Reglur dómstólasýslunnar nr. 5/2022



R E G L U R
um almenn starfskjör dómara

 


1. gr.
Laun dómara

Um laun dómara fer samkvæmt 44. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla með síðari breytingum. Laun dómara taka breytingum 1. júlí ár hvert. Hagstofa Íslands reiknar og birtir fyrir 1. júní hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Við mat á launabreytingum aflar Hagstofan skýrslna og gagna sem hún telur nauðsynleg og gerir jafnframt eigin kjararannsóknir eftir því sem hún telur þörf á. Við launaafgreiðslu fyrir júlí uppfærir Fjársýsla ríkisins krónutölufjárhæð til samræmis við tölur Hagstofunnar, sbr. 4. mg. 44. gr. laga um dómstóla með síðari breytingum. Greiðslur fyrir gæsluvaktir eru til samræmis við fyrri ákvarðanir þar um. 

2. gr.

Um laun í námsleyfi dómara fer samkvæmt 7. mgr. 44. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla. Dómari á annars vegar rétt á námsleyfi á launum til endurmenntunar og hins vegar styrk til starfsmenntunar. Dómari á rétt á launuðu námsleyfi á fjögurra ára fresti til að stunda endurmenntun, fyrst eftir fjögur ár í starfi. Dómari ávinnur sér þriggja vikna leyfi á hverju ári. Þó getur uppsafnaður réttur mest orðið sex mánuðir og greiðist ekki út við starfslok. Dómari heldur launum í námsleyfi og fær greiddan ferða- og dvalarkostnað samkvæmt reglum ferðakostnaðarnefndar. Nánari reglur um námsleyfi dómara, þar á meðal um hámark ferða- og dvalarkostnaðar, er að finna í reglum dómstólasýslunnar nr. 4/2019.

3. gr.
Persónuuppbót

Fyrsta desember ár hvert skal dómari fá greidda persónuuppbót sem er föst krónutala og skal hún taka sömu hlutfallslegri breytingu og laun dómara tóku 1. júlí sama ár, sbr. 1. gr. reglnanna.
Persónuuppbót í desember 2022 er 229.500 krónur.

4. gr.
Önnur starfskjör

Um önnur starfskjör dómara fer samkvæmt gildandi reglum um almenn starfskjör forstöðumanna ríkisins eftir því sem við getur átt, sbr. heimild í 6. mgr. 44. gr. laga um dómstóla með síðari breytingum, sbr. einnig 39. og 39. gr. a. Laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

5. gr.
Heimild og gildistaka

Reglur þessar eru settar samkvæmt 6. mgr. 44. gr. laga um dómstóla með síðari breytingu og öðlast þegar gildi.

 

Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar 10. nóvember 2022

Sigurður Tómas Magnússon
formaður stjórnar dómstólasýslunnar