einnig verið aðili að einkamáli.

     

    Þess má svo geta að ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds og sæta héraðssaksóknari og lögreglustjórar, 9 talsins, eftirliti og leiðsögn af hálfu ríkissaksóknara í störfum sem ákærendur og handhafar ákæruvalds. 

  • Má sækja mann til saka við hvaða dómstól sem er?

    Nei, sækja á mann til saka fyrir héraðsdómstól í því umdæmi sem hann á lögheimili í eða þar sem afbrot var framið.

    Einkamál má höfða fyrir héraðsdómstólum í öðru umdæmi en þar sem sem einstaklingur á lögheimili eða fyrirtæki er með starfsstöð, t.d. ef um það hefur verið samið eða það er í einhverjum öðrum tengslum við málið.

    Sjá nánar: 

    »V. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991

  • Hvernig er einkamál rekið?

    Fyrst þarf að útbúa stefnu. Yfirleitt er það lögmaður sem útbýr stefnuna fyrir stefnanda en sá sem höfðar einkamál kallast stefnandi. Í stefnunni gerir stefnandi grein fyrir þeim kröfum sem hann vill fá dóm um og skorar jafnframt á stefnda (þann sem málshöfðunin beinist að) að mæta við þingfestingu málsins á ákveðnum stað og tíma.

    Birting stefnu
    Einkamál telst höfðað þegar stefna hefur verið birt fyrir þeim sem málshöfðunin beinist að, eða öðrum sem lög leyfa að birt sé fyrir í hans stað. Stefnubirtingu annast sérstakir stefnuvottar. Hér má finna lista yfir þá:

    » Stefnuvottar 

    Þegar stefnan hefur verið birt þarf ákveðinn tími (stefnufrestur) að líða áður en stefnandi getur farið og þingfest hana, þ.e. lagt hana fram til dómstólsins.

    Þingfesting
    Yfirleitt mæta bæði stefnandi og stefndi við þingfestingu máls eða lögmenn þeirra. Ef stefndi og/eða lögmaður hans mæta ekki við þingfestinguna má búast við því að málið verði dæmt eftir kröfum stefnanda. Mæti stefndi, eða lögmaður hans, við þingfestinguna á hann rétt á hæfilegum fresti til að taka afstöðu til þeirra krafna sem koma fram í stefnunni og kynna sér þau gögn sem hafa verið lögð fram. Ef stefndi kýs að verjast þeim kröfum sem gerðar eru í stefnunni þarf hann að skila inn greinargerð þar sem kröfur hans og varnir koma fram.

    Við þingfestingu mæta bæði stefnandi og stefndi eða lögmenn þeirra. Ef stefndi og/eða lögmaður hans mæta ekki við þingfestingu má búast við því að málið verði dæmt eftir kröfum stefnanda. Ef stefndi mætir, eða lögmaður hans, við þingfestinguna á hann rétt á fresti til að taka afstöðu til krafna stefnanda sem fram koma í stefnu og kynna sér þau gögn sem hafa verið lögð fram. Kjósi stefndi að taka til varna gegn kröfum stefnanda skilar hann greinargerð þegar málið er tekið fyrir næst þar sem kröfur hans og varnir koma fram. Ef ekki er mætt af hálfu stefnanda við þingfestingu málsins þá er málatilbúnaður hans ónýtur og verður málið ekki þingfest. Ef mætt er af hálfu stefnda en ekki stefnanda getur dómari úrskurðað stefnda ómaksþóknun krefjist hann þess. 

    Þinghald
    Dómarinn sem fer með málið boðar svo aðila málsins, eða lögmenn þeirra, á sinn fund í þinghald. Þar geta aðilar óskað eftir fresti til að leggja fram frekari gögn ef þess þarf og til að kynna sér þau gögn. Síðan er fundinn tími fyrir aðalmeðferð málsins.

    Aðalmeðferð og dómur
    Í aðalmeðferð er málið flutt munnlega og eftir atvikum eru vitni leidd og aðilum málsins gefinn kostur á að gefa skýrslu. Að aðalmeðferð lokinni er málið dómtekið og dómarinn kveður upp dóm í málinu, yfirleitt innan fjögurra vikna. Sá sem tapar málinu er að jafnaði dæmdur til að greiða kostnað gagnaðilans að málinu.

    Áfrýjun
    Ef aðili máls sættir sig ekki við dóm héraðsdóms í dómsmáli getur hann sótt um leyfi til að áfrýja því til Landsréttar, eftir atvikum beint til Hæstaréttar, og svo niðurstöðu Landsréttar til Hæstaréttar ef svo ber við og skilyrði eru fyrir því.

    Nánari upplýsingar:

    » Lög um meðferð einkamála nr. 91/1991.

  • Hvernig er sakamál rekið?

    Sakamál eru öll mál sem ákæruvaldið (ríkissaksóknari og héraðssaksóknari) höfðar á hendur mönnum til refsingar. Ákæruvaldið höfðar sakamál með útgáfu ákæru. Þegar ákæra hefur verið birt manni, og hún gefin út, nefnist hann ákærði.

    Ákæran ásamt sönnunargögnum er send héraðsdómi og ákveður dómari þá stað og stund þinghalds þar sem málið verður þingfest. Dómari gefur út fyrirkall á hendur ákærða en þar kemur fram hvenær og hvar málið verður þingfest.

    Þingfesting, aðalmeðferð og dómur
    Málið er þingfest þegar ákæra og önnur gögn af hálfu ákæruvaldsins eru lögð fram á dómþingi.

    Ef ákærði kemur ekki fyrir dóminn, þótt honum hafi verið löglega birt ákæra, má leggja málið í dím að ákveðnum skilyrðum uppfylltum eða fela lögreglu að handtaka hann og færa fyrir dóminn. .

    Ef ákærði mætir fyrir dóminn og játar skýlaust alla háttsemi sem honum er gefið að sök, og dómari telur ekki ástæðu til að draga í efa að játningin sé sannleikanum samkvæm, tekur dómari málið þegar til dóms nema annar hvor aðila krefjist að fram fari aðalmeðferð í því. Ef aðili neitar sök fer fram aðalmeðferð en áður gefst ákærða kost á að leggja fram skriflega greinargerð. Við aðalmeðferð máls fara fram í einni lotu skýrslutökur og munnlegur flutningur máls. Að loknum málflutningi er málið tekið til dóms.

    Nánari upplýsingar í XXVII. kafla og XXXIII.kafla laga um meðferð sakamála:

    »Lög um meðferð sakamála nr. 88/2008

    Áfrýjun
    Ef aðili máls sættir sig ekki við dóm héraðsdóms í dómsmáli getur hann sótt um leyfi til að áfrýja því til Landsréttar. Í ákveðnum tilvikum er hægt að sækja um að áfrýja til Hæstaréttar.Ef aðili máls sættir sig ekki við niðurstöðu Landsréttar er hægt að sækja um leyfi til að áfrýja málinu til Hæstaréttar ef skilyrði eru fyrir því.

    Sjá nánar í spurningunum: Hvernig áfrýjar maður máli til Landsréttar og Hvernig áfrýjar maður máli til Hæstaréttar.

  • Hve langan tíma tekur að fara með mál fyrir dóm?

    Það er misjafnt og fer eftir stærð og umfangi málsins. Það getur tekið allt frá nokkrum vikum eða mánuðum upp í ár eða lengur í sumum tilvikum.
  • Kostar að fara með mál fyrir dóm?

    Já, það kostar alltaf að fara með mál fyrir dóm en ef einstaklingar eiga rétt á gjafsókn þurfa þeir þó ekki ekki að bera þann kostnað sjálfir heldur greiðist kostnaðurinn, allur eða hluti hans, úr ríkissjóði.

    Kostnaður við hvert mál ræðst af stærð og umfangi þess. Sá sem höfðar málið þarf að greiða sérstakt þingfestingargjald. Þá getur kostnaður hlotist af öflun sönnunargagna og flestir kjósa að nýta sér þjónustu lögmanna, sem vinna eftir eigin gjaldskrá. 

    Þá er sá sem tapar máli í öllu verulegu að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað.

    Nánari upplýsingar:

    »Um gjafsókn 

    »Gjaldskrár dómstólanna
  • Get ég flutt mál sjálf/sjálfur fyrir dómi?

    Já, þú mátt fara með mál þitt sjálf/ur fyrir dóm og sú skylda hvílir á dómara að leiðbeina ólöglærðum aðilum um formhlið málsins. Flestir kjósa hins vegar að fá þjónustu lögmanns til að gæta hagsmuna sinna.

    Ef aðili er hins vegar, að mati dómara, ekki fær um að flytja mál sitt sjálfur getur dómari í einkamáli sagt honum að ráða sér hæfan umboðsmann. Ef aðili verður ekki við því þá má líta svo á að hann hafi ekki sótt þing næst þegar málið er tekið fyrir.

    Í sakamáli gildir það sama nema að því leytinu að dómari getur skipað sakborningi verjanda í óþökk hans.

     

    » Sjá 6. mgr. 17. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

    » Sjá 29. gr. og 3. mgr. 31. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

    »Nánari upplýsingar um lögmenn og þjónustu þeirra: Heimasíða Lögmannafélags Íslands

  • Hvað get ég gert ef ég hef ekki efni á því að ráða lögmann til að fara með mál fyrir dóm?

    Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum átt þú möguleika á því að fá gjafsókn. Til dæmis ef þú ert undir ákveðnum tekjumörkum, ef það þykir brýnt að höfða dómsmál og ef niðurstaða máls þykir hafa mjög mikla þýðingu fyrir almannahag.

    Nánari upplýsingar:

    » Um gjafsókn á heimasíðu stjórnarráðs 

  • Í hvaða tilvikum greiðir ríkið málskostnað, s.s. lögmannsþjónustu fyrir dómi?

    Í ákveðnum málaflokkum, t.d. lögræðismálum (þ.e. sjálfræði og fjárræði) og barnsfaðernismálum þar sem barn er stefnandi máls, skal þóknun lögmanns stefnanda greidd úr ríkissjóði sem og annar kostnaður sem til fellur. Þá er átt við kostnað vegna sérfræðiskýrslna (t.d. sálfræðimat) eða erfðafræðilegra rannsókna (t.d. DNA próf). Þá ákveður dómari þóknun lögmannsins. Ef aðili hefur fengið gjafsókn skal kostnaður af rekstri málsins greiddur úr ríkissjóði.
  • Ef ég vinn mál fyrir dómi, ber ég þá engan kostnað af því?

    Dómari dæmir málskostnað og ef hann er lægri fjárhæð en reikningur lögmanns þíns þá þarft þú að greiða mismuninn. Þá gæti fallið til útlagður kostnaður sem þú þyrftir einnig að bera.
  • Hvað er réttlát málsmeðferð?

    Allir eiga rétt á réttlátri og opinberri málsmeðferð fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómi. Þessi réttur er meðal annars tryggður í stjórnarskrá Íslands (70. gr) og í Mannréttindasáttmála Evrópu (6. gr.) sem Ísland er aðili að.

    Dómari má aldrei vera tengdur neinum sem gæti haft áhrif á afstöðu hans í tilteknum málum.
    Hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð að lögum. Þá á sakborningur rétt á því að fá úrlausn um ákæru á hendur sér innan hæfilegs tíma.

    Nánari upplýsingar:

    »Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands

    »Mannréttindasáttmáli Evrópu

  • Hvað er réttargæslumaður?

    Réttargæslumaður er lögmaður sem gætir réttar þess sem orðið hefur fyrir broti.

    Ef um kynferðisbrot er að ræða á brotaþoli rétt á réttargæslumanni ef hann óskar þess.

    Í málum er varða ofbeldisbrot, brot gegn frjálsræði manna eða kynferðisbrot gegn börnum er réttargæslumaður skipaður sem gætir réttar brotaþola. Eins ef brotaþoli hefur orðið fyrir verulegu líkamlegu eða andlegu tjóni vegna brotsins þá getur lögregla metið það svo að hann hafi sérstaka þörf fyrir réttargæslumann. Brotaþola í kynferðisbrotamáli er skipaður réttargæslumaður óski hann þess. 

    Hlutverk réttargæslumanns er að gæta hagsmuna brotaþola og veita honum aðstoð í málinu, þar á meðal að setja fram bótakröfu ef um tjón er að ræða. Réttargæslumanni er, meðan á rannsókn stendur, ætíð heimilt að vera viðstaddur þegar skýrsla er tekin af brotaþola. Réttargæslumaður á einnig rétt á að vera viðstaddur öll þinghöld í málinu og að tjá sig upp að vissu marki fyrir dómi. Þóknun réttargæslumanns greiðist úr ríkissjóði.

    Til að fá réttargæslumann þarf að uppfylla ákveðin skilyrði, sjá 41. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008

    Nánari upplýsingar:
    »Heimasíða ríkissaksóknara

    » 41. gr. laga um meðferð skamála nr. 88/2008

  • Hver er stefnandi?

    Stefnandi er sá sem stefnir máli fyrir dóm.
  • Hver er stefndi?

    Stefndi er sá sem er stefnt fyrir dóm.
  • Hver er áfrýjandi?

    Áfrýjandi er sá sem áfrýjar máli til æðri dómstóls

Réttarhöld

  • Hvernig lítur dómsalur út?

     

    Hér koma myndir úr tveimur dómsölum, annars vegar í Héraðsdómi Reykjavíkur og hins vegar úr Héraðsdómi Reykjaness. Fyrir miðju situr dómari eða dómarar ef þeir eru fleiri en einn. Ákærandi situr vinstra megin en ákærði og verjandi hans sitja hægra megin. 

     

    Þessar myndir eru úr afgreiðslu Héraðsdóms Reykjavíkur og Héraðsdóms Reykjaness. 

  • Ég tala ekki íslensku, má ég tala annað tungumál fyrir dómi?

    Þingmálið er íslenska en gefi maður skýrslu fyrir dómi sem kann ekki íslensku nægilega vel þá skal aðilinn, sem hlutast til um skýrslugjöfina, kalla til löggiltan dómtúlk.
  • Má ég taka upp í dómsal eða taka myndir?

    Nei, óheimilt er að hljóðrita eða taka myndir í þinghaldi en dómari getur veitt undanþágu frá þessu banni ef sérstaklega stendur á.
  • Hvað eiga vitni að hafa í huga áður en farið er í dómsal?

    Þeir sem verða vitni að atburði, sem síðar er tekinn fyrir dóm, þurfa að koma og segja frá því hvernig þeir upplifðu atburðinn. Mörgum finnst það erfitt, hafa aldrei komið inn í dómhús og hvað þá staðið frammi fyrir dómara. Hér á eftir kemur lýsing á því hvað gerist í dómsal og hvaða skyldur og réttindi vitni hafa.

    Boðun fyrir dóm
    Vitnum ber skylda að verða við boðun um að mæta fyrir dóm. Mæti vitni ekki getur ákærandi óskað eftir að lögregla færi það fyrir dóminn.

    Undirbúningur
    Áður en vitni kemur fyrir dóminn getur verið gagnlegt fyrir það að rifja upp atburðarásina, til dæmis með því að skoða minnispunkta, myndir eða annað.

    Í dómsal
    Vitni sitja alltaf fyrir framan dómsalinn á meðan vitnisburður annarra vitna fer fram. Þetta er gert til að vitni heyri ekki vitnisburð þeirra. Mikilvægt er að vitni mæti tímanlega í dómhúsið til að geta gengið í dómsalinn þegar dómari vill.

     

    Vitni er vísað til sætis andspænis dómara sem situr fyrir miðju dómaraborði og stýrir þinghaldinu. Ákærandi situr vinstra megin en ákærði og verjandi hans sitja hægra megin. Sjá fleiri myndir:

    » Héraðsdómur Reykjavíkur

    Dómari biður vitni um að segja nafn, kennitölu og heimilisfang. Svo áminnir hann vitnið um að segja satt og rétt frá, draga ekkert undan sem máli skiptir. Ef vitni gefur vísvitandi rangan framburð getur það verið dæmt til refsingar.

    Dómari ræður því hver spyr vitnið fyrst en yfirleitt gerir ákærandi það, nema dómari geri það sjálfur. Því næst spyr verjandi. Ef verjandi hefur boðað vitnið fyrir dóm spyr hann fyrst og svo ákærandi.


    Hægt að skorast undan
    Þeir sem eru náskyldir eða tengdir sakborningi geta skorast undan því að bera vitni. Þetta eru maki, foreldrar, systkin, afi og amma, fyrrum maki, tengdaforeldrar og tengdabörn. Þetta getur einnig átt við aðra nákomna, svo sem unnustu og unnusta, sambúðarfólk og fósturforeldra ef dómara virðist samband þeirra við ákærða vera mjög náið. Þetta fólk verður þó að mæta fyrir dómi og greina frá tengslunum.

    Nafnleynd vitna
    Dómari getur, ef hann telur lífi, heilbrigði eða frelsi vitnis eða náinna vandamanna stefnt í hættu, heimilað nafnleynd. Telji vitni sig eiga rétt á nafnleynd er rétt að það hafi samband við ákæranda fyrir þinghaldið og biðji hann að bera ósk um þetta upp við dómarann.

    Kostnaður
    Vitni í sakamáli, sem ákærandi hefur boðað fyrir dóm, getur krafist þess að dómari ákveði því greiðslu útlagðs kostnaðar sem hlotist hefur af því að mæta fyrir dóm og þóknun fyrir atvinnumissi. Nauðsynlegt er að hafa meðferðis reikninga eða önnur gögn sem sýna fram á kostnaðinn. Ákærandi greiðir vitni útlagðan kostnað.

  • Hvað gerist ef ég mæti ekki til þinghalds?

    Málið verður dæmt/úrskurðað eftir þeim gögnum sem fyrir dómnum liggja.

    Ef þú ert ákærð/ur í sakamáli þá má leggja dóm á málið, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, ef þú kemur ekki fyrir dóminn þegar þér hefur verið löglega birt ákæra. Annars ákveður dómari annað þinghald og þá skal ákærandi leggja fyrir lögreglu að færa þig fyrir dóm nema kunnugt sé að þú hafir lögmæt forföll en í því tilviki skal lögregla boða til nýs þinghalds og eftir atvikum færa þig fyrir dóm með valdi.
  • Get ég hringt eða sent tölvupóst til dómstólsins og fengið frest á málinu mínu?

    Nei en þú getur látið lögmann mæta fyrir þig. Þó er í einstaka tilfellum hægt að fá frest en þá þurfa að liggja að baki ríkar ástæður. Ef þú ert veik/ur þarft þú að geta sýnt fram á það með læknisvottorði.
  • Hver getur mætt fyrir mig til þinghalds?

    Lögmaður getur mætt fyrir þig og einnig lögfræðingur sem er fulltrúi á lögmannsstofu. Það er ekki hægt að senda fjölskyldumeðlim með umboð.
  • Geta allir mætt í dómsal til að fylgjast með réttarhöldum?

    Já, réttarhöld eru að jafnaði opin þeim sem vilja fylgjast með. Þinghöld eru einungis lokuð þegar dómari telur það nauðsynlegt til að hlífa sakborningi, brotaþola, vitni eða ættingjum þeirra. Einnig ef dómari telur það nauðsynlegt til að halda leyndum atriðum er varða viðskipti þessara aðila, af velsæmisástæðum, vegna hagsmuna almennings eða öryggis ríkisins og til að halda uppi þingfriði. Þá eru þinghöld einnig lokuð þegar vitni, sem hefur fengið nafnleynd, gefur skýrslu í heyranda hljóði.

    Dómari getur takmarkað fjölda áheyrenda við þá sem rúmast á þingstað. Þá getur hann meinað þeim aðgang sem eru illa á sig komnir eða ef hætta er á því að nærvera þeirra valdi því að sakborningur eða vitni skýri ekki satt frá. Dómari má einnig vísa manni úr þinghaldi ef návist hans truflar þingfrið eða er óviðeigandi.

    Nánari upplýsingar:

    »10.gr. laga um meðferð sakamála

    »8. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála

    »6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

  • Hvernig á ég að ávarpa dómarann?

    „Dómari“ eða „Virðulegi dómur“ er algengt ávarp.
  • Hvað er fyrirtaka?

    Það er þegar mál er tekið fyrir dómi. Fyrsta fyrirtaka hvers máls kallast þingfesting málsins. Við þingfestingu einkamáls leggur stefnandi fram stefnu og þau skjöl sem varða málatilbúnað hans. Við þingfestingu sakamáls leggur ákærandi fram ákæru og önnur gögn sem byggt er á í málinu.

    Í lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991 og lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008 er ávallt talað um dómþing eða þinghald en það er í raun það sama og fyrirtaka máls.

    Í upphafi fyrirtökunnar setur dómari þinghald og í lokin slítur hann því á formlegan hátt. Dómari stýrir þinghaldi og gætir þess að það sé háð eftir réttum reglum. Enginn má taka til máls nema með leyfi dómara og getur hann tekið orðið af manni sem heldur sig ekki við efni máls.

    Óheimilt er að hljóðrita eða taka myndir í þinghaldi en dómari getur veitt undanþágu frá þessu banni ef sérstaklega stendur á. Dómari getur vísað manni úr þinghaldi ef hann truflar eða ef framkoma hans er óviðeigandi. Þingmálið er íslenska en gefi maður skýrslu fyrir dómi sem kann ekki íslensku nægilega vel, þá skal aðilinn sem hlutast til um skýrslugjöfina kalla til löggiltan dómtúlk.

    Þegar dómþing er háð skal rita skýrslu í svokallaða þingbók um það sem fer fram. Þar er skráð hvar og hvenær þinghald fer fram, nafn dómara, gögn sem eru lögð fram, hverjir mæta í máli og hvað hafi verið afráðið um rekstur málsins, til dæmis úrskurði og ákvarðanir dómara. Þá eru einnig bókaðar yfirlýsingar af hendi aðila sem hafa ekki komið fram skriflega.

    Rekstur máls á dómþingi fer að mestu leyti fram með orðaskiptum dómara og aðilanna eða lögmanna þeirra um atriði sem varða framvindu málsins eða ráðstöfun sakarefnis, og svo loks munnlegum málflutningi og munnlegri skýrslugjöf aðilanna og vitna.
  • Hvað er dómuppsaga?

    Það er þegar dómur er kveðinn upp.
  • Hverjir eru málsaðilar?

    Málsaðilar eru þeir sem eiga aðild að máli sem rekið er fyrir dómstóli.
  • Hve langan tíma tekur að fara með mál fyrir dóm?

    Það fer allt eftir eðli og umfangi hvers máls um sig en málareksturinn getur tekið allt frá nokkrum vikum upp í nokkur ár.
  • Hvernig áfrýjar maður máli til Landsréttar?

    Einkamál: Meginreglan er að héraðsdómi þarf að áfrýja til Landsréttar innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu hans. Sá sem vill áfrýja héraðsdómi þarf þá að leggja fyrir skrifstofu Landsréttar áfrýjunarstefnu ásamt endurriti af dóminum. Landsréttur gefur svo út áfrýjunarstefnuna sé hún í réttu horfi. Þegar fjórar til átta vikur eru liðnar frá uppkvaðningu héraðsdóms þarf að sækja um áfrýjunarleyfi til Landsréttar. Þá þarf að senda Landsrétti skriflega umsókn ásamt áfrýjunarstefnu og endurriti héraðsdóms. Landsréttur getur orðið við slíkri umsókn ef úrslit málsins hafa verulegt almennt gildi eða þau varða mikilvæga hagsmuni þess sem leitar áfrýjunarleyfis eða ef ekki er útilokað samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að dómi kunni að verða breytt svo einhverju nemi. Þetta er þó alltaf háð því að dráttur á áfrýjun sé nægilega réttlættur.

    Ef mál varðar fjárkröfu er það skilyrði áfrýjunar að fjárhæð nemi 1.000.000 krónum. Ef mál varðar annars konar kröfu ákveður Landsréttur hvort hagsmunirnir svari til áfrýjunarfjárhæðar. Nái krafa ekki áfrýjunarfjárhæð eða Landsréttur telur hagsmuni ekki nægja til áfrýjunar getur aðili sótt um áfrýjunarleyfi og getur rétturinn orðið við slíkri umsókn sé einhverju skilyrðanna hér að ofan fullnægt.

    Sakamál: Áfellisdómi verður aðeins áfrýjað ef ákærði hefur verið dæmdur í fangelsi eða til að greiða sekt eða sæta upptöku eigna sem nær áfrýjunarfjárhæð í einkamáli. Þrátt fyrir það getur aðili sótt um áfrýjunarleyfi sem veita má ef úrslit málsins hafa verulegt almennt gildi eða varða mikilvæga hagsmuni eða ef ekki er útilokað samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að dómi kunni að verða breytt svo að einhverju nemi.

    Meginreglan er að ákærði þarf að lýsa yfir áfrýjun héraðsdóms í bréflegri tilkynningu sem berast verður ríkissaksóknara innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, hafi birtingar verið þörf, en annars innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu hans. Í tilkynningunni þarf að taka nákvæmlega fram í hverju skyni áfrýjað sé, hverjar dómkröfur ákærða séu, hvern ákærði vill fá skipaðan sem verjanda eða hvort hann óskar eftir að flytja mál sitt sjálfur. Þegar tilkynning hefur borist frá ákærða innan framangreinds frests telst héraðsdómi áfrýjað af hans hálfu.

    Næstu þrjá mánuði eftir lok áfrýjunarfrests þarf að sækja um áfrýjunarleyfi til Landsréttar. Þá þarf að senda ríkissaksóknara tilkynningu ásamt skriflegri umsókn um leyfið þar sem rökstutt er hvernig ákærði telur að skilyrðum fyrir áfrýjunarleyfi sé fullnægt. Landsréttur getur orðið við slíkri umsókn sé einhverju skilyrðanna hér að ofan fullnægt.
    Nánari upplýsingar: 

    » Heimasíða ríkissaksóknara

    »Heimasíða Landsréttar

  • Hvernig áfrýjar maður máli til Hæstaréttar?

    Einungis er hægt að áfrýja málum til Hæstaréttar að uppfylltum ströngum skilyrðum.

    Einkamál: Óska verður eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi héraðsdóms í einkamáli beint til Hæstaréttar. Slíkt leyfi skal ekki veitt nema þörf sé á að fá endanlega niðurstöðu Hæstaréttar með skjótum hætti og niðurstaða málsins geti verið fordæmisgefandi, haft almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna eða haft verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Slíkt leyfi skal enn fremur ekki veitt ef málsaðili telur þörf á að leiða vitni í málinu eða enn er uppi ágreiningur um sönnunargildi munnlegs framburðar sem gefinn var fyrir héraðsdómi.
    Einnig verður að óska eftir leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar. Hæstiréttur ákveður hvort orðið verði við umsókn um áfrýjunarleyfi og skal við mat á því líta til þess hvort úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi eða varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þess sem leitar áfrýjunarleyfis. Þá getur Hæstiréttur veitt slíkt leyfi ef ástæða er til að ætla að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni.

    Sakamál: Óska verður eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja landsréttardómi í sakamáli til Hæstaréttar. Hæstiréttur ákveður hvort orðið verði við ósk um áfrýjunarleyfi. Slíkt leyfi skal aðeins veita ef áfrýjun lýtur að atriði sem hefur verulega almenna þýðingu eða af öðrum ástæðum er mjög mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um. Slíkt leyfi getur Hæstiréttur einnig veitt ef ástæða er til að ætla að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi eða efni. Hafi ákærði verið sýknaður af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelldur fyrir Landsrétti skal þó verða við ósk ákærða um leyfi til áfrýjunar nema Hæstiréttur telji ljóst að áfrýjun muni ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar.

    »Heimasíða Hæstaréttar
  • Hvernig krefst ég endurupptöku máls?

    Einkamál: Ef dómur hefur gengið eða stefna verið árituð, og þú sóttir ekki þing eða þingsókn þín féll niður, getur þú beðið um að mál þitt verði endurupptekið innan þriggja mánaða frá því máli lauk í héraði, enda berist beiðnin dómara innan mánaðar frá því að þér urðu málsúrslit kunn. Ef þrír mánuðir eru liðnir frá því að máli lauk í héraði en innan árs frá því getur þú að uppfylltum ákveðnum skilyrðum beðið um endurupptöku útivistarmáls ef beiðnin berst dómara innan mánaðar frá því að þér urðu málsúrslit kunn. Áður en beiðni um endurupptöku verður sinnt verður þú að setja tryggingu, sem dómari tekur gilda, fyrir greiðslu þess málskostnaðar sem lagður var á þig í dómi eða áritaðri stefnu, nema þú sannir að þú hafir þegar greitt málskostnaðinn.


    Beiðni um endurupptöku beinir þú til þess dóms þar sem dómur gekk eða stefna var árituð. Í beiðninni skal greint skýrlega frá því hverra breytinga krafist er á fyrri úrlausn og á hverjum málsástæðum, réttarheimildum og sönnunargögnum sé byggt, svo og hvenær og hvernig þér varð kunnugt um málsúrslit. Gögn skulu fylgja beiðni.


    Sakamál - endurupptaka útivistarmáls: Ef þú hefur ekki sótt þing við þingfestingu máls fyrir dómi og því hefur verið lokið með dómi samkvæmt 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála getur þú innan fjögurra vikna frá því að dómur var birtur þér eða dómur var kveðinn upp (og birtingar var ekki þörf) krafist þess að málið verði tekið upp á ný fyrir héraðsdómi, enda berist beiðni þín um endurupptöku innan þess frests. Beina skal skriflegri beiðni um endurupptöku til þess dómstóls þar sem útivistardómur gekk. Í henni skal greint skýrlega frá því hvaða mál hún varði, hverra breytinga þú krefjist á fyrri málsúrslitum og á hvaða sönnunargögnum, rökum og réttarreglum sú krafa sé byggð.

Sakamál

  • Hvað þýðir fyrirkall?

    Þetta þýðir að búið er að birta þér tilkynningu um að mæta fyrir dóm.

    Þegar dómara hefur verið úthlutað sakamáli er fyrirkall gefið út þar sem ákærði er boðaður til þinghalds á tilgreindum tíma þar sem málið verður þingfest. Algengt er að lögregla sjái um að birta ákærðu fyrirköll. Í fyrirkalli er ákærða sagt að sækja dómþingið í ákveðnum dómsal og á ákveðnum tíma.

  • Hvað gerist ef ég mæti ekki fyrir dóm?

    Þá má búast við að fjarvist þín verði skilin sem játning. Þá er málið dæmt eftir þeim gögnum sem liggja fyrir.

    Ef ekki er mætt af hálfu ákærða, og hann hefur ekki boðað forföll, en honum hefur áður verið birt ákæra og brot þykir ekki varða þyngri viðurlögum en sex mánaða fangelsi, upptöku eigna og sviptingu réttinda og dómari telur framlögð gögn nægileg til sakfellingar er til staðar heimild í lögum um meðferð sakamála til að leggja efnisdóm á mál þrátt fyrir að ákærði hafi ekki mætt. Um þessa heimild er kveðið á um í a-lið 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Jafnframt er heimilt að leggja dóm á mál ef ákærði hefur komið fyrir dóm við rannsókn máls og játað skýlaust þá háttsemi sem honum er gefin að sök og dómari telur ekki ástæður til að draga í efa að játningin sé sannleikanum samkvæm, enda verði ekki dæmd þyngri refsing en eins árs fangelsi.

    Hafi ákærði ekki sótt þing við þær aðstæður sem lýst er hér að framan og mál verið dæmt að honum fjarstöddum getur hann innan fjögurra vikna frá því að dómur var birtur fyrir honum, eða dómur var kveðinn upp ef birtingar var ekki þörf, krafist þess að málið verði tekið upp að nýju fyrir héraðsdómi, enda berist beiðni hans um endurupptöku innan þess frests. Sé fresturinn liðinn verður mál ekki tekið upp á ný nema með ákvörðun endurupptökunefndar samkvæmt lögum um dómstóla, sbr. XXXIV. kafla.

    Nánari upplýsingar:

    »Lög um meðferð sakamála nr. 88/2008

    »Lög um dómstóla nr 50/2016
  • Ef ég kem fyrir dóm og játa, fæ ég vægari dóm?

    Hegðun og atferli sakbornings í formi játningar getur orðið til refsilækkunar og algengt er að í dómum sé vísað til sé til þess að litið hafi verið til játningar ákærða við ákvörðun refsingar.

    Þá er einnig ákvæði í lögum um að taka skuli til greina hvort að ákærði hafi veitt aðstoð eða upplýsingar sem hafi haft verulega þýðingu við að upplýsa brot hans, aðild annarra að brotinu eða önnur brot.

    Ekki er þó hægt að ganga út frá því að skýlaus játning ákærða hafi ávallt í för með sér vægari refsingu heldur er játning eitt þeirra atriða sem litið er til við heildarmat ákvörðunar um viðurlög í sakamálum.

  • Hvernig fæ ég að vita hvaða dóm ég fékk ef ég kom ekki til dómsuppsögu?

    Lögreglan sér um að birta dóma en svo getur þú einnig haft samband við dóminn.
  • Hvernig á ég að borga sekt sem ég er dæmd/dæmdur til að greiða?

    Nokkuð algengt er að þeir sem ákærðir eru í sakamáli séu dæmdir til að greiða fjársekt.

    Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra sér um að innheimta sektir og sakarkostnað. Hægt er að hafa samband í síma 458-2500 til að fá upplýsingar. Þá eru einnig ýmsar hagnýtar upplýsingar um greiðslu sekta á heimasíðu sýslumannsembættisins:

    »Heimasíða sýslumannsins.

    Þar er til dæmis að finna upplýsingar um hvaða úrræði notuð eru til að knýja á um greiðslu sekta, hvernig sækja á um greiðsludreifingu og hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt til að menn eigi möguleika á því að afplána vararefsingu eða sinna samfélagsþjónustu í stað þess að greiða sekt.

  • Get ég sloppið við fangelsisvist og farið í samfélagsþjónustu?

    Þeir aðilar sem dæmdir hafa verið í allt að 12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi eiga þess kost að sækja um að fá að afplána refsingu með ólaunaðri samfélagsþjónustu, uppfylli þeir öll skilyrði til þess. Í ákveðnum tilfellum er einnig hægt að sækja um að fá að afplána vararefsingu með samfélagsþjónustu. Minnst er hægt að afplána refsingu með samfélagsþjónustu í 40 klukkustundir en mest í 480 klukkustundir.

    Sjá nánar:
    »37. gr. og 38. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016
    »Heimasíða Fangelsismálastofnunar 

  • Birtast allir dómar á netinu?

    Flestir dómar í sakamálum eru birtir á netinu en þó með undantekningum.

    Þegar aðili er dæmdur til að greiða sekt sem er lægri en áfrýjunarfjárhæð (þ.e. lægri en ein milljón krónur m.v. 2018), þá er dómur ekki birtur á heimasíðu dómstólanna. Þá eru ákvarðanir um sektir og vararefsingu (svonefndar viðurlagaákvarðanir) ekki heldur birtar.

    Í dómum í sakamálum skal gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir, svo sem um vitni. Almennt ríkir ekki nafnleynd um ákærða, sé hann sakfelldur í máli. Þó eru einnig undantekningar á þeirri reglu. Ef birting á nafni ákærða getur talist andstæð hagsmunum brotaþola eða ef ákærði var ekki orðinn 18 ára þegar hann framdi þau brot sem hann er ákærður fyrir. Nafnbirtingu skal aflétta samkvæmt sérstakri beiðni þar um þegar eitt ár er liðið frá birtingu dóms.

    Nánari upplýsingar:
    »Reglur um birtingu dóma nr. 3/2019

Nauðungaruppboð og gjaldþrot

  • Hvað er gjaldþrot?

    Gjaldþrot er þegar andvirði eigna skuldara er ráðstafað til að greiða skuldir hans.


    Þegar skuldari er úrskurðaður gjaldþrota missir hann forræði á búi sínu og skiptastjóri ( sem er lögmaður, skipaður af dómara) tekur við því. Skiptastjóri reynir að koma eignum búsins í verð og getur í því skyni selt eignir þess og ráðstafað andvirði þeirra upp í skuldir. Þær skuldir sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti fyrnast á tveimur árum eftir að gjaldþrotaskiptum lýkur, ef fyrningarfrestur er ekki rofinn.

    Nánari upplýsingar:
    »Heimasíða umboðsmanns skuldara

  • Hvernig get ég krafist gjaldþrots?

    Ef að skuldari getur ekki staðið í fullum skilum með lán sín þegar þau falla í gjalddaga, og ekki er líklegt að hann geti það innan skamms tíma, getur hann krafist þess að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta.
    Krafa um gjaldþrotaskipti skal vera skrifleg og í henni þarf að koma skýrt fram:

    1. Að skuldari krefjist þess að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta.
    2. Fullt nafn skuldara og kennitala hans.
    3. Lögheimili skuldara og dvalarstaður, ef hann er annar en lögheimili.
    4. Stundar skuldari atvinnurekstur? Ef svarið er já þarf að koma fram:

    a. Stutt lýsing á því um hvernig rekstur er að ræða.
    b. Hvar reksturinn fer fram.
    c. Hvort um er að ræða firma sem ber sérstakt heiti og kennitölu.

    5. Gagnorð og skýr lýsing á málsatvikum og rökum skuldara, þ.e. hvernig fjárhagur skuldara hafi komist í það horf að hann telur rétt að krefjast gjaldþrotaskipta á búi sínu.
    6. Fram þarf að koma að krafan styðjist við 64. gr. laga nr. 21/1991.
    7. Sundurliðaðar upplýsingar um eignir og skuldir skuldara. Taka þarf fram hve mikill hluti skulda er gjaldfallinn/í vanskilum.
    8. Mánaðarlegar tekjur og útgjöld og hve mikið sé eftir í hverjum mánuði til að greiða af skuldum.

    Kröfu um gjaldþrotaskipti þurfa að fylgja gögn sem sýna fram á að skuldari geti ekki staðið í skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra koma á gjalddaga. Slík gögn geta t.d. verið launaseðlar, greiðsluseðlar, skattframtöl skuldara ásamt staðgreiðsluyfirliti fyrir þá mánuði sem liðnir eru eftir skil síðasta skattframtals og endurrit úr gerðabók sýslumanns þar sem fram kemur að árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá skuldara. Óski stjórn félags eftir gjaldþrotaskiptum þarf þar að auki að leggja fram samþykktir félagsins, síðasta ársreikning félagsins og vottorð frá hlutafélagaskrá.
    Dómara er ávallt heimilt að krefja skuldara um frekari gögn ef hann telur þörf á þeim.

    Krafa um gjaldþrotaskipti skal send héraðsdómi í þeirri þinghá (umdæmi dómstólsins) þar sem skuldari á skráð lögheimili og/eða dvalarstað, ef hann er annar en lögheimili. Krafan ásamt fylgigögnum skal vera í tvíriti og þegar hún er afhent héraðsdómi þarf að greiða gjald í ríkissjóð, sjá gjaldskrá hér 

    Einnig ber skuldara, eða öðrum sem krefst þess að bú einstaklings verði tekið til gjaldþrotaskipta, að leggja fram skiptatryggingu að fjárhæð kr. 280.000,- áður en mál hans verður tekið fyrir. Óski stjórn félags eftir gjaldþrotaskiptum eða um er að ræða lögaðila sem ætla má að hafi verið í mjög umfangsmiklum atvinnurekstri er viðmið skiptatryggingar kr. 1.000.000,-. Þegar óskað er eftir gjaldþrotaskiptum á búum annarra lögaðila er skiptatryggingin yfirleitt kr. 450.000,-. Dómari getur þó krafist þess að lögð sé fram hærri trygging ef ljóst er í upphafi að mál muni verða umfangsmikið.

    Skiptatryggingin er til að standa undir kostnaði við meðferð kröfunnar.

  • Hvernig gengur gjaldþrotamál fyrir sig?

    Ef skuldari óskar sjálfur eftir skiptum á búi sínu þá byrjar dómari að fara yfir beiðni hans og fylgigögn. Dómari getur óskað eftir frekari gögnum ef hann telur fyrirliggjandi gögn ekki skýra málið nægilega. Ef hann telur aftur á móti skilyrði til gjaldþrotaskipta vera uppfyllt er skuldari boðaður til þinghalds þar sem beiðni hans er tekin til úrskurðar. Við það þinghald verður skuldari að mæta sjálfur eða lögmaður fyrir hans hönd. Aðrir geta ekki mætt fyrir skuldara samkvæmt umboði. Þegar úrskurður er kveðinn upp um gjaldþrotaskipti er skipaður skiptastjóri yfir þrotabúinu. Skiptastjóri fær afrit af úrskurði og setur sig svo í samband við skuldara. Skiptastjóri tekur við réttindum og skyldum búsins og boðar skuldara á fund til að fara yfir málefni búsins.


    Ef bú skuldara (félag eða einstaklingur) er tekið til úrskurðar að kröfu annars aðila (skiptabeiðanda sem er aðili sem viðkomandi er í vanskilum við), þá fær skuldari (fyrirsvarsmaður fyrirtækis eða einstaklingur) boðun um að mæta í fyrirtöku þegar mál hans er tekið fyrir. Sama gildir í þessum málum eins og málum þegar skuldari óskar sjálfur eftir gjaldþrotaskiptum, aðilar sem eru boðaðir í fyrirtöku verða að mæta sjálfir eða lögmaður fyrir þeirra hönd. Við fyrirtöku í gjaldþrotamáli er hægt að óska eftir fresti til að semja um kröfuna eða mótmæla henni ef skuldari telur hana ekki réttmæta. Ef skuldari mætir ekki, eða ef frestur er ekki samþykktur, þá er krafan tekin til úrskurðar. Úrskurður er svo að öllu jöfnu kveðinn upp tveimur vikum síðar og skiptastjóri skipaður yfir búinu sem setur sig í samband við skuldara.

  • Hvað get ég fengið langan frest vegna kröfu um gjaldþrotaskipti?

    Í allt að mánuð fyrir fyrirtæki og einstaklinga með rekstur, með samþykki þess sem gerir kröfuna. Í allt að þrjá mánuði fyrir einstakling sem ekki hefur verið með rekstur á sinni kennitölu, með samþykki þess sem gerir kröfuna.

    Til þess að fá frestinn þarf að mæta til boðaðs þinghalds. Ef skuldara finnst krafan ekki vera rétt þarf að mótmæla kröfunni við þingfestingu, þ.e.a.s. í fyrsta þinghaldi. Þá er stofnað ágreiningsmál sem er tekið fyrir sérstaklega. Skuldari fær þá að öllu jöfnu tvær vikur til að skila inn greinargerð og málið fer svo í úthlutun til dómara varðandi þann þátt.

  • Get ég kvartað yfir skiptastjóra þrotabús?

    Svarið er já. Það má beina aðfinnslum við störf skiptastjóra til þess dómstóls sem skipaði hann.


    Nánari upplýsingar:
    »76. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991
    »47.gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 20/1991.

  • Hvað eru aðfarargerðir?

    Aðför og aðfarargerðum er beitt til að knýja á til dæmis um greiðslu skuldar. Aðfarargerðir eru:


    a) Fjárnám til greiðslu skuldar.
    b) Útburðargerð þar sem aðili verður t.d. að flytja úr fasteign.
    c) Innsetningargerð þar sem gerðarþoli verður að veita gerðarbeiðanda umráð lausafjár eða annarra hluta en eign á fasteign, t.d. afhenda honum bíl upp í skuld. 

    Gerðarbeiðandi er sá sem krefst aðfarar. Til dæmis getur banki sem hefur ekki fengið skuld greidda á réttum tíma krafist aðfarar og er þá gerðarbeiðandi.

    Gerðarþoli er sá sem skuldar.

  • Hvernig fer fjárnám fram?

    Gerðarbeiðandi snýr sér til sýslumanns með skriflega beiðni um fjárnám ásamt aðfararheimild. Ef sýslumaður telur vera skilyrði fyrir fjárnámi tilkynnir hann gerðarþola með sannanlegum hætti hvar og hvenær fyrirhuguð aðför muni byrja.


    Ef gerðarþoli mætir ekki við fjárnám má gerðarbeiðandi benda á eignir upp í skuldina. Við fjárnámið fær hann þá aðfararveð í eignum gerðarþola sem teknar eru fjárnámi. Gerðarþola er þá óheimilt að ráðstafa þeim, t.d. með því að selja eignirnar eða veðsetja. Eignirnar eru síðan seldar á nauðungaruppboði og fær þá gerðarbeiðandi kröfu sína greidda af söluandvirðinu.

    Lýsi gerðarþoli sig eignalausan gerir sýslumaður árangurslaust fjárnám en slík aðfarargerð veitir heimild til að krefjast gjaldþrotaskipta yfir gerðarþola. 

    Nánari upplýsingar:

    »Heimasíðan sýslumenn.is – Nauðungarsala og fullnustugerðir

Annað

  • Hverjir eru matsmenn og til hvers eru þeir?

    Dómarar eru sérfræðingar í lögum. Þegar ágreiningsmál koma upp er oft kallaður til matsmaður, sem er sérfræðingur á því sviði sem ágreiningur er um, til að leggja faglegt mat á málið. Dómari kveður einn eða tvo matsmenn til að framkvæma mat eftir skriflegri beiðni aðila. Í beiðninni skal koma fram hvað eigi að meta og hvað aðili hyggst sanna með mati.

    Ákveðnar kröfur eru um dómkvadda matsmenn. Þeir þurfa til dæmis að vera orðnir 20 ára, vera að öllu leyti óaðfinnanlegt vitni um þau atriði sem á að meta og hafa nauðsynlega kunnáttu til að leysa starfann af hendi. Matsmenn skulu semja rökstudda matsgerð þar sem þau sjónarmið eru greind sem álit þeirra er reist á. Ef matsbeiðandi óskar getur dómari ákveðið að matsmaður þurfi ekki að semja skriflega matsgerð heldur skuli hann mæta fyrir dóm áður en aðalmeðferð fer fram, leggja þar fram skrifleg svör við matsspurningum sem til hans er beint í matsbeiðni og gefa skýrslu um niðurstöðu matsins.
    Aðili getur krafist yfirmats þar sem tekin verði til endurmats þau atriði sem hafa áður verið metin. Yfirmatsmenn skulu vera fleiri en matsmenn voru.


    Sjá nánar:

    »IX. kafli laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

  • Hverjir eru sérfróðir meðdómsmenn?

    Sérfróðir meðdómsmenn eru kallaðir til þar sem sérkunnáttu er þörf til þess að leysa úr máli og ef mál er umfangsmikið eða sakarefni er mjög mikilvægt frá almennu sjónarmiði. Markmið kvaðningar sérfróðra meðdómsmanna er að auka líkurnar á því að dómurinn komist að réttri niðurstöðu. Hlutverk sérfróðra meðdómsmanna er meðal annars að yfirfara og gagnrýna þau sérfræðigögn sem fyrir liggja í málum þar sem hinum reglubundnu dómurum er það ófært, vegna skorts á sérfræðiþekkingu á viðkomandi sviði. Hvers kyns sérfræðigögnin eru hverju sinni er alfarið háð eðli og umfangi viðkomandi máls. Ekki er því hægt að segja til um hvaða gögn viðkomandi sérfróði meðdómsmaður muni koma til með að meta eða með hvaða hætti, fyrr en hann hefur verið kveðinn til setu í tilteknu máli.


    Sjá nánar:

    » Heimasíða dómstólasýslunnar – sérfróðir meðdómsmenn

  • Hvað er búsforræðisvottorð?

    Búsforræðisvottorð er vottorð um það að bú viðkomandi aðila sé ekki til gjaldþrotaskiptameðferðar hjá héraðsdómstólunum.  Framvísa þarf búsforræðisvottorði þegar sótt er um margs konar leyfi, s.s. við stofnun fyrirtækja eða setu í stjórnum fyrirtækja.

    Sækja þarf um búsforræðisvottorð hjá island.is 

    Í þeim tilfellum þar sem bú umsækjanda er til gjaldþrotaskiptameðferðar, eða nánari upplýsinga á vottorði er þörf, skal leitað til þess héraðsdómstóls þar sem viðkomandi á lögheimili. 

    »Búsforræðisvottorð – heimasíða dómstólanna

  • Hvað er sakavottorð?

    Sakavottorð er vottorð um þá dóma og viðurlög sem einstaklingur hefur sætt hjá dómstólum eða öðrum yfirvöldum á Íslandi og erlendis.
    Sjá hér:

    Heimasíða sýslumanna - um sakavottorð

  • Get ég kvartað yfir dómara?

    Já, en ekki yfir þeim dómi sem hann fellir í máli þínu. Ef þú ert ósátt/ur við dóminn þá áfrýjar þú honum til æðri dómstóls. 

    En hverjum þeim sem telur dómara hafa gert á sinn hlut í störfum sínum er heimilt að beina kvörtun til nefndar um dómarastörf. Nánari upplýsingar fást á heimasíðunni; Nefnd um dómarastörf.