Nýjar reglur um fjárhæð skiptatrygginga og skipun skiptastjóra og umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum

Hinn 1. janúar sl. tóku gildi nýjar leiðbeinandi reglur dómstólasýslunnar um fjárhæð skiptatrygginga og skipun skiptastjóra og umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum nr. 5/2024. Reglurnar leystu af hólmi eldri reglur um skipun skiptastjóra og umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum nr. 2/2019.

Helstu breytingar sem felast í hinum nýju reglum eru að nú er þar kveðið á um fjárhæð skiptatrygginga, eftirlit með störfum skiptastjóra og upplýsingagjöf dómstólasýslunnar um hversu mörgum búum hverjum skiptastjóra hefur verið falið að skipta á ári hverju hjá hverjum og einum héraðsdómstól og samtals á þeim öllum svo og upplýsingar um það í hversu mörgum búum hver skiptastjóri hefur ekki tilkynnt skiptalok fyrir árslok hvers árs.

Reglurnar mæla auk þess fyrir um að við hvern héraðsdómstól skuli haldin skrá yfir þau sem óskað hafa eftir að verða skipuð skiptastjórar eða umsjónarmenn með nauðasamningsumleitunum. Í þessa skrá skulu meðal annars færðar upplýsingar um hæfi þeirra til að gegna skiptastjórn sem og upplýsingar um fyrri störf þeirra sem skiptastjórar.

Þau sem uppfylla skilyrði um að vera skipuð skiptastjórar geta sótt um að vera á umræddri skrá hér:

Eftir 1. febrúar nk. munu aðeins þau sem hafa skráð sig í gegnum þennan hlekk eiga þess kost að vera skipuð skiptastjórar og umsjónarmenn með nauðasamningsumleitunum. Notkun allra eldri lista sem kunna að vera til staðar hjá héraðsdómstólunum verður hætt frá og með þeim degi.

Þau sem óska þess seinna meir að vera tekin út af skránni, sem kemur til notkunar 1. febrúar nk., uppfylla ekki lengur skilyrði til þess að vera á henni eða vilja upplýsa um breyttar aðstæður skulu tilkynna um slíkt til dómstólasýslunnar á netfangið domstolasyslan@domstolasyslan.is.