1. gr.
Réttur til námsleyfis


Á hverju starfsári ávinnur dómari sér rétt til þriggja vikna námsleyfis. Leyfið getur hann fyrst tekið eftir að hafa starfað í fjögur ár og síðan á fjögurra ára fresti eftir það. Leyfi getur lengst orðið sex mánuðir. Dómari ávinnur sér ekki rétt til námsleyfis meðan á námsleyfi stendur. 

Dómari heldur launum í námsleyfi og fær greiddan ferða- og dvalarkostnað frá þeim dómstól sem hann starfar við.

Eigi dómari ekki kost á að ljúka námsleyfi sem honum hefur verið veitt heldur hann þó réttindum sem svara þeim hluta námsleyfisins sem hann átti ekki kost á að nýta. 

Réttur til námsleyfis greiðist ekki út við starfslok.



2. gr.
Umsókn um leyfi


Umsókn um námsleyfi skal skilað til dómstólasýslunnar á þar til gerðu eyðublaði fyrir 1. maí vegna leyfis á næsta almanaksári. Í umsókn um leyfi skal eftirfarandi koma fram:

a.  Hvenær umsækjandi fékk skipun í embætti dómara.
b.  Hvort umsækjandi hafi áður fengið námsleyfi og þá hvenær.
c.  Hvaða nám eða fræðistörf umsækjandi ætli að leggja stund á í leyfi og hvernig  það muni nýtast í starfi hans sem dómari. Ef við á skal tilgreina  við hvaða skóla  umsækjandi ætlar að stunda nám eða rannsóknir og hvort fyrirhugað sé að birta efni á grundvelli rannsókna umsækjenda.
d. Hvar umsækjandi ætli að dvelja á leyfistíma, hvort nauðsynlegt verði að stofna til ferða- og dvalarkostnaðar og áætlaðan ferða- og  dvalarkostnað, ef við á.
e.  Hvenær umsækjandi óskar eftir að taka námsleyfi.



3. gr.
Meðferð umsókna


Dómstólasýslan skal fjalla um umsókn um námsleyfi svo fljótt sem kostur er. Eftir því sem efni eru til getur hún óskað frekari upplýsinga og gagna frá umsækjanda.
Dómstólasýslan skal leita umsagnar forstöðumanns viðkomandi dómstóls áður en ákvörðun er tekin um að veita dómara leyfi. Þá skal hún tilkynna forstöðumanni viðkomandi dómstóls um ákvörðun um að veita leyfi.



4. gr.
Ákvörðun um leyfi



Heimilt er að takmarka rétt til námsleyfis við héraðsdómstóla þannig að við Héraðsdóm Reykjavíkur verði ekki fleiri en tveir dómarar í leyfi samtímis. Við aðra héraðsdómstóla þar sem dómarar eru fleiri en einn má takmarka réttinn þannig að ekki verði fleiri en einn dómari í leyfi í hvert sinni. Við Landsrétt og Hæstarétt má binda rétt til leyfis við einn dómara við hvorn rétt hverju sinni.

Dómari sem gegnt hefur embætti lengst án þess að hafa tekið leyfi skal ganga fyrir en að því frágengnu sá sem sjaldnar hefur fengið námsleyfi og því næst sá sem hefur lengri embættisaldur. Við mat á embættisaldri skal talinn sá tími sem dómari hefur verið settur í embætti. Ef tveir eða fleiri dómarar eru jafnsettir ræður hlutkesti.

Við ákvörðun um veitingu leyfis er dómstólasýslunni heimilt, að fenginni umsögn forstöðumanns dómstóls skv. 3. gr. að fresta upphafstíma námsleyfis dómara ef hætta er á að leyfið raski verulega starfsemi viðkomandi dómstóls, svo sem vegna annarra leyfa dómara eða óvenjulega mikils álags við dómstólinn. Námsleyfi verður þó ekki frestað lengur en í eitt ár.



5. gr.
Staðfesting á töku leyfis


Þegar umsókn um leyfi hefur verið samþykkt skal dómari innan mánaðar staðfesta við dómstólasýsluna að hann muni taka leyfið. 



6. gr.
Ferða- og dvalarkostnaður


Dómari í námsleyfi á rétt á að fá greiddan ferða- og dvalarkostnað samkvæmt reglum ferðakostnaðarnefndar. Greiðslan getur numið allt að 1.500.000 krónum á sex mánaða leyfistíma og lækkar í hlutfalli við lengd námsleyfis.  Til ferða- og dvalarkostnaðar telst eingöngu kostnaður sem nauðsynlegt er að stofna til vegna náms- eða fræðistarfa á leyfistímanum, s.s. vegna námskeiða eða rannsókna við menntastofnanir.

Umsókn um greiðslu ferða- og dvalarkostnaðar skal senda dómstólasýslunni að loknu námsleyfi á þar til gerðu eyðublaði til samþykktar og afgreiðslu.



7. gr.
Skýrsla um leyfi 


Innan þriggja mánaða frá því dómari kemur aftur til starfa að loknu námsleyfi skal hann skila dómstólasýslunni skriflegri skýrslu um fræðistörf á leyfistíma. Ef dómari hefur sótt námskeið eða verið í formlegu námi skal fylgja skýrslunni skrifleg staðfesting á því. Einnig skal fylgja skýrslunni ritað efni sem dómari hefur samið í leyfinu til að fá birt. 

Dómari skal jafnframt kynna niðurstöður fræðistarfa sinna eða þekkingu sem hann hefur aflað sér í námsleyfi fyrir starfsfólki dómstóla. Dómstólasýslan skal veita dómara aðstoð við undirbúning kynningar.

Réttur til að taka aftur námsleyfi stofnast ekki nema dómari skili skýrslu skv. 1. mgr. og geri grein fyrir fræðistörfum á fundi skv. 2. mgr.



8. gr.
Heimild og gildistaka


Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 4. mgr. 7. gr. og 3. mgr. 43. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016, og úrskurði og bókun kjararáðs frá 17. desember 2015 og eru bindandi. Þær öðlast þegar gildi og jafnframt falla úr gildi reglur nr. 4/2019 um námsleyfi dómara.



Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar


                                                                                                                        
29. desember 2023

Sigurður Tómas Magnússon
formaður stjórnar dómstólasýslunnar