Reglur dómstólasýslunnar nr. 3/2019

R E G L U R
um birtingu dóma og úrskurða
á vefsíðum dómstólanna.

I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.

Dómar og úrskurðir á öllum dómstigum skulu birtir á vefsíðum dómstólanna eftir því sem segir í reglum þessum. Birting dómsúrlausna skal miða að því að varpa ljósi á starfsemi dómstólanna og tryggja aðgang að upplýsingum um réttarframkvæmdina.
Hver dómstóll fyrir sig ber ábyrgð á því að birting dómsúrlausna sé í samræmi við reglur þessar.

2. gr.

Dómsúrlausn skal birta innan þriggja virkra daga frá uppkvaðningu dóms eða úrskurðar. Dómsúrlausn skal þó ekki birt fyrr en liðin er ein klukkustund frá uppkvaðningu svo lögmanni, verjanda eða réttargæslumanni gefist ráðrúm til að upplýsa skjólstæðing sinn um niðurstöðu máls.

Samhliða birtingu á dómsúrlausn skal birt stutt lýsing á sakarefni máls og niðurstöðu þess. Enn fremur skulu fylgja birtingu atriðisorð (lykilorð/uppflettiorð) sem eiga við um mál auk þess sem tilgreina skal í leitarvél þau lagaákvæði sem reyndi á í máli.

3. gr.

Við birtingu dóma í sakamálum skal gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir, þó ekki um ákærða sé hann sakfelldur nema hann hafi ekki náð 18 ára aldri þegar brot var framið. Einnig skal gæta nafnleyndar um dómfellda ef birting á nafni hann getur verið andstæð hagsmunum brotaþola eða annars vitnis, svo sem vegna fjölskyldutengsla. Í slíkum tilvikum er þó heimilt að afmá úr dómi þau atriði sem gefa til kynna tengsl dómfellda við vitni ef þannig má komast hjá því að gæta nafnleyndar um dómfellda. Þá skal gæta nafnleyndar í dómsúrlausnum sem ganga undir rekstri sakamáls, þar með talið um frávísun þess.

Við birtingu dómsúrlausna í einkamálum skal gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir ef sérstök ástæða er til, svo sem þegar um er að ræða viðkvæm persónuleg málefni.
Nafnleyndar skal gæta um lögaðila ef gæta ber nafnleyndar um fyrirsvarsmann hans.
Þegar gætt er nafnleyndar skal hún að öðru jöfnu taka til matsmanna og þeirra sem láta í té sérfræðileg álit.
Að liðnu ári frá því að dómsúrlausn var birt skal orðið við beiðni um nafnleynd.
Þegar nöfnum er haldið leyndum skal jafnframt afmá önnur atriði úr dómsúrlausn sem geta tengt aðila eða aðra við sakarefnið.


4. gr.

Við birtingu dómsúrlausna skal nema brott úr þeim upplýsingar um einka-, fjárhags-, eða viðskiptahagsmuni einstaklinga eða lögpersóna, svo og upplýsingar um öryggi ríkisins og varnarmál, sem eðlilegt er að leynt fari. Þegar um er að ræða viðkvæmar heilsufarsupplýsingar skulu þær afmáðar nema tilgreining þeirra skipti máli fyrir niðurstöðu í dómsúrlausn en þá skal gætt nafnleyndar. Þegar atriði hafa verið afmáð úr dómsúrlausn skal þess gætt að það sem eftir stendur í dómsúrlausn verði ekki tengt þeim hagsmunum sem ætlunin er að vernda.
Kennitölur skulu afmáðar úr dómsúrlausnum áður en þær eru birtar.
Nú verður ekki tryggt að trúnaður ríki um atriði sem leynt eiga að fara með því að fella út nöfn og afmá önnur atriði úr dómsúrlausn og er þá heimilt í stað þess að birta dómsúrlausnina sjálfa að birta útdrátt þar sem meðal annars kemur fram á hverju niðurstaðan er reist. Jafnframt má ákveða að fresta birtingu slíks útdráttar ef það er til þess fallið að tryggja betur persónuvernd.

II. KAFLI
Birting á dómsúrlausnum í héraði.
5. gr.

    Dómsúrlausn skal ekki birt þegar um er að ræða:
a. Kröfu um gjaldþrotaskipti. 
b. Kröfu um opinber skipti.
c. Beiðni um heimild til greiðslustöðvunar.
d. Beiðni um heimild til að leita nauðasamnings.
e. Mál samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997.
f. Beiðni um dómkvaðningu matsmanns.
g. Beiðni um úrskurð á grundvelli laga um horfna menn nr. 44/1981.
h. Mál samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002.
i. Mál samkvæmt barnalögum nr. 76/2003.
j. Mál samkvæmt hjúskaparlögum nr. 31/1993.
k. Mál um erfðir.
l. Kröfu um heimild til beinnar aðfarargerðar (innsetningar- og útburðarmál).
m. Úrskurð sem gengur undir rekstri máls og felur ekki í sér lokaniðurstöðu þess.
n. Einkamál þar sem ekki er haldið uppi vörnum.
o. Kröfu um úrskurð samkvæmt ákvæðum IX.-XV. kafla laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
p. Kröfu um breytingu eða niðurfellingu ráðstafana samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
r. Sakamál þar sem refsing er sekt undir áfrýjunarfjárhæð.

6. gr.

    Þegar sérstaklega stendur á getur dómstjóri ákveðið að vikið skuli frá ákvæði 5. gr. Þannig getur hann ákveðið að birta skuli úrlausn sem ekki skal birta og að úrlausn verði ekki birt þótt hún falli ekki undir það sem segir í 5. gr. Dómstjóri skal skrá rökstuðning fyrir ákvörðun sinni í málaskrá og í bréfabók héraðsdóms.
Þegar um er að ræða ákvörðun samkvæmt 1. mgr. er dómstjóri ekki bundinn af fresti samkvæmt 1. mgr. 2. gr.

III. KAFLI
Birting á dómsúrlausnum æðri réttar.
7. gr.

Þegar birtar eru dómsúrlausnir Landsréttar eða dómar Hæstasréttar skulu fylgja viðeigandi dómsúrlausnir lægri réttar. Skal þá gætt að því að birting á dómsúrlausnum lægri réttar séu í samræmi við I. kafla.

8. gr.

Þegar dómi í sakamáli er áfrýjað til æðri réttar skal gæta nafnleyndar um meðákærða, hvort sem hann hefður verið sakfelldur eða sýknaður, ef þeirri niðurstöðu hefur ekki verið áfrýjað til æðra dóms.
Í úrskurðum sem ganga undir rannsókn eða meðferð sakamáls skal Landsréttur gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir. Á það jafnt við um einstaklinga sem lögaðila.

9. gr.

 Ef sérstakar ástæður mæla með getur Landsréttur og Hæstiréttur ákveðið að gæta nafnleyndar eða afmáð atriði úr dómsúrlausn í ríkari mæli en leiðir af reglum þessum, svo sem þegar hagsmunir aðila eða annarra eru sérstaklega þungvægir eða vegna fámenns landsvæðis þar sem atvik máls gerðust eða eru tengd við.

10. gr.

 Landsréttur getur ákveðið að fresta birtingu úrskurða þar sem leyst er úr kröfu lögreglu eða ákæruvalds undir rannsókn sakamáls ef rannsóknaraðgerðin verður að fara leynt til að spilla ekki fyrir henni.

IV. KAFLI
Heimild og gildistaka.
11. gr.

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 6. mgr. 7. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla, sbr. 41. gr. laga nr. 76/2019, og að höfðu samráði við Landsrétt og Hæstarétt. Þær öðlast þegar gildi og jafnframt falla úr gildi reglur nr. 3/2018 um birtingu dóma og úrskurða á vefsíðu héraðsdómstólanna.

Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
14. október 2019.

Benedikt Bogason
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.